horngæla (icelandic)

Hornfiskur

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
horngæla
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Belone belone
Danish: hornfisk
Faroese: hornfiskur
Norwegian: horngjel
Swedish: horngädda, näbbgädda
English: garfish, garpike, greenbone, hornfish
German: Grünknochen, Hornhecht, Schneefell
French: orphie commune, aiguillett
Spanish: aguja, agulla
Portuguese: agulha, catuta, poda
Russian: Atlantítsjeskij {Jevropéjskij} sargán

Hornfiskur er langvaxinn, mjóvaxinn og nærri sívalur fiskur. Haus er mjög langur (meira en fjórðungur fisklengdar) því skoltar teygjast fram í langa trjónu og nær neðri skoltur lengra fram en sá efri, einkum á ungum fiskum. Tennur eru margar og hvassar. Augu eru stór. Bolur er langur, hálf fisklengdin, en stirtla er stutt. Bak- og raufaruggar eru mjög aftarlega, eins að lögun og andspænis hvor öðrum. Raufaruggi nær þó örlítið lengra fram en bakuggi. Engir smáuggar eru aftan bak- og raufarugga eins og á geirnef (sjá hér á eftir). Sporður er allstór og sýldur. Eyruggar eru í meðallagi stórir og kviðuggar allvel þroskaðir og aftan við miðju. Hreistur er smátt og laust. Rák er kviðlæg og greinileg. Hornfiskur getur náð rúmlega 90 cm lengd en er sjaldan stærri en 70 cm.

Litur: Hornfiskur er dökkblár eða grænn á baki, silfurblár á hliðum og kviði með gulum blæ. Raufaruggi og kviðuggar eru gulir með dökkum blettum en aðrir uggar eru dökkir.

Geislar: B, 17-20; R: 18-23; hryggjarliðir, 75-84.

Heimkynni hornfisks eru í Norðaustur- Atlantshafi og Miðjarðarhafi. Í Miðjarðarhafi, við Portúgal, Spán og inn í Biskajaflóa er undirtegundin Belone belone gracilis. Í Svartahafi er Belone belone euxini en frá ströndum Frakklands og Englands um Norðursjó og inn í Eystrasalt og meðfram ströndum Noregs til Þrándheims er Belone belone belone. Flækingar álpast til Íslands.

Hér varð hornfisks e.t.v. fyrst vart við Suðurland árið 1701. Þá fannst annar árið 1764 og tveir árið 1821. Síðan hafa litlar sögur farið af hornfiski á Íslandsmiðum þangað til einn 75 cm langur og Iítið skemmdur fannst í maga þorsks sem veiddist í net í maí árið 2000 um tvær sjómílur suðvestur af Stafnesi. Árið 2004 veiddust tveir, í nóvember og desember, undan Suðausturlandi og einn kom úr maga þorsks sem veiddist í desember á línu á um 180 m dýpi undan Kögurvita sunnan Héraðsflóa. Hann var tæplega 70 cm langur. Árið 2005 fundust leifar af hornfiski í maga þorsks sem veiddist út af Austfjörðum og 2006 veiddist 66 cm hornfiskur djúpt austur af Gerpi.

Lífshættir: Hornfiskur er úthafs- og uppsjávarfiskur en hann kemur reglulega til stranda. Þá álpast hann jafnvel upp í árósa. Hann er mjög hraðsyndur og á flótta sínum undan óvinum, túnfiski og öðrum fiskum, stekkur hann stundum upp úr sjónum líkt og flugfiskar.

Fæða hornfisks er stór svifdýr, ungir fiskar, einkum síldfiskar, þorskfiskar (lýsa, lýr), sandsíli, smokkfiskar, krabbadýr og fleiri.

Hrygning fer fram í strandsjó í maí til júní. Eggin eru 3-3,5 mm í þvermál og eru þau fest við þang og steina með fjölda límkenndra þráða. Eggjafjöldi er 1000 til 35 þúsund eftir stærð hrygnu. Klak tekur 3-5 vikur og eru seiðin 13 mm þegar þau koma úr egginu og vantar þá hina löngu trjónu sem einkennir fullorðnu fiskana. Kynþroska er náð þegar fiskurinn er um tveggja ára og 45 cm langur.

Nytjar: Nytsemi er frekar lítil þótt fiskurinn sé vel ætur. Margir forðast hann vegna þess að beinin verða græn við suðu en litarefnið er óskaðlegt. Hornfiskurinn veiðist aðallega í kvíanet og á flotlínur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?