Hlýri

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Anarhichas minor
Danish: plettet havkat
Faroese: liri
Norwegian: flekksteinbit
Swedish: fläckig havkatt
English: leopardfish, smaller catfish, spotted catfish, spotted wolffish
German: Gefleckter Katfisch, Gefleckter Seewolf
French: loup tacheté, poisson leopard
Spanish: perro pintado
Portuguese: peixe-lobo-malhado
Russian: Пятнистая зубатка, Пёстрая зубатка / Pjatnístaja {Pjóstraja} zubátka

Hlýri líkist steinbít mjög í vexti en er auðþekktur frá honum á litnum. Þá eru tennur á skoltum, plógbeini og gómbeinum ekki eins sterklegar og á steinbít en hvassari og ná allar raðirnar jafnlangt aftur. Eyruggar hlýrans ná dálítið lengra aftur en steinbítsins. Hlýri getur orðið meira en 140 cm langur. Sumar heimildir gefa upp allt að 180 cm lengd. Lengsti hlýri sem hér hefur veiðst var 144 cm og 31 kg á þyngd slægður. Hann veiddist í humarvörpu á um 200 m dýpi á mörkum Lónsdjúps og Stokksnesgrunns (64°05'N, 14°21 'V) í maí árið 2003. Í mars árið 1992 veiddist 142 cm hlýri á Papagrunni.

Litur hlýrans er talsvert frábrugðinn lit steinbítsins. Hann er dökkþanggrænn eða gulgrár með mörgum misstórum dökkum blettum á haus, baki, hliðum og bakugga.

Geislar: B, 74-80; R: 45-47; hryggjarliðin 77.

Heimkynni hlýra eru í Norður-Atlantshafi og Barentshafi frá Svalbarða til stranda Múrmansk og Norður-Noregs og þaðan suður til Björgvinjar og jafnvel Haugasunds. Þá er hann við Hjaltlandseyjar, Færeyjar og Ísland og þaðan til Austur- og Vestur-Grænlands. Einnig er hann við Norður-Ameríku frá Labrador og suður fyrir Nýfundnaland allt til miðanna undan Nýja-Skotlandi. Flækingar til Massachusetts í Bandaríkjunum.

Við Ísland er hlýrinn allt í kringum landið en hann er þó mun algengari í kalda sjónum undan Norðvestur-, Norður-, Norðaustur- og Austurlandi en í þeim hlýja.

Lífshættir: Hlýrinn er botnfiskur og lifir á sand- og leirbotni, venjulega á 100-700 m dýpi en fæst stundum grynnra.

Fæða er svipuð og hjá steinbít. Þó ræður hann ekki við eins mikið harðmeti. Hann étur sennilega meira af skrápdýrum, svo sem slöngustjörnum. 

Hrygning hlýra hér við land fer mest fram frá því í lok ágúst til septemberloka og októberbyrjunar á meira en 200 m dýpi allt umhverfis land nema undan Suðurlandi. Aðalhrygningarsvæðið er djúpt út af Vestfjörðum. Hlýri verður almennt kynþroska um 80 cm langur og 9 ára gamall en hann getur orðið kynþroska minni og yngri en fundist hafa 60 cm kynþroska hlýrar og 5 ára. Egg eru stór, 5-7 mm í þvermál, botnlæg, og er hrygnt í kúlur eða klasa líkt og hjá steinbít. Fjöldi eggja frá hverri hrygnu er 4000-17000. Vöxtur hlýra er hraðari en steinbíts og hann verður stærri. Hlýri getur náð um 20 ára aldri ef heppnin er með honum.

Nytjar: Hlýri er veiddur með öðrum fiskum í botnvörpu og á línu bæði hér og annars staðar þar sem hann veiðist. Hann kemur á markað nýr, ísaður eða í flökum og er ágætasti matur en feitari en steinbítur. Roðið er hæft til sútunar. Í Barentshafi er hann mun algengari en steinbítur. Hlýri hefur oft verið talinn með steinbít í aflaskýrslum.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?