Hákarl

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Somniosus microcephalus
Danish: Grønlandshaj, havkal
Faroese: hákelling
Norwegian: håkjerring
Swedish: håkäring, ishaj
English: Greenland shark, ground shark, gurry shark, sleeper shark
German: Eishai, Grönlandhai
French: laimargue du Groenland, requin du Groenland
Spanish: tollo de Groenlandia
Portuguese: tubarão-da-Gronelândia
Russian: Poljárnaja akúla

Hákarlinn er grannvaxinn og sívalur.

Hausinn er stuttur og digur, trjónan er stutt og snubbótt. Kjafturinn er víður og með mörgum hvössum tönnum í mörgum röðum. Tennur í efri og neðri skolti eru mjög ólíkar. Í efri skolti eru þær smáar og oddhvassar í mörgum röðum en breiðar og skásettar í neðri skolti. Innstreymisop eru í meðallagi stór. Augu eru smá og án blikhimnu. Tálknaop eru einnig smá.

Uggar eru litlir nema sporðuggi. Bakuggar eru tveir og er fremri bakuggi miðja vegu á milli eyrugga og kviðugga en aftari bakuggi andspænis aftanverðum kviðuggum. Engir gaddar eru í bakuggum. Raufarugga vantar. Húðtennur eru gisnar. Hann getur orðið 6-7 m langur og jafnvel lengri, en er oftast aðeins 2-5 m á lengd.

Litur: Hákarlinn er rauðgrár á lit, dökkgrár eða blágrár og jafnvel svartur að ofan en ljós á kviðinn. Hvítir hákarlar sjást stundum.

Heimkynni: Hákarlinn er eina háfisktegundin sem lifir í ísköldum sjó hinna norðlægu heimskauta hafa. Hann finnst frá Svalbarða og Barentshafi til Noregs inn í norðanverðan Norðursjó þar sem hann er sjaldséður og norðan Bretlandseyja. Við Færeyjar og Ísland, Austur- og Vestur-Grænland og Norður-Ameríku allt suður til Bandaríkjanna. Hans hefur orðið vart við Asóreyjar. Við Suður-Afríku hefur hann veiðst a.m.k. einu sinni. Í norðanverðu Kyrrahafi er önnur tegund sömu ættkvíslar (Somniosus pacificus). Við Ísland hefur hákarlinn fundist allt í kringum land.

Lífshættir: Hákarlinn er aðallega botnfiskur en hann hefur fundist allt frá yfirborði niður á rúmlega 1200 m dýpi. Hann er þó sjaldan á meira en 600 m dýpi. Hann kýs fremur kaldan sjó en heitan. Hann hefur veiðst í 0,6-l2°C heitum sjó. Enda þótt hákarlinn þyki heldur sljór og silalegur og liggi sennilega langtímum saman á botninum bíðandi eftir því að bráðin syndi upp í hann þá getur hann farið í löng ferðalög ef svo ber undir.

Miklar sögur fara af græðgi hákarlsins enda vart við öðru að búast af svo stórri skepnu en hún þurfi að éta hraustlega. Hvað sem kann að vera satt í því að hákarlinn éti allt sem að kjafti kemur, lifandi og dautt, ætt eða óætt, þá er víst að margar dýrategundir sjávar eru á matseðli hans.

Í maga hákarla hafa fundist hverskyns fiskar, t.d. ýmsar háfategundir (háfur, svartháfur), skötur (skata, skjóttaskata, tindaskata), síld, lax, loðna, langhali, steinbítur, hlýri, blágóma, karfi, hrognkelsi, lúða, grálúða, skarkoli. Þá hafa fundist þar krabbadýr, kuðungar, skeldýr, skrápdýr, marglyttur o.fl. hryggleysingjar. Einnig hafa fundist í maga hákarla selir, smáhveli sjófuglar, einkum svartfugl. Ýmis landdýr sem á einhvern hátt hafa borist í sjó fram hafa og fundist í hákarlamögum. Má nefna hreindýr sem fannst í hákarli við Noreg og hér við land hafa fundist hross, hundar, kettir o. fl. „góðgæti“ í mögum hákarla. Hákarlinn sækir mjög í alls konar hræ og því úldnari sem þau eru því betra. Þegar hákarlaveiðar stóðu sem hæst þótti úldið hrossakjöt besta beitan. Hins vegar er það dregið í efa af mörgum að hákarlar ráðist á stórhveli. Leifar þeirra hafa fundist í hákarlsmaga en sennilega eru það hræ sem hann hefur fundið.

Sem dæmi um það sem einn hákarl getur í sig látið nefnir Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur í Fiskunum ( 1926) að úti fyrir Eyjafirði veiddist einu sinni hákarl sem var með í maganum stóran sel auk 14 þorska. Annar hákarl þar hafði gleypt stóran blöðrusel, marga þorska og nokkra bita af öðrum hákarli. Í hákarli sem veiddist við Vestmannaeyjar var ein stór hnísa í fjórum bútum, önnur hálfvaxin, eitt fóstur auk hálfmeltrar stórlöngu. Deilt hefur verið um hvort hákarlinn sé mannæta eins og sumir frændur hans í hlýrri hlutum heimshafanna hafa orð á sér fyrir að vera.

Lengi vel var ekki vitað hvort hákarlinn gyti ungum eða eggjum. Var talið líklegra að hann gyti eggjum. En nú er komið í ljós að hann gýtur ungum. Þeir eru um 40 cm við got. Í 5 m langri hrygnu voru 10 ungar, hver 37 cm langur. Eins og flestir aðrir háfiskar gýtur hákarlinn á miklu dýpi fjarri landi og sennilega að vetri til. Vöxtur er mjög hægur. Hákarl sem merktur var við Grænland mældist 262 cm við endurheimtu og hafði aðeins lengst um 8 cm á 16 árum.

Fullorðinn hákarl þarf sjálfsagt ekki að óttast marga óvini. Það er þá helst mannskepnan þegar hákarlinn álpast í veiðarfæri hennar og ekki má gleyma háhyrningnum sem getur gert hákarlinum lífið leitt. Á sjáaldri í augum hákarlsins er oft krabbafló, Ommatokoita elongata, sem getur skemmt sjón hans en lengi var talið að krabbadýr þetta gæfi frá sér ljós og gæti því beint fiskum og annarri bráð að kjafti hákarlsins og virkaði þannig bæði til ills og góðs fyrir hákarlinn. Rannsóknir benda til þess að ekkert ljós komi frá þessu dýri.

Nytjar: Þegar á 14. öld stunduðu Íslendingar hákarlaveiðar og þær jukust mjög á 17. öld vegna mikillar eftirspurnar eftir lýsi til ljósmetis. Á 19. öld stóðu hákarlaveiðar með allmiklum blóma hér við land og var hákarlinn aðallega veiddur vegna lifrarinnar. Síðar kom í ljós að hákarlslifur er mjög auðug af A-vítamíni. Á síðari árum hafa hákarlaveiðar verið stundaðar af Norðmönnum og Grænlendingum og lítilsháttar af Íslendingum þótt megnið af þeim hákarli sem berst á land sé aukaafli við botnvörpu- og línuveiðar.

Eins og alkunnugt er þá verkum við hákarlinn til matar með því að kasa hann og kæsa en nýr hákarl hefur verið talinn eitraður og getur jafnvel valdið dauða þeirra sem neyta. Í nýjum hákarli er mikið af Trimethyl amine oxfði (TMAO) sem ekki er talið hollt til neyslu.

Auk þess að nýta hold hákarlsins þá má súta roðið, skrápinn, og gera úr honum skinn til bókbands og fleira.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?