Háfur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Squalus acanthias
Danish: pighaj
Faroese: hávur
Norwegian: pighå
Swedish: pighaj
English: Spur- dog
German: Gemeiner Dornhai
French: aiguillat commun
Spanish: agullat, melga, mielga
Portuguese: galhudo-malhado, melga
Russian: Katrán

Háfurinn er langvaxinn og straumlínulaga. Hann er hæstur rétt framan við fremri bakugga. Hausinn er Iítill og trjónan mjó. Kjaftur er IítilI en tennur eru allstórar og eins í báðum skoltum. Bakuggar eru allstórir og gaddar upp úr þeim framanverðum. Eyruggar eru í meðallagi, kviðuggar fremur litlir og raufarugga vantar. Sporðblaðka er allstór. Húðtennur eru mjög smáar og rákin er greinileg. Háfurinn getur náð um 120 cm lengd í norðanverðu Atlantshafi en er sjaldan lengri en 80-100 cm. Í norðaustanverðu Kyrrahafi getur hann orðið 160 cm langur. Lengsti háfur sem veiðst hefur á Íslandsmiðum mældist 114 cm og veiddist í mars árið 1971 út af Selvogsbanka (63°01'N, 22°02'V).

Litur: Háfur er dökkgrár eða mógrár á lit að ofan en ljós að neðan. Á hliðum milli eyr- og kviðugga eru ljósir dílar.

Heimkynni háfsins eru beggja vegna Norður-Atlantshafsins frá ströndum Múrmansk að austan suður með allri Vestur-Evrópu og inn í Miðjarðarhaf og Svartahaf. Hann er við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. Hann er við sunnanvert Grænland og meðfram ströndum Norður-Ameríku frá Labrador suður til Flórída og hefur fundist við Kúbu. Í sunnanverðu Atlantshafi er hann við Úrúgvæ og Argentínu. Þá hefur hann fundist við Suður-Afríku. Í Norður-Kyrrahafi er hann við Kaliforníu og þaðan norður til Alaska og einnig er hann við Síberíu, Japan og Kína.

Háfur er stundum ranglega nefndur gráháfur en það er önnur tegund.

Þá er hann við Ástralíu og Nýja-Sjáland og í austanverðu Suður-Kyrrahafi við Chile.

Sumir fiskifræðingar telja að í Norður- Kyrrahafi sé sérstök tegund, Squalus suckleyi eða undirtegund Squalus acanthias suckleyi.

Við Ísland finnst háfurinn allt í kringum landið en hann er þó mun sjaldséðari við norðanvert landið og Austfirði en í hlýja sjónum sunnan- og suðvestanlands.

Lífshættir: Háfurinn er botnfiskur á leirbotni á landgrunninu og í hlíðum landgrunnshallans og heldur sig mest á 10-200 m dýpi í 7 - 15°C heitum sjó. Hann fer sennilega niður á meira dýpi en 200 m þegar kólnar á veturna og hefur fundist allt niður á meira en 1000 m dýpi. Í nóvember árið 2000 varð vart háfs á 200-250 m dýpi í kantinum suður af Selvogsbanka og í nóvember og desember sama ár var hann að þvælast upp á Selvogsbankagrunninu. Hann þolir seltulítinn strandsjó en forðast ferskvatn. Háfurinn er góður sundfiskur og flækist víða um og oftast í torfum. Hingað til lands hafa gengið háfar merktir við Noreg og Norður-Ameríku.

Háfurinn er gráðugur fiskur og sannkallaður vargur í véum á miðunum. Alls konar fiskar verða fyrir barðinu á honum, t.d. þorskur, ýsa, lýsa, spærlingur, síld, loðna og fleiri fiskar, en einnig krabbadýr, burstaormar, skrápdýr o.fl. sjávardýr.

Sjálfur verður hann ýmsum stærri fiskum að bráð, eins og háfiskum, stórum beinfiskum en einnig selum og háhyrningum.

Háfurinn gýtur ungum, venjulega 4 - 6 í einu en stundum fleiri og eru þeir 22 - 33 cm langir. Gotstöðvarnar hér við land eru sennilega á djúpmiðum undan Suður- og Vesturlandi. Ekki er vitað hvenær ungarnir klekjast hér við land en það gæti verið allt árið um kring með hámarki að sumri. Rannsóknir frá Kanada gefa til kynna að eggin séu frjóvguð frá febrúar til júlí. Meðgöngutími er 18-24 mánuðir. Hængarnir geta orðið kynþroska 50-70 cm langir en hrygnurnar 70—100 cm og 10—20 ára. Vöxtur er hægur og hrygnur verða stærri og eldri en hængar. Aldur er unnt að ákvarða út frá vaxtarhringjum í aftari bakuggagaddi og virðist háfurinn geta náð a.m.k. 35—40 ára aldri og jafnvel orðið eldri, allt að 100 ára.

Nytjar: Áður fyrr var háfurinn veiddur vegna lifrarinnar en núna er hann víða étinn og kemur á markað undir ýmsum dulnefnum, svo sem hafáll, kóngaáll og Schill- er-lokkar en það eru þunnildin reykt.

Það eru einkum Frakkar, Írar, Skotar og Norðmenn sem veitt hafa háf í norðaustanverðu Atlantshafi og helstu veiði- svæði eru við Noreg, í Norðursjó, norðan Skotlands og við Írland. Mestur varð háfsaflinn í Norður-Atlantshafi árið 1961, um 51 þúsund tonn. Í Norðvestur-Atlantshafi hafa Bandaríkjamenn og Kanadamenn veitt háf og í Kyrrahafi Japanir og Kínverjar. Hér hefur háfurinn einkum veiðst sem aukaafli, m.a. við botnvörpuveiðar, og sjaldnast verið aufúsugestur í veiðarfærum. Veiðitilraunir á háfi hófust undan Suðurlandi á síðasta áratug 20. aldar og síðan var farið að veiða hann og nýta. Ársafli á síðasta áratug 20. aldar var 40-280 tonn.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?