Hafáll

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Conger conger
Danish: havål
Faroese: havállur
Norwegian: havål
Swedish: havsål
English: conger, conger eel
German: Meeraal
French: congre, congre commun, congre d'Europe
Spanish: congre, congrio europeo, congro
Portuguese: congra, congro-europeu
Russian: Morskój úgor'

Hafáll er stór og langvaxinn fiskur og nokkurn veginn sívalur. Hausinn er alllangur og mjór. Kjaftur nær aftur á móts við aftari jaðar augna. Efri skoltur er lengri en sá neðri og fiskurinn er því undirmynntur. Tennur eru í mörgum röðum á skoltum og ysta röðin er svo þétt að hún myndar næstum eina heild. Tunga er laus að framan. Augu eru sporöskjulöguð. Bakuggi er langur og byrjar á móts við afturenda eyrugga og sameinast raufarugga í stirtluenda því sporðblaðka er engin, aðeins oddhvass stirtluendinn. Raufaruggi er mun styttri en bakuggi. Eyruggar eru í meðallagi stórir og oddhvassir að ofan. Kviðugga vantar svo og hreistur en rák er greinileg frá tálknaloki alveg að stirtluenda. Hafáll getur náð allt að 3 m, hængar verða þó sjaldan lengri en 110 cm. Lengsti hafáll sem sést hefur hér við land mældist 165 cm og veiddist undan Krýsuvíkurbergi í september árið 1965.

Litur er breytilegur eftir aldri og botnlagi. Venjulega er hann gráleitur að ofan, stundum ljósbrúnn, ljósgrár eða hvítur að neðan. Jaðrar stöku ugganna eru oftast svartir en ljósir á ungum fiskum. Stundum sjást alveg dökkbrúnir eða jafnvel svartir hafálar. Ungir hafálar eru miklu ljósari en gamlir.

Geislar: B: 270-300; R: 210-230; hryggjarliðir, 152-157.

Heimkynni hafáls eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Íslandsmiðum til Færeyja, suðvesturhluta Noregs og í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar, suður til norðvesturhluta Afríku. Einnig er hann í Miðjarðarhafi og vestanverðu Svartahafi. Við strendur Norður-Ameríku er tegundin Conger oceanius sem gæti flækst hingað.

Á Íslandsmiðum fannst hafáll fyrst í ágúst árið 1909 en þá veiddust tveir við Vestmannaeyjar. Síðan hefur hafáls orðið vart alltaf öðru hvoru við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina frá Hornafirði og inn í Faxaflóa og Breiðafjörð.

Lífshættir: Hafáll er botnfiskur á grýttum og sendnum botni og heldur sig mest á 1-100 m dýpi þar sem nóg er um felustaði. Stærstu hafálarnir eru venjulega dýpra en þeir minni. Hann heldur að mestu kyrru fyrir á daginn en fer á kreik á nóttunni í leit að æti sem er einkum ýmsir fiskar, m.a. af þorskfiskaætt, flatfiskar og háfar en einnig étur hann krabbadýr, eins og humar, einnig smokkfisk og fleira.

Hafállinn verður kynþroska 5-15 ára og taka þá kynfærin að vaxa mjög en þarmarnir að rýrna og hann hættir að éta. Hrygning fer fram á sumrin, miðsævis, yfir miklu dýpi vestan Portúgals á milli Gíbraltar og Asóreyja og í Miðjarðarhafi. Fjöldi eggja er 3-8 milljónir og drepst állinn að hrygningu lokinni. Lirfur eru vatnsglærar og blaðlaga og lifa miðsævis á 1-200 m dýpi í úthafinu í 1-2 ár. Þær fara að breytast og líkjast foreldrum sínum þegar þær eru 15 cm langar. Hafállinn gengur aldrei í ósalt vatn.

Nytjar: Hafáll er sums staðar veiddur á línu eða sem aukaafli í botnvörpu. Hann er vel ætur en er mjög smábeinóttur og beinin eru hvassari en síldarbein og fara verr í hálsi. Hann er m.a. settur á markað reyktur. Helstu veiðiþjóðir eru Frakkar, Spánverjar og Portúgalir.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?