Guli brandáll

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Gymnelus retrodorsalis
Danish: kortfinnet fiskdoktor
Norwegian: Spitzbergen ålebrosme
Swedish: Spetsbergen ålbrosme
English: Aurora pout

Guli brandáll er langvaxinn, grannvaxinn og sívalur fiskur með meðalstóran haus. Augu eru stór, framarlega á haus og standa upp úr honum. Kjaftur er nær endastæður. Bak- og raufaruggi eru samvaxnir við endann og ekki vottar fyrir sporðblöðku. Bakuggi byrjar vel aftan við aftari enda eyrugga. Fjarlægðin frá trjónu að bakugga er 28-33% af fisklengdinni. Mjög sjaldan kemur það fyrir að bakuggi nái lengra fram. Eyruggar eru allstórir og bogadregnir. Kviðugga vantar, sömuleiðis hreistur. Rák er miðlæg. Guli brandáll nær a.m.k. 14 cm lengd.

Litur er oft ljósleitur eða gulgrár og getur verið breytilegur en á framanverðum bakugga á fullorðnum fiskum eru einn til fjórir bláir eða svartir blettir með hvítri rönd.

Geislar: B: 90,- R: 85.

Heimkynni gula brandáls eru við Grænland, Ísland, Jan Mayen, Svalbarða, í norðanverðu Barentshafi og Karahafi, í norð-vestanverðu Laptevhafi og norðan Kanada. Hans hefur einnig orðið vart við austanvert Nýfundnaland.

Hér fannst guli brandáll fyrst á 200 m dýpi í Húnaflóa árið 1890. Sá fiskur var 10 cm langur. Í fyrstu var þetta talin vera tegundin Gymnelus viridis, en síðari rannsóknir sýndu að svo var ekki enda lifir sú tegund yfirleitt grynnra og útbreiðslusvæði hennar er við Novaja Semlja og norðan Síberíu og Norður-Ameríku til Grænlands. Annar veiddist í maí 1937 á 270 m dýpi um 31 mílu norðnorðvestur af Kögri. Sá þriðji og fjórði veiddust 20 árum síðar, þ.e. árið 1957, á 375 m dýpi í Grænlandssundi (65°57'N, 28°54'V). Þeir voru 12 og 14 cm langir. Árið 1975 veiddist einn á 160-170 m dýpi út af Vopnafirði (66°29'N, 13°18'V). Eftir það fer guli brandáll að veiðast reglulega á svæðinu frá Grænlandssundi djúpt vestur af Bjargtöngum norður og austur fyrir land til austurmiða. Fiskar þessir eru 7-14 cm langir og hafa veiðst á 155-425 m dýpi.

Lífshættir: Guli brandáll er botnfiskur á leir- og sandbotni á 100-480 m dýpi. Um fæðu er lítið vitað og ekkert um hrygningu hér við land en í Barentshafi hafa fundist hrygnur með þroskuð hrogn í ágúst til september. Egg eru fá, oftast 10-20 og 4-4,5 mm í þvermál.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?