Guðlax

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lampris guttatus
Danish: Glansfisk
Faroese: Laksastyrja
Norwegian: Laksestjørje
Swedish: Glansfisk
Plish: Strojnik
English: Opah
German: Gotteslachs
French: Lampris
Spanish: Opa
Portuguese: Peixe-cravo
Russian: Опах обыкновеннный

Ljósmynd vantar.

 

Guðlax er allþykkvaxinn og mjög hávaxinn fiskur, hæstur um miðjuna. Hausinn er stuttur og hár að aftan. Kjaftur er lítill og tannlaus. Augu eru stór. Bolur og stirtla eru stutt og spyrðustæði grannt. Bakuggi er hár að framan, eins og horn, og langur. Raufaruggi er langur og lágur. Báðir falla þeir niður í gróf. Eyruggar eru langir og grannir og bogadregnir. Einnig kviðuggar sem eru á miðjum kviði. Sporður er stór og bogasýldur. Hreistur er smátt og rákin er greinileg og liggur í stórum boga yfir eyruggum. Guðlax getur orðið allt að 200 cm langur og 270 kg. Hér veiddist 140 cm fiskur í júlí 1988 á Vestfjarðamiðum.

Litur: Guðlax er mjög skrautlegur á lit, dökkblár á baki, grænleitur á hliðum með silfur-, gull- og purpuraslikju. Kviður er silfraður með ljósrauðri slikju og silfurlitum blettum á bol og stirtlu. Uggar eru allir rauðir.

Geislar: B: 1+51-55,- R: I+(34)37-41.

Heimkynni guðlax eru í öllum tempruðu hlutum heimshafanna umhverfis jörðina. Í Norðaustur-Atlantshafi hefur hann fundist frá Íslandsmiðum og Noregi um Norðursjó og allt suður í Miðjarðarhaf. Í Norðvestur-Atlantshafi er guðlax frá Stórabanka við Nýfundnaland suður til Vestur-Indía og Mexíkóflóa. Vart hefur orðið við guðlax undan Suðvestur-Grænlandi.

Guðlax flækist alloft til Íslandsmiða. Hans

varð fyrst vart hér árið 1610 eða 1611 þegar einn rak á Skarðsströnd í Dalasýslu. Hann hefur fundist á svæðinu frá Berufirði vestur með landi og norður til Eyjafjarðar, ýmist rekinn eða í veiðarfærum. Stundum verður vart við fleiri en einn sama árið og 1977 veiddi togari sex í einu undan Norðvesturlandi. Algengastur er hann á sumrin og haustin og er hann þá m.a. að elta smokkfiskgöngur.

Lífshættir: Guðlax er úthafs- og miðsævisfiskur. Hann hefur veiðst niður á um 400 m dýpi.

Fæða er einkum smokkfiskar og finnast oft skoltar þeirra í maga hans og görn. Einnig étur hann fiska eins og kolmunna, silfurkóð og síld, auk krabbadýra og marglyttna.

Lítið er vitað um hrygningu en egg eru sennilega sviflæg.

Nytjar: Nytsemi er lítil því ekki veiðist mikið af guðlaxi. Hann er þó stundum hirtur þegar hann veiðist hér og veitingahús keppast við að bjóða gestum upp á hann sem lúxusfæðu.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?