Gráröndungur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Chelon labrosus
Danish: tyklæbet multe
Faroese: multa
Norwegian: tykkleppet multe
Swedish: tjockläppad multe
English: grey mullet, thick-lipped grey mullet
German: Dicklippige Meeräsche
French: mulet lippu
Spanish: lisa, lisa negra
Portuguese: tainha-liça, tainha negra
Russian: Tolstogúbaja kefál'

Gráröndungur er nokkurn veginn jafnbola og þéttvaxinn fiskur. Haus er lítill og einnig kjaftur. Efri grön er mjög þykk og að neðan er hún með smáþykkildi í óreglulegum röðum sem fjölgar og stækka með aldrinum. Eftir endilöngum efri góm er skora sem dýpkar inn á við og á tungunni er kjölur sem gengur upp í þessa skoru þegar kjafturinn lokast. Tennur eru örsmáar og augu eru frekar lítil. Tálknaloksrönd er bogadregin og slétt en inn í vangabeinsrönd ganga tvö vik. Bolur er helmingi lengri en hausinn. Stirtla er styttri en bolur og mjög sterkleg. Bakuggar eru tveir og er sá fremri á miðju baki og með fjórum broddgeislum. Aftari bakuggi er andspænis raufarugga og svipaður honum að stærð og lögun. Sporður er stór og sýldur. Eyruggar eru miðlungsstórir og oddhvassir. Kviðuggar eru vel þroskaðir og liggja á móts við afturenda eyrugga. Hreistur er mjög stórt og laust. Rák sést ekki. Gráröndungur verður um 75 cm.

Litur er dökkgrængrár á baki, stundum dökkblár og hliðar eru silfurhvítar með sex til átta dökkum röndum. Kviður er hvítur.

Geislar: B1: IV; B2: 9-11; R: III+8-9; hryggjarliðir: 24.

Heimkynni gráröndungs eru í Miðjarðarhafi og norðaustanverðu Atlantshafi frá Senegal, Madeira, Asóreyjum og Kanaríeyjum norður til Bretlandseyja og hann fer inn í Norðursjó, Skagerak og Kattegat og til Noregs. Til Færeyja og Íslands flækist hann einnig.

Hér við land varð gráröndungs fyrst vart í september árið 1903 en þá veiddust tveir í silunganet nálægt Eyrarbakka. Síðan hafa margir fengist allt í kringum landið, einkum í eða við árósa. Á síðari árum hefur hans orðið vart nær árlega. Sumarið 2007 varð vart við marga gráröndunga á Íslandsmiðum, einkum við suðurströndina, og veiddust fjölmargir í Lónsfirði, Hornafirði og Dyrhólaósi. Einnig veiddist gráröndungur á Breiðdalsvík, í Fljótavík og Norðurfirði á Ströndum og Lónaósi í Öxarfirði.

Lífshættir: Gráröndungur er eiginlega ármynna- og strandfiskur sem flækist til hafs og villist þá langt frá heimaslóðum sínum, m.a. til Íslands. Hann virðist vera allalgengur meðfram ströndum Bretlandseyja og víða við Norður-Evrópu.

Fæða er einkum svipuþörungar og smádýr ýmiss konar, svo sem snigla- og skeljalirfur, krabbadýr og skeldýr.

Gráröndungur virðist ekki hrygna norðar en við sunnanverðar Bretlandseyjar. Hann hrygnir í Ermarsundi og við Írland í júlí til ágúst, í Biskajaflóa í janúar til apríl og fyrr sunnar. Hann verður kynþroska um fjögurra ára gamall og getur orðið 25 ára.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?