Grænlandsnaggur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Nansenia groenlandica
Danish: sølvsmelt
Faroese: Granlandsgulllaksur
English: Greenland argentine, large eyed argentine
French: serpe du Groenland

Grænlandsnaggur er langvaxinn og sívalur fiskur, með lítinn haus og smáan endastæðan kjaft. Á neðri skolti og plógbeini er röð af þéttstæðum smáum tönnum. Augun eru mjög stór eða næstum því hálf hausstærðin. Bakuggi liggur um miðja vegu milli trjónu og sporðuggarótar. Aftan bakugga, andspænis aftari rótum raufarugga er smár veiðiuggi. Raufaruggi er mjög aftarlega. Kviðuggi er andspænis aftanverðum bakugga. Eyruggar liggja neðarlega rétt aftan við tálknalok og eru svipaðir kviðuggum að stærð. Sporður er allstór og sýldur. Hreistur er smátt og rák er greinileg. Grænlandsnaggur getur orðið 25 cm á lengd.

Litur er silfraður.

Geislar: B: 9-12,- R: 7-10; hryggjarliðir: 41-50.

Heimkynni grænlandsnaggs eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Madeira norður og vestur fyrir Bretlandseyjar til Íslandsmiða og þaðan til suðaustur- og suðvesturhluta Grænlands og Norður- Ameríku.

Áður en fullorðinn grænlandsnaggur veiddist á Íslandsmiðum höfðu seiði hans fundist 50-140 km undan Suðausturlandi og gat Bjarni Sæmundsson þess í Marine pisces árið 1949. Í júní árið 1960 veiddist 17,5 cm grænlandsnaggur á 445 m dýpi undan Suðausturlandi (64°11'N, 12°13'V) og síðan hafa nokkrir veiðst á djúpmiðum suðaustan og suðvestan Íslands.

Lífshættir: Grænlandsnaggur er miðsævis- og djúpfiskur á 200-1400 m dýpi. Hann hrygnir sennilega að vori eða fyrri hluta sumars.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?