Grænlandsmjóri

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lycodes adolfi
Danish: Adolfs ålebrosme
English: Adolf´seelpout

Grænlandsmjóri er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur með afturmjókkandi stirtlu. Mesta hæð er við aftanverðan haus. Haus er allstór og augu eru stór. Kjaftur er stór og undirstæður. Tennur á skoltum eru langar og hvassar. Á plógbeini eru 2-6 tennur en 8-18 á gómbeinum. Rauf er vel fyrir framan miðjan fisk. Bak- og raufaruggar renna saman við sporð. Eyruggar teygjast aftur fyrir fremri rætur bakugga og næstum að rauf. Kviðuggar eru sem smáir þræðir. Rák er kviðlæg og greinileg og liggur í sveig frá haus og niður á móts við rauf og þaðan beint aftur rétt aftan við raufarugga þar til hún hverfur aftan við miðjan fisk. Hreistur er smátt og aðeins á aftari hluta fisksins. Haus og bolur eru hreisturlaus. Fiskar minni en 10 cm eru hreisturlausir.

Grænlandsmjóri verður um 23 cm að sporði.

Litur: Grænlandsmjóri er ljósbrúnn til dökkur á hliðum, haus og uggar eru dekkri og lífhimna er svartbrún.

Geislar: B: 89-98,- R: 79-85,- E: 16-19,- hryggjarliðir: 97-104.

Heimkynni: Grænlandsmjóri hefur fundist út af Scoresbysundi við Austur-Grænland, í Davissundi við Vestur-Grænland, beggja vegna Baffinsflóa og við Kanada svo og undan norðan- og norðaustanverðu Íslandi. Í reyndinni fannst hann fyrst í Ingólfsleiðangrinum 1896 og var þá greindur sem smár flatmjóri (Lycodes frigidus). Síðari tímarannsókn Ieiddi í Ijós að hér var um aðra tegund, sem fengið hefur nafnið grænlandsmjóri á íslensku, að ræða og var henni lýst fyrst árið 1993.

Á Íslandsmiðum hefur grænlandsmjóri m.a. veiðst djúpt undan Austfjörðum (66°23'N, 10°26'V) þar sem hann veiddist á 1412 m dýpi í júlí 1896, djúpt austur af landinu (66°23'N, 07°25'V) á 1802 m dýpi í júlí 1896, norður af Rifsbanka (67°40'N, 15°40'V) á 932 m dýpi í júlí 1896, á 1440 m dýpi út af Austfjörðum (66°18'N, 10°45'V) í maí 1903 og í maí 1986 á 386 m dýpi austan við Kolbeinsey (67°04'N, 17°55'V). Á tíunda áratug 20. aldar veiddust nokkrir mjórar á Íslandsmiðum sem greindir voru sem grænlandsmjórar.

Lífshættir: Grænlandsmjóri er djúp-, kaldsjávar- og botnfiskur sem veiðst hefur á 1280-1380 m dýpi við Austur-Grænland, 420-1880 m dýpi við Vestur-Grænland og 386-1802 m dýpi við Ísland og við -1,1 til 3,7°C sjávarhita. Fæða er m.a. krabbadýr en um hrygningu er lítið vitað.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?