Gjölnir

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Alepocephalus bairdii
Danish: Bairds glathovedfisk
Faroese: slætthovd
Swedish: Bairds släthuvudsfisk
English: Baird's smooth-head
French: alépocéphale de Baird
Portuguese: celindra, triste-linda
Russian: Плешан / Pleshán

Gjölnir er langvaxinn og þunnvaxinn þegar hann er ungur en verður þykkvaxnari með aldrinum. 

Talsverður útlitsmunur er á ungum og gömlum fiskum. Mesta hæð er miðja vegu á milli eyr- og kviðugga. Hausinn er nokkuð stór, þunnvaxinn og trjóna er dálítið innsveigð að ofan á fullorðnum fiskum en fremur framteygð á ungum fiskum. Ýmist er neðri skoltur framteygður eða skoltar eru jafnir fram. Augun eru stór en tennur smáar. Tálknalok eru stór og afturrönd þeirra bogin og endar í allhvössu horni að neðan. Bolur er langur og nokkurn veginn jafn sver, stirtla er aðeins styttri en bolur en sterkleg. Bak- og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum aftan við miðjan fisk og svipaðir að lengd. Bakuggi byrjar aðeins framar. Þeir sitja á eins konar upphækkun eða fæti. Sporður er allstór og sýldur. Eyr- og kviðuggar eru fremur litlir. Hreistur er mjög stórt og laust og nær upp á rætur bak- og raufarugga. Rákin er greinileg. Gjölnir verður 100 cm á lengd eða rúmlega það — í apríl árið 1992 veiddist til dæmis einn 106 cm langur í utanverðu Skaftárdjúpi (62°57'N, 17°55'V).

Litur er blásvartur eða purpurabrúnn en dökkblár í kjafti og tálknaholum. Uggar eru svartir og lífhimna sömuleiðis.

Geislar: B: 18-23;- R: 21-25.

Heimkynni gjölnis eru undan landgrunnsbrúnum Norður-Atlantshafs að austan frá Grænlandi og Íslandi vestur og suður fyrir Bretlandseyjar suður til Asóreyja, Marokkós og áfram suður til 17°N. Í vestanverðu Norður-Atlantshafi er hann frá Vestur-Grænlandi suður til Stóra-Banka við Nýfundnaland. 

Við Ísland fannst gjölnir fyrst sumarið 1903 á 500 m dýpi suður og austur af Vestmannaeyjum. Næst varð hans vart á 320-400 m dýpi í Háfadjúpi sumarið 1924. Nú veiðist gjölnir alloft og er hann sumsstaðar nokkuð algengur á 700-900 m dýpi undan Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi.

Lífshættir: Gjölnir er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á um 300-1700 m dýpi. Í nóvember árið 1981 veiddist 90 cm löng hrygna í Skerjadjúpi undan suðvesturströnd landsins og var hún með fullþroskuð hrogn. Í maí 1999 veiddust nokkrir hrygnandi gjölnar á 660—930 m dýpi í utanverðu Skaftárdjúpi (63° 10'N, 17°42'V) þar sem sjávarhiti við botn var 4,4-5,4°C. Fyrir vestan Írland hefur veiðst 70 cm hrygna með nærri fullþroskuðum hrognum í maí og þar hafa einnig veiðst 13-23 cm löng seiði og smáfiskar nokkuð uppi í sjó.

Fæða gjölnis er holdýr, krabbadýr, möttuldýr og fiskar.

Nytjar: Nytsemi hans er lítil en fiskurinn er þó vel ætur. Á vissum svæðum veiðist gjölnir stundum í talsverðu magni.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?