Gapaldur

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
pelíkanáll
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Eurypharynx pelecanoides
Danish: pelikanål
English: Pelican eel, pelican gulper
German: Pelikanaal
French: grandgousier pélican
Russian: Большерот (пеликановидный) / Bol'sherót (pelikanovídnyj)

Gríðarstór og útþenjanlegur kjaftur og kok er helsta auðkenni gapaldursins. Haus er mjög stór en síðan fer fiskurinn smámjókkandi aftur eftir og endar sporðurinn í mjóum þræði sem á er smáljósfæri. Trjóna er stutt og breið og augu, sem eru vel þroskuð, eru mjög framarlega og ofarlega á hausnum. Nasaop eru tvö hvorum megin rétt framan við augu. Á skoltum eru örsmáar og óreglulegar tennur. Tálknaop eru neðarlega á hliðum og lokast ekki alveg. Tálknbogar eru fimm og er þetta eina beinfisktegundin með fimm tálknboga. Bakuggi byrjar á haus langt framan við tálknaop. Eyruggar eru smáir og rétt aftan við tálknaopin.

Litur: Gapaldur er svartur eða grásvartur á lit.

Geislar: B: 155-196,- R: 127-147; hryggjarliðir: 100-125.

Heimkynni gapaldurs eru í Atlantshafi þar sem hann finnst frá 66°N suður til 48°S. Einnig lifir hann í Indlands- og Kyrrahafi. Í desember árið 1961 veiddist einn 50 cm langur á Austur-Grænlandsmiðum (65°30'N, 30°30'V), rétt utan núverandi 200 sjómílna fiskveiðilögsögu. Á Íslandsmiðum fannst hann fyrst í mars árið 1971 á 680-740 m dýpi suður af Selvogsbankatá (62°56'N, 22°02'V). Sá var aðeins 25 cm langur. Í maí og júní 1990 veiddust fjórir, 42-53 cm langir, á 915-1 100 m dýpi á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls. Í maí til júní árið 1992 veiddust einnig fjórir, 32-54 cm langir, á 940-1150 m dýpi á sömu slóðum. Árin 1993-1995 veiddust átta, þar af fjórir á grálúðuslóðinni títtnefndu en hinir í Grænlandshafi. Þeir veiddust á 700-1336 m dýpi og voru 36-54 cm langir. Þá fékkst einn rétt utan 200 sjómílna markanna suðvestur af Reykjanesi árið 1997. Einn veiddist í október árið 2000 á 1010-1015 m dýpi vestur af Látragrunni (65°03'N, 28°14'V). Þannig hafa veiðst 19 gapaldrar á svæðinu frá Selvogsbankatá vestur og norður á grálúðuslóð undan Vesturlandi á árunum 1971-2000, þar af einn rétt utan 200 sjómílna markanna. Þá hafa nokkrir veiðst djúpt undan Suðvesturlandi, langt utan 200 sjómílna markanna og má geta þess að í leiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar í Grænlandshafi í júní árið 2003 veiddust a.m.k. 10 fiskar, 30-58 cm langir, langt utan íslenskrar lögsögu.

Lífshættir: Gapaldur er miðsjávar- og djúpfiskur sem lifir á 500-3000 m dýpi eða dýpra. Fæða er einkum smákrabbadýr, eins og krabbaflær, marflær, Ijósáta og fleiri, en einnig fiskar, pílormar, smokkfiskar og fleiri.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?