Gaddahnýtill

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Psychrolutes subspinosus
Danish: Glat paddeulk

GaddahnýtiII er hausstór og þykkvaxinn fiskur. Mesta hæð er yfir miðjum tálknalokum. Augu eru lítil. Tálknalok eru stór og þrístrend. Á vangabeini eru fjögur hrygglaga útskot og á haus eru smáhorn. Kjaftur er fremur lítill og tennur í tveimur aðskildum röðum á plógbeini. Engar tennur eru á gómbeinum. Bakuggi er langur og lægri að framan. Hængar eru með lim. Á bol eru nokkrir smágaddar og roðið á fullorðnum fiskum er næstum því bert. Gaddahnýtill getur náð 15 cm lengd.

Litur: Gaddahnýtill er brúngrár á lit.

Heimkynni: Gaddahnýtill fannst fyrst norðan og austan Íslands í Ingólfsleiðangrinum 1895-1896. Þetta voru þrír hængar, 5-9,4 cm langir og ein hrygna, tæpir 15 cm. Síðan leið meira en öld og það var ekki fyrr en í október árið 2004 að gaddahnýtill veiddist aftur á Íslandsmiðum. Þá fékkst einn, 7 cm langur, á um 1100-1200 m dýpi við Kolbeinseyjarhrygg (68°08'N, 19°04'V). Við líffræðirannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar á Drekasvæðinu norðaustur af landinu árið 2008 veiddust tveir 13 og 14 cm langir gaddahnýtlar á 1450-1470 m dýpi á stað nálægt miðju svæðinu (68°01'N, 8°34'V). Gaddahnýtill hefur einnig veiðst við Austur-Grænland.

Lífshættir: Gaddahnýtill er djúp- og botnfiskur á leirbotni sem veiðst hefur á 900- 1750 m dýpi (hér 1100-1750 m).

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?