Fuðriskill

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Icelus bicornis
Danish: tornulk
Faroese: Íshavskrutt
Norwegian: tornulke
Swedish: klykskrabb
English: twohorn sculpin
German: Zweistachlige Groppe
French: icèle à deux cornes
Russian: Атлантический двурогий ицел / Atlantítsjeskij dvurógij ítsel

Fuðriskill er hausstór fiskur, sívalur og afturmjókkandi. Kjaftur er stór, undirmynntur og tennur eru smáar. Augu eru stór. Á vangabeini eru fjórir broddar og er sá efsti klofinn. Á baki er röð af beinkörtum, 30-40 hvorum megin og nokkrar fleiri eftir rákinni. Bakuggar eru tveir og vel aðgreindir og er sá aftari lengri. Raufaruggi er andspænis aftari bakugga og ívið styttri og lægri. Sporður er stór. Eyruggar eru mjög stórir en kviðuggar grannir og langir. Hængar eru minni en hrygnur og með lim. Fuðriskill nær 17 cm lengd en á Íslandsmiðum er hann oftast 5-8 cm langur.

Litur: Fuðriskill er gulleitur að ofan og á hliðum með dökkmórauðum blettum en bleikgulur að neðan. Á uggum eru dökkar mjóar þverrendur.

Geislar: B1: VII-X,- B2: 17-23; R: 12-17; E: 15-19; K: 1+3; hryggjarliðir: 40-43.

Heimkynni fuðriskils eru í norðaustanverðu Atlantshafi og Barentshafi við Svalbarða, í Hvítahafi, við Noreg allt suður í Skagerak eða Kattegat. Hann er við Ísland og Austur-Grænland. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann norðaustan Nýfundnalands og undan Nýja-Skotlandi. Þá er hann við Labrador, Baffinsland og í Hudsonflóa og norðan Kanada allt til Beringshafs.

Við Ísland lifir fuðriskill í kalda sjónum undan Norðvestur-, Norður-, Norðaustur- og Austurlandi.

Lífshættir: Fuðriskill er kaldsjávarfiskur og botnfiskur á 0-560 m dýpi á leir-, sand-, grjót- eða skeljabotni þar sem hitastigið er -1,7° til 10°C. Hann er algengastur á 40- 180 m en hefur veiðst niður á 560 m dýpi.

Fæða er burstaormar og smákrabbadýr.

Ekkert er vitað um hrygningu hér við land en í Barentshafi fer hún fram að hausti. Egg eru um 3 mm í þvermál og er fjöldi þeirra 150-1100. Hængurinn sprautar sæðinu inn í hrygnuna og innri frjóvgun á sér stað.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?