Fölvi mjóri

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lycodes pallidus
Danish: bleg ålebrosme
Faroese: kámi úlvfiskur
Norwegian: blek ålebrosme
Swedish: blek ålbrosme
English: pale eelpout
French: lycode pâle
Russian: Бледный ликод / Blédnyj likód

Miðlæg og kviðlæg rák fölva mjóra eiga að sjást. Kviðlæg röð rákaropa er greinileg frá tálknaopi niður í áttina til raufar og síðan beint aftur ofan raufarugga en hverfur venjulega á móts við fyrstu 10— 20 geisla hans. Miðlæga rákin, sem eru gleiðstæð op meðfram miðlínu líkamans er ógreinilegri. Hreistur, sem er tiltölulega stórt, þekur aftari hluta fisksins en á fremri hluta hans er það aðallega ofan kviðlægu rákarinnar og nær næstum að rótum eyrugga. Kviður, bakið framan við bakugga og ósamstæðu uggarnir eru hreisturlausir. Rætur eyrugga eru hreisturlausar. Fjarlægðin frá trjónu að rauf er 41,5-48,2% af lengd að sporði. Fölvi mjóri verður a.m.k. 37 cm á lengd.

Litur er breytilegur og Ijósari hjá ungum fiskum. Þeir eru gulbrúnir með sex til átta mjóum, ljósum þverröndum, venjulega ógreinilegum. Með aldrinum dofna rendurnar eða hverfa og þá verður fiskurinn ljósbrúnleitur á lit. Lífhimna er svört eða brún og sést í gegnum kviðinn á ungum fiskum svo að blásvörtum blæ slær á kviðinn.

Geislar: B: (87)91-94,- R: (74)79-83,- E: (17)19-21,- hryggjarliðir: (93)99-103.

Heimkynni fölva mjóra eru norðan og norðaustan Íslands, norðan Færeyja, við Svalbarða, í Hvítahafi og Barentshafi og inn í Laptevhaf. Einnig við Austur- og Vestur- Grænland, norðan Kanada og í Beauforthafi. Hann er í Norðvestur-Atlantshafi undan Labrador og í Lárensflóa.

Hér við land fannst fölvi mjóri fyrst á um 980 m dýpi undan Austurlandi (67°40'N, 12°05'V) og á 905 og 1450 m dýpi undan Norðurlandi (67°40'N, 15°40'V og67°19'N, 15°52'V) í Ingólfsleiðangrinum 1895-1896. Þessi tegund er algeng í kalda sjónum fyrir Norður-, Norðaustur- og Austurlandi. Mest hefur veiðst af henni á svæðinu frá djúpmiðum norður af Horni að Kolbeinsey, í Eyjafjarðarál og norður af Grímsey en einnig á Rauðatorginu undan Austfjörðum. Á djúprækjuslóð er þetta algengasta mjórategundin.

Lífshættir: Fölvi mjóri lifir á leirbotni við 0°C til 3,7°C og hefur fengist á 40-1450 m dýpi og ungviði jafnvel á 16 m dýpi. Hér við land er hann mest á 300-800 m dýpi.

Fæða er alls konar burstaormar, slöngustjörnur, smákrabbadýr og fleira. Um hrygningu er lítið vitað. Við Svalbarða hafa fundist 162 gulhvít egg, 1 mm í þvermál, í 19 cm hrygnu, en einnig aðeins 13 egg í annarri hrygnu þar, sem var 13,5 cm löng.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?