Flundra

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Platichthys flesus
Danish: skrubbe
Faroese: skrubba
Norwegian: skrubbe
English: European flounder
German: Flunder, Struffbutt
French: flet commun
Spanish: platija europea, platixa
Portuguese: patruça, solha-das-pedras
Russian: Jevropéjskaja retsjnája kámbala

Flundra er hávaxinn og þunnvaxinn flatfiskur með smáan kjaft. Haus er í meðallagi stór. Bak- og raufaruggi og sporður eru vel þroskaðir en eyr- og kviðuggar eru frekar smáir. Meðfram rákinni og endilöngum rótum bak- og raufarugga eru áberandi beinkörtur og þekkist flundran auðveldlega frá skarkola á þessum körtum. Á flestum flundrum snýr hægri hliðin upp og er dökk á lit en „öfugir" fiskar, þ.e. með vinstri hlið upp, eru víða algengir, sums staðar á allt að þriðjungur af fjölda. Flundra getur náð 60 cm lengd en er sjaldan lengri en 40 cm.

Litur er grábrúnleitur og oft sjást rauðleitir dílar á dökku hliðinni, líkt og á skarkola. Neðri hliðin er hvít eða ljósleit.

Geislar: B: 52-67,- R: 36-47,- hryggjarliðir-. 35-36.

Heimkynni: Flundran lifir í Norðaustur- Atlantshafi frá Hvítahafi og Norður-Noregi suður í Eystrasalt, hún er við Færeyjar og í Norðursjó, umhverfis Bretlandseyjar og suður á bóginn allt til stranda Norðvestur-Afríku. Einnig er hún í Miðjarðarhafi og Svartahafi. Í Adríahafi og þaðan inn í Svartahaf hefur verið talin vera sérstök undirtegund, Platichthys flesus luscus.

Flundra fannst fyrst við Ísland í september árið 1999 en þá veiddist ein (og e.t.v. fleiri) í silunganet í Ölfusá undan Hrauni og mældist hún 35 cm. Í júlí árið 2000 veiddist önnur 40 cm löng í dragnót skammt undan landi í Lónsvík undan Suðausturlandi. Vinstri hliðin á þeirri flundru var dökk en sú fyrri var réttvent. Tvær flundrur veiddust í júlí 2000 í Ölfusárósum skammt ofan Óseyrarbrúar. Þær voru 24,5 og 26,8 cm langar. Ein veiddist í álagildru í september 2000 í skurði skammt frá Þorleifslæk við Bakka í Ölfusi. Hún var 27 cm löng. Önnur veiddist sama haust í sama læk. Þá veiddist ein í júlí 2000 í Miðhúsavatni í Breiðavíkurhreppi á Snæfellsnesi. Hún fékkst í silunganet. Nokkurra varð vart í sjó og ám árin 2001 og 2002. Um miðjan ágúst árið 2003 veiddist 5-6 cm seiði í Gufudalsá (Barðastrandarsýslu) um 2 km frá sjó. Þá hefur hennar orðið vart á Faxaflóasvæðinu. Sumarið 2004 varð flundru vart víða undan Suðurlandi, einkum frá Hraunsvík til Herdísarvíkur. Í árslok 2004 náði útbreiðslusvæði hennar frá sunnanverðum Austfjörðum og suður fyrir land allt norður í norðanverðan Breiðafjörð, í lok árs 2008 var flundran komin inn í Húnaflóa og Skagafjörð og 2011 í Skjálfanda.

Lífshættir: Flundran er grunnsævis- og botnfiskur á leirbotni frá fjöruborði og niður á 100-150 m dýpi. Hún heldur sig oft í ísöltu vatni við árósa og flækist stundum upp í ár og vötn.

Fæða er smáfiskar og hryggleysingjar, t.d. burstaormar, smákrabbadýr og skeldýr.

Hrygning fer fram í febrúar til maí á 20-50 m dýpi í Norðursjó, apríl til júní við Norður-Noreg. Hér hefur hún veiðst komin að hrygningu og/eða hrygnandi í apríl og maí. Í apríl 2007 veiddust hrygnandi flundrur á 20-27 m dýpi í Hafursfirði í norðaustanverðum Faxaflóa. Hængarnir voru 3-6 ára og 25-33 cm langir, en hrygnurnar 4-6 ára og 31-38 cm. Egg eru um 500 þúsund til 2 milljónir og stærð þeirra 0,8- 1,1 mm í þvermál. Seiði eru um 3 mm við klak. Þegar seiðin eru 7-10 mm hefst umbreytingin og botnlífið.

Flundra myndar stundum bastarða með skarkola þar sem báðar tegundirnar hrygna samtímis. Mest ber á þessu í vestanverðu Eystrasalti.

Nytjar: Flundra er dálítið veidd í gildrur og net í Eystrasalti, dönsku sundunum og Norðursjó.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?