Flekkjamóni

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Leptoclinus maculatus
Danish: Plettet langebarn
Faroese: Blettuti longubróður
Norwegian: Tverrhalet langebarn
Swedish: långebarn
English: Snake-blenny
German: Gefleckter Bandfisch
French: Lompénie tachetée
Russian: Пятни́стый люмпен / Pjatnístyj ljumpén

Flekkjamjóni er lítill fiskur og mjóvaxinn, næstum sívalur og hæstur á móts við afturenda eyrugga en smámjókkar þaðan og aftur úr. Haus er í meðallagi og ávalur að framan. Kjaftur nær aftur á móts við mið augu og er fiskurinn örlítið undirmynntur eða jafnskolta. Á skoltum, plógbeini og gómbeinum eru smáar tennur en fremst á hvorum skolti eru tvær stórar höggtennur. Eru þær stærri í hængum en hrygnum. Augu eru stór. Tálknaloksrendur eru bogadregnar og sléttar. Bolur er langur og nærri sívalur, stirtla er löng eða um hálf fisklengdin. Bakuggi er langur, nær frá tálknaloksenda og aftur á spyrðustæði. Hann er hæstur um miðjuna. Raufaruggi er langur og lágur. Sporður er þverstýfður fyrir endann. Eyruggar eru stórir, bogadregnir að ofan en nokkrir neðstu uggageislarnir eru lengri og gildari en þeir efri og lausir. Kviðuggar eru Iitlir og framan við eyrugga. Hreistur er smátt og rák er ógreinileg. Flekkjamjóni verður um 20 cm á lengd.

Litur er breytilegur, gulleitur að ofan með fjórum til sex greinilegum dökkum blettum eftir endilöngu baki báðum megin. Ljósgulur að neðan. Á kjálkabarði er svartur blettur.

Geislar: B: LVII-LXI,- R: 1 + 33-37.

Heimkynni flekkjamjóna eru beggja vegna Norður-Atlantshafs og í nálægum innhöfum. Að austan nær útbreiðslusvæðið frá Kattegat og Skagerak og norður til Finnmerkur og Múrmansk og inn í Hvítahaf og Barentshaf. Þá er hann við Svalbarða og Jan Mayen. Hann er við Ísland og Austur-Grænland. Í vestanverðu Norður-Atlantshafi er flekkjamjóni meðfram ströndum Norður-Ameríku frá Labrador til Þorskhöfða. Í norðanverðu Kyrrahafi er undirtegundin Leptoclims maculatus diaphanocarus.

Hér við land varð flekkjamjóna fyrst vart í þorskmaga í Hafnarfirði árið 1880. Hann er allt í kringum landið þó minna sé um hann í hlýja sjónum við Suður- og Suðvesturland en í kalda sjónum undan Norðurlandi þar sem víða er allmikið um hann innfjarða.

Lífshættir: Flekkjamjóni er botn- og grunnsævisfiskur sem fundist hefur allt niður á 400 m dýpi við Grænland. Algengastur er hann á 15—250 m dýpi, einkum á grýttum botni en einnig á leirbotni.

Fæða er ýmis smádýr, svo sem burstaormar og krabbadýr.

Hrygning fer aðeins fram í kalda sjónum hér við land. Svifseiði hafa fundist frá Ísafjarðardjúpi og norður og austur um til Hornafjarðar. Um vöxt er ekkert vitað.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?