Flekkjaglitnir

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Callionymus maculatus
Danish: plettet fløjfisk
Faroese: blettuti floyfisk
Norwegian: flekket fløyfisk
English: Spotted dragonet
German: Gefleckter Leierfisch
French: dragonet tacheté, lambert, moulette
Spanish: lagarto
Portuguese: peixe-pau-malhado
Russian: Pjatnístaja peskárka

Flekkjaglitnir líkist frænda sínum, skrautglitni, í vexti, þ.e. hann er mjóvaxinn og sívalur en verður ekki eins stór. Snjáldur er styttra á flekkjaglitni. Á vangabeini eru fjórir broddar. Bakuggar eru tveir og hjá báðum kynjum eru þeir blettóttir en það er greinilegra á hængunum sem eru með fjórar raðir dökkra bletta á húðinni milli geislanna í aftari bakugga. Aftari bakuggi er alllangur og jafnlangur raufarugga sem er aftur á móti lægri. Eyr- og kviðuggar eru stórir. Sporður er stór og bogadreginn fyrir endann. Hængar geta orðið 16 cm langir, hrygnur 13 cm.

Litur er breytilegur. Hængar eru miklu skrautlegri en hrygnurnar. Þeir eru með alls konar bletti á baki og uggum. Mest ber á gulum, bláum, grænum og brúnum blettum. Geislar. B1: IV; B2: 9-10; R: 9. Heimkynni flekkjaglitnis eru við Ísland, Færeyjar, Noreg, Danmörku, Svíþjóð, í Norðursjó, allt í kringum Bretlandseyjar, við Frakkland, Spán og Portúgal, inn í Miðjarðarhaf og allt suður til Senegal í Afríku.

Hér fannst flekkjaglitnir fyrst i september árið 1935 á Bollasviði í Faxaflóa. Árið eftir veiddust tveir, annar á 200 m dýpi í Mýrdalssjó og hinn á 140 m dýpi um þrjár sjómílur vestur af Vestmannaeyjum. Þá fékkst einn, 14 cm langur, árið 1961 og annar 13 cm, 1971, báðir við Vestmannaeyjar. Næst verður flekkjaglitnis vart í mars árið 1991 en þá veiðast tveir á 135-145 m dýpi á Mýragrunni og 1995 og 1996 bætast tveir við, báðir af Mýragrunni (63°34'N, 15° 18'V), sá fyrri var 10 cm langur og veiddist á 108-150 m dýpi en sá síðari mældist 14 cm og veiddist á 120-150 m dýpi. Svifseiði flekkjaglitnis hafa fengist við suður- og vesturströndina í júlí saman við svifseiði skrautglitnis.

Lífshættir: Flekkjaglitnir er grunn- og botnfiskur sem heldur sig mest á 70-300 m dýpi á sandbotni.

Fæða er einkum smá botnhryggleysingjar eins og burstaormar, sniglar og krabbadýr.

Hrygning fer fram i apríl til júní í Norðursjó, janúar til ágúst í Miðjarðarhafi. Sennilega hrygnir hann nokkru síðar hér við land en í Norðursjó en eins og þegar er getið hafa svifseiði hans fundist í júlí við suður- og vesturströndina. Egg og seiði eru sviflæg.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?