Flatnefur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Deania calceus
Danish: næbhaj
Faroese: nevhávur
Norwegian: gråhå
English: birdbeak dogfish
German: Schnabeldornhai
French: squale-savate
Spanish: tollo pajarito
Portuguese: sapata
Russian: Глубоководная акула / Glubokovódnaja akúla

Flatnefur er mjósleginn og sívalur háfiskur. Hausinn er langur og trjónan mjög löng - meira en hálf hauslengdin, breið og flöt með hvössum brúnum og augu á þeim. Kjaftvikaskorur eru stuttar. Tennur eru líkar og í rauðháfi, efriskoltstennur þó styttri. Tálknaop eru smá. Bolur er langur en stirtla fremur stutt. Bakuggar eru tveir og er sá fremri all langvaxinn og lágvaxinn fremst. Bakuggagaddar eru allháir, einkum sá aftari en hann er mjór og afturboginn. Sporður er stór. Samstæðu uggarnir eru smáir. Húðtennur eru smáar og með djúpþríklofnu blaði sem gerir fiskinn flosaðan áferðar. Rák sést ekki. Flatnefur getur orðið 122 cm á lengd.

Litur: Flatnefur er ljósgrár á lit nema á endajöðrum ugga þar sem hann er dökkfjólublár.

Heimkynni flatnefs eru í norðaustanverðu Atlantshafi, frá suðvestur- og suðurströnd Íslands og meðfram Íslands-Færeyjahryggnum til Færeyja og áfram meðfram landgrunnshalla Evrópu til Vestur-Afríku. Hans hefur orðið vart við Asóreyjar. Einnig er hann við Máretaníu og e.t.v. Senegal. Þá er hann við Namibíu og Suður-Afríku. Í Kyrrahafi finnst hann við Japan og Chile og auk þess við Nýja-Sjáland og sunnanverða Ástralíu.

Á Íslandsmiðum varð fyrst vart flatnefs við Vestmannaeyjar árið 1900 og síðan fannst hann í Háfadjúpi og á Selvogsbanka og austur við Hvalbak. Hann hefur veiðst á 490- 850 m dýpi og dýpra allt frá suðaustanverðu landinu til suðvestur- og vesturhluta þess en er algengastur á djúpmiðum suðvestan Reykjaness. Í apríl 1993 veiddist 88 cm flatnefshængur í grásleppunet á 55 m dýpi í Öxarfirði. Þessi tegund hefur ekki áður veiðst svona grunnt né norðarlega.

Lífshættir: Flatnefur er djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 55—1450 m dýpi en er sennilega einna algengastur á 600—1000 metra dýpi.

Fæða hans er alls konar fiskar og hafa m.a. fundist í maga flatnefs silfurfiskar, marsnákar og kolmunnar auk smokkfiska, rækju o.fl. krabbadýra.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?