Flathaus

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Cataetyx laticeps

Flathaus er langvaxinn fiskur og þunnvaxinn aftan til. Haus er flatvaxinn og breiðari en hann er hár. Trjóna er bogadregin fyrir endann. Fremri nasir eru rörlaga og hliðstæðar. Aftari nasir eru miðja vegu á milli augna og fremri nasa. Augu eru sporöskjulaga og liggja ofarlega á haus og vísa upp og fram. Bil á milli augna er slétt. Kjaftur er stór og nær aftur á móts við aftari jaðar augna. Neðri skoltur nær lengra aftur. Tennur eru í röðum á efri skolti, neðri skolti, plógbeini og gómbeinum. Smá gaddur, þakinn roði, er rétt ofan við eyrugga aftan við tálknalokið. Raufin er um eða rétt framan við miðju. Bakuggi nær fram fyrir aftari enda eyrugga lagða upp að hliðinni. Bak- og raufaruggi renna saman við örsmáa sporðblöðku sem varla vottar fyrir. Kviðuggar eru kverk- og hálsstæðir og einn þráður hvor uggi. Þeir sýnast þó skiptast í tvennt við rætur. Rák er allgreinileg og nær frá efra horni tálknaloks rétt neðan við bakugga og heldur síðan áfram eftir miðjum fiski til enda. Hreistur er smátt og sporöskjulaga og þekur mestan fiskinn nema trjónu, neðri hluta hauss, skolta og aftari hluta tálknaloka. Stærð er allt að 85 cm.

Litur er brúnn.

Geislar: B: 91-107,- R: 74-87,- hryggjarliðir: 60-61.

Heimkynni: Flathaus fannst fyrst árið 1910 á 1365 m dýpi undan Vestur-Afríku (28°08'N, 13°35'V). Síðan hefur hann veiðst í Miðjarðarhafi og Norðaustur-Atlantshafi frá Biskajaflóa meðfram djúpkantinum norður fyrir Írland og einnig við Asóreyjar auk þess sem hann er í Suður Atlantshafi suður til Góðrarvonarhöfða. Hann er e.t.v. einnig í Mexíkóflóa og við Stóra banka hjá Nýfundnalandi hefur flathaus veiðst. Þá hefur hann veiðst á Íslandsmiðum.

Í september árið 1984 veiddust nokkrir flathausar á 950-1400 m dýpi djúpt undan suður- og suðvesturströnd Íslands í sameiginlegum leiðangri íslenskra og sovéskra fiskifræðinga á rannsóknaskipinu Tsivilsk. Einn 72 cm langur veiddist í mars 1993 á 1405 m dýpi suðvestur af Reykjanesi og annar í júní 1997 utan 200 sjómílna markanna suðvestur af Reykjanesi. Þá veiddist einn 71 cm langur í botnvörpu á 1236 - 1267 m dýpi á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls (65°20'N, 28°35'V) í október árið 2001. Í október árið 2002 veiddist einn 75 cm á 1165 - 1195 m dýpi djúpt vestur af Öndverðarnesi (64°24'N, 28°07'V) og í október árið 2004 veiddist einn 73 cm langur á 1256 -1285 m dýpi út af Faxaflóa (64°29'N, 28°40'V) og annar á 1170 m dýpi árið 2008.

Lífshættir: Flathaus er djúpsjávarfiskur sem veiðst hefur niður á rúmlega 2800 m dýpi. Hann gýtur seiðum.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?