Fjölbroddabakur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Polyacanthonotus rissoanus
Danish: savrygget pigål
Faroese: fjoltindabak
English: Smallmouth spiny eel, shortspine tapirfish
French: tapir á petites épines
Russian: Pjatnístyj megrím

Fjölbroddabakur er langvaxinn og mjög þunnvaxinn fiskur, mesta hæð er við framenda raufarugga og smámjókkar fiskurinn þaðan til beggja enda og sporðurinn endar í oddi. Hausinn er allstór, frammjór og bogadreginn að ofan en sléttur að neðan. Mjög lítill kjaftur er neðan á haus og ná skoltarnir ekki að augum. Á skoltunum og gómbeinum er röð örsmárra tanna. Augu eru stór.

Eitt helsta einkenni tegundarinnar er bakugginn sem er 26-36 stakir broddgeislar með engri himnu á milli. Bakuggageislarnir ná vel aftur fyrir miðjan fisk, þeir fremstu eru á milli tálknaloks og eyrugga. Fyrstu fimm geislarnir eru styttri en þeir sem á eftir fara en bil á milli geisla er jafnlangt.

Raufaruggi er langur, nær frá rauf og allt aftur á stirtluenda en fjölbroddabakur hefur enga sporðblöðku. Raufaruggageislar eru þéttstæðir broddgeislar að framan, samtengdir með himnu, en aftast eru liðgeislar. Kviðuggar, sem eru í meðallagi stórir, eru rétt framan við rauf. Eyruggarnir eru miðstæðir, vel aftan við tálknalok og frekar langir. Hreistur er smátt og nær fram á haus og um allan kropp. Rákin er greinileg frá tálknopi og aftur fyrir broddgeisla raufarugga. Stærsti fiskurinn af þessari tegund sem veiðst hefur mældist 42 cm.

Litur: Fjölbroddabakurinn er gráblár á litinn að ofan en dökkblár að neðan og mjög dökkblár í kringum kjaftinn og á tálknalokum.

Geislar: B, XXVI-XXXVI.

Heimkynni: Fjölbroddabakur hefur fundist í vestanverðu Miðjarðarhafi, við Asóreyjar í norðaustanverðu Atlantshafi, við Írland suðvestanvert og vestan- og suðvestan Íslands. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann í Davissundi við Vestur-Grænland, við Nýfundnaland og víðar og í Suður-Atlantshafi við Suður-Afríku.

Fjölbroddabakur fannst fyrst á Íslandsmiðum í september árið 1973 á um 1500 m dýpi djúpt út af Breiðafirði (65°15'N, 29°15'V) og var hann 40 cm langur. Annar fjölbroddabakur veiddist a 555- 600 m dýpi djúpt undan Suðvesturlandi (62°26'N, 25°06'V) í apríl 1980. Var hann 18 cm langur. Sá þriðji veiddist á 985-1055 m dýpi djúpt suðvestur af Látrabjargi (65°00'N, 28°06'V) í júníbyrjun árið 1992. Hann mældist 32 cm. Þá veiddist einn, 31 cm langur, árið 1997 utan 200 sjómílna markanna (um 61°N, 29°V) suðvestur af Reykjanesi og þrír 31-42 cm langir veiddust á 1000-1750 m dýpi djúpt undan Suðurlandi í september árið 2002.

Lífshættir: Fjölbroddabakurinn er djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 400-2800 m dýpi. Um hrygningu er ekkert vitað en fæða er aðallega smákrabbadýr, sæfíflar og burstaormar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?