Dröfnuskata

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Raja clavata
Danish: Sømrokke
Faroese: Naglaskøta
Norwegian: Piggskate
Swedish: Knaggrocka
Plish: Raja nabijana a. ciernista
English: Thornback ray
German: Nagelroche
French: Raie bouclée
Spanish: Raya de clavos
Portuguese: Raia-lenga

Ljósmynd vantar.

Dröfnuskatan líkist tindaskötu allmikið fljótt á litið svo hætta er á að þeim sé ruglað saman. Auðveldast er að greina þær í sundur á því að húðtindarnir eru með sléttum fæti á dröfnuskötu en geislagáróttum á tindaskötu. Trjóna dröfnuskötu er mjög stutt en börðin mjög breið og nærri rétthyrnd. Innstreymisop eru fast við augu. Á hala vottar fyrir sporðblöðku. Þéttar húðtennur eru bæði að ofan og neðan og röð stórra tinda er á baki frá herðum aftur að fremri bakugga á ungum fiskum og fullorðnum hrygnum. Á milli bakugga er einn tindur. Ein tindaröð er á hvorri hlið hala og einnig eru margir tindar á víð og dreif um haus, bak, börð og neðan á skífu. Tindar eru með niðurbeygðan hvassan brodd. Dröfnuskata getur orðið um 120 cm á lengd.

Litur: Fullorðnar dröfnuskötur eru venjulega gráar eða gulbrúnar á lit en yngri fiskar eru með fjölda svartra eða gulbrúnna bletta með dökkum jaðri.

Heimkynni dröfnuskötu eru í austanverðu Atlantshafi við Noreg og í Norðursjó, við Bretlandseyjar og þaðan suður í Miðjarðarhaf og meðfram ströndum Afríku allt til SuðurAfríku og þaðan inn í sunnanvert Indlandshaf.

Á Íslandsmiðum hefur hennar orðið vart en hún er mjög sjaldséð. Fyrst varð hennar vart hér í júlí áríð 1901 en þá veiddust tvær á línu á 90 m dýpi við Vestmannaeyjar og síðar veiddust tvær á Halamiðum árið 1937. Ekki hefur fengist örugg staðfesting á því að hún hafi veiðst hér síðan. Stundum fréttist af dröfnuskötum á Íslandsmiðum en þegar það er athugað nánar kemur í Ijós að um aðrar skötutegundir er að ræða og oftast er það skjóttaskata og stundum tindaskata, en báðar

þessar tegundir geta verið með dökkum dílum eða dröfnum á efra borði.

Lífshættir: Dröfnuskata er botnfiskur sem heldur sig á 20-300 m dýpi á leir-, sand- og malarbotni en sjaldan á grýttum botni.

Ungar dröfnuskötur éta einkum smákrabbadýr en fullorðnar krabbadýr og fiska, til dæmis sandsíli, síld og brisling.

Dröfnuskata gýtur eggjum sínum í strandnánd og eru þau 6-9 cm löng án þráða og 4-7 cm breið. Oft eru fjörur í nánd við gotstaði fullar af pétursskipum hennar. Engin pétursskip dröfnuskötu hafa fundist hér við land.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?