Dökkháfur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Etmopterus princeps
Danish: lyshaj
Faroese: Collets búksvarti hávur
Norwegian: stor svarthå
Swedish: större lanternhaj
English: Greater lantern shark
German: Grosser schwarzer Dornhai
French: sagre rude
Russian: Большая чёрная акула / Bol'shája tjsórnaja akúla

Dökkháfur er grannvaxinn og þunnvaxinn frá eyruggum að sporði, mesta hæð er við bakugga. Hausinn er í meðallagi stór, allbreiður og flatur að ofan og augun stór. Trjóna er fleyglaga, þykk og holdug og kjaftur næstum beinn. Efriskoltstennur eru venjulega fimmyddar á fullorðnum fiskum og er miðoddurinn stærstur. Neðriskoltstennur eru einyddar. Tálknaop eru í meðallagi stór.

Bakuggagaddur í aftari bakugga er stærri en í þeim fremri. Kviðuggar eru svipaðir aftari bakugga að stærð. Aftari rætur kviðugga eru andspænis eða örlítið framar fremri rótum aftari bakugga. Eyruggar eru í meðallagi stórir. Sporður er stór. Húðtennur eru broddkenndar en á litla loðháfi sem líkist dökkháfi í útliti eru húðtennur hárkenndar. Dökkháfur getur náð 90 cm lengd.

Litur er dökkbrúnn eða svartur á bol og uggum. Aftara og neðra horn bakugga er hvítleitt.

Heimkynni dökkháfs eru beggja vegna Norður-Atlantshafs. Hann er algengur á djúpmiðum vestan, suðvestan og sunnan Íslands. Einnig er hann að finna undan Suðausturlandi. Frá Íslandsmiðum teygist útbreiðslusvæði hans meðfram landgrunnshallanum til Færeyja, Bretlandseyja og allt til Vestur-Afríku. Einnig er hann við Asóreyjar. Hefur einu sinni veiðst undan Austur-Grænlandi. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann undan Nýja-Skotlandi (Nova Skotia) og suður til djúpsins utan Georgsbanka í Bandaríkjunum.

Lífshættir dökkháfs eru lítt þekktir. Hann er djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 300-2200 m dýpi, Hér er hann algengastur á 900-1000 m dýpi. Í október hafa veiðst hrygnur djúpt suðvestur af Reykjanesi alveg komnarað goti. Fæða er einkum krabbadýr, fiskar og smokkfiskur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?