Djúpskata

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Rajella bathyphila
Danish: dyphavsrokke
English: abyssal skate, deepwater ray, chocolate skate
French: raie bathyale
Spanish: Raya profunda
Russian: Glubokovódnyj rómbovyj skat

Trjóna djúpskötu er í meðallagi löng og svolítið framteygð á stórum fiskum. Skífa er aðeins breiðari en hún er löng. Frá fremri bakugga og fram á herðar eru miðlægir gaddar, 33-41 (geta verið 31-32 hjá ungum skötum). Þá eru stórar djúpskötur auk þess með óreglulegar raðir smárra gadda á hvorri hlið á framanverðum hala. Bakuggar eru samvaxnir. Í efri skolti eru 34-50 tannaraðir og 35-45 í neðri skolti. Djúpskata getur orðið 90 cm löng.

Litur djúpskatna er mjög breytilegur eftir aldri. Að ofan eru þær einlitar og blettalausar. Ungar djúpskötur eru dökkgrábrúnar, hálfvaxnar eru ljósbrúnar og einnig fullorðnar auk þess sem þær eru oft hvítgráar. Að neðan eru smáar ungar djúpskötur dökkbrúnar en á kviði, eyruggum, milli tálkna, á skoltum, við nasir og á miðri trjónu eru stórir hvítir blettir. Á ungum skötum er halinn ljós eftir miðju og aftasti hluti hans er hvítur. Stærri ungfiskar eru með hvíta skífu og kviðugga sem dökkna til jaðranna. Hali á fullorðnum djúpskötum er meira og minna dökkur. Fullorðnir fiskar eru með gráhvíta skífu og kviðugga. Með aldrinum lýsast djúpskötur bæði að ofan og neðan.

Heimkynni: Djúpskata hefur fundist beggja vegna Norður-Atlantshafs en er frekar sjaldséð. Í norðvestanverðu Atlantshafi hefur hún fundist í landgrunnshallanum undan Norður- Ameríku, norðan 45°N. Í norðaustanverðu Atlantshafi finnst hún í landgrunnshallanum undan suðvesturhluta Írlands, undan Asóreyjum, í Grænlandshafi, undan Suðvestur- og Suðaustur-Grænlandi og í september árið 1973 veiddist ein á 935-955 m dýpi 90 sjómílur suðvestur af Reykjanesi (63° 13'N, 25°53'V). Í maí 1992 veiddist önnur á 750 m dýpi út af Berufjarðarál (63°55'N, 13°07'V) og sú þriðja, 20 cm löng, veiddist í október árið 2000 á 1010-1030 m dýpi á grálúðuslóð vestan Víkuráls (65°26'N, 28°24'V) og þá veiddist sú fjórða skömmu síðar á 685-710 m dýpi út af Berufjarðarál (63°56'N, 13°02'V). Hún var 82 cm löng. Í október 2003 veiddist 86 cm hængur á 1130-1180 m dýpi á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls (65°28'N, 28°41'V). Lífshættir: Djúpskatan er botnfiskur sem veiðst hefur á 600-2000 m dýpi. Flestar djúpsköturnar hafa verið á meira dýpi en 1400 m. Um fæðu er ekkert vitað en pétursskip eru 9 cm á lengd og 5 cm á breidd. Seiði eru um 13 cm við klak.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?