Djúpmjóri

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lycodes terraenovae
Danish: atlantisk ålebrosme
English: Atlantic eelpout

Rákir djúpmjóra eru tvær auk rákarkerfis á hnakka og baki. Miðlæga rákin er mjög ógreinileg með berum augum og er nánast ósýnileg nema í smásjá en kviðlæga rákin er mjög greinileg þar sem hún liggur brött niður undir eyruggum og niður á kviðjaðar og þar eftir honum endilöngum aftur undir sporð. Mjög einkennandi er hve stirtlan er miklu lengri en haus og bolur. Eyruggar eru stórir. Hreistur nær fram á hnakka og stöku ugga og rætur kviðugga eru hreistraðar en haus er hreisturlaus.

Stundum er erfitt að greina á milli djúpmjóra og nafnlausa mjóra eftir útliti en þá getur fjöldi geisla í bak-, raufar- og eyruggum hjálpað til við greininguna. Djúpmjóri verður um 50 cm a lengd.

Litur: Fiskarnir sem veiðst hafa a Íslandsmiðum hafa verið öskugráir, án þverranda eða depla en haus og eyruggar eru mjög dökkbláir, næstum svartir og bak- og raufaruggar eru bláir til blásvartir. Kviður er bláleitur. Litur þeirra fiska sem veiðst hafa a öðrum hafssvæðum er sagður gráblár til Ijósbrúnn með næstum svartan haus, kvið og ugga á ungum fiskum (minni en 15 cm að sporði) en fullorðnir fiskar eru brúnleitir nema tálknahimna og uggar eru svört. Stórir fiskar (lengri en 30 cm að sporði) eru brúnir með svarta tálknahimnu og ugga. Oft nuddast hreistur af í botnvörpu og eftir verður ljósleitur fiskur. Enginn litarmunur er eftir kynjum.

Geislar: B, 98-116; R, 86-104; E, 21-23; hryggjarliðir: 105-124.

Heimkynni: Þessi tegund hefur veiðst í landgrunnshalla Atlantshafs undan Flórída, Nýfundnalandi og í Davissundi og auk þess undan Suðaustur-Grænlandi, á Bill Baily- banka suðvestan Færeyja og vestan Írlands. Einnig hefur hann veiðst undan Vestur-Afríku og vestan Suður-Afríku. Þetta mun vera eina mjórategundin sem veiðst hefur á suðurhveli jarðar. Í haustleiðangri Hafrannsóknastofnunar á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni í október árið 2000 veiddust tveir fyrstu fiskarnir á Íslandsmiðum. Annar veiddist á 1050-1070 m dýpi á grálúðuslóð vestan Víkuráls (65°21 'N, 28°22'V til 65°24'N, 28°25'V) og var hann 30 cm langur að sporði en hinn veiddist á 1180-1190 m dýpi út af Stokksnesgrunni (63°34'N, 14°10'V til 63°36'N, 04°05'V) og mældist 50 cm að sporði. Sá þriðji veiddist síðan í haustleiðangri Hafrannsóknastofnunar í október árið 2001 á 1120-1180 m dýpi vestan Víkuráls (65°28'N, 28°42'V) og var hann 39 cm langur. Allir veiddust þeir í botnvörpu.

Lífshættir: Djúpmjóri er djúpfiskur sem veiðst hefur á 150-2600 m dýpi í 1-5°C heitum sjó. Um fæðu er ekkert vitað.

Í Davissundi hafa veiðst tvær hrygnur í ágústmánuði með þroskuð hrogn. Í annarri hrygnunni voru 320 egg og hvert um 4 mm í þvermál.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?