Bleikmjóri

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lycodes luetkenii
Danish: Lütkens ålebrosme
Faroese: Lútkens úlvfiskur
English: Luetken´s eelpout

Rák bleikmjóra er ein og miðlæg. Rauf er um eða aftan við miðjan fisk. Haus er stór og augu allstór. Plógbein og gómbein eru tennt. Hreistur nær fram á móts við fremri rætur bakugga en ekkert hreistur er á uggum, hnakka né kviði. Bleikmjóri getur náð 55 cm lengd.

Litur: Bleikmjóri er að mestu bleikur á lit en kviður og neðanverður haus eru hvítir. Á hnakka og bakugga aftur á sporð og niður eftir hliðum eru sex til sjö Ijósar þverrendur. Lífhimna er ljós.

Geislar: B: 89-93(90-93); R: 70-73 (70- 73); E: 23-24(24); hryggjarliðir: 94-98(96- 98).

Heimkynni: Bleikmjóri hefur veiðst við norðvestanverðan Svalbarða þar sem fyrsti fiskurinn fannst árið 1878, einnig suðaustur af Færeyjum þar sem sá næsti fannst árið 1910. Sá þriðji veiddist í Umanakfirði við Vestur-Grænland 1962. Á árunum 1991- 1993 veiddust nokkrir í Davissundi við Vestur-Grænland og við Austur-Grænland. í byrjun júlí mánaðar árið 1995 veiddust tveir á Íslandsmiðum, sá fyrri, 52 cm langur, á um 620 m dýpi á Rauðatorginu undan Austfjörðum (65°13'N, 11°06'V) og sá síðari á um 540 m dýpi út af Þistilfjarðargrunni (67°14'N, 14°31'V). Hann var 53 cm langur. Í október árið 1996 veiddist einn, 55 cm langur, á 815-835 m dýpi djúpt suðaustur af Gerpi (64°12'N, 9°38'V). Þá veiddust tveir í október 2000 á 615-635 m dýpi djúpt undan vestanverðu Norðurlandi (67°35'N, 21°49'V). Þeir voru 35 og 47 cm langir. Í október 2001 veiddust tveir, annar þeirra var 51 cm á lengd og fékkst í botnvörpu á 895- 950 m dýpi vestur af Halamiðum (66°57'N, 25°39'V) en hinn mældist 29 cm og fékkst einnig í botnvörpu á 970-975 m dýpi norður af Hornbanka (68°10'N, 20°42'V).

Lífshættir: Bleikmjóri er djúp- og botnfiskur í köldum sjó. Hann hefur veiðst á leirbotni á 110-1100 m dýpi í um 0°C sjó. Vart hefur orðið við fiskleifar í maga. í gotu 46 cm hrygnu frá Grænlandi voru um 1000 egg, hvert um 5 mm í þvermál.

*í sviga eru tölur af Íslandsmiðum.



Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?