Blálanga

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Molva dypterygia
Danish: byrkelange
Faroese: blálonga
Norwegian: bjørkelonge, blålange, blålong
English: blue ling
German: Blauleng
French: lingue bleue
Spanish: maruca azul
Portuguese: donzela-azul, lingue-azul, maruca-azul
Russian: Голубая мольва / Golubája mól'va

Blálanga er mjög langvaxin og mjóvaxin, einkum aftan til. Hausinn er nokkuð stór og augu mjög stór, neðri skoltur er aðeins lengri en sá efri. Á höku er Iítill skeggþráður. Bakuggar eru tveir og sá fremri er stuttur og hærri en sá aftari sem er mjög langur. Raufaruggi er einnig langur, þó aðeins styttri en aftari bakuggi. Sporðblaðka er sæmilega stór og bogadregin fyrir endann. Eyruggar eru í meðallagi stórir og kviðuggar einnig. Þeir eru framan við eyrugga og ná ekki aftur fyrir þá. Roðið er þykkt, hreistrið smátt og rák er greinileg og sveigist örlítið yfir eyrugga.

Blálanga getur orðið um 155 cm löng en sú lengsta sem vitað er um hér við land mældist 153 cm. Veiddist hún undan Suðausturlandi.

Litur: Blálanga er grá á lit að ofan og á hliðum en Ijósgrá að neðan með bláleitum bronsgljáa yfir öllu.

Geislar: B1: 11-15; B2: 74-85; R, 70-80; hryggjarliðir: 76-79.

Heimkynni blálöngu í Norður-Atlantshafi eru dýpri svæði landgrunnsins frá Norður- Noregi og Barentshafi suður í Skagerak og jafnvel Kattegat, í norðanverðum Norðursjó, fyrir norðan og vestan Bretlandseyjar suður í Biskajaflóa og til Spánar og Portúgals suður til Marokkós og inn í Miðjarðarhaf. Einnig er hún við Færeyjar og Ísland, austan-, sunnan- og suðvestanvert Grænland og við Labrador og Nýfundnaland hefur hennar orðið vart.

Við Ísland er blálanga allt í kringum landið en hún er þó mun algengari á svæðinu frá suðaustanverðu landinu, vestur og norður til Víkurálssvæðisins heldur en undan Norður- og Austurlandi.

Lífshættir: Blálanga er botnfiskur sem veiðst hefur á 130-1500 m dýpi og helst yfir mjúkum botni. Hún er sjaldan á minna dýpi en 200 m og mest er um hana á 300-800 m dýpi. Hún heldur sig dýpra á veturna en kemur upp á grunnin á vorin og sumrin.

Fæða blálöngu eru einkum ýmsir fiskar eins og karfi, bláriddari, keila, laxsíldir og fleiri en auk þess ýmiss konar krabbadýr, slöngustjörnur og fleiri botnhryggleysingjar.

Hrygning fer fram á vorin á 500-1000 m dýpi eða dýpra f 5-8°C heitum sjó utan landgrunnsbrúnanna sunnan Íslands, sunnan og vestan Færeyja, vestan Noregs og vestan Skotlands til Norður-Írlands. Hér við land hrygnir blálangan frá því í febrúar og fram í apríl með hámarki í mars í 5-6°C heitum sjó og er kunnugt um hrygningarstöðvar hennar á 600-1000 m dýpi suður af Vestmannaeyjum og við fiskveiðimörkin á Reykjaneshrygg. Egg eru sviflæg, 1,3-1,5 mm í þvermál og klekjast þau í efri lögum sjávar. Seiðin berast um langan veg vestur og norður og langt út í haf í átt til Grænlands og vaxa síðan upp langt úti í reginhafi saman með seiðum karfa, kolmunna, silfurkóðs, silfurþvara og skötusels. Seiðin leita botns 8-10 cm löng í ágúst til október.

Vöxtur er frekar hægur en hrygnur vaxa hraðar en hængar. Kynþroska er náð við 9-11 ára aldur og 75-90 cm lengd og verða hængar fyrr kynþroska en hrygnur. Blálanga getur orðið 20 ára eða eldri.

Óvinir blálöngu eru stórir fiskar á borð við hákarl, sem og hvalir eins og höfrungur og háhyrningur. Auk þess lifir sníkjukrabbadýr eitt, Sarcotaces arcticus, undir roðinu og myndar þar blöðru fulla af svörtum vökva. Þessi sníkill lifir á blóði hýsilsins og stafar svarti liturinn af meltu blóði hans.

Nytjar: Blálanga er veidd í botnvörpu og á línu sem aukaafli með öðrum botnfiskum. Árið 1980 náði blálönguaflinn hámarki á Íslandsmiðum og komst í 8.545 tonn og var hlutur okkar 8.133 tonn.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?