Blákarpi

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
Blákarpi
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Polyprion americanus
Danish: vragfisk
Faroese: rekfiskur
Norwegian: vrakfisk
English: stone bass, wreck fish
German: Wrackbarsch, Wrackfisch
French: cernier, cernier atlantique
Spanish: cherna
Portuguese: cherne, cherna
Russian: Полиприон /Políprion

Blákarpi minnir dálátið á karfa í útliti nema liturinn. Hann er frekar hávaxinn og þunnvaxinn. Haus er allstór og frammjór. Kjaftur er stór og nær aftur á móts við mið augu. Neðri skoltur er framteygður. Tennur eru í röðum á skoltum, plógbeini, gómbeinum og tungu. Vangabein eru tennt að aftan og sterklegur láréttur kambur er á hvoru tálknaloksbeini. Augu eru í meðallagi stór. Bakuggi er lægri að framan og með 11 broddgeisla en afturhluti bakugga er allhár og með liðgeisla. Raufaruggi er andspænis aftari bakugga með liðgeisla nema þrír fremstu geislarnir eru broddgeislar. Spyrðustæði er svert og sporðblaðka er stór. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir. Hreistur er hrjúft, frekar smátt og þekur bol, stirtlu og rætur stöku ugganna. Blákarpi verður allt að 210 cm. Sá stærsti á Íslandsmiðum mældist 102 cm og veiddist í mars 2012 við Reykjaneshrygg.

Litur: Blákarpi er gráleitur eða dökkbrúnn á lit á baki, ljós á kvið og sporðblaðka er hvít í jaðarinn.

Geislar: B: X-XIl+ll-13; R: 111 + 8-10; hryggjarliðir: 26.

Heimkynni blákarpa eru í Miðjarðarhafi og beggja vegna Norður- og Suður-Atlantshafs. Í austanverðu Atlantshafi er hann allt frá Bretlandseyjum suður til Angóla og flækingar sunnar. Einnig flækist hann til Noregs, einkum á haustin og veturna, og Íslandsmiða. Í vestanverðu Atlantshafi er hann frá Nýfundnalandi til Argentínu. Þá er hann í vestanverðu Indlandshafi og við Nýja-Sjáland.

Hér við land fannst blákarpi fyrst í mars árið 1953 en þá veiddist 66 cm hrygna í þorskanet á 37 m dýpi út af Hólmsá í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu. Árið 1972 veiddust tveir, sá fyrri í net í mars á 73 m dýpi við Reykjanes og sá síðari í júní í humarvörpu á 128-146 m dýpi norðvestur af Surtsey. Síðan hafa allmargir blákarpar veiðst, einkum undan Suður- og Suðvesturlandi. Þeir hafa veiðst allt austan frá Hvalsnesi og vestur á Vestfirði, mest á 100-150 m dýpi en allt niður á 330 m. Flestir þessara fiska hafa verið 50-65 cm langir en einn 95 cm langur veiddist á 330 m dýpi í kanti Stokksnesgrunns í október árið 1992. Eftir þessu virðist blákarpi vera alltíður flækingur við Ísland í mars til október á svæðinu frá Suðausturmiðum og vestur fyrir Reykjanes en sjaldséður norðan þess. Einn, 55 cm langur, veiddist þó í Kolluál (64°57N, 24°00'V) í janúar 2007 og annar suður af Dyrhólaey um svipað leyti.

Lífshættir: Blákarpi er strand- og úthafsfiskur sem fundist hefur frá yfirborði og niður á 600 (jafnvel 1000) m dýpi en virðist halda sig mest á 100-200 m dýpi og á eða yfir grýttum sand- eða leirbotni. Blákarpi er gjarnan við skipsflök. Fullorðnir fiskar fara einförum og eru botnlægir en ungir fiskar eru meira upp um sjó og í torfum. Oft er blákarpinn innan um alls konar flotdrasl í sjónum og þaðan kemur það nafn sem fiskurinn ber hjá nágrannaþjóðum okkar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

 



 

 

Did you find the content of this page helpful?