Bjúgtanni

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Anoplogaster cornuta
Danish: troldfisk
English: fangtooth, ogrefish
French: ogre
Russian: Sablezúb

Bjúgtanni er hávaxinn og frekar þunnvaxinn fiskur með stóran haus og mjög vígalegan skástæðan kjaft. Efri skoltur er næstum jafnlangur og hausinn. Tvær stórar og oddmjóar tennur eru fremst hvor sínum megin á báðum skoltum. Smærri tennur og gisstæðar eru aftar. Gómbein eru ýmist tennt eða ekki. Augu eru í meðallagi stór og nasir eru stórar. Uggar eru frekar stórir og liðgeislaðir, þ.e. án gadda nema fremsti geisli í raufarugga er broddgeisli. Hreistur er smátt. Rák er greinileg, hástæð og djúp en rofin af hreistri með vissu millibili. Sundmagi er lokaður. Bjúgtanni verður um 18 cm á stærð.

Litur er dökkbrúnn eða svartleitur. Ungir fiskar eru silfraðir nýveiddir.

Geislar: B: 17-20,- R: 7-9, hryggjarliðir: 23-28.

Heimkynni: Bjúgtanni hefur fundist í öllum heimshöfum en virðist vera algengastur á milli 46°N og 46°S. Í norðaustanverðu Atlantshafi er hann frá Íslandsmiðum suður til Portúgals og áfram suður til Gíneuflóa við Afríku. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann frá miðunum undan Kanada og á Georgsbanka til Bermúdaeyja og þaðan um Mexíkóflóa, Vestur-Indíur og Karíbahaf suður til norðaustanverðra Falklandseyja. Í Mið-Atlantshafi er hann frá Asóreyjum til Sankti Helenueyjar. Flækist til Suðvestur- og Suðaustur-Grænlands.

Hér á Íslandsmiðum fannst þessi fiskur fyrst um miðjan september árið 1973 í rannsóknarleiðangri Vestur-Þjóðverja á rannsóknaskipinu Walther Herwig á 800-1000 m dýpi djúpt undan Vestur- og Suðvesturlandi (65°14'N, 28°57'V og einnig 65° 1 3'N, 28°45'V og sömuleiðis 63°44'N, 27°44'V og 63°44'N, 27°46'V). Næst varð hans vart í júní eða júlí 1985 en þá veiddi íslenskt skip tvo, 14 og 15 cm langa, á rækjumiðunum milli Íslands og Grænlands. Síðan veiddust tveir aðrir, 14 og 15 cm langir, á svipuðum slóðum í lok október sama ár. Hann hefur veiðst árlega undanfarin ár ýmist í botnvörpu eða flotvörpu, einkum á grálúðuslóðinni vestur af landinu og á djúpmiðum vestur- og suðvestur af Reykjanesi.

Lífshættir: Bjúgtanni er miðsævis-, djúp- og úthafsfiskur og ýmist í smátorfum eða stakur. Fullorðnir fiskar halda sig dýpra en ungviðið. Hér veiðist hann einkum á 620- 1280 m dýpi.

Fæða er mest ýmis smá krabbadýr hjá ungviðinu en smáfiskar hjá fullorðnum fiskum. Sjálfur verður bjúgtanni öðrum stærri fiskum að bráð og sunnar í Atlantshafi hefur hann m.a. fundist í maga túnfisks, oddnefs (marlín), stóra földungs og stinglax.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?