Beitukóngur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Buccinum undatum
Danish: konk, konksnegl, trompetsnegl
Norwegian: buhund, kongsnegl
English: common whelk, European whelk
German: Wellhornschnecke
French: buccin, gros bigorneau
Spanish: bocina
Portuguese: buzo
Russian: Трубач / Trubátsj

Beitukóngur er hvítur, gulur eða brúnn á litinn, með odddregna hyrnu sem er venjulega 7–10 cm á hæð. Skelin hefur gróft kaðalmynstur sem liggur í reglulegum, bugðóttum röðum þvert á vindingana. Vindingar skeljarinnar eru 7–9 talsins. Munnopið er egglaga, ytri vörin er lítið eitt sveigð út. Neðst í munnopinu er renna sem öndunarpípa dýrsins liggur í.

Lokan, sem hylur munnopið þegar dýrið dregur sig inn í skelina, er sporöskjulaga með baugum sem myndast við breytilegan vöxt dýrsins eftir árstímum. Með því að telja baugana má greina aldur dýrsins. Elstu beitukóngar sem hafa verið aldursgreindir á þennan hátt hér á landi voru 13 ára.

Dýrið sjálft er kjötmikið með stóran hvelfdan fót, sem er hvítur eða svartflekkóttur og er höfuð dýrsins samvaxið fætinum. Það er með tveimur fálmurum og eru augun á fálmurunum. Á fullvöxnum karldýrum situr stórt vöðvamikið typpi á hægri hlið fótarins frammi við höfuð. Upp af fætinum er dýrið uppsnúið innan í kuðungnum.

Hann finnst allt frá neðri hluta fjörunnar og niður á 1200 m dýpi. Algengastur er hann þó á leir-, malar- og klapparbotni á minna en 50 m dýpi.

Fæða kuðungsins er fjölbreytt. Hann lifir mest á samlokum og burstaormum en einnig marflóm og öðrum smákrabbadýrum.

Æxlun á sér stað síðla vetrar eða snemma vors. Við mökun bregður karldýrið typpinu inn undir skel kvendýrsins og frjóvgar eggin. Við hrygningu límir kvendýrið mörg egghulstur saman í klasa. Í hverju egghulstri eru allt að 128 frjóvguð egg. Flest eggin í egghulstrinu verða fæða fyrir þá fáu kuðunga sem þroskast í ungviði. Aðeins 3–10 litlir kuðungar skríða fullþroskaðir úr hverju egghulstri eftir um það bil tveggja mánaða þroskunartíma.

Við veiðar á samlokum beitir beitukóngurinn allsérstæðri aðferð. Beitukóngurinn festir sig við aðra skel samlokunnar og bíður þar til hún opnar sig. Þá bregður hann skelröndinni í skyndi inn á milli skeljanna svo að bráðin getur ekki lokað á ný. Síðan smeygir beitukóngurinn rananum með skráptungunni inn á milli skeljanna og tekur að matast.

Við veiðar á bráð í botninum notar beitukóngurinn aðra aðferð. Á mjúkum botni getur hann grafið sig niður í botninn og ráðist þar á bráð sem getur litla björg sér veitt. Einnig getur beitukóngur teygt rana sinn ofan í botninn og gripið með honum bráðina sem eru til dæmis burstaormar eða marflær.

 

Did you find the content of this page helpful?