Beinhákarl

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Cetorhinus maximus
Danish: Brugde
Faroese: Brugda
Norwegian: Brugde
Swedish: Brugd
Plish: Dlugoszpar a. rekin gigantyczny
English: Basking shark
German: Riesenhai
French: Requin pèlerin
Spanish: Peregrino
Portuguese: Tubarâo-frade
Russian: Gigantskaya akula

Mynd vantar.

 

Beinhákarl er gildvaxinn og með stuttan haus. Trjónan er stutt, flöt og snubbótt á eldri fiskum en teygist lengra fram á þeim yngri líkt og stuttur rani og getur jafnvel aflagast svo líkist vansköpun. Kjaftur er stór og tennur smáar. Augu eru lítil. Tálknaop eru mjög löng - ná næstum því þvert yfir dýrið frá „bringu" upp í hnakka - og það fremsta lengst. Er beinhákarlinn auðþekktur á þessum löngu tálknaopum. Tálknabogarnir eru alsettir fjölmörgum löngum og mjóum horntindum sem varna því að fæðan skolist út um tálknaopin. Bakuggar eru tveir og sá fremri er á miðjum bol, stór og hár, en aftari bakugginn er lítill sem og raufaruggi. Eyruggar eru stórir og kviðuggar í meðallagi. Sporðblaðka er stór. Beinhákarlinn er næststærsta fisktegundin í heiminum og sú stærsta hér við land. Hann var talinn ná 12-15 m lengd en lengri fiskar en 10 m eru mjög fáséðir. Oftast er hann 6-7 m langur.

Litur: Beinhákarlinn er dökk-blágrár eða grábrúnn á lit og stundum næstum svartur að ofan og á hliðum, en Ijós að neðan.

Heimkynni beinhákarlsins eru í Atlants- og Kyrrahafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hann frá ströndum Múrmansk suður í Miðjarðarhaf og til Senegal í Afríku. Hann er við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. Hefur orðið vart undan Suðaustur- og Suðvestur-Grænlandi. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann frá Nýfundnalandi suður til Flórida. Í norðaustanverðu Kyrrahafi er hann frá Bresku-Kólumbíu suður til Suður- Kaliforníu. Í Suðaustur-Kyrrahafi frá Ekvador til Perú og Chile. Þá finnst hann við Japan, Kóreu og Kína og við Nýja-Sjáland og suðvestan-, sunnan- og suðaustanverða Ástralíu. Einnig við Suður-Afríku, Brasilíu og Argentínu.

Við Ísland hefur beinhákarl sést allt í kringum landið en hann er þó mun sjaldséðari í kalda sjónum norðaustan- og austanlands en sunnan- og suðvestanlands. Aðalútbreiðslusvæði hans í Norður-Atlantshafi er sunnan Íslands.

Lífshættir: Beinhákarlinn er uppsjávarfiskur og sést oft liggja í sólbaði í vatnsskorpunni. Hann á það líka til að taka undir sig stökk og hoppa eða svífa ofansjávar þó þunglamalegur sé. Giskað er á að hann sé að þessu til þess að reyna að losa sig við ýmis sníkjudýr sem eru á skrápnum. Hann er meinleysisskepna óáreittur en getur veitt þung högg og stór með sporðinum ef honum finnst sér vera misboðið.

Margt er óljóst ennþá um kynþroska og got beinhákarls. Talið er að hann gjóti ungum og þeir geti verið allt að sex í einu og um 150-160 cm langir við got. Meðgöngutími er áætlaður allt að hálfu fjórða ári.

Hængar verða kynþroska 4-5 m langir en hrygnur geta verið orðnar 8 m eða lengri.

Kenningar voru á kreiki um að beinhákarlinn legðist í vetrardvala við land- grunnsbrúnirnar þegar aðalfæða hans, dýrasvifið, er í lágmarki, en sumir telja að hann snúi sér Iíka að því að éta ýmis botndýr. Nýjustu rannsóknir gefa til kynna að beinhákarlinn haldi sig miðsævis á veturna án þess að Ieggjast í dvala.

Oft eru beinhákarlar saman í hóp og synda þá í röð í yfirborðinu og gnæfir aðeins fremri bakugginn upp úr. Líkjast þeir þá sæslöngu eða skrímsli og eiga margar skrímslasögur rætur sínar að rekja til síkra hópferla. Einnig hafa strandaðir beinhákarlar vaxnir skeldýrum líkst sæskrímslum.

Fæða beinhákarlsins er alls konar dýrasvif.

Nytjar: Áður fyrr var beinhákarlinn veiddur vegna lifrarlýsisins sem notað var til Ijósa. Stunduðu Skotar, Írar, Norðmenn og einnig Íslendingar þessar veiðar. Síðar voru það einkum Norðmenn sem stunduðu beinhákarlsveiðar í Evrópu. Þeir notuðu 20- 50 lesta báta og skutluðu beinhákarlinn úr hvalbyssu. Japanir og Kínverjar hafa veitt beinhákarl í Kyrrahafi. Margir fiskimenn líta á beinhákarlinn sem plágu í veiðarfærum sem hann flækir sig í og skemmir og telja hann því réttdræpan.

Eins og áður er það einkum lýsið úr lifrinni sem sóst er eftir en úr því er unnt að vinna ýmis verðmæt efni sem notuð eru í lyf, snyrtivörur og í hernaði. Einnig eru uggar nýttir og jafnvel holdið en oftast er skrokkunum hent í heilu lagi í hafið þegar lifur og uggar hafa verið hirt. Vegna lítillar viðkomu er beinhákarlinn í mikilli hættu gagnvart ofveið.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?