Batti

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Dibranchus atlanticus
English: Atlantic batfish
French: Chauve-souris atlantique

Batti er hausstór fiskur og er hausinn skeifulaga, breiður og afar flatur og rennur saman við bolinn. Haus og bolur mynda nánast hringlaga disk. Stirtla nokkuð sterkleg og mjókkar aftur eftir. Hreistur myndar misstórar geislagáróttar körtur á haus, bol og stirtlu. Á útjaðri hauss eru um 28 stórar körtur sem hver um sig endar í fíngerðum broddum. Framan á hausnum, rétt ofan við kjaftinn, er skúti og í honum hvílir keilulaga hnúður sem er á stöng og fiskurinn getur teygt nokkuð fram fyrir kjaftinn. Hnúðurinn er ekki ljósfæri, en talið er að hann gefi frá sér efni sem dragi að bráðina.

Kjaftur er endastæður, tennur smágerðar og mynda belti á kjálkum. Engar tennur eru á plógbeini né gómbeinum. Tálknbogatindar mynda kamb með fíngerðum tönnum. Augu fremur stór og eru á efra borði haussins nálægt trjónu. Eyruggar eru allstórir og á stuttum armi og vísa út frá fiskinum. Eyruggana notar fiskurinn til að staulast áfram á botninum, en hann mun vera lélegur til sunds. Kviðuggar nokkuð mjóir og eru á neðra borði „disksins" nálægt miðju. Einn lítill bakuggi er á miðri stirtlu og einn raufaruggi öllu minni en bakugginn og enn aftar á stirtlunni. Sporðuggi er bogadreginn fyrir endann. Batti getur orðið allt að 39 cm langur, en algengastur þó innan við 20 cm.

Litur er rauðgrár eða grábrúnn að ofan, ljósari að neðan. Lítilsháttar litamunur mun vera á fiskum við austanvert og vestanvert Atlantshaf, því litur fiska undan ströndum Afríku er oft með daufum dröfnum á baki.

Geislar: B: 5-7(6); R: 4(4); E: 13-15; K: 6; Hr.: 18-19;gelgjur 6.

Heimkynni batta i vestanverðu Atlantshafi eru frá ströndum Kanada (Stórabanka) suður með Bandaríkjunum og inn i Mexíkóflóa, Karíbahaf og suður með ströndum Suður Ameríku allt til Brasilíu. Í austanverðu Atlantshafi er batti undan Grænhöfðaeyjum, ströndum Gíneu og til Angóla. Þá hefur hann veiðst nokkrum sinnum djúpt undan norðausturströnd Írlands. Í júní 2007 veiddist 17 cm langur fiskur í botnvörpu á 550-700 m dýpi í Skaftárdjúpi (63°09'N, 17°40'V), og er það eini fiskurinn sem frést hefur af við Ísland til þessa.

Lífshættir: Batti er djúpsjávarbotnfiskur sem heldur sig á leir- og sandbotni við landgrunnsbrúnir, mest á 300-800 m dýpi, en hefur veiðst frá 45-1300 m dýpi.

Fæða er einkum burstaormar en hann étur einnig botnlægar marflær, samlokur, slöngustjörnur, krossfiska og fleiri hryggleysingja.

Nytjar: Batti er vel ætur, en mun litið notaður til manneldis.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?