Litli karfi

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Sebastes viviparus
Danish: lille rødfisk
Faroese: lítli kongafiskur
Norwegian: lusuer
Swedish: mindre kungsfisk
English: Norway redfish
German: Kleiner Rotbarsch
French: églefin Norvége, petit sébaste
Russian: Малый морской окунь / Mályj morskój ókun'

Litli karfi líkist frænda sínum, gullkarfa, í útliti en greinir sig helst frá honum í því að hann er minni og vangabeinsbroddar vísa allir aftur. Þá eru bak- og raufaruggageislar og hryggjarliðir færri og litur er einnig nokkuð frábrugðinn. Lengsti litli karfi sem veiðst hefur við Ísland mældist 38 cm og veiddist suðvestur af Reykjanesi í október árið 1991. Algeng stærð í afla er 18-25 cm.

Litur: Litli karfi er ljósrauður að ofan og á hliðum en hvítur á kvið. Hann er með dökkan blett á tálknaloki og þrjár til fjórar dökkar þverrákir á hliðum.

Geislar: B XV+12-14; R:III+7; hryggjarliðir: 29-30.

Heimkynni litla karfa eru í Norður- Atlantshafi frá Finnmörku í Noregi suður í Kattegat og norðanverðan Norðursjó, við Skotland, norðan Írlands, við Færeyjar og Ísland. Þá verður hans vart við Austur- Grænland. Við Ísland finnst litil karfi aðallega við Suður- og Suðvesturland, einnig við Vestur og Norðvesturland en hann er sjaldséður við Norður- og Austurland.

Lífshættir: 

Litli karfi lifir grynnra og nær landi en gullkarfi, er einkum á 40-100 m dýpi en finnst niður á 300 m dýpi. Hann heldur sig gjarnan yfir grýttum botni. Fæða er krabbaflær (rauðáta), ljósáta, sviflægar marflær, fiskseiði og fleira. Litli karfi gýtur lifandi afkvæmum, 3-4 mm löngum, snemma sumars. Vöxtur er hægur og verður litli karfi kynþroska um 20 cm og 10-15 ára gamall.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?