Klumbuskeggur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Chirostomias pliopterus

Klumbuskeggur er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Hann er með meðalstóran kúptan haus og allstór augu. Kjaftur er mjög stór og endastæður. Tennur eru hvassar og gisstæðar. Á framanverðum neðri skolti er stuttur hökuþráður með hnúðlaga ljósfæri á enda. Bak- og raufaruggi eru mjög aftarlega og andspænis hvor öðrum. Raufaruggi nær aðeins lengra aftur og aftan bakugga er lítill veiðiuggi. Sporðblaðka er djúpsýld.

Eyruggar eru langir, þráðlaga og kvíslast í endann og ljósfæri eru á sumum kvíslunum. Tvöföld röð ljósfæra er eftir endilangri hvorri hlið frá haus aftur að sporði. Aftan við augu er ljósfæri, smátt á hrygnum en stórt á hængum. Klumbuskeggur getur orðið 20 cm eða meira á lengd.

Litur: Klumbuskeggur er svartur á lit með grænni, blárri eða bronslitaðri slikju.

Geislar: B: 18-20,- R: 22-26.

Heimkynni klumbuskeggs eru í Norður- Atlantshafi, einkum á milli 20°og 45°N (Biskajaflói) að austan en í norðvestanverðu Atlantshafi frá djúpmiðum undan Nýja-Skotlandi (40°31 'N) suður að 20°N. Hann er ekki í Miðjarðarhafi en hefur fundist á Íslandsmiðum.

Hér veiddist einn klumbuskeggur í leiðangri Vestur-Þjóðverja á rannsóknaskipinu Walter Herwig á 505-570 m dýpi suðvestur af Reykjanesi í september árið 1971. Þá mun annar hafa veiðst á 256 m dýpi í botnvörpu í Hvalbakshalla (64°18'N, 12°33'V) í júní árið 1999. Hann var 17 cm langur. Klumbuskeggur er miðsævis- og djúpfiskur sem heldur sig oftast á meira dýpi en 500 m á daginn en grynnkar á sér á nóttunni.

Fæða er einkum fiskar.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?