Glyrnir

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Epigonus telescopus
Danska: djævlefisk, kikkertfisk
Færeyska: kikarafiskur
Norska: dyphavsabbor, telespopfisk
Enska: bigeye, bulls-eye, cardinalfish, black cardinal fish
Þýska: Taufelsfisch
Franska: pomatome télescope, poisson cardinal blanc
Spænska: boca negra, pez del diablo
Portúgalska: olhudo, salmonete-da-fundura
Rússneska: Большеглаз / Bol'shegláz, Эпигонус-телескоп / Epigónus-teleskóp

Glyrnir er hausstór og sívalur fiskur, með stóran og djúpsýldan sporð. Augu eru mjög stór og sjálflýsandi þegar fiskurinn er dreginn upp úr djúpum hafsins. Kjaftur er skástæður og framskjótanlegur. Tennur eru smáar og þéttstæðar í breiðum. Bakuggar eru tveir, svipaðir að stærð. Sá fremri er með 7-8 broddgeisla en sá aftari einn broddgeisla og 9-11 liðgeisla. Raufaruggi er svipaður aftari bakugga að stærð og lögun og byrjar á móts við aftari rætur hans. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir. Kviðuggar eru undir rótum eyrugga. Hreistur er stórt og rák er greinileg. Glyrnir getur náð 75 cm stærð. Hér hafa glyrnar mælst lengstir 30—40cm.

Litur: Glyrnir er dökkbrúnn eða svart- fjólublár á lit en silfurgrár á hliðum. Kjaftur er svartur að innan.

Geislar: B 1: VII—VIII; B2: 1 + 8—11,- R: 11+9, hryggjarliðir: 23-27.

Heimkynni glyrnis eru í vestanverðu Miðjarðarhafi og austanverðu Atlantshafi undan Angola og Elínareyju (St. Helenu) og hans hefur orðið vart við Suður-Afríku, við Asoreyjar og norður fyrir Bretlandseyjar. Talsvert mun vera um glyrni á 200 -900 m dýpi vestan Írlands. Hann hefur veiðst við Noreg og veiðist alloft á djúpmiðum við suður- og suðvestanvert Ísland. Tveir fiskar hafa veiðst undan Suðaustur-Grænlandi.

Hér veiddust tveir glyrnar á 366 m dýpi í Háfadjúpi í september árið 1967. Þeir voru 32 og 34 cm langir. Síðan hafa allmargir veiðst til viðbótar á 300-800 m dýpi undan suður- og suðvesturströnd Íslands.

Lífshættir: Glyrnir er miðsævis- og botnfiskur sem veiðst hefur á 75 – 1200 m dýpi en er sennilega algengastur á 300 – 800 m dýpi. Fæða er einkum smáfiskar, t.d. laxsíldir og svifdýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?