Veiðar á Íslandsmiðum

Höfundur

Hafrannsóknastofnun

Birt

10.12.2024

Helstu breytingar

  • Aðgerðir við fiskveiðustjórnun helstu nytjastofna (þ.e. þorskur, ýsa, ufsi, gullkarfi og íslensk sumargotssíld) hafa leitt til minnkandi veiðiálags, sem er við skilgreind gátmörk hámárksafraksturs (FMSY) eða veiðihlutfalls (HRMSY), og stærri hrygningastofna síðustu tvo áratugina.

  • Sókn með flestum veiðarfærum hefur minnkað frá árinu 1991. Minni sókn með dregnum botnveiðarfærum, aðalega botnvörpu, hefur að öllum líkindum minnkað álag á búsvæði botndýra.

  • Sókn og afli þriggja uppsjávartegunda hefur aukist frá íslenska hafsvæðinu vegna breytinga á göngumynstri, sem hefur verið tengt við breytt fæðuframboð, breytinga á ástandi sjávar og stofnstærðar. Þetta eru kolmunnaveiðar, sem hófust seint á tíunda áratug síðustu aldar, veiðar á makríl sem hófust um árið 2005 og veiðar á norsk-íslenskri vorgotssíld sem hófust aftur um aldamótin.

  • Útbreiðsla og veiðisvæði nokkurra annarra tegunda (t.d. ýsu, gullkarfa, skötusels, löngu, þykkvalúru og langlúru) hafa færst norðar og tengist hækkandi sjávarhita.

  • Stofnstærðir nokkurra tegunda, þar á meðal djúpkarfa, lúðu, hlýra, humars og rækju, hefur minnkað mikið vegna of mikils veiðiálags og minnkandi framleiðni stofnanna. Bein veiði í lúðu og humar er nú bönnuð.

  • Flestar botnfiskategundir eru veiddar í blönduðum veiðum. Hlutfall blöndunar fer eftir því hver sóknartegundin er. Til dæmis er stærsti hlut þorsks veiddur í veiðum sem er beint að tegundinni. Nokkrar tegundir eru veiddar sem meðafli, eins og hlýri, lúða, litli karfi og sköturselur. Meðafli í uppsjávarveiðum er lítill.

  • Reglugerð um að hefja aftur veiðar á langreyðum og hrefnum tóku gildi árið 2009. Hins vegar hefur ekki verið veitt á hverju ári.

  • Meðafli verndaðra tegunda, tegundum í útrýmingahættu og tegundum sem teljast í hættu er mestur í netaveiðum. Af einstökum sjófuglategundum voru álka og æðarfugl helstu meðaflategundirnar, en landselur og hnísa af sjávarspendýrum. Áætlaður árlegur meðafli sjófugla í grásleppuveiðum hefur minnkað síðustu ár en ekki er ljóst hver orsökin er.

  • Fæðusvæði loðnu að sumri hefur færst út úr íslenska hafsvæðinu og yfir í það grænlenska. Þó þetta hafi ekki bein áhrif á íslenskar loðnuveiðar, sem fara fram að vetri til, getur það haft óbein áhrif á dreifingu og vöxt afræningja, og sem önnur veiði byggir á.

Inngangur

Íslenska hafsvæðið er skilgreint sem hafsvæðin innan 200 sjómílna efnahagslögsögu Íslands (Mynd 1). Á hafsvæðum umhverfis Ísland mætast Mið-Atlantshafshryggurinn og Grænlands-Skotlandshryggurinn skammt sunnan við heimsskautsbaug. Þessi hafsvæði verða fyrir sterkum áhrifum úthafsins og þar mætast hafstraumar af ólíkum uppruna. Hlutfallslega hlýr og saltur Atlantssjór kemur upp að landinu sunnanverðu og streymir þaðan annars vegar austur fyrir land í Noregshaf og hins vegar vestur fyrir land á landgrunnssvæði norður af landinu. Með Austur-Grænlandsstraumi og Austur-Íslandsstraumi berst kaldur og seltulítill sjór úr Grænlandshafi á hafsvæðin norður og austur af landinu.

Á hafsvæðinu umhverfis Ísland eru veiddir yfir 40 stofnar af fiskum og hryggleysingjum. Helstu tegundir botnfiska eru þorskur, ýsa, ufsi, gullkarfi, djúpkarfi, grálúða, skarkoli, steinbítur, keila og langa. Eru botnvörpuveiðar á þorski, ýsu, ufsa og gullkarfa mikilvægustu botnveiðarnar sem fara fram á landgrunninu allt í kringum landið. Helstu uppsjávarstofnar eru loðna og íslensk sumargotssíld, sem og norsk-íslensk vorgotssíld, kolmunni og makríll sem teljast flökkustofnar. Við uppsjávarveiðar er notuð flotvarpa og hringnót. Rækja og sæbjúga (brimbútur) eru helstu tegundir hryggleysingja sem veiddar eru á Íslandsmiðum.

Veiðum á íslenska hafsvæðinu er að mestu stjórnað af íslenskum stjórnvöldum, en sumir stofnar eru undir stjórn Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og í samræmi við samninga strandríkja (milli Íslands, Grænlands, Færeyja og Noregs). Stefnumörkun í umhverfismálum er á hendi íslenska ríkisins og stofnana þess. Hafrannsóknastofnun veitir ráðgjöf um veiðar á Íslandsmiðum auk ýmissa alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC) gefur út reglur um verndun og veiðar á hvölum, en veiði- og verndunarráðgjöf er varða sjávarspendýr er auk þess veitt af Norður-Atlantshafs sjávarspendýra-ráðinu (NAMMCO).

Í þessu yfirliti er að finna:

  • Stutta lýsingu á fiskveiðiflota þeirra þjóða sem stunda veiðar á hafsvæðinu í kringum Ísland, veiðarfærum sem notuð eru við veiðarnar og veiðimynstur.
  • Samantekt á stöðu nytjastofna og veiðiálag á stofna m.t.t. stjórnunarmarkmiða og viðmiðunarmarka.
  • Mat á áhrifum veiðarfæra á vistkerfið vegna skarks á botni og róti á botnseti og áhrif á stofna sem eru í hættu og á undanhaldi vegna fiskveiða.
Mynd 1: Íslenska hafsvæðið (blátt svæði, sjá nánari lýsingu í texta).

Lýsing veiðanna

Við fiskveiðar á Íslandsmiðum eru notuð margvísleg veiðarfæri. Meginhluti veiðanna, bæði uppsjávar og við botn, fer fram á innan við 500 m dýpi. Sókn með botnvörpum (fiskibotnvarpa, rækjuvarpa og humarvarpa), flotvörpu, hringnót, netum og dragnót hefur farið minnkandi síðastliðna tvo áratugi (Mynd 2 og Mynd 4). Sókn með handfærum og línu jókst frá aldamótum fram til ársins 2010 en hefur minnkað síðan þá, þó hún sé enn mikil. Á Mynd 3 er sýnd meðaldreifingu veiða árin 2020, 2021 og 2023 eftir gerð veiðarfæra.

Botnvörpuveiðar

Á Íslandsmiðum er sókn mest með botnvörpum ef miðað er við kW (afl) daga á sjó (Mynd 2). Botnvörpuveiðar eru stundaðar á landgrunni og landgrunnshalla Íslands, en eru mestar á landgrunnshallanum vestur og norðvestur af landinu (Mynd 3). Aflasamsetning miðast við svæði og dýpi þar sem veitt er en einnig gerð botnvörpu, m.a. möskvastærð sem ræðst af því hvaða tegundum er sóst eftir. Helstu sóknartegundirnar eru þorskur, ufsi og gullkarfi (Mynd 5). Lágmarksmöskvastærð poka botnvörpunnar við þessar veiðar er 135 mm. Á sumum svæðum eru botnvörpveiðar bannaðar 3–12 sjómílum frá landi en það fer þó eftir eðli veiða og stærð skipa. Frá árinu 1991 hefur sókn með botnvörpu minnkað mikið (Mynd 4). Þá eru einnig umtalsverðar veiðar á ýsu með fiskibotnvörpu á landgrunninu allt í kringum landið í blönduðum veiðum (sjá að neðan kaflann Blandaðar veiðar). Þessar veiðar eru grynnra en veiðar á þorski (Mynd 5). Á landgrunnshallanum á um 500–1000 m dýpi eru helstu sóknartegundirnar grálúða norður og austur af landinu, djúpkarfi suðvestur og vestur af landinu og gulllax suður og suðvestur af landinu (Mynd 5).

Við humarveiðar á afmörkuðum svæðum suður og suðvestur af landinu (Mynd 3) er notuð botnvarpa með minni möskvastærð í poka (70–100 mm). Sókn með humarvörpu hefur minnkað mikið frá árinu 1991 og frá árinu 2022 hafa veiðar verið bannaðar vegna bágs ástands stofnsins (Mynd 4).

Við rækjuveiðar, sem er að mestu stundaðar norður af Íslandi (Mynd 3), er notuð botnvarpa (rækjuvarpa) þar sem möskvastærð poka er um 40 mm. Sókn með rækjuvörpu minnkaði hratt frá árinu 1994 til ársins 2005 og hefur síðan þá verið lítil (Mynd 4). Ástæða þessarar sóknarminnkunar er hrun fimm af átta innfjarðarrækjustofnum, en einnig hafa veiðar á úthafsrækju, sem er stærsti stofninn, minnkað mikið.

Dragnótaveiðar

Dragnótaveiðar eru að stundaðar á mjúkum botni nálægt landi, mest vestur og suður af landinu (Mynd 3). Helstu sóknartegundir eru flatfiskar eins og skarkoli, langlúra og þykkvalúra (Mynd 5) en einnig er veitt talsvert af þorski, ýsu og steinbít. Sókn með dragnót hefur minnkað um helming á tímabilinu 1991–2023 (Mynd 4).

Veiðar með kyrrstæðum veiðarfærum (net, lína og handfæri)

Næst mest er sókn með kyrrstæðum veiðarfærum, þ.e. línu, netum og handfærum (Mynd 2). Þessar veiðar eru einnig stundaðar á landgrunninu og á landgrunnshallanum allt í kringum landið (Mynd 3).

Netaveiðar hafa lengst af verið stundaðar á grunnslóð (Mynd 3). Mest er veitt af hrygningarþorski á hrygningarsvæðum suður og vestur af Íslandi fyrstu fimm mánuði ársins. Netaveiðar á grásleppu eru helst stundaðar í fjörðum norður og vestur af Íslandi. Einnig eru netaveiðar á grálúðu og skötusel og eru þær veiðar dýpra, einkum grálúðuveiðarnar (Mynd 3). Sókn með netum hefur minnkað mikið frá árinu 2004 vegna minni netaveiði á þorski og ufsa (Mynd 4). Frá árinu 2015 hefur netasókn í grálúðu aukist umtalsvert á landgrunnshallanum norður og austur af landinu.

Sókn með línu jókst hratt á árunum 1998–2005 en hefur síðan farið minnkandi (Mynd 4). Sókn með handfærum jókst á árunum 2008–2014, en hefur minnkað síðan (Mynd 4). Þessar veiðar eru að mestu stundaðar á grunnslóð (Mynd 3) þar sem sóknartegundirnar eru þorskur, ýsa og steinbítur (Mynd 5), en einnig hefur undanfarin ár um 2-5 % afla makríls verið veiddur af handfærabátum. Línuveiðar á meira dýpi beinast að þorski, löngu, keilu og blálöngu (Mynd 5).

Flotvörpu- og hringnótaveiðar

Sókn með flotvörpu og hringnót hefur sveiflast mikið á tímabilinu 1991–2023 en hefur farið minnkandi frá 2012 (Mynd 4). Flotvörpu- og hringnótaveiðar eru stundaðar á öllum miðum í kringum landið (Mynd 3) en er breytileg eftir dreifingu sóknartegundar (Mynd 6).

Uppsjávarflotinn sem beinir sókn sinni að síld (íslensk sumargotssíld og norsk-íslensk vorgotssíld), loðnu, makríl og kolmunna samanstendur af stórum skipum sem nota bæði flotvörpur og hringnætur. Frá árinu 2005 hefur mestur hluti uppsjávaraflans verið veiddur með flotvörpu og á sama tíma hafa veiðar í hringnót minnkað mikið (Mynd 4). Frá árinu 2011 hefur sókn með flotvörpu minnkað um meira en 80 % og er ástæðan minnkandi loðnuveiði en einnig minni kolmunna- og makrílveiði innan landhelginnar (Mynd 4). Veiðar með hringnót beinast að loðnu og síld en frá árinu 2008 hafa slíkar veiðar lítið verið stundaðar (Mynd 4).

Útbreiðsla norsk-íslenskrar vorgotssíldar, makríls og kolmunna er á stóru svæði í Norðaustur-Atlantshafi, þar á meðal innan íslensku efnahagslögsögunnar. Á árunum 2007–2023 var 45–99 % makrílafla íslenska flotans veiddur innan íslensku efnahagslögsögunnar, á bilinu 45–99 % af heildarafla norsk-íslensku vorgotssíldarinnar og á bilinu 8–20 % af heildarafla íslenska kolmunnaaflans (fyrir utan 2011 þegar kolmunnaaflinn var mjög lítill vegna lítillar stofnstærðar kolmunna).

Þá var hluti neðri stofns úthafskafa verið veiddur með flotvörpu innan íslensku lögsögunnar þar sem einungis íslensk skip mega stunda veiðarnar. Sókn íslenskra frystitogara í stofninn minnkaði úr 32 skipum árið 1996 í 4–5 skip árin 2015–2018. Íslendingar hafa ekki stundað veiðar á úthafskarfa frá árinu 2019.

Plógveiðar

Plógveiðar eru stundaðar fremur grunnt innan sem utan fjarða við vestur- og austurströndina. Mikilvægustu plógveiðarnar síðari ár eru veiðar á sæbjúgum sem hófust árið 2008. Aðrar tegundir sem eru veiddar með plógi eru ígulker, hörpudiskur og kúfskel en sókn í þessar tegundir hefur verið tiltölulega lítil undanfarin ár.

Hvalveiðar

Frá því að atvinnuveiðar á hrefnu hófust aftur árið 2006 hafa flest dýr verið veidd í Faxaflóa. Hrefnuveiðar eru stundaðar á litlum opnum bátum og dýrin skotin með 50 mm sprengjuskutli. Veiðar á langreyði hafa farið fram á hvalveiðiskipum (50 m lengd) utan landgrunnsins vestur af landinu, en árin 2014 og 2015 færðist veiðin sunnar og austar um haustið. Við veiðar á langreyði er notaður 90 mm sprengiskutull.

Frístundaveiðar

Frístundaveiðar eru annars vegar sjóstangaveiði fyrir ferðamenn og hins vegar veiðar til eigin neyslu (e. subsistence fishery). Þessar veiðar eru undanþegnar aflamarkskerfikerfinu og óheimilt er að selja eða fénýta aflann. Veiðileyfi eru nauðsynleg fyrir veiðar í ferðaþjónustugeiranum. Þorskur er helsta tegundin sem er veidd, en ýsa er einnig veidd, sérstaklega í veiðum til eigin neyslu. Tölulegar upplýsingar um veiðarnar eru ekki tiltækar.

Mynd 2: Sókn (þúsund kW dagar á sjó) með helstu veiðarfærum 1991–2023 (kyrrstæð veiðarfæri frá árinu 2000) byggt á afladagbókum íslenskra fiskiskipa.
Mynd 3: Dreifing meðalsóknar íslenskra fiskiskipa á hafsvæðunum við Ísland 2020, 2021 og 2023, skipt eftir veiðarfærum.
Mynd 4: Sókn einstakra veiðarfæra frá 1991 byggt á afladagbókum íslenskra fiskiskipa. Gögn voru ekki til fyrir árið 2022 nema fyrir handfæri. Gögn fyrir handfæri eru einungis til frá árinu 2000 og voru ekki til fyrir árið 2021. Athugið að skalinn á y-ás er mismunandi eftir veiðarfærum.

Mynd 5: Dreifing afla botnfiska og flatfiska á hafsvæðunum við Ísland. Aflinn (í tonnum) er hlutfallslegur innan hverrar myndar, en ekki á milli mynda. Byggt á afladagbókum íslenskra skipa 2019–2023.

Mynd 6: Dreifing afla uppsjávarfiska á hafsvæðunum við Ísland. Myndirnar sýna aflann yfir allt árið (efst til vinstri) og síðan ársþriðgjungslega (janúar-apríl, maí-ágúst og september-desember). Aflinn (í tonnum) er hlutfallslegur innan hverrar myndar, en ekki á milli mynda. Byggt á afladagbókum íslenskra skipa 2019–2023.

Aflaþróun

Veiðar innan íslensku efnahagslögsögunnar eru fjölbreyttar og eru veiddar tegundir sem teljast botnsjávarfiskar (bol- og flatfiskar), uppsjávarfiskar, djúpsjávartegundir og hryggleysingjar. Tafla 5 í Viðauka sýnir landaðan afla allra tegunda og stofna af Íslandsmiðum árin 2020–2023. Á þessu tímabili var landað afla 62 tegunda. Helstu tegundirnar sem eru veiddar eru þorskur, ýsa, ufsi, gullkarfi, djúpkarfi, grálúða, skarkoli, steinbítur, loðna, síld (íslensk sumargotssíld og norsk-íslensk vorgotssíld), makríll og kolmunni. Botnfiskar eru mest veiddir með botnvörpu, línu, handfærum, netum og dragnót. Við veiðar á uppsjávarfiskum (síld, loðnu, makríl og komunna) er notuð hringnót og flotvarpa og úthafskarfi er veiddur í flotvörpu. Hryggleysingjar eins og humar og rækja eru veiddir í botnvörpu en plógur er notaður við veiðar á sæbjúgum, hörpudiski og ígulkerum.

Landaður afli

Landaður afli á Íslandsmiðum tvöfaldaðist frá því snemma á sjötta áratug síðustu aldar fram að síðari hluta þess sjöunda eða úr 750 þúsund tonnum í 1,5 milljón tonn vegna aukningar á síldarafla (Mynd 7). Þegar norsk-íslenski og íslensku sumar- og vorgotsíldarstofnarnir hrundu í lok sjöunda áratugarins dróst landaður afli saman og var svipaður og í byrjun sjötta áratugarins. Aflinn samanstóð að mestu af botnfiskum. Á tímabilinu 1970–2005 jókst árlegur afli jafnt og þétt og náði hámarki á árunum 1997–2002 þegar hann var á bilinu 1,4–1,9 milljón tonn. Þessi aukning var að mestu vegna veiða á uppsjávartegundum sem höfðu ekki verið nýttar áður: loðnuveiðar sem hófust í byrjun sjöunda áratugarins, kolmunnaveiðar sem hófust á síðari hluta tíunda áratugarins og makrílveiðar sem hófust árið 2006 (Mynd 8). Bolfiskaafli minnkaði að sama skapi á þessu tímabili einkum vegna minni þorskafla (Mynd 8). Frá 2002–2020 minnkaði árlegur heildarafli í um 750 þúsund tonn, aðallega vegna minni loðnuafla. Síðan árið 2020 hefur aflinn auknist vegna aukins loðnuafla og var árlegur heildarafli á árunum 2021–2023 á bilinu 1,0–1,4 milljón tonn.

Uppsjávarveiðar með flotvörpu og hringnót er stærsti hluti heildaraflans sem veiddur er á Íslandsmiðum, síðan koma botnvörpu- og dragnótaveiðar og þá línu- og netaveiðar (Mynd 9).

Mynd 7: Landaður afli (þúsund tonn) á íslenska hafsvæðinu 1950–2023 skipt eftir þjóðum. Sýndar eru þær fimm þjóðir sem veitt hafa mest á tímabilinu, en samanlagður afli annarra þjóða er táknað sem „Aðrar þjóðir“.
Mynd 8: Landaður afli (þúsund tonn) á íslenska hafsvæðinu 1950–2023 skipt eftir tegundahópum. Í Tafla 3 í Viðauka er að finna flokkun tegunda í tegundahópa.
Mynd 9: Landaður afli (þúsund tonn) íslenska fiskveiðiflotans veiddur á íslenska hafsvæðinu 1966–2023, skipt eftir veiðarfærum.

Bolfiskar

Árlegur landaður afli bolfiska minnkaði frá 1950 til 1995 en hefur síðan verið tiltölulega stöðugur (Mynd 8). Mest er veitt af þorski (Mynd 10). Afli þorsks náði hámarki árið 1954 þegar 546 þúsund tonnum var landað. Árlegur þorskafli minnkaði með sveiflum og náði lágmarki árið 2008 þegar aflinn var 146 þúsund tonn. Síðan þá jókst árlegur þorskafli og var um 265 þúsund tonn árin 2018–2021, svipað og árin fyrir aldamót. Síðustu tvö ár hefur þorskaflinn hinsvegar minnkað og var árið 2023 tæp 220 þúsund tonn.

Afli ýsu í seinni tíð fór hæst í um 100 þúsund tonn á árunum 2005 til 2008, sem er nærri hæstu aflatölum sjöunda áratugar seinustu aldar, en hefur síðan aukist talsvert og er nú svipaður og hann var á árunum 1975 til 2000 (Mynd 10). Árlegur afli ufsa og gullkarfa hefur verið tiltölulega stöðugur undanfarna tvo áratugi en afli djúpkarfa hefur minnkað mikið (Mynd 10).

Afli annarra bolfiska, eins og steinbíts, löngu, blálöngu, keilu og hrognkelsis, hefur sveiflast mikið á tímabilinu en hefur almennt minnkað undanfarinn áratug (Mynd 11).

Mynd 10: Landaður afli (þúsund tonn) bolfiskstegunda frá íslenska hafsvæðinu 1950–2023, skipt eftir fimm tegundum sem mest hefur verið veitt af á tímabilinu.
Mynd 11: Landaður afli (þúsund tonn) sex bolfiskstegunda frá íslenska hafsvæðinu 1950–2023.

Uppsjávartegundir

Afli uppsjávartegunda hefur sveiflast mikið frá árinu 1950 (Mynd 12). Frá 1950 til 1967 var eingöngu veidd síld (norsk-íslensk vorgotssíld og íslensku sumar- og vorgotsíldarstofnarnir). Þegar síldarstofnarnir hrundu í lok sjöunda áratugarins hófust loðnuveiðar og á tímabilinu 1977–2003 var árlegur loðnuafli flest árin á bilinu 800 þúsund og 1,1 milljón tonn. Síðan 2003 hefur árlegur loðnuafli minnkað og var á tímabilinu 2003–2018 að meðaltali um 360 þúsund tonn. Engar loðnuveiðar voru stundaðar árin 2019 og 2020 en árin 2021–2023 var loðnuaflinn 200–620 þúsund tonn. Frá því um árið 2000 hefur hlutfallslegt vægi loðnu minnkað og vægi flökkustofna (norsk-íslensk vorgotssíld, kolmunni og makríll) og íslensku sumargotssíldinnar aukist (Mynd 12). Árin 2019 og 2020 var tiltölulega litlum uppsjávarafla landað af Íslandsmiðum einkum vegna þess að engar loðnuveiðar voru stundaðar en einnig vegna þess að veiðar á kolmunna og makríl innan íslensku lögsögunnar minnkuðu. Veiðar á makríl innan íslensku lögsögunnar hafa minnkað frá árinu 2016 (Mynd 12).

Mynd 12: Landaður afli (þúsund tonn) fjögurra uppsjávartegunda frá íslenska hafsvæðinu 1950–2023. Samanlagður afli annarra tegunda (spærlingur og norræna gulldepla) er táknað sem „annað“.

Flatfiskar

Grálúða er sú flatfiskategund sem mest hefur verið veitt af á Íslandsmiðum (Mynd 13). Grálúðuaflinn náði hámarki árið 1989 þegar rúmum 59 þúsund tonnum var landað. Síðan þá hefur aflinn minnkað og var árlegur afli á árunum 2004–2023 á bilinu 10-18 þúsund tonn. Næst mest hefur verið veitt af skarkola. Árlegur afli 1998–2021 hefur verið nokkuð stöðugur á bilinu 5–8 þúsund tonn. Veiðar á öðrum flatfiskum hafa verið tiltölulega litlar samanborið við grálúðu og skarkola. Talsverðar veiðar voru á sandkola og skrápflúru á árunum 1990–2005 en lítið er veitt af þessum tegundum nú. Afli lúðu hefur minnkað mikið frá því 1951 þegar um 6 600 tonnum var landað. Lítið er nú veitt af lúðu og hefur árlegur afli verið minni en 200 tonn frá árinu 2012 þegar bein sókn í lúðu var bönnuð.

Mynd 13: Landaður afli (þúsund tonn) flatfiskategunda frá íslenska hafsvæðinu 1950–2023, skipt eftir sjö tegundum sem veitt hefur verið af á tímabilinu.

Hryggleysingjar

Afli krabbadýra (humar og rækja) hefur minnkað mjög mikið frá því byrjun tíunda áratugar síðustu aldar einkum vegna minni rækjuafla en afli humars hefur líka minnkað mikið á undanförnum árum (Mynd 14). Frá árinu 2009 hafa litlar skeldýraveiðar verið stundaðar eftir að stofn hörpudisks hrundi árið 2003 og svo vegna minni veiði á kúfskel frá árinu 2009 (Mynd 15). Árið 2008 hófust veiðar á sæbjúga og undanfarin ár hefur aflinn aukist og var mestur árin 2018 og 2019.

Mynd 14: Landaður afli (þúsund tonn) rækju og humars frá íslenska hafsvæðinu 1950–2023.
Mynd 15: Landaður afli (þúsund tonn) fimm tegunda hryggleysingja frá íslenska hafsvæðinu 1950–2023, skipt eftir fimm tegundum sem mest hefur verið veitt af á tímabilinu.

Brjóskfiskar

Veiðar á brjóskfiskum á Íslandsmiðum hafa almennt verið litlar (Mynd 16). Mest hefur verið veitt af ýmsum skötutegundum, en frá árinu 1990 hafa veiðar á tindaskötu verið uppistaða brjóskfiskaaflans. Litlu er landað af öðrum tegundum.

Mynd 16: Landaður afli (þúsund tonn) brjóskfiska frá íslenska hafsvæðinu 1950–2021, skipt eftir fimm tegundum og tegundahópum sem mest hefur verið veitt af á tímabilinu. Samanlagður afli annarra tegunda er táknað sem „annað“. Athugið að fyrir árið 1992 voru skötur og háfar ekki greind til tegunda og því sett í tegundahópana „skötur“ og „háfar“.

Sjávarspendýr

Árlega voru um 200 hrefnur veiddar 1974–1985 þegar hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins tók gildi (Mynd 17). Frá því að atvinnuveiðar á hrefnu við Ísland hófust aftur árið 2007 hefur fjöldi veiddra hrefna verið sveiflukenndur og minnkandi. Mest var veitt af hrefnum árið 2009 eða 81 dýr, en aðeins 6 hrefnur voru veiddar árið 2018. Engar hrefnuveiðar hafa verið stundaðar frá árinu 2019 að undanskildu árinu 2021 þegar einungs ein hrefna var veidd.

Á árunum 1948-1985 voru árlega veiddar 150–350 langreyðar (Mynd 17). Eftir að veiðar á langreyði hófust aftur árið 2009 hafa að meðaltali verið veidd 140 dýr á ári á þeim árum sem veiðarnar voru stundaðar. Veiðar á langreyði voru ekki stundaðar árin 2011–2012, 2016–2017 og 2019–2021.

Á síðustu öld voru hefðbundnar selveiðar hér við land aðallega á kópum landsels og útsels vegna skinna, en eldri selir og flökkuselir voru einnig nýttir. Á árunum 1962–1987 var árleg heildarveiði 3 000–7 000 selir, mest landselur. Frá árinu 1987 dró jafnt og þétt úr selveiði og á árunum 2002–2021 var skráður afli (þ.m.t. meðafli fiskibáta) undir 1 000 dýrum. Samkvæmt lögum frá 2019 eru veiðar á öllum selategundum bannaðar.

Mynd 17: Fjöldi veiddra hvala frá íslenska hafsvæðinu 1865–2023.

Brottkast

Brottkast á tegundum sem eru bundnar aflamarki (kvóta) er bannað. Samkvæmt lögum er því skylda að landa öllum afla þessara tegunda sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Heimilt er að varpa fyrir borð fiski sem hafa lítið eða ekkert verðgildi (t.d. selbitinn fiskur) og verðlitlum tegundum sem eru ekki innan aflamarkskerfisins (tegundaháð brottkast). Engar mælingar eru gerðar á slíku brottkasti og því ekki vitað um magnið. Engar mælingar eru heldur gerðar á öðru tegundaháðu brottkasti, t.d. þegar skip hefur ekki kvóta í viðkomandi tegund, eða brottkast á fiski sem er búinn að vera lengi í veiðarfærum eða fiskmóttöku.

Mælingar á lengdarháðu brottkasti, þ.e. brottkast á fiski undir ákveðinni lengd verðmætra tegunda eins og þorsks og ýsu, hafa verið gerðar frá árinu 2001. Aðferðin byggir á því að til séu lengdarmælingar á afla upp úr sjó annarsvegar (mælingar um borð í skipum), þ.e. áður en hugsanlegt brottkast á sér stað, og hinsvegar lengdarmælingar á lönduðum afla, þ.e. eftir að brottkast hefur farið fram. Lengdarháð brottkast á þorski árin 2001-2018 var metið 0,05-2,62 % af heildarafla þorsks í tonnum, en 0,01-4,75 % hjá ýsu. Töluverður breytileiki er á lengdarháðu brottkasti þessara tegunda frá ári til árs.

Hverjir veiða

Fiskveiðar við Ísland eru að langmestu leyti stundaðar af Íslendingum, en lítill hluti er veiddur af nágrannaþjóðum (Grænland, Færeyjar og Noregur) vegna tvíhliða- og strandríkjasamninga. Eftir að íslenska efnahagslögsagan var stækkuð í 200 sjómílur árið 1975, hefur erlendum skipum ekki verið leyft að stunda veiðar innan lögsögunnar án samninga (Mynd 7). Um 1 750 skip og bátar stunda veiðar við Ísland. Í þessum kafla er lýst flota og veiðum þeirra þjóða sem stunda veiðar innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Ísland

Íslenski fiskveiðiflotinn er fjölbreyttur, allt frá litlum eins manns trillum í fullvinnsluskip með tugi manna í áhöfn. Um 1 535 íslensk skip og bátar stunduðu fiskveiðar árið 2023 og hefur fækkað um 480 frá árinu 1999 þegar 1 976 skip og bátar stunduðu veiðar (Mynd 18). Opinberar tölur aðgreina íslenska flotann í þrjá megin flokka: Togarar, vélskip (þilskip) og opnir bátar (smábátar).

Mynd 18: Fjöldi íslenskra fiskiskipa árin 1999–2023 skipt eftir gerð skipa. Vélskip eru yfirbyggð vélskip önnur en togarar.

Togarar

Um 40 togarar (30–90 m langir frysti- og ísfisktogarar og eru á bilinu 200 til 2 000 brúottonn að stærð) stunda botnvörpuveiðar við Ísland og veiða mest þorsk, ýsu, ufsa, gullkarfa, djúpkarfa og grálúðu og hefur þeim fækkað um meira en helming frá árinu 1999 (Mynd 19).

Mynd 19: Fjöldi íslenskra togara árin 1999–2023 skipt eftir stærð skipa í brúttótonnum.

Vélskip (þilskip)

Í flokki vélskipa er að finna ýmsar gerðir skipa, sem eru frá 10 brúttótonnum til 4 500 brúttotonn að stærð. Þetta er lang fjölbreyttasti skipaflokkurinn þar sem hann spannar frá allt frá litlum bátum til stórra skipa og inniheldur dragnótabáta, litla togara, línuveiðiskip og nóta- og flotvörpuskip (Mynd 20). Á bilinu 20 til 28 uppsjávarskip (60–90 m löng) veiða loðnu, síld, makríl og kolmunna með flotvörpu og hringnót. Um 45 dragnótabátar (10–45 m langir) stunda veiðar á Íslandsmiðum og veiða þorsk, ýsu, skarkola og aðrar flatfiskategundir. Skip sem nota kyrrstæð veiðarfæri, eins og línu og net, eða litlar botnvörpur til veiða á humri, rækju, þorski og ýsu eru um 650 (10–50 m löng).

Mynd 20: Fjöldi íslenskra vélskipa árin 1999–2023 skipt eftir stærð skipa í brúttótonnum. Vélskip eru yfirbyggð vélskip önnur en togarar.

Opnir bátar (smábátar)

Um 820 smábátar (opnir fiskibátar) hafa stundað handfæraveiðar á þorski og netaveiðar á hrognkelsi undanfarin ár (Mynd 21). Hefur smábátum fækkað um rúm 300 frá árinu 1999. Smábátar eru minni en 10 m að lengd og eru allt að 10 brúttótonn að stærð, þó mesti fjöldinn í þessum flokki sé minni en 6 brúttótonn. Margir þessara smábáta eru og knúnir öflugum vélum. Smábátar stunda veiðar á grunnsævi eða nálægt ströndinni.

Mynd 21: Fjöldi íslenskra smábáta (opnir bátar) árin 1999–2023 skipt eftir stærð skipa í brúttótonnum.

Hvalveiðiskip

Tvö hvalveiðiskip (50 m löng) hafa veitt langreyði á þeim árum sem þær veiðar hafa verið stundaðar á tímabilinu 2009–2023. Á árunum 2003–2018 stunduðu 3–5 vélbátar (15–25 m langir) veiðar á hrefnu.

Færeyjar

Færeyingar hafa aflahlutdeild í loðnu og samkvæmt strandríkjasamningi er þeim heimilt að veiða innan íslensku lögsögunnar. Á árunum 2015–2018 og árið 2021–2023 stunduðu 4–6 færeysk uppsjávarskip loðnuveiðar með flotvörpu innan lögsögunnar. Loðnuveiðar voru ekki stundaðar á Íslandsmiðum 2019–2020. Einnig er í gildi tvíhliðasamningur milli Íslands og Færeyja, sem er endurskoðaður árlega, og veitir færeyskum línuskipum heimild til að veiða botnsjávartegundir innan íslensku efnahagslögsögunnar. Frá árinu 2011 hafa um 15 færeysk línuskip stundað veiðar við Ísland, mest á þorski, ýsu, löngu og keilu. Á árunum 2019–2023 stunduðu 11 til 19 færeysk uppsjávarskip veiðar á norsk-íslenskri vorgotssíld og kolmunna innan íslensku lögsögunnar.

Grænland

Grænlendingar hafa aflahlutdeild í loðnu og samkvæmt strandríkjasamningi er þeim heimilt að veiða innan íslensku lögsögunnar. Á árunum 2015–2018 og 2021–2023 stunduðu 1–3 grænlensk uppsjávarskip loðnuveiðar með flotvörpu innan lögsögunnar. Loðnuveiðar voru ekki stundaðar á Íslandsmiðum 2019–2020.

Noregur

Norðmenn hafa aflahlutdeild í loðnu og samkvæmt strandríkjasamningi er þeim heimilt að veiða innan íslensku lögsögunnar. Fjöldi norskra skipa, sem samtímis fá leyfi til að veiða loðnu í efnahagslögsögu Íslands, takmarkast við 30 skip. Á árunum 2015–2018 og 2021–2023 stunduðu 46–67 norsk uppsjávarskip loðnuveiðar með flotvörpu og hringnót innan lögsögunnar. Loðnuveiðar voru ekki stundaðar á Íslandsmiðum 2019–2020. Einnig er í gildi tvíhliðasamningur milli Íslands og Noregs sem veitir tveimur norskum línuskipum leyfi til að veiða botnsjávartegundir, aðallega löngu og keilu, innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Fiskveiðistjórnun

Matvælaráðuneytið er ábyrgt fyrir stjórnun fiskveiða innan íslensku lögsögunnar. Stjórnun fiskveiða er bundin í lög og árlega eru gefnar út reglugerðir sem geta verið háðar breytingum frá ári til árs. Ráðuneytið setur reglur um fiskveiðar í atvinnuskyni fyrir hvert fiskveiðiár (frá 1. september til 31. ágúst), þ.m.t. úthlutun fiskveiðiheimilda fyrir hvern fiskistofn sem lýtur slíkri stjórn. Veiðar á deilistofnum eru undir stjórn Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og í samræmi við samninga strandríkja (milli Íslands, Grænlands, Færeyja og Noregs). Þessir stofnar eru: Kolmunni, makríll, norsk-íslensk vorgotssíld, loðna, grálúða, gullkarfi og úthafskarfi (efri og neðri stofn). Vísindaleg ráðgjöf um fiskveiðar og nýtingu fiskistofna kemur frá Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðinu. Er ákvörðun ráðherra um heildaraflamark venjulega byggt á þessari ráðgjöf en ráðherra er heimilt að víkja frá ráðgjöfinni. Fiskistofa annast eftirlit, framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og skráningu afla og Landhelgisgæslan annast löggæslu á miðunum.

Aflamarkskerfi var innleitt árið 1984 og breytt árið 1990 þannig að úthlutað er hlutdeildarkvótum í einstökum fiskitegundum á skip útgerðaraðila. Á hverju fiskveiðiári úthlutar Fiskistofa til eins árs í senn aflamarki á skipin af hverjum stofni fyrir sig er lúta að slíkri stjórn. Kvóti skips á hverju veiðitímabili eða fiskveiðiári ræðst þannig af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla. Frá fiskveiðiárinu 2006/2007 hafa öll skip verið innan þessa kerfis. Ákveðinn sveigjanleiki er innan kerfisins þannig að útgerðir geta framselt kvóta milli skipa innan útgerða eða til annara útgerða. Framsal kvóta til annarra útgerða getur verið í formi leigu til eins árs (kvótaleiga) eða varanleg sala (kvótasala).

Ákveðinn sveigjanleiki er innan þessa kerfis hvað varðar flutning kvóta einstakra tegunda milli fiskveiðiára og milli tegunda innan fiskveiðiárs. Skip mega færa ákveðinn hluta kvóta síns á milli fiskveiðiára, en þau mega ekki veiða fyrirfram úr kvóta næsta árs. Skip sem búið er með kvóta sinn, en hyggst halda áfram veiðum, verður annaðhvort að leigja eða kaupa viðbótarkvóta af öðru skipi. Tegundatilfærslukerfið leyfir að ákveðnu marki flutning á kvóta frá einni tegund til annarrar, þó ekki yfir í þorsk og grálúðu. Tegundatilfærslan er hugsuð til að minnka brottkast og óskráðan afla. Skip sem búið er með kvóta sinn í ákveðinni tegund getur því flutt aflamark frá annarri tegund yfir í þá sem skipið er búið með. Við það skerðist úthlutað aflamark tegundarinnar sem flutt er úr. Tegunda-tilfærslan getur því leitt til að afli einstakra tegunda og stofna verði umfram úthlutað aflamark.

Samkvæmt lögum er skylda að landa öllum fiski sem veiðist. Því er ekki um lágmarkslöndunarstærð einstakra tegunda að ræða. Ýmsar aðgerðir hafa verið innleiddar til að koma í veg fyrir veiðar á smáfiski, eins og lágmarks möskvastærð togveiðarfæra og lokun hafsvæða fyrir veiðum, annað hvort varanlega eða tímabundið. Eitt af stuðningskerfunum er skyndilokunarkerfið sem var sett á árið 1976. Tilgangurinn með skyndilokun svæða er verndun ungviðis fiska og hryggleysingja með það fyrir augum að draga úr veiðum á ungviði og líklegu brottkasti. Um er að ræða hraðvirkt eftirlit þar sem svæðum er lokað tímabundið (gildistími lokana er oftast í tvær vikur) reynist fjöldi smáfiska í afla ákveðinna tegunda yfir viðmiðunarmörkum. Þau viðmiðunarmörk eru samsett af hlutfallsmörkum annars vegar og lengdarmörkum hins vegar. Til þess að annast framkvæmd veiðieftirlits hefur Fiskistofa á að skipa veiðieftirlitsmönnum og sér um daglegan rekstur veiðieftirlitsins. Fram til ársins 2020 voru skyndilokanir framkvæmdar í samráði við veiðieftirlitsstjóra Hafrannsóknastofnunar en eru nú alfarið í höndum Fiskistofu. Einnig taka starfsmenn Landhelgisgæslu þátt í veiðieftirliti. Ef mikið er af smáfiski á tilteknu svæði og skyndilokanir nægja ekki sem verndunaraðgerðir, er gerð tillaga um reglugerðarlokun ótímabundið eða í tiltekinn tíma. Einnig er hluti af hrygningarsvæðum þorsks, steinbíts, skarkola og blálöngu friðuð fyrir veiðum á hrygningartíma tegundanna.

Í hafinu kringum Ísland eru sérstök friðunarsvæði til verndunar ungviðis fiska og hryggleysingja. Til að mynda er stórt svæði djúpt vestur af Íslandi lokað fyrir öllum veiðum. Upphaflega var þetta svæði lokað árið 1993 fyrir botn- og flotvörpuveiðum til verndunar gullkarfaungviðis. Árið 2019 voru þrjú svæði suðaustur af Íslandi lokuð fyrir botn- og flotvörpuveiðum til verndunar á humri. Einnig eru fyrir sunnan og suðaustan Ísland tíu lítil svæði (heildarstærð 480 km2) lokuð fyrir öllum botnveiðum til verndar kóralsvæða.

Nýtingarstefna í formi aflareglna hefur verið tekin upp fyrir þorsk, ýsu, ufsa, löngu, keilu, steinbít, skarkola, loðnu og íslenska sumargotssíld. Marmið aflareglna er að tryggja hámarksafrakstur stofnanna til langtíma og að stofnar séu innan skilgreindra varúðarmarka. Aflareglur fyrir ofangreindar tegundir hafa verið yfirfarnar af Alþjóðahafrannsóknaráðinu til að tryggja að þær samrýmist varúðarsjónarmiðum og í mörgum tilfellum falla þær undir markmið ráðsins um hámarksafrakstur (MSY-approach).

Bein sókn í lúðu, beinhákarl, háf og hámeri eru bannaðar og skylt er að kasta frá borði öllum lifandi einstaklingum.

Stjórn hvalveiða er byggð á ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun. Mat á stofnstærð hvala er yfirfarið af vísindanefndum Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins og Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Stöðumat stofna

Fjallað er um stofnmat og veiðiráðgjöf fyrir 18 nytjastofna við Ísland af Alþjóðahafrannsóknaráðinu og þeir metnir gagnvart skilgreindum gátmörkum veiðihlutfalls (harvest rate), hámarksafraksturs (maximum sustainable yield) og varúðarnálgunar (precautionary approach). Einnig er staða stofnanna metin með tilliti til skilgreinda líffræðilegra varúðarmarka (safe biological limits), eins og F<Fpa og SSB>Bpa, að undanskilinni loðnu sem er metin og stjórnað á grundvelli bergmálsmælinga og með það að markmiði að tryggja með miklum líkum (95 %) að lágmarks lífmassi (SSB > Bpa) sé skilinn eftir til hrygningar (escapement strategy). Upplýsingar um hvern stofn er að finna í Tafla 1 og Tafla 2 í Viðauka og skýringar á gátmörkum er að finna í Tafla 4 í Viðauka.

Niðurstöður stofnmats m.t.t. aðgerðarmarka þessara 18 stofna eru sýndar á Mynd 22 og Mynd 23. Meðalstærð hrygningarstofns allra stofna nema neðri stofns úthafskarfa, djúpkarfa, grálúðu og norsk-íslensku síldarinnar er yfir lífmassa aðgerðarmörkum (MSY Btrigger). Veiðálag á átta þessara stofna er hins vegar yfir skilgreindum gátmörkum (FMSY eða HRMSY): ýsa, langa, djúpkarfi, neðri stofn úthafskarfa, grálúðu, norks-íslensk síld, makríll og kolmunni.

Mynd 22: Samantekt á stöðu stofna á íslenska hafsvæðinu sem metnir eru af Alþjóðahafrannsóknaráðinu m.t.t. hámarksafrakstur (MSY) og varúðarnálgunar (PA) og skilgreinda aflareglu (MGT). Grá svæði tákna stofna þar sem gátmörk eru ekki skilgreind. Fyrir hámarksafrakstur (MSY): Grænt táknar stofn sem veiddur við eða undir FMSY eða stofnstærð er við eða stærri en MSY Btrigger; rautt svæði táknar stofn sem er veiddur yfir FMSY eða stofnstærð er minni en MSY Btrigger. Fyrir varúðarnálgun (PA): Grænt táknar stofn sem er veiddur við eða undir Fpa eða stofnstærð er jafn stór eða stærri en Bpa; appelsínugult táknar stofn sem er veiddur milli Fpa og Flim eða stofnstærð er milli Blim og Bpa; rautt táknar stofn sem er veiddur yfir Flim eða stofnstærð er minni en Blim. Fyrir stofna með skilgreinda aflareglu (MGT): grænt táknar stofn sem er veiddur við eða undir HRMSY eða stofnstærð er jafn stór eða stærri en MSY Btrigger. Stofnar þar sem fiskveiðidánartala er undir eða við Fpa og stofnstærð er við eða stærri en Bpa eru skilgreindir innan líffræðilegra varúðarmarka. Ef skilyrði er ekki fullnægt, þá er stofninn skilgreindur vera utan líffræðilegra varúðarmarka. Upplýsingar fyrir einstaka stofna er að finna í Tafla 1 og Tafla 2 í Viðauka. Skilgreiningar á gátmörkum er að finna í Tafla 4 í Viðauka.
Mynd 23: Samantekt á stöðu afla þeirra stofna sem veiddir voru á íslenska hafsvæðinu árið 2023 miðað við síðasta stofnmat. Athugið að heildaraflinn er sá afli sem einungis er veiddur innan íslensku lögsögunnar. Grænt táknar hlutfall aflans sem er annað hvort veiddur undir FMSY eða að stofnstærð er stærri en MSY Btrigger. Grænt táknar hlutfall aflans sem er annað hvort veiddur yfir FMSY eða að stofnstærð er minni en MSY Btrigger. Grátt táknar hlufall aflans þar sem gátmörk hámarksafraksturs (MSY) hafa ekki verið skilgreind. Upplýsingar fyrir einstaka stofna er að finna í Tafla 1 og Tafla 2 í Viðauka. Skilgreiningar á gátmörkum er að finna í Tafla 4 í Viðauka.

Staða 17 stofna m.t.t. veiðiálags (FMSY eða HRMSY) og lífmassa aðgerðarmörkum (MSY Btrigger) er skipt eftir botnfiskum (Mynd 24), uppsjávarfiskum (Mynd 25) og flatfiskum (Mynd 26). Fimm tegundir þorskfiska eru yfir MSY Btrigger, en ýsa og langa eru veiddar yfir HRMSY (Mynd 24). Lífmassi ýsu, ufsa og löngu eru tvisvar til þrisvar sinnum hærri en MSY Btrigger, en þorskur og keila eru tæplega tvisvar sinnum hærri en MSY Btrigger.

Hrygningarstofnar steinbíts, gulllax, gullkarfa og skarkola eru yfir MSY Btrigger og veiddir og eru veiddir undir FMSY (Mynd 24 og Mynd 26). Lífmassi djúpkarfa (Mynd 24) og grálúðu (Mynd 26) eru undir MSY Btrigger og eru veiddir yfir FMSY. Staða neðri stofns úthafskarfa er verst þar sem hrygningarstofn er undir MSY Btrigger og er veiðiálag 12 sinnum hærra en FMSY. Hrygningarstofn þriggja af fjórum uppsjávartegundum (íslenska sumargotssíldin, makríll og kolmunni) er yfir MSY Btrigger, en hrygningarstofn norsk-íslensku síldarinnar er undir MSY Btrigger. Þessir stofnar eru veiddir yfir FMSY (Mynd 25)

Mynd 24: Samantekt á stöðu tíu stofna botnfiska á íslensku hafsvæðunum hafsvæðunum sem metnir voru af Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðinu (flokkur 1 þar sem tölfræðilíkön eru notuð til að meta stofnstærð), m.t.t. samdreifingar veiðiálags (HR/HRMSY og F/FMSY) og stofnstærðar (SSB/MSY Btrigger) (vinstri mynd), og heildarafla (þríhyrningar) og afla hafsvæðinu kringum Ísland (hringir) árið 2023 (hægri mynd). Vinstri myndin sýnir einungis stofna þar sem gátmörk hámarksafraksturs (MSY) hafa verið skilgreind. Stofnar táknaðir með grænum lit eru veiddir við eða undir HRMSY og FMSY, og þar sem stofnstærð er einnig við eða stærri en MSY Btrigger. Stofnar táknaðir með rauðum lit eru annað hvort veiddir yfir HRMSY og FMSY eða stofnstærð er minni en MSY Btrigger, eða hvortveggja. Upplýsingar um einstaka stofna er að finna í Tafla 1 í Viðauka. Skilgreiningar á gátmörkum eru í Tafla 4 í Viðauka.
Mynd 25: Samantekt á stöðu fimm stofna uppsjávarviska á íslensku hafsvæðunum hafsvæðunum sem metnir voru af Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðinu (flokkur 1 þar sem tölfræðilíkön eru notuð til að meta stofnstærð), m.t.t. samdreifingar veiðiálags (HR/HRMSY og F/FMSY) og stofnstærðar (SSB/MSY Btrigger) (vinstri mynd), og heildarafla (þríhyrningar) og afla hafsvæðinu kringum Ísland (hringir) árið 2023 (hægri mynd). Vinstri myndin sýnir einungis stofna þar sem gátmörk hámarksafraksturs (MSY) hafa verið skilgreind. Stofnar táknaðir með grænum lit eru veiddir við eða undir HRMSY og FMSY, og þar sem stofnstærð er einnig við eða stærri en MSY Btrigger. Stofnar táknaðir með rauðum lit eru annað hvort veiddir yfir HRMSY og FMSY eða stofnstærð er minni en MSY Btrigger, eða hvortveggja. Upplýsingar um einstaka stofna er að finna í Tafla 1 í Viðauka. Skilgreiningar á gátmörkum eru í Tafla 4 í Viðauka.
Mynd 26: Samantekt á stöðu tveggja stofna flatfiska á íslensku hafsvæðunum hafsvæðunum sem metnir voru af Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðinu (flokkur 1 þar sem tölfræðilíkön eru notuð til að meta stofnstærð), m.t.t. samdreifingar veiðiálags (HR/HRMSY og F/FMSY) og stofnstærðar (SSB/MSY Btrigger) (vinstri mynd), og heildarafla (þríhyrningar) og afla hafsvæðinu kringum Ísland (hringir) árið 2023 (hægri mynd). Vinstri myndin sýnir einungis stofna þar sem gátmörk hámarksafraksturs (MSY) hafa verið skilgreind. Stofnar táknaðir með grænum lit eru veiddir við eða undir HRMSY og FMSY, og þar sem stofnstærð er einnig við eða stærri en MSY Btrigger. Stofnar táknaðir með rauðum lit eru annað hvort veiddir yfir HRMSY og FMSY eða stofnstærð er minni en MSY Btrigger, eða hvortveggja. Upplýsingar um einstaka stofna er að finna í Tafla 1 í Viðauka. Skilgreiningar á gátmörkum eru í Tafla 4 í Viðauka.

Fiskveiðidauði botnfiska og flatfiska hefur minnkað frá miðjum tíunda áratugar síðustu aldar (Mynd 27, Mynd 28 og Mynd 31). Fiskveiðiálag á aðrar tegundir sínir svipað ferli og er nú lágt (Mynd 29 og Mynd 32), nema hjá grálúðu, djúpkarfa og neðri stofn úthafskarfa (ekki sýnt á myndinni). Lífmassi þorskfiska, fjögurra flatfiskategunda (skarkola, þykkvalúru, langlúru og sandkola), gullkarfa, gulllax og steinbíts er nú tvisvar til þrisvar sinnum meiri en þegar hann var lægstur. Aftur á móti hefur vísitala lífmassa hlýra lækkað og er nú í sögulegu lágmarki (Mynd 32).

Ferlar veiðidánartölu (F) og veiðihlutfalls (HR) sem og stærð hrygningarstofns m.t.t. gátmarka hámarksafraksturs (MSY) eru sýndar á Mynd 27, Mynd 28, Mynd 29, Mynd 30, og Mynd 31. Einnig er sýndar vísitölur lífmassa og veiðihlutfalls fyrir stofna þar sem gátmörk hafa ekki verið skilgreind (Mynd 32). Staða flestra stofna hefur batnað verulega frá árinu 2000 og í mörgum tilfellum hefur hlutfall fiskveiðidauða lækkað undir viðmiðunarmörk. Frá árinu 2000 hafa stærð hrygningarstofns og lífmassa-hlutföll margra stofna aukist og er í flestum tilfellum fyrir ofan gátmörk. Hrygningarstofns-hluföll tveggja (makríll og norsk-íslensk síld) af þeim fjórum uppsjávartegundum sem veiddar er innan íslensku lögsögunnar hafa minnkað síðustu fimm til tíu árin og á sama tíma hefur hefur hlutfall fiskveiðidauða aukist (Mynd 29 og Mynd 30).

Mynd 27: Tímaháðar breytingar á vístölu fiskiveiðiálags (HR/HRMSY), vísitölu stofnstærðar (SSB/MSY Btrigger) og nýliðunar fyrir þorsk, ýsu og ufsa á íslenska hafsvæðinu.
Mynd 28: Tímaháðar breytingar á vístölu fiskiveiðiálags (F/FMSY), vísitölu stofnstærðar (SSB/MSY Btrigger) og nýliðunar fyrir sjö tegundir botnfiska (blálanga, djúpkarfi, gullkarfi, gulllax, keila, langa og steinbítur) á íslenska hafsvæðinu.
Mynd 29: Tímaháðar breytingar á vístölu fiskiveiðiálags (HR/HRMSY), vísitölu stofnstærðar (SSB/MSY Btrigger) og nýliðunar fyrir íslensku sumargotssíldina á íslenska hafsvæðinu.
Mynd 30: Tímaháðar breytingar á vístölu fiskiveiðiálags (F/FMSY), vísitölu stofnstærðar (SSB/MSY Btrigger) og nýliðunar fyrir þrjár tegundir uppsjáfarfiska (kolmunni, makríll og norsk-íslensku síld).
Mynd 31: Tímaháðar breytingar á vístölu fiskiveiðiálags (F/FMSY), vísitölu stofnstærðar (SSB/MSY Btrigger) og nýliðunar fyrir tvær tegundir flatfiska (grálúða og skarkoli) á íslenska hafsvæðinu.
Mynd 32: Tímaháðar breytingar á vístölu fiskiveiðiálags (Fproxy/target Fproxy), vísitölu stofnstærðar (lífmassavísitölu) og nýliðunar fyrir þrjár tegundir flatfiska og þrjár tegundir botnfiska á íslenska hafsvæðinu.

Tiltölulegar fáar fisktegundir á íslenska hafsvæðinu virðast hafa orðið fyrir alvarlega neikvæðum áhrifum vegna veiða. Í lok sjöunda áratugar síðustu aldar hrundu þrír síldarstofnar (norsk-íslensk vorgotssíld og íslensku sumar- og vorgotsíldarstofnarnir) vegna ofveiði. Hafa tveir þeirra (norsk-íslensk vorgotssíld og íslenska sumargotssíldin) náð sér. Stofnar lúðu og hlýra hafa minnkað mikið vegna ofveiði og veiðast nú sem meðafli í öðrum veiðum. Lífmassavísitala lúðu úr stofnmælingum lækkaði hratt árin 1985–1992 og hefur verið lág síðan, þó lítilsháttar aukning hafi orðið frá lágmarkinu árið 2012. Árið 2012 voru beinar lúðuveiðar bannaðar, gert var skylt að sleppa lífvænlegri lúðu og ákveðið að aflaverðmæti lúðu sem óhjákvæmilegt er að landa rynni í sjóð til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs. Hlýri er önnur tegund þar sem lífmassavísitala hefur lækkað mikið. Vísitölur áranna 2010–2023 eru þær lægstu frá upphafi. Í lok árs 2020 var gert heimilt að sleppa lífvænlegum hlýra sem leið til verndunar.

Stofnstærð hryggleysingja á íslenska hafsvæðinu hefur minnkað og í sumum tilfellum er hún sú minnsta sem mælst hefur. Hins vegar er ekki til áreiðanlegt mat á lífmassa sumra stofna. Þróun á lífmassa níu rækjustofna sýnir mikla lækkun allra þeirra frá því um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Af átta innfjarðarækjustofnum hafa fimm hrunið og engar veiðar eru nú leyfðar úr þeim. Stofnstærð hinna þriggja stofnanna er um 30 % af því þegar stofnarnir mældust stærstir og takmarkaðar veiðar því leyfðar. Úthafsrækjustofninn, sem er stærsti rækjustofninn, hefur minnkað um helming frá því um 1985 en stærð hans er nú um 40 % yfir gátmörkum. Humarstofninn er nú talinn mjög lítill og undir mögulegum gátmörkum (Bpa). Veiðistofninn hefur minnkað mjög mikið frá 2009 og eru nú humarveiðar bannaðar. Litlar upplýsingar eru til um stofnstærð ígulkera, beitukóngs og kúfskeljar, en veiðar á þessum tegundum hafa minnkað umtalsvert undanfarin ár. Stofn hörpudisks í Breiðafirði hrundi á árunum 2000–2004 og hafa veiðar ekki verið stundaðar síðan 2003, að undanskilum tilraunaveiðum 2014–2019. Hrun stofnsins er tengt lélegri nýliðun, ofveiði og háum náttúrulegum dauða vegna frumdýrasýkinar. Nýlega hafa veiðar á sæbjúgum þróast vestur og austur af landinu en lítið er vitað um lífmassa og framleiðni sæbjúgna á Íslandsmiðum.

Blandaðar veiðar

Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur ekki verið fengið til að veita ráðgjöf fyrir blandaðar veiðar (mixed fisheries) fyrir stofna innan íslenska hafsvæðisins. Í þessum kafla er stutt yfirlit yfir blandaðar veiðar og mikilvægar meðaflategundir.

Við flestar fiskveiðar eru veiddar samtímis fleiri en ein tegund (blandaðar veiðar) þó svo við sumar veiðar sé aðeins ein sóknartegund. Við flotvörpu- og hringnótaveiðar er vanalega sótt í eina ákveðna tegund þar sem hlutfall meðafla er mjög lítið. Við botnvörpu-, dragnóta-, neta- og línuveiðar veiðast vanalega nokkrar tegundir samtímis. Afli hverrar tegundar í hverju togi er skráð í afladagbækur.

Í eftirfarandi greiningu er meðalheildarafla áranna 2021–2023 skipt eftir veiðiarfærum þar sem tekið er tillit til veiðarfæris og sóknartegundar. Mest er veitt af þorski og fæst hann í öll veiðarfæri (Mynd 33 og Mynd 34). Við fiskibotnvörpu-, neta, dragnóta-, neta, línu- og handfæraveiðar er þorskur oftast sóknartegundin, en fæst sem meðafli við netaveiðar á grálúðu og hrognkelsi og í rækju- og humarvörpu (Mynd 33). Rækja er einungis veidd í rækjuvörpu sem er sérstaklega notuð við veiðar á tegundinni og eru meðaflategundirnar þorskur og grálúða. Tegundir eins og djúpkarfi, gulllax og litli karfi veiðast eingöngu í botnvörpu (Mynd 34).

Mynd 35 sýnir aflasamsetningu í botnvörpuveiðum sex mikilvægustu sóknartegundanna. Við botnvörpuveiðar á þorski veiðast ýsa, ufsi og gullkarfi sem meðafli, svo dæmi sé tekið. Einnig eru blandaðar veiðar á ufsa og gullkarfa þar sem hlutfall hvorrar tegundar í hverju togi er háð breytileika veiðanna í tíma og rúmi. Þetta leiðir til tveggja veiðiaðferða eins og sýnt er á Mynd 35 (Botnvarpa – Ufsi og Botnvarpa - Gullkarfi).

Mynd 36 sýnir aflasamsetningu einstakra toga og lagna (net og lína). Stærsti hluti þorsks veiðist í togum eða lögn þar sem þorskur var meirar en 50 % af heildarafla. Ýsa veiðist hinsvegar meira í veiðum sem beint er að öðrum tegundum. Nokkrar tegundir í aflamarkskerfinu er að mestu veiddur sem meðafli, sem þýðir að árlegur afli þessara tegunda fæst í togum þar sem þær eru minna en 50 % af heildarafla togs. Meðal þessara tegunda eru hlýri, lúða, litli karfi, lýsa, langa, blálanga, keila, langlúra, sandkoli, skötuselur og gráskata. Tegundir, þar sem árlegur meðalafli er minni en 100 tonn, fæst eingöngu sem meðafli (ekki sýnt í þessari greiningu).

Lítið er um blandaðar veiðar í uppsjávarveiðum beint að loðnu, makríl og kolmunna. Ekki hefur verið skráður meðafli við veiðar á loðnu. Við makrílveiðar var meðafli síldar (samanlagður afli íslensku sumargotssíldarinnar og norsk-íslensku vorgotssíldarinnar) árunum 2009–2023 á bilinu 5-14 %. Meðafli makríls í veiðum á norsk-íslenskri vorgotssíld á þessu tímabili var á milli 1–12 %. Lítið er um meðafla (<2 %) í veiðum á kolmunna og íslenskri sumargotssíld.

Mynd 33: Lýsing á blönduðum veiðum botnsjávartegunda sem veiddar eru með botnvörpu, dragnót og kyrrstæðum veiðarfærum (lína, net og handfæri). Myndin sýnir hlutfall afla hverrar tegundar fyrir sig skipt eftir veiðafæraflokk. Merking stöpla inniheldur meiðalársveiði 2021–2023 hverrar tegundar.
Mynd 34: Lýsing á blönduðum veiðum botnsjávartegunda sem veiddar eru með botnvörpu, dragnót og kyrrstæðum veiðarfærum (lína, net og handfæri). Myndin sýnir tegundasamsetningu helstu veiðiflokka (afli >99 tonn) íslenska flotans. Merking stöpla inniheldur veiðiflokk (veiðarfæri og tegundahópur) og meðalársveiði (2021–2023) í tonnum.
Mynd 35: Lýsing á blönduðum veiðum á botnsjávartegundum sem eru veiddar með fiskibotnvörpu. Myndir sýnir tegundasamsetningu afla eftir botnvörpuveiðiflokkum (ársafli >99 tonn). Skilyrði fyrir skiptingu í veiðiflokk er að viðkomandi tegund var meira en 50 % af heildarafla togs (byggt á afladagbókum). Merking stöpla inniheldur veiðiflokk (veiðarfæri og tegund) og meðalársveiði (2021–2023) í tonnum.
Mynd 36: Lýsing á blönduðum veiðum á botnsjávartegundum á íslenska hafsvæðinu sem veiddar eru með botnvörpu, dragnót og kyrrstæðum veiðarfærum (lína, net og handfæri). Myndin sýnir hlutfall tegundar af heildarafla togs eða lagnar (0–0,25 = tegund 25 % eða minna af afla togs;; 0,25–0,50 = tegund 25–50 % af heildarafla togs; 0,50–0,75 = tegund 50–75 % af heildarafla; 0,75–1,00 = tegund 75 % eða meira af heildarafla). Merking stöpla inniheldur meðalársafla hverrar tegundar 2021–2023.

Samspil tegunda

Samspil nytjastofna á íslenska hafsvæðinu er með ýmsum hætti, þar á meðal í gegnum afrán og samkeppni um fæðu. Almennt má segja að magngreiningar á fæðuvefnum séu takmarkaðar, þó svo flæði innan fæðuvefsins sé að hluta þekkt. Magn fæðu sumra afræningja hefur verið metið en dánartíðni fiskitegunda vegna afráns hefur ekki verið metið. Þar af leiðandi er sú dánartíðni ekki notuð beint við stofnmat á fiskistofnum á íslenska hafsvæðinu.

Við fiskveiðistjórnun á Íslandi er lögð áhersla á sjálfbærni, varúðarnálgun og uppbyggingu fiskistofna og hefur fiskveiðidauði margra stofna minnkað mikið á undanförnum árum. Það getur breytt hlutfallinu milli náttúrlegs dauða og fiskveiðidauða. Náttúrulegur dauði vegna afráns getur verið vegna afráns annarra fisktegunda, sjófugla og sjávarspendýra. Fjöldi nokkurra tegunda hvala og höfrunga hefur aukist á hafsvæðinu, en fjöldi land- og útsels hefur minnkað mikið og hefur ekki verið minni síðan árið 1980. Stofnstærð margra sjófuglategunda hefur minnkað mikið.

Loðna er lykiltegund í fæðuvef Íslandsmiða og vegna lífshlaups hennar og göngumynsturs flytur hún mikla orku inn á svæðið. Loðna étur aðallega rauðátu og ljósátu á hafsvæðum fyrir norðan Ísland og gengur síðan til hrygningar við Ísland þar sem hún er mikilvæg fæða margra tegunda, þar á meðal þorsks, ýsu, ufsa, grálúðu, sjófugla og sjávarspendýra. Af annarri bráð nytjafiska má nefna rækju og sandsíli.

Áhrif fiskveiða á vistkerfið

Áhrif fiskveiða á vistkerfi sjávar önnur en að fjarlægja lífmassa nytjategunda geta verið margvísleg. Í þessum kafla er fjallað um tvennskonar áhrif: (1) Rót á botnseti vegna dreginna botnveiðarfæra sem hefur áhrif á botndýrasamfélög; (2) meðafli tegunda sem eru verndaðar/friðaðar, í hættu eða í undanhaldi.

Skark á botni vegna dreginna veiðarfæra

Á íslenska hafsvæðinu eru það veiðar með dregnum botnveiðarfærum, aðallega með botnvörpu sem beint er að botnfiskum, rækju og humri, sem stuðla að mestu róti/færslu á botnseti. Önnur botnveiðarfæri sem valda róti á botni eru dragnót og plógar. Rót á botni getur haft áhrif á yfirborð sjávarbotns (efstu 2 cm, Mynd 37) eða neðan við yfirborð sjávarbotns (>2 cm, Mynd 38) og haft áhrif á viðkvæm búsvæði (t.d. búsvæði svampa og kóralla). Mest eru áhrifin á 200-500 m dýpi en áhrifin talin minni á mjúkum og hreyfanlegri botni. Önnur áhrif veiðanna eru viðsnúningur hnullunga, skrap botnsins og skemmdir á dýralífi á og yfir botninum. Umfang, magn og áhrif dreginna botnveiðarfæra á sjávarbotn og búsvæði á botni er mismikið eftir svæðum (Mynd 37 og Mynd 38). Gögn vantar til að hægt sé að leggja mat á þessi áhrif, en líklega hefur dregið úr þessum áhrifum undanfarna tvo áratugi samhliða sóknarminnkun.

Mynd 37: Árlegt meðaltal skarks/rótar á yfirborði botns með dregnum botnveiðarfærum (botnvarpa, dragnót, plógur) á íslenska hafsvæðinu 2019–2021, sýnt sem hlutfallsmeðaltal flatarmáls sem veiðarfærið er dregið yfir (average swept-area ratios (SAR)).
Mynd 38: Árlegt meðaltal skarks/rótar neðan við yfirborð botns með dregnum botnveiðarfærum (botnvarpa, dragnót, plógur) á íslenska hafsvæðinu 2019–2021, sýnt sem hlutfallsmeðaltal flatarmáls sem veiðarfærið er dregið yfir (average swept-area ratios (SAR)).

Áhrif á stofna í hættu og á undanhaldi

Fiskveiðar eiga það til að veiða sem meðafla verndaðar tegundir og tegundir sem teljast í hættu eða eru á undanhaldi (t.d. fiskitegundir, sjófugla og sjávarspendýr). Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa hafa safnað gögnum um meðafla sjófugla og sjávarspendýra, sérstaklega í veiðum þar sem miklar líkur á að þessar tegundir veiðist.

Hvalir

Hnísa er algengasta meðaflategund sjávarspendýra á Íslandsmiðum. Árlegt mat bendir til að meðafli hnísu hafi minnkað úr 7 300 dýrum árið 2003 í um 2 000 dýr árið 2018 (Punt o. fl. 2020). Meðafli hnísu á árunum 2009–2017 var metinn 0,5–6,0 % af heildar stofnstærð tegundarinnar við Ísland, sem var síðast metin árið 2007 (Giles o. fl. 2011). Minni hnísumeðafli er bein afleiðing minni netaveiði á þorski á þessu tímabili.

Selir

Landselur veiðist aðallega sem meðafli í netaveiðum á hrognkelsi og á þorski. Undanfarin ár hefur metinn meðafli landsels verið á bilinu 900–1 800 dýr (Hafrannsóknastofnun 2019) sem er um 9–19 % af núverandi stofnstærðarmati tegundarinnar við Ísland (Jóhann Garðar Þorbjörnsson o. fl. 2016). Meðafli landsels er að mestu háð grásleppusókn með netum.

Útselur veiðist einnig sem meðafli í netaveiðum á hrognkelsi (Hafrannsóknastofnun 2019). Metinn árlegur meðafli útsels undanfarin ár hefur verið á bilinu 500–1 500 dýr sem samsvarar um 8–24 % af nýjasta stofnmati tegundarinnar (Sandra M. Granquist o. fl. 2019).

Vöðuselur, hringanóri og kambselur veiðast einnig sem meðafli í hrognkelsaveiðum en í mun minna mæli en landselur og útselur. Fjöldi vöðusels sem veiðist sem meðafli er metinn um 240 dýr á ári, en um 50 hringanórar og 30 kambselir veiðast árlega sem meðafli (Hafrannsóknastofnun 2019). Blöðruselur veiðist einnig í net, sérstaklega Norðanlands.

Sjófuglar

Sjófuglar veiðast sem meðafli í netaveiðum og á línuveiðum. Algengast er að fýll, langvía, teista, súla, dílaskarfur, toppskarfur og æðarfugl lendi í þessum veiðarfærum (Ólafur K. Pálsson o. fl. 2015). Samanlögð árleg stofnstærð dílaskarfs og toppskarfs er metin 16 000 fuglar (Arnþór Garðarsson og Ævar Petersen 2009; Arnþór Garðarsson og Jón Einar Jónsson 2019) og árlegur meðafli í hrognkelsaveiðum er metinn 900 fuglar sem samsvarar um 6 % af metinni stofnstærð (Hafrannsóknastofnun 2019; Christensen-Dalsgaard o. fl 2019). Stofnstærð teistu á íslenska hafsvæðinu er metin á milli 20 000–40 000 fuglar. Árlegur meðafli teistu í hrognkelsaveiðum árin 2014–2018 var metinn 1 653 fuglar á ári eða milli 4–8 % af metinni stofnstærð (Hafrannsóknastofnun 2019).

Fiskar

Nokkrar tegundir, sem eru á lista OSPAR yfir tegundir í hættu eða á undanhaldi, eru meðaflategundir við veiðar við Ísland. Litlu er landað af þessum tegundum og almennt er lítið vitað um áhrif veiðanna á þær. Þessar tegundir eru rauðháfur, beinhákarl, hámeri, háfur og gráskata. Upplýsingum um líffræði þessara tegunda er safnað í árlegum stofnmælingaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar.

Heimildir og ítarefni

Christensen-Dalsgaard, S., Anker-Nilssen, T., Crawford, R., Bond, A., Sigurðsson, G. M., Glemarec, G., and Hansen, E. S. 2019. What’s the catch with lumpsuckers? A North Atlantic study of seabird bycatch in lumpsucker gillnet fisheries. Biological Conservation, 240: 108278. https://doi.org/10.1016/j.biocon.2019.108278

Gardarsson, A., and Jónsson, J. E. 2019. Numbers and distribution of the Great Cormorant in Iceland: Limitation at the regional and metapopulation level. Ecology and Evolution, 9: 3984–4000. https://doi.org/10.1002/ece3.5028

Gilles, A., Gunnlaugsson, Th., Mikkelsen, B., Pike, D. G., and Víkingsson, G. 2011. Harbour porpoise Phocoena phocoena summer abundance in Icelandic and Faroese waters, based on aerial surveys in 2007 and 2010. NAMMCO SC/18/AESP/11. 16 pp.

Granquist, S. M. 2021. The Icelandic harbour seal (Phoca vitulina): Population estimate in 2020, summary of trends and the current status. Haf- og vatnarannsóknir: 2021‐53. MFRI: Reykjavík, Iceland. 19 pp. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/1637049019-hv2021-53.pdf

Granquist, S. M. 2024. Population estimate of grey seal (Halichoerus grypus) in Iceland 2022. Haf- og vatnarannsóknir: 2024‐43. MFRI: Reykjavík, Iceland. 12 pp. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/stofnstaerdarmat-a-utsel.pdf

ICES. 2020. Bycatch of protected and potentially vulnerable marine vertebrates – review of national reports under Council Regulation (EC) No. 812/2004 and other information. In Report of the ICES Advisory Committee, 2020. ICES Advice 2020, byc.eu, https://doi.org/10.17895/ices.advice.7474

ICES. 2024a. Icelandic Waters ecoregion – Ecosystem overview. In Report of the ICES Advisory Committee, 2024. ICES Advice 2024, Section 11.1 In prep. Publication expected by mid-December 2024.

ICES. 2024b. Working Group on Bycatch of Protected Species (WGBYC). ICES Scientific Reports. ICES Scientific Reports. 6:103. 1029 pp. https://doi.org/10.17895/ices.pub.27762723 In preparation

ICES 2024c. Roadmap for Bycatch of Endangered, Threatened, and Protected (ETP) Species. https://doi.org/10.17895/ices.pub.26003467

Iglésias, S. P., Toulhoat, L., and Sellos, D. Y. 2010. Taxonomic confusion and market mislabelling of threatened skates: important consequences for their conservation status. Aquatic Conservation: Marine and Freshwater Ecosystems, 20: 319–333. https://doi.org/10.1002/aqc.1083

Jónasson, J. P., Thorarinsdottir, G., Eiriksson, H., Solmundsson, J., and Marteinsdottir, G. 2006. Collapse of the fishery for Iceland scallop (Chlamys islandica) in Breidafjordur, West Iceland. ICES Journal of Marine Science, 64: 298–308. https://doi.org/10.1093/icesjms/fsl028

Marine and Freshwater Research Institute. 2024. Meðafli fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum 2020–2023 [Bycatch of seabirds and marine mammals in the lumpfish fishery 2020–2023]. MFRI: Reykjavik, Iceland. 15 pp. https://www.hafogvatn.is/static/extras/images/taekniskyrsla-medafli-fugla-og-spendyra-i-grasleppuveidum-20231429811.pdf

Pálsson, J., and Jakobsdóttir, K. 2018. The Flapper or The Blue? D. batis complex in Icelandic waters. Poster K389 presented at ICES Annual Science Conference, 24–27 September 2018; Hamburg, Germany.

Pálsson, Ó. K., Gunnlaugsson, Þ., and Ólafsdóttir, D. 2015. Meðafli sjófugla og sjávarspendýra í fiskveiðum á Íslandsmiðum [By-catch of seabirds and marine mammals in Icelandic fisheries]. Fjölrit, 178. MFRI: Reykjavík, Iceland. 21 pp. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit-178.pdf

Pike, D. G., Gunnlaugsson, T., Mikkelsen, B., Halldórsson, S. D., and Víkingsson, G. A. 2019. Estimates of the abundance of cetaceans in the central North Atlantic based on the NASS Icelandic and Faroese shipboard surveys conducted in 2015. NAMMCO Scientific Publications, 11. https://doi.org/10.7557/3.4941

Schopka, S. A. 2007. Friðun svæða og skyndilokanir á Íslandsmiðum - Sögulegt yfirlit [Areal closures in Icelandic waters and the real-time closure system - A historical review]. Marine Research in Iceland 133. 86 pp. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit-133.pdf

Sigurðsson, G. M., Pálsson, Ó. K., Björnsson, H., Hólmgeirsdóttir, Á. E., Guðmundsson, S., and Ólafsson, V. 2020. Mælingar á brottkasti þorsks og ýsu 2016–2018 [Discards of cod and haddock in demersal Icelandic fisheries 2016–2018]. Haf- og vatnarannsóknir: 2020-041. MFRI: Reykjavik, Iceland. 11 pp. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/1608029972-hv2020-41.pdf

Viðauki

Heiti tegundar

Ráðjafarregla

Fokkur fiska

Stofnmatsár

Nálgun

Gátmörk

Fisveiðiálag

Stofnstærð

Blálanga

3.2

Bolfiskur

2024

Hámarksafrakstur (MSY)

MSY

PA

Djúpkarfi

1.0

Bolfiskur

2024

Hámarksafrakstur (MSY)

MSY

PA

Grálúða

1.0

Flatfiskur

2024

Hámarksafrakstur (MSY)

MSY

PA

Gullkarfi

1.0

Bolfiskur

2024

Hámarksafrakstur (MSY)

MSY

PA

Gulllax

1.0

Bolfiskur

2024

Hámarksafrakstur (MSY)

MSY

PA

Keila

1.0

Bolfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Kolmunni

1.0

Smár uppsjávarfiskur

2024

Aflaregla

MSY

PA

Langa

1.0

Bolfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Loðna

1.8

Smár uppsjávarfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Makríll

1.0

Smár uppsjávarfiskur

2024

Hámarksafrakstur (MSY)

MSY

PA

Síld, íslensk sumargotssíld

1.0

Smár uppsjávarfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Síld, norsk-íslensk vorgotssíld

1.0

Smár uppsjávarfiskur

2024

Hámarksafrakstur (MSY)

MSY

PA

Skarkoli

1.0

Flatfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Steinbítur

1.0

Bolfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Ufsi

1.0

Bolfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Úthafskarfi (neðri stofn)

1.0

Bolfiskur

2024

Hámarksafrakstur (MSY)

MSY

PA

Úthafskarfi (efri stofn)

3.3

Bolfiskur

2024

Varúðrarnálgun (PA)

MSY

PA

Ýsa

1.0

Bolfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Þorskur

1.0

Bolfiskur

2024

Aflaregla

MGT

PA

Tafla 1: Staða stofna á íslensku hafsvæðunum sem voru metnir af Alþjóðahafrannsóknaráðinu og Hafrannsóknastofnun árin 2024 m.t.t. hámarksafrakstur (MSY), aflareglu (MGT) og varúðarnálgunar (PA). Grátt táknar stofn þar sem gátmörk eru ekki skilgreind. Fyrir hámarksafrakstur (MSY) og aflaeglu (MGT): Grænt táknar stofn sem veiddur við eða undir FMSY eða FMGT, eða stofnstærð er við eða stærri en MSY Btrigger; rautt táknar stofn sem er veiddur yfir FMSY eða FMGT, eða stofnstærð er minni en MSY Btrigger. Fyrir varúðarnálgun (PA): Grænt táknar stofn sem er veiddur við eða undir Fpa eða stofnstærð er jafn stór eða stærri en Bpa; appelsínugult táknar stofn sem er veiddur milli Fpa og Flim eða stofnstærð er á milli lim og Bpa; rautt táknar stofn sem er veiddur yfir Flim eða stofnstærð er minni en Blim. Stofnar þar sem fiskveiðidánartala er undir eða við Fpa og stofnstærð er við eða stærri en Bpa eru skilgreindir innan líffræðilegra varúðarmarka. Ef skilyrði er ekki fullnægt, þá er stofninn skilgreindur vera utan líffræðilegra varúðarmarka. Skýringar á gátmörkum er að finna í Tafla 4 í Viðauka. Heiti tegundar inniheldur tengil í nýjustu ráðgjöf.

Heiti tegundar

Flokkur fiska

Ráðgjafarregla

Stofnmatsár

Nálgun

Hlýri

Bolfiskur

3.2

2023

Varúðarnálgun (PA)

Langlúra

Flatfiskur

3.2

2023

Varúðarnálgun (PA)

Lýsa

Bolfiskur

3.2

2024

Varúðarnálgun (PA)

Sandkoli

Flatfiskur

3.2

2023

Varúðarnálgun (PA)

Skötusleur

Bolfiskur

3.2

2023

Varúðarnálgun (PA)

Þykkvalúra

Flatfiskur

3.2

2023

Varúðarnálgun (PA)

Tafla 2: Listi yfir stofna á íslenska hafsvæðinu sem metnir eru af Hafrannsóknastofnun árin 2023 og 2024 og gátmörk hafa ekki verið ekki skilgreind. Heiti tegundar inniheldur tengil í nýjustu ráðgjöf.

Tegund

Vísindaheiti

Tegundahópur

Álka

Alca torda

Fugl

Beinhákarl

Cetorhinus maximus

Bolfiskur

Beitukóngur

Buccinum undatum

Skeldýr og hryggleysingjar

Blágóma

Anarhichas denticulatus

Bolfiskur

Blálanga

Molva dypterygia

Bolfiskur

Brimbútur

Cucumaria frondosa

Skeldýr og hryggleysingjar

Búri

Hoplostethus atlanticus

Bolfiskur

Dílamjóri

Lycodes esmarkii

Bolfiskur

Dílaskarfur

Phalacrocorax carbo

Bolfiskur

Djúpkarfi

Sebastes mentella

Bolfiskur

Dökkháfur

Etmopterus princeps

Brjóskfiskur

Fýll

Fulmarus glacialis

Bolfiskur

Gjölnir

Alepocephalus bairdii

Bolfiskur

Grálúða

Reinhardtius hippoglossoides

Bolfiskur

Gráskata

Dipturus batis

Brjóskfiskur

Gullkarfi

Sebastes norvegicus

Bolfiskur

Gulllax

Argentina silus

Bolfiskur

Háfur

Squalus acanthias

Brjóskfiskur

Hákarl

Somniosus microcephalus

Brjóskfiskur

Hámeri

Lamna nasus

Brjóskfiskur

Hávella

Clangula hyemalis

Fugl

Hlýri

Anarhichas minor

Bolfiskur

Hnísa

Phocoena phocoena

Hvalur

Hnúfubakur

Megaptera novaeangliae

Hvalur

Hnýðingur

Lagenorhynchus albirostris

Hvalur

Hörpudiskur

Chlamys islandica

Skeldýr og hryggleysingjar

Hrefna

Balaenoptera acutorostrata

Hvalur

Hringanóri

Pusa hispida

Selur

Hrognkelsi

Cyclopterus lumpus

Bolfiskur

Humar

Nephrops norvegicus

Krabbadýr

Jensenháfur

Galeus murinus

Brjóskfiskur

Kampselur

Erignathus barbatus

Selur

Keila

Brosme brosme

Bolfiskur

Kolmunni

Micromesistius poutassou

Smár uppsjávarfiskur

Kúskel

Arctica islandica

Skeldýr og hryggleysingjar

Landselur

Phoca vitulina

Selur

Langa

Molva molva

Bolfiskur

Langlúra

Glyptocephalus cynoglossus

Flatfiskur

Langreiður

Balaenoptera physalus

Hvalir

Langvía

Uria aalge

Fugl

Litli karfi

Sebastes viviparus

Bolfiskur

Loðna

Mallotus villosus

Smár uppsjávarfiskur

Lómur

Gavia stellata

Fugl

Lúða

Hippoglossus hippoglossus

Flatfiskur

Lundi

Fratercula arctica

Fugl

Lýsa

Merlangius merlangus

Bolfiskur

Makríll

Scomber scombrus

Smár uppsjávarfiskur

Rækja

Pandalus borealis

Krabbadýr

Rauðháfur

Centrophorus squamosus

Brjóskfiskur

Sandkoli

Limanda limanda

Flatfiskur

Sandsíli

Ammodytes tobianus

Bolfiskur

Sílamáfur

Larus fuscus

Fugl

Síld

Clupea harengus

Smár uppsjávarfiskur

Silfurmáfur

Larus argentatus

Fugl

Skarkoli

Pleuronectes platessa

Flatfiskur

Skollakoppur

Strongylocentrotus droebachiensis

Skeldýr og hryggleysingjar

Skötuselur

Lophius piscatorius

Bolfiskur

Skrápflúra

Hippoglossoides platessoides

Flatfiskur

Slétthali

Coryphaenoides rupestris

Bolfiskur

Snarphali

Macrourus berglax

Bolfiskur

Steinbítur

Anarhichas lupus

Bolfiskur

Stinglax

Aphanopus carbo

Bolfiskur

Stórkjafta

Lepidorhombus whiffiagonis

Flatfiskur

Stuttnefja

Uria lomvia

Fugl

Súla

Morus bassanus

Fugl

Svartgóma

Helicolenus dactylopterus

Bolfiskur

Svartháfur

Centroscyllium fabricii

Brjóskfiskur

Teista

Cepphus grylle

Fugl

Tindaskata

Amblyraja radiata

Brjóskfiskur

Toppskarfur

Phalacrocorax aristotelis

Fugl

Ufsi

Pollachius virens

Bolfiskur

Útselur

Halichoerus grypus

Selur

Vöðuselur

Pagophilus groenlandicus

Selur

Ýsa

Melanogrammus aeglefinus

Bolfiskur

Þorskur

Gadus morhua

Bolfiskur

Þykkvalúra

Microstomus kitt

Flatfiskur

Æðarfugl

Somateria mollissima

Fugl

Tafla 3: Tegundaheiti, vísindaheiti, kóði tegundar og tegundahópur.

Viðmiðunarmörk

Skilgreining

Grunnur

Blim

Varúðarmörk stofnstærðar þar sem afrakstursgeta stofnsins minnkar undir þessum mörkum.

Ef stærð hrygningarstofns fer undir Blim búast við dragi verulega úr nýliðun.

Flim

Veiðidánartala sem til langframa leiðir til þess meðalstærð hrygningarstofns verði við Blim.

Veiðidánartala sem leiðir til þess hrygningarstofn er yfir Blim með 50 % líkum.

Bpa

Gátmörk hrygningarstofns. Lágmarksstærð hrygningarstofns sem talin eru gefa eðlilega nýliðun eftir tekið hefur verið tillit til metinnar óvissu í stofnmati

95 % líkur á hrygningarstofn yfir Blim.

Fpa

Gátmörk veiðidánartölu þar sem veiðar eru taldar sjálfbærar, eftir tekið hefur verið tillit til metinnar óvissu í stofnmati.

95 % líkur á veiðidánartala undir Flim.

FMSY

Veiðidánartala er gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið.

Veiðidánartala sem veitir hámarksafla miðað við núverandi stofnmat og leiðir enn fremur til þess hrygningarstofninn haldist yfir Blim með 95 % líkum.

Bloss

Lægsta gildi hrygningarstofns á stofnmatstímabilinu.

MSY Btrigger

Aðgerðarmörk sem standast viðmið Alþjóðahafrannsóknaráðsins um hámarksafrakstur. Neðra mark dreifingar hrygningarstofns þegar veitt er á FMSY.

MSY Btrigger er skilgreint sem stærra gildið af Bpa og 5. hundraðshlutamarks dreifingar hrygningarstofns þegar veitt er á FMSY. Ef hrygningarstofn fer niður fyrir MSY Btrigger leiðir það til lækkunar veiðidánartölu þar til stofn hefur vaxið aftur yfir aðgerðarmörkin. Lækkun veiðidánartölu er tengd hlutföllum hrygningarstofns og MSY Btrigger.

MGT Btrigger

Aðgerðarmörk aflareglu sem standast viðmið Alþjóðahafrannsóknaráðsins um hámarksafrakstur.

hundraðshlutamark dreifingar hrygningarstofns þegar aflareglu er fylgt.

HRMGT

Aflaregla. Veiðihlutfall sem stefnt er í aflareglu stjórnvalda.

Prósenta af viðmiðunarstofni.

HRMSY

Veiðihlutfall er gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið.

Prósenta af viðmiðunarstofni. Slembireikningar í aflaregluhermun.

HRlim

Veiðihlutfall sem til langframa leiðir til þess meðalstærð hrygningarstofns verði við Blim.

Veiðihlutfall sem leiðir til þess hrygningarstofn er yfir HRlim með 50 % líkum

HRpa

Gátmörk veiðihlutfalls þar sem veiðar eru taldar sjálfbærar eftir tekið hefur verið tillit til metinnar óvissu í stofnmati.

95 % líkur á veiðihlutfall undir HRlim.

Tafla 4: Skilgreining á viðmiðunarmörkum.

Heiti

Vísindaheiti

2020

2021

2022

2023

Meðaltal

Beitukóngur

Buccinum undatum

0

172

291

190

163

Blágóma

Anarhichas denticulatus

14

35

93

157

75

Blálanga

Molva dypterygia

349

332

438

412

383

Brimbútur

Cucumaria frondosa

1  193

1  429

2  822

2  401

1  961

Búrfiskur

Hoplostethus atlanticus

3

11

19

15

12

Djúpkarfi

Sebastes mentella

11  375

10  589

9  465

6  675

9  526

Flundra

Platichthys flesus

0

1

2

1

1

Geirnyt

Chimaera monstrosa

0

1

1

11

3

Gjölnir

Alepocephalus bairdii

6

2

7

6

5

Grjótkrabbi

Cancer irroratus

23

79

81

18

50

Grálúða

Reinhardtius hippoglossoides

12  536

12  837

11  141

14  185

12  675

Gullkarfi

Sebastes norvegicus

40  687

39  622

29  913

32  196

35  604

Hlýri

Anarhichas minor

1  339

1  213

771

632

989

Hrognkelsi

Cyclopterus lumpus

5  334

7  606

4  407

3  993

5  335

Humar

Nephrops norvegicus

194

107

2

0

76

Hvítaskata

Rajella lintea

3

10

7

5

6

Háfur

Squalus acanthias

3

1

2

2

2

Hákarl

Somniosus microcephalus

16

16

13

20

16

Hámeri

Lamna nasus

3

2

2

4

3

Hörpudiskur

Chlamys islandica

2

46

72

52

43

Keila

Brosme brosme

3  187

2  779

2  577

3  046

2  897

Kolmunni

Micromesistius poutassou

15  217

44  100

32  552

66  372

39  560

Krossfiskar

Asteroidea

5

0

0

0

1

Kræklingsætt

Mytilidae

48

22

0

21

23

Kúfskel

Arctica islandica

3

7

8

4

6

Langa

Molva molva

7  061

7  128

7  657

8  534

7  595

Langlúra

Glyptocephalus cynoglossus

946

654

670

651

730

Litla brosma

Phycis blennoides

11

2

2

5

5

Litli karfi

Sebastes viviparus

118

96

58

61

83

Loðna

Mallotus villosus

0

206  357

616  544

436  090

314  748

Lúða

Hippoglossus hippoglossus

142

153

194

176

166

Lýr

Pollachius pollachius

1

1

1

2

1

Lýsa

Merlangius merlangus

648

955

779

1  142

881

Makríll

Scomber scombrus

44  868

21  698

33  955

74  926

43  862

Náskata

Leucoraja fullonica

17

23

7

12

15

Punktalaxsíld

Myctophum punctatum

0

0

0

52

13

Rækja

Pandalus borealis

3  127

3  999

2  512

2  613

3  063

Sandkoli

Limanda limanda

412

629

759

677

619

Skarkoli

Pleuronectes platessa

7  506

8  677

7  277

6  632

7  523

Skata

Dipturus batis

160

158

116

168

150

Skjótta skata

Amblyraja hyperborea

0

7

0

1

2

Skrápflúra

Hippoglossoides platessoides

23

52

53

89

54

Skötuselur

Lophius piscatorius

437

411

159

207

304

Slétti langhali

Coryphaenoides rupestris

6

6

20

5

9

Smokkfiskar, ættkvísl

Todarodes

0

30

1

7

10

Snarphali

Macrourus berglax

44

31

74

132

70

Spærlingur

Trisopterus esmarkii

925

1  053

199

191

592

Steinbítur

Anarhichas lupus

7  340

9  063

8  739

8  775

8  479

Stinglax

Aphanopus carbo

103

31

63

55

63

Stóra brosma

Urophycis tenuis

18

17

4

24

16

Stóri gulllax

Argentina silus

3  775

4  140

6  886

5  268

5  017

Stórkjafta

Lepidorhombus whiffiagonis

268

175

88

80

153

Síld

Clupea harengus

206  908

236  737

237  584

239  546

230  194

Tindaskata

Amblyraja radiata

804

760

249

254

517

Túnfiskur

Thunnus thynnus

1

1

0

1

1

Ufsi

Pollachius virens

50  253

59  766

61  882

41  717

53  404

Urrari

Eutrigla gurnardus

9

10

1

5

6

Vogmær

Trachipterus arcticus

0

5

0

0

1

Ígulker

Echinoidea

369

351

351

447

380

Ýsa

Melanogrammus aeglefinus

54  781

57  602

58  776

70  595

60  438

Þorskur

Gadus morhua

269  579

265  274

239  866

217  157

247  969

Þykkvalúra

Microstomus kitt

1  129

1  447

1  255

1  009

1  210

Tafla 5: Landaður afli (tonn) eftir tegundum af íslenska hafsvæðinu 2020–2023 ásamt meðaltalsafla þessara fjögurra ára. Síldaraflinn er sameiginlegur afli íslensku sumargotssíldarinnar og norsk-íslensku vorgotssíldarinnar.