Makríll

Scomber scombrus


Stofnmatskýrslur
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

30 September 2024

Almennar upplýsingar

Makríll er víðförull og útbreiddur uppsjávarfiskur. Hann er hlýsjávartegund sem finnst beggja vegna Norður-Atlantshafsins. Í Norðaustur-Atlantshafi er jafnan talað um einn stofn og er veiðum á honum stjórnað með tilliti til þess. Makrílstofninn er einn af verðmætustu fiskstofnum Evrópu í efnahagslegu tilliti.

Á síðustu öld var makríll sjaldséður flökkufiskur í íslenskri landhelgi en fljótlega eftir aldamótin fór hans að verða vart suðaustan og sunnan við Ísland að sumarlagi (Astthorsson o.fl. 2012). Makríll fór m.a. að veiðast í vaxandi magni sem meðafli í sumarveiðum á norsk-íslenskri vorgotssíld fyrir suðaustan land frá 2000 til 2006 og fannst í fæðu súluunga við Vestmannaeyjar sumarið 2005 (Vigfúsdóttir o.fl. 2009).

Kynþroska makríll fylgir árstíðabundnu göngumynstri á milli aðskilinna sumarfæðusvæða, vetrardvalarsvæða og hrygningarsvæða (Uriarte og Lucio 2001). Makríll hrygnir á landgrunni og landgrunnsbrún meginlands Evrópu frá janúar fram í júlí (Trenkel o.fl. 2014). Hrygningin byrjar syðst og færist norðar, eftir því sem líður á árið. Eftir hrygningu gengur makríll áfram í norður eða norðvestur inn í Norðurhöf og inn í Norðursjó til fæðuleitar yfir sumarmánuðina. Þegar hausta tekur safnast makríll saman í þéttar torfur í norðurhluta Norðursjávar sem ganga síðan suður á bóginn þegar líður á veturinn. Yfir veturinn er makríll dreifður yfir landgrunnsbrún og landgrunn Evrópu frá ströndum Portúgals til Hjaltlandseyja. Ungviðið heldur sig á uppeldissvæðum á landgrunninu við Írland og vestur og norður af Skotlandi, í Biscayaflóa og í Norðursjó uns kynþroska er náð við 2ja eða 3ja ára aldur og byrjar þá árlega göngu með hrygningarstofninum.

Útbreiðsla makríls að sumarlagi hefur tekið miklum breytingum frá síðustu aldamótum (Ólafsdóttir o.fl. 2019). Fram að þeim tíma var sumarfæðuslóð makríls aðallega í Noregshafi, fyrir austan 10°V og sunnan 72°N. Sumrin 2005 og 2006 tók útbreiðslan að aukast í vesturátt úr Noregshafi allt að austurströnd Íslands. Niðurstöður uppsjávarleiðangra sýna að sumarið 2010 náði útbreiðsla makríls vestur fyrir Ísland og nánast að miðlínunni við Grænland, að 30°V. Sumarið 2013 mældist makríll í grænlenskri landhelgi í fyrsta skipti þegar útbreiðslan náði inn í norðurhluta Irmingerhafs, og voru vesturmörk útbreiðslu við 36°V og suðurmörk við 62°N. Útbreiðsla makríls í íslenskri landhelgi minnkaði áberandi mikið fyrir vestan land sumarið 2019 (Ólafsdóttir og Sigurðsson 2021). Sumarin 2023 og 2024 mældist makríll einungis við suðaustur strönd Íslands en á því svæði varð hans fyrst vart í íslenskri landhelgi upp úr aldamótum (ICES, 2024).

Veiðar

Beinar veiðar á makríl í íslenskri landhelgi hófust sumarið 2007 og hefur árlegur heildarafli íslenskra skipa fram til ársins 2023 verið á bilinu 36-173 þúsund tonn (Mynd 1). Nánast allur makríll er veiddur í flotvörpu (> 99%). Í byrjun veiða var megin hluti aflans veiddur í íslenskri lögsögu. Veiðar á alþjóðlegu hafsvæði jukust árið 2017 og hefur mikill hluti afla verið veiddur þar síðan, frá 35 % til 84 % árlega (Mynd 1).

Mynd 1: Makríll. Landaður afli eftir svæðum og árum samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Fyrstu árin var veiðisvæðið í kantinum suðaustur af landinu og færðist síðan vestur með suðurströndinni (Mynd 2). Á árunum 2011 til 2016 var aðalveiðisvæðið meðfram kantinum frá suðausturlandi til Vestfjarða. Sumarið 2017 byrjaði veiðin að færast austur í Noregshaf og að minnka fyrir vestan landið. Sumarið 2020 var nánast engin veiði í kantinum við landið heldur einungis í Noregshafi. Sumarið 2023 jókst aftur veiði við landið en hún var takmörkuð við hafsvæði suðaustur af landinu.

Mynd 2: Makríll. Útbreiðsla veiða íslenskra skipa fyrir árin 2006-2023 samkvæmt afladagbókum.

Síðan árið 2000 hefur árlegur heildarafli úr stofninum sveiflast á bilinu 0,5-1,4 milljón tonn (Mynd 3). Aflatölur frá árum fyrir 2000 eru taldar óáreiðanlegar og hafa minna vægi í stofnmati en tölur eftir 2000.

Mynd 3: Makríll. Skráður afli fyrir öll lönd á öllum miðum frá 1903 til 2023 samkvæmt aflagrunni ICES.

Sýnataka

Sýnataka úr afla íslenskra skipa fyrir Hafrannsókastofnun var góð árið 2023 (Mynd 4). Fjöldi sýna, lengdarmælinga og aldursgreinga hefur þannig verið með ágætun frá því að veiðar hófust (Tafla 1).

Mynd 4: Makríll. Veiðislóð seinasta árs samkvæmt afladagbókum og staðsetning aflasýna (krossar) fyrir Hafrannsóknastofnun.
Tafla 1: Makríll. Fjöldi sýna úr afla, fjöldi fiska lengdarmældir, fjöldi aldursgreindir og allur landaður afli eftir árum.
Ár Fjöldi sýna Fjöldi mældir Fjöldi aldursgreindir Afli (t)
2007 21 298 285 36489
2008 26 758 668 112353
2009 60 2238 1945 116160
2010 115 4821 4759 122034
2011 191 8031 4760 159263
2012 244 11421 5604 149366
2013 180 7733 3505 151234
2014 155 6276 3201 172960
2015 160 7195 3425 169336
2016 113 4889 2767 170374
2017 108 4261 2431 167367
2018 77 3403 1907 168331
2019 125 5652 3081 128076
2020 112 4896 2755 151534
2021 109 5070 2637 132127
2022 98 4054 2381 129979
2023 95 3586 2214 141369

Samsetning afla

Lengdardreifing makríl úr afla eftir árum er sýnd á Mynd 5. Árleg meðallengd makríls í afla sveiflast frá 34 cm til 37 cm. Stærðarsamsetning afla hefur breyst með árunum þar sem stærð makríl hefur aukist síðustu ár samanborið við fyrri ár.

Mynd 5: Makríll. Lengdardreifing (skyggnt grátt svæði) úr afla íslenskra skipa síðan 2007 ásamt meðaltali allra ára (svört lína). Meðallengd (cm) og fjöldi mældra fiska á ári er sýnt í efra hægra horni.

Aldurssamsetning afla frá 2012 til 2023 sýnir að með árunum hefur hlutfall eldri fisks aukist í afla (Mynd 6). Árgangar frá 2008-2012 eru áberandi í veiðinni bæði í fjölda og magni (Mynd 7).

Mynd 6: Makríll. Aldurskiptur afli íslenskar skipa. Súlur gefa til kynna afla í fjölda eftir aldri og eru litaðar eftir árgöngum.

Mynd 7: Makríll. Áætluð samsetning heildarafla á ári skipt eftir árgöngum.

Endurheimtur rafaldskennimerkja

Rafaldskennimerki kallast á ensku „Radio Frequency Identification Tags“ sem almennt er skammstafað RFID. RFID merkjum er komið fyrir inn í kviðarholi makríls og RFID skannar í verksmiðjum nema merkin sjálfvirkt í löndunum. Þrjú uppsjávarverksmiðjur á Íslandi hafa RFID skanna. Það eru verksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, verksmiðja Brims á Vopnafirði og verksmiðja Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði.

Merkingar á makríl með RFID merkjum hófust árið 2011 (ICES 2020). Síðan þá hafa alls verið merktir 663230 fiskar (https://smartfishmap.imr.no/). Starfsmenn hafrannsóknastofnunarinnar í Noregi merkja makríl árlega vestur af Írlandi og Skotlandi á hrygningartíma í maí og hafa þeir alls merkt 656 199 fiska. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunarmerktu 5101 fiska við Snæfellsnes í ágúst árin 2015 til 2019. Markíll hefur ekki verið merktur við Ísland síðan 2019 þar sem lítið eða ekkert af makríll hefur gengnið vestur fyrir landið undanfarin ár. Starfsmenn hafrannsóknastofnunarinnar í Bretlandi merktu 1930 fiska árin 2023 og 2024. Árið 2023 var skannaði fyrir merkjum í makríl í 21 verksmiðju í fjórum löndum, Noregi, Írlandi, Bretlandi og Íslandi. Skönnun fyrir RFID merkjum hófst árið 2012 og til 27.september, 2024, hafa alls verið skönnuð 3 818 168 tonn af makríl.

Fyrir tímabilið 2014-2024 hafa á ári endurheimst frá 24 til 590 merki í verksmiðjunum þremur (Mynd 8). Flest merki eru endurheimt á ári í Neskaupstað, síðan í Vopnafirði og fæst í Höfn. Þetta er vegna mismunar í aflamagni sem unnið er í verksmiðjunum þar sem hærra aflamagn leiðir til þess að fleiri merki eru endurheimt.

Figure 8: Makríll. Fjöldi endurheimtra merkja fyrir verksmiðjur og ár frá 2014 til 2024. Skönnun hófust árið 2014 á Vopnafirði, 2015 í Neskaupstað og 2019 á Höfn.

Endurheimt merki eru úr fiskum sem voru merktir á árunum 2011 til 2024 (Mynd 9). Almennt þá eru endurheimtur úr merkingu mestar árið sem merkt er og næstu tvö ár á eftir. Það má búast við að endurheimtur fyrir árin 2022-2024 muni aukast næstu ár.

Mynd 9: Makríll. Merkingarár fyrir endurheimta fiska eftir verksmiðjum.

Merkingarstaðsetning hefur breyst með tímanum (Mynd 10). Árin 2011-2019 var mest af endurheimtum fiskum merktir vestan við Írland. Árin 2020-2024 hafa flestir endurheimtir fiskar verið merktir norðar eða við vesturströnd Bretlandseyja. Þetta má útskýra með breytingum á staðsetningu merkinga sem færðust norðar árið 2020.

Mynd 10: Makríll. Staðsetning merkinga árin 2011-2024 á endurheimtum makríl við Ísland.

Heimildaskrá

Astthorsson, O. S., Valdimarsson, H., Gudmundsdottir, A., and Óskarsson, G. J. 2012. Climate-related variations in the occurrence and distribution of mackerel (Scomber scombrus) in Icelandic waters. ICES Journal of Marine Science, 69: 1289-1297. https://doi.org/10.1093/icesjms/fss084

Freydís Vigfúsdóttir, Kristján Lilliendahl & Arnþór Garðarsson. 2009. Fæða súlu við Ísland. Bliki. 30: 55-60.

ICES 2020. Stock Annex: Mackerel (Scomber scombrus) in subareas 1-7 and 14 and divisions 8.a-e, 9.a (the Northeast Atlantic and adjacent waters). ICES Stock Annexes. Report. https://doi.org/10.17895/ices.pub.18622763.v1

ICES. 2024. Cruise report from the International Ecosystem Summer Survey in Nordic Seas (IESSNS) 28th June - 2nd August 2024. Working Document to ICES Working Group of Widely Distributed Stocks (WGWIDE, No. 3), Marine and Freshwater Research Institute, Hafnarfjörður, Iceland, 28th August - 3rd September 2024. 68 pp. https://www.researchgate.net/publication/383819159_Cruise_report_IESSNS_2024

Ólafsdóttir, A.H., Utne, K.R., Jacobsen, J.A., Jansen, T., Oskarsson, G.J., Nøttestad, L., Elvarsson, B., Broms, C. and Slotte, A. 2019. Geographical expansion of Northeast Atlantic mackerel (Scomber scombrus) in Nordic Seas from 2007 - 2016 was primarily driven by stock size and constrained by low temperatures. Deep-Sea Research Part II: Tropical Studies in Oceanography, 159: 152-168. DOI:10.1016/j.dsr2.2018.05.023

Anna Heiða Ólafsdóttir og Sigurður Þór Jónsson. 2021. Makríll (Scomber scombrus). Í Guðmundur J. Óskarsson (ritstj.), Staða umhverfis og vistkerfa í hafinu við Ísland og horfur næstu áratuga. Haf- og vatnarannsóknir, HV 2021-14. https://www.hafogvatn.is/static/files/2021-sidur/hv2021-14.pdf

Trenkel, V.M., Huse, G., Mackenzie, B.R., Alvarez, P., Arrizabalaga, H., Castonguay, M., Goni, N., et al., 2014. Comparative ecology of widely distributed pelagic fish species in the North Atlantic: implications for modelling climate and fisheries impacts. Progress in Oceanography, 129: 219–243. https://doi.org/10.1016/j.pocean.2014.04.030

Uriarte, A., Lucio, P., 2001. Migration of adult mackerel along the Atlantic European shelf edge from a tagging experiment in the south of the Bay of Biscay in 1994. Fisheries Research. 50: 129–139.