Kolmunni

Micromesistius poutassou


Stofnmatsskýrslur
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

30 September 2024

Almennar upplýsingar

Kolmunni er víðförull úthafs-, uppsjávar- og miðsjávarfiskur af þorskaætt sem er útbreiddur í Norður og Norðaustur Atlantshaf frá Svalbarða og Barentshafi í norðri til Íberíuskaga í suðri (Bjarnason o.fl. 2021). Hann verður að mestu leyti kynþroska 2-4 ára 8 (ICES 2022). Fullorðinn kolmunni heldur sig gjarnan á um 300–500 m dýpi en það er háð hitastigi sjávar þar sem hann finnst yfirleitt ekki í kaldari sjó en 3°C. Helstu hrygningarsvæði kolmunna eru meðfram landgrunnsbrúninni vestan og norðvestan Bretlandseyja, við úthafsbankana Rockall, Rosemary og Porcupine og norður að færeyska landgrunninu. Hrygningarslóðir kolmunna hafa verið breytilegar síðustu ár og sýnt hefur verið fram á sterka tengingu hafstrauma við svæðaval. Að lokinni hrygningu gengur kolmunni inn í Noregshaf þar sem eru bæði uppeldissvæði og helsta fæðuslóð hans. Kolmunni gegnir mikilvægu hlutverki í mið- og uppsjávarvistkerfinu, bæði sem afræningi dýrasvifs og minni miðsjávarfiska en einnig sem bráð stærri bolfiska og sjávarspendýra.

Kolmunni finnst allt í kringum Ísland einkum við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina en þó í breytilegu magni (Bjarnason o.fl. 2021). Magn eins árs kolmunna við Ísland helst í hendur við sterka árganga sem ganga inn í stofninn sem virðist vera ráðandi þáttur í útbreiðslu hans við Íslandsstrendur, óháð þeim umhverfisbreytingum sem hér hafa átt sér stað.

Veiðar

Kolmunnaveiðar íslenskra skipa hófust upp úr 1995 og hefur heildarafli íslenskra skipa fram til ársins 2023 verið á bilinu frá tæplega 1 þúsund tonnum til ríflega 500 þúsund tonna (Mynd 1). Fyrstu árin var veiðin aðallega í íslenskri lögsögu en aðalveiðisvæðið færðist fljótlega í færeyska lögsögu þar sem það er enn í dag. Nánast allur kolmunni er veiddur í flotvörpu (> 99%).

Mynd 1: Kolmunni. Landaður afli íslenskra skipa eftir svæðum og árum samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Fyrstu árin var veiðisvæðið báðum megin við hrygginn á milli Íslands og Færeyja (Mynd 2). Á árunum 2007-2008 færðist aðalveiðisvæðið í kantinn sunnan við Færeyjar og hefur haldist þar síðan.

Mynd 2: Kolmunni. Útbreiðsla veiða íslenskra skipa fyrir árin 1997-2023 samkvæmt afladagbókum.

Í byrjun veiða, þegar veitt var við Ísland, var aðalveiðitímabilið yfir sumarið og fram á haust (Mynd 3). Þegar veiðisvæðið færðist suður til Færeyja þá færðist líka veiðitímabilið yfir á vormánuði og 80-100 % af ársafla er nú veitt á fyrri hluta árs. Veiði á fyrstu mánuðum ársins er háð leyfilegum hámarksafla í kolmunna en einning háð því hversu mikill loðnukvóti er gefinn út. Þeim mun minni loðnukvóti því meiri kolmunnaveiði frá janúar og fram í mars.

Mynd 3. Kolmunni. Áætlað hlutfall afla íslenskra skipa eftir mánuði og ári.

Síðan árið 1995 hefur árlegur heildarafli úr stofninum sveiflast á bilinu frá tæplega 6 þúsund tonnum til tæplega 2,4 milljón tonna (Mynd 4).

Mynd 4: Kolmunni. Skráður afli fyrir öll lönd á öllum miðum frá 1963 til 2023 samkvæmt aflagrunni ICES.

Sýnataka

Sýnataka úr afla íslenskra skipa fyrir Hafrannsókastofnun var góð árið 2023 (Mynd 5). Fjöldi sýna, lengdarmælinga og aldursgreinga hefur þannig verið með ágætun frá því að skipulögð sýnasöfnun úr veiði hófst árið 1998 (Tafla 1).

Mynd 5: Kolmunni. Veiðislóð seinasta árs samkvæmt afladagbókum og staðsetning aflasýna (krossar) fyrir Hafrannsóknastofnun.
Tafla 1: Kolmunni. Fjöldi sýna úr afla, fjöldi fiska lengdarmældir, fjöldi aldursgreindir og allur landaður afli eftir árum.
Ár Fjöldi sýna Fjöldi mældir Fjöldi aldursgreindir Afli (t)
1998 11 1035 249 68681
1999 72 6676 1648 160425
2000 137 12151 2623 260938
2001 83 6863 3628 365099
2002 96 7918 4654 286430
2003 150 12808 7396 501496
2004 76 5801 3716 422078
2005 118 9094 5387 265515
2006 127 10807 6190 314768
2007 92 8090 4455 237854
2008 56 4985 2745 163793
2009 67 5667 3237 120202
2010 45 4035 2127 87908
2012 44 2559 1628 63056
2013 44 3598 2053 104918
2014 57 4910 2467 182879
2015 82 7569 2021 214870
2016 60 5215 1480 186914
2017 89 7960 2231 228935
2018 90 7507 2237 292952
2019 101 8208 2411 268351
2020 100 7665 2470 243725
2021 74 5740 1762 190147
2022 59 4734 1435 191813
2023 83 6736 2032 292853

Samsetning afla

Lengdardreifing kolmunna úr afla eftir árum er sýnd á Mynd 6. Árleg meðallengd kolmunna í afla sveiflast frá 24 cm til 30 cm. Veiði hvers árs byggist á fáeinum árgöngnum og þegar nýjir stórir árgangar koma inn í veiðina þá lækkar meðallengd. Þetta sést í veiðinni fyrir árin 2022 og 2023 þar sem stóru árgangarnir frá 2020 og 2021 koma inn í veiðina og meðallengd minnkar.

Mynd 6: Kolmunni. Lengdardreifing (grátt svæði) úr afla íslenskra skipa síðan 1998 ásamt meðaltali allra ára (svört lína). Meðallengd (cm) og fjöldi mældra fiska á ári er sýnt í efra hægra horni. Það var lítil bein kolmunnaveiði árið 2011 og engin aflasýni tekin.

Aldurssamsetning afla frá 2010 til 2023 sýnir hversu stórir árgangar frá 2014, 2020 og 2021 eru samanborið við aðra árganga (Mynd 7). Árgangar frá 2020-2021 eru áberandi í veiðinni síðusu tvö ár bæði í fjölda og magni (Mynd 8).

Mynd 7: Kolmunni. Aldurskiptur afli íslenskra skipa. Súlur gefa til kynna afla í fjölda eftir aldri og eru litaðar eftir árgöngum.

Mynd 8: Kolmunni. Áætluð samsetning heildarafla á ári skipt eftir árgöngum.

Heimildaskrá

Sigurvin Bjarnason. 2021. Kolmunni (Micromesistius poutassou). Í Guðmundur J. Óskarsson (ritstj.), Staða umhverfis og vistkerfa í hafinu við Ísland og horfur næstu áratugi. Haf- og vatnarannsóknir, HV 2021-14. https://www.hafogvatn.is/static/files/2021-sidur/hv2021-14.pdf

ICES. 2022. Stock Annex: Blue whiting (Micromesistius poutassou) in subareas 1- 9, 12, and 14 (Northeast Atlantic and adjacent waters). ICES Stock Annexes. Report. https://doi.org/10.17895/ices.pub.21105808.v1