Norsk-íslensk vorgotssíld

Clupea harengus


Stofnmatskýrslur
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

30 September 2024

Almennar upplýsingar

Norsk-íslenska vorgotssíldin (Clupea harengus) er víðförull og útbreiddur uppsjávarfiskur. Norsk-íslenski síldarstofninn er stærsti síldarstofn sem fyrirfinnst og viðhefur lengri fæðugöngur en aðrir síldarstofnar (Dragesund o.fl. 1997). Að lokinni hrygningu við austurstönd Noregs heldur síldin í fæðugöngu í Noregshaf og aðliggjandi hafsvæði, m.a. austur og norður af Íslandi (Libungan 2021). Fæðugöngur síldar tengjast árstíðabundnum sveiflum í dýrasvifi (Pavshtiks 1956). Fæðugangan hefst í apríl en eykst í maí og júní þegar mikilvægur hluti af fæðunni, rauðáta (Calanus finmarchicus) færir sig úr dýpri lögum sjávar í efri lög eftir vetursetu (Pétursdóttir o.fl. 2012).

Bæði víðáttumikil fæðusvæði kynþroska síldar og meginuppeldissvæði hennar í Barentshafi eru líklegar ástæður fyrir mikilli framleiðni og stærð stofnsins (Trenkel o.fl., 2014). Einkennandi fyrir stofninn er óregluleg framleiðsla sterkra árganga, en langt bil milli þeirra getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir stofninn (Toresen & Østvedt, 2000). Til dæmis kom enginn sterkur árgangur inn í stofninn á árunum 2005–2015, sem leiddi til þess að hrygningarstofninn minnkaði um 40%, úr 7 milljónum tonna í 4 milljónir tonna (Tiedemann o.fl., 2020).

Gögn sem notuð eru við stofnmat á norsk-íslenskri vorgotssíld eru fengin frá árlegum bergmálsleiðöngrum í Noregshafi sem hafa verið farnir síðan 1995 og Ísland hefur tekið þátt í frá upphafi. Lesa má meira um íslenska hluta leiðangursins í útgefinni skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Gögnin frá þessum leiðangri eru mikilvæg í stofnmati norsk-íslenska síldarstofnsins en einnig að meta breytileika í umhverfi og vistkerfi hafsins. Stofnvísitölur um fjölda eftir aldri síldar, sem fást frá bergmálsmælingum og sýnatökum úr síldarlóðningum, eru mikilvægar í samstillingu í stofnmatslíkani fyrir stofninn (ICES 2024).

Veiðar og aflaþróun

Veiðar Íslendinga á norsk-íslenskri síld hófust á 19. öld, en umfang þeirra jókst eftir 1930. Á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina, sérstaklega frá 1940 til 1970, jukust veiðarnar verulega og urðu mikilvægar fyrir íslenskan sjávarútveg, þar sem síldin varð ein af mikilvægustu auðlindum þjóðarinnar. Norsk-íslenski síldarstofninn hrundi í kjölfarið vegna ofveiði í kringum árið 1968 og sást ekki aftur við Ísland þar til árið 1994 en það ár veiddu íslendingar 21 þús tonn. Frá árinu 1994 hefur árlegur heildarafli allra þjóða úr stofninum sveiflast á bilinu 0,3-1,7 milljón tonn (Mynd 1).

Mynd 1: Norsk-íslensk síld. Skráður afli fyrir öll lönd á öllum miðum frá 1988 til 2023.

Eftir að veiðar hófust á ný hefur heildarafli íslenskra skipa verið á bilinu 43-269 þúsund tonn (Mynd 2). Veiðisvæði íslenskra skipa hefur breyst í gegnum tíðina og uppúr 2005 jókst hlutfall afla fenginn í íslenskri lögsögu. Síðustu ár hefur yfir 90% heildarafla Íslendinga fengist í íslenskri lögsögu (Mynd 2).

Mynd 2: Norsk-íslensk síld. Landaður afli íslenskra skipa samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Um aldamót var veiðisvæði Íslendinga norðaustur af Íslandi við Jan Mayen og í Alþjóðlegu lögsögunni (Mynd 3). Árin 2001-2005 færðist veiðin austar og norðar að Svalbarða en árið 2009 má sjá að veiðin hafði færst inn í íslenska lögsögu en þó var enn veiði austur í hafi við lögsögu Noregs. Á árunum 2014 til 2019 færðist veiðin meira inn á hafsvæðið austur af landi og árið 2023 var >95% alls afla fengin á litlu svæði út af Austfjörðum.

Mynd 3: Norsk-íslensk síld. Útbreiðsla veiða íslenskra skipa á fimm ára fresti 1999-2023, samkvæmt afladagbókum.

Sýnataka

Við mat á aldurssamsetningu í veiðunum er stuðst við sýni úr afla veiðiskipa sem safnað er á sjó af sjómönnum og upplýsingum um afla frá Fiskistofu. Sýnataka úr afla var góð árið 2023 og náði yfir meginútbreiðslu veiðanna (Mynd 4). Fjöldi sýna, lengdarmælinga og aldursgreinga síðan 2004 er sýndur í Tafla 1.

Mynd 4: Norsk-íslensk síld. Veiðislóð seinasta árs samkvæmt afladagbókum og staðsetning sýna (krossar) til Hafrannsóknastofnunar.

Tafla 1: Norsk-íslensk síld. Fjöldi sýna og kvarna úr lönduðum afla eftir árum.
Ár Fjöldi stöðva Fjöldi sýna Fjöldi kvarna
2004 8 150 148
2005 49 1829 1792
2006 31 1269 655
2007 90 6975 3494
2008 80 3664 3664
2009 162 9355 7192
2010 256 19621 7385
2011 184 9261 6236
2012 105 5448 2861
2013 96 4158 2793
2014 75 5221 1557
2015 43 1907 1539
2016 56 2441 1839
2017 82 3719 2116
2018 59 2822 1425
2019 89 4198 2299
2020 62 3327 1443
2021 89 5191 2101
2022 65 4214 1373
2023 93 6269 2123

Samsetning afla

Lengdardreifing norsk-íslenskrar síldar úr afla eftir árum er sýnd á Mynd 5. Árleg meðallengd síldar í afla sveiflast frá 29 cm til 34 cm. Stærðarsamsetning afla hefur breyst með árunum þar sem frá árinu 2007 til 2019 hafði stærri síld verið áberandi í afla en eftir 2020 hefur yngri fiskur verið meira áberandi í afla.

Mynd 5: Norsk-íslensk síld. Lengdardreifing úr afla íslenskra skipa eftir árum.

Aldursgreindur afli

Afli í fjölda eftir aldri er sýndur á Mynd 6. Frá árinu 2008 má sjá að stór hluti landaðs síldarafla er 2002 árgangurinn sem var uppistaða aflans til ársins 2012. Eldri síld hefur verið áberandi í afla Íslendinga frá aldamótum en síðustu ár hefur hlutdeild 2016 árgangsins aukist. Árið 2023 var 2016 árgangurinn tæp 50% af heildarafla (Mynd 7).

Mynd 6: Norsk-íslensk síld. Aldurskiptur afli íslenskra skipa. Súlur gefa til kynna afla í fjölda eftir aldri og eru litaðar eftir árgangi. Ath. mismunandi skala á y-ás.

Mynd 7: Norsk-íslensk síld. Áætluð samsetning heildarafla íslenskra skipa á ári skipt eftir árgangi.

Heimildaskrá

Dragesund, O., Johannessen, A. & Ulltang, Ø. 1997. Variation in migration and abundance of Norwegian spring spawning herring (Clupea harengus L.). Sarsia. 82, 97-105.

Hildur Pétursdóttir, Falk-Petersen, S. & Ástþór Gíslason. 2012. Trophic interactions of meso- and macrozooplankton and fish in the Iceland Sea as evaluated by fatty acid and stable isotope analysis. ICES Journal of Marine Science. 69(7), 1277–1288. doi:10.1093/icesjms/fss125

ICES. (2024). Cruise report from the International Ecosystem Summer Survey in the Nordic Seas (IESSNS) 28th June – 2 nd August 2024. ICES Working Group on Widely Distributed Stocks (WGWIDE, No. 3) MFRI, Hafnarfjordur , Iceland, (hybrid meeting) 28. August – 3. September 2024

Lísa A. Libungan. 2021. Síld (Clupea harengus). Í Guðmundur J. Óskarsson (ritstj.), Staða umhverfis og vistkerfa í hafinu við Ísland og horfur næstu áratugi. Haf- og vatnarannsóknir, HV 2021-14. https://www.hafogvatn.is/static/files/2021-sidur/hv2021-14.pdf

Pavshtiks, E.A. 1956. Seasonal changes in plankton and feeding migrations of herring. Trudy Polyarnogo nauchno-issledovatel’skogo instituta morskogo rybnogo khozyaistva i okeanografii imeni N.M. Knipovicha. 99, 93-123.

Tiedemann, M., Nash, R.D.M., Stenevik, E.K., Stiasny, M.H., Slotte, A. & Kjesbu, O.S. 2020. Environmental influences on Norwegian spring-spawning herring (Clupea harengus L.) larvae reveal recent constraints in recruitment success. ICES Journal of Marine Science. fsaa072, 1-13.

Toresen, R. & Østvedt, O.J. 2000. Variation in abundance of Norwegian spring herring (Clupea harangus, Clupeidae) throughout the 20th century and the influence on climatic fluctuation. Fish and Fisheries. 1, 231-256.

Trenkel, V.M., Huse, G., MacKenzie, B.R., Alvarez, P., Arrizabalaga, H., Castonguay, M., Goñi, N., Grégoire, F., Hátún, H., Jansen, T. Jacobsen, J.A., Lehodey, P., Lutcavage, M., Mariani, P., Melvin, G.D., Neilson, J.D., Nøttestad, L., Guðmundur J. Óskarsson, Payne, M.R., Richardson, D.E., Senina, I. & Speirs, D.C. 2014. Comparative ecology of widely distributed pelagic fish species in the North Atlantic: Implications for modelling climate and fisheries impacts. Progress in Oceanography. 129, 219-243.