RÆKJA Í ÍSAFJARÐARDJÚPI

Pandalus borealis


Stofnmatsskýrslur
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

17.10.2024

Veiðar

Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi hófust á fjórða áratug síðustu aldar. Á árunum 1978-2002 var rækjuafli 1000-3100 tonn (Mynd 1). Engar rækjuveiðar voru heimilaðar í Ísafjarðardjúpi fiskveiðiárin 2003/2004 til 2010/2011 þar sem vísitala rækju var mjög lág. Eftir að veiðar hófust aftur haustið 2011 hefur aflinn verið 300-1100 tonn. Afli á sóknareiningu (CPUE) hækkaði rólega frá 1961 til 2003. Frá 2011 hefur afli á sóknareiningu verið miklu hærri, aðallega vegna aukins þéttleika rækju innst í Djúpinu.

Mynd 1: Rækja í Ísafjarðardjúpi. Heildarafli og afli á sóknareiningu.

Útbreiðsla veiða hefur breyst í gegnum tíðina (Mynd 2). Frá 2012-2017 voru tvö aðalveiðisvæði, annað innst í Djúpinu en hitt utarlega en frá árinu 2016 hefur mest verið veitt innarlega í Ísafjarðardjúpi.

Mynd 2: Rækja í Ísafjarðardjúpi. Dreifing afla eftir fiskveiðiárum.

Leiðangrar

Frá árinu 1988 hefur verið farið árlega í leiðangur að hausti til að meta stofnstærð rækju í Ísafjarðardjúpi. Árið 2024 fór stofnmælingin fram 21.-27. september. Teknar voru 28 fastar stöðvar og 15 lausar stöðvar og voru þær á 34-125 m dýpi. Allar upplýsingar um framkvæmd leiðangursins má finna í handbók verkefnisins (Ingibjörg G. Jónsdóttir 2024).

Frá árinu 1988 var rækja útbreidd frá Æðey og inn eftir Ísafjarðardjúpi, en einnig í Jökulfjörðum. Þegar vísitala rækju lækkaði minnkaði útbreiðslusvæði hennar (Mynd 3). Frá árinu 2011 hefur útbreiðsla rækju einskorðast við innri hluta Ísafjarðardjúps, mest í Ísafirði og Mjóafirði. Árið 2024 fannst rækja nær eingöngu innst í Djúpinu.

Mynd 3: Rækja í Ísafjarðardjúpi. Útbreiðsla og magn í stofnmælingu. x sýnir hvar engin rækja fannst.

Vísitölur

Reiknaðar eru fjórar vísitölur til að meta ástand stofnsins: vísitala stofnstærðar, vísitala veiðistofns, kvendýravísitala og vísitala ungrækju. Ungrækja eru allir einstaklingar með skjaldarlengd minni en 13 mm meðan veiðistofn eru allir einstaklingar 15,5 mm og stærri. Einstaklingum frá 13,0-15,5 mm skjaldarlengd er skipt á milli ungrækju og veiðistofns. Kvendýravísitala miðar við öll kvendýr og er það skilgreiningin á hrygningarstofni.

Allar vísitölur, nema vísitala ungrækju, lækkuðu stöðugt á árunum 1990-2004 þegar þær náðu sögulegu lágmarki (Mynd 4). Árið 2011 hækkuðu vísitölurnar í 4 ár. Frá árinu 2016 hafa vísitölurnar lækkað en voru nokkuð stöðugar frá 2018-2022, að undanskildu árinu 2021, og vísitala veiðistofns hefur verið yfir skilgreindu viðmiðunargildi. Viðmiðunargildi (Ilim) er 20 % af meðaltali þriggja hæstu vísitalna úr stofnmælingu. Árið 2024 var vísitala veiðistofns aðeins hærri en árinu áður en undir skilgreindu viðmiðunargildi.

Mynd 4: Rækja í Ísafjarðardjúpi. Heildarstofnsvísitala, veiðistofnsvísitala, kvendýravísitala og vísitala ungrækju. Lárétt lína sýnir varúðarmörk Ilim nálgun á Blim (20% af meðaltali þriggja hæstu vísitalna).

Lengdardreifingar

Lengdarskiptar lífmassavísitölur sýna að í stofnmælingu árið 2024 var magn karl- og kvendýra undir meðallagi (Mynd 5).

Mynd 5: Rækja í Ísafjarðardjúpi. Lengdardreifing í stofnmælingu. Svört lína sýnir karldýr og sú rauða kvendýr. Gráa svæðið sýnir meðallengdardreifingu beggja kynja allt rannsóknatímabilið. Athugið mismunandi skala á y-ás.

Magn þorsks og ýsu

Vísitala þorsk- og ýsuseiða (0-grúppu) hefur sveiflast á rannsóknatímanum (Mynd 6). Árið 2024 voru vísitölur þorsk- og ýsuseiða lágar. Vísitala þorsks 1 árs og eldri var fremur lág 1994-2010, en hærri á tímabilinu 2011-2022. Vísitalan þorsks var lág árið 2024. Vísitala ýsu 1 árs og eldri hækkaði frá 1995 til 2005 og hefur haldist há síðan þá. Árin 2020-2021 voru vísitölur ýsu 1 árs og eldri þær hæstu á rannsóknatímanum en hún lækkaði árin 2022-2024 en er samt enn töluvert há í sögulegu samhengi (Mynd 6).

Mynd 6: Þorskur og ýsa í Ísafjarðardjúpi. Vísitölur í stofnmælingu rækju.

Útbreiðslusvæði ýsu í Ísafjarðardjúpi hefur stækkað samfara hækkandi vísitölu ýsu (Mynd 7). Á árunum 1988-2000 fannst hún nær eingöngu fyrir utan Æðey en frá 2003 hefur útbreiðslusvæðið stækkað og ýsa fundist í öllu Ísafjarðardjúpi.

Mynd 7: Ýsa í Ísafjarðardjúpi. Útbreiðsla í stofnmælingu rækju.

Hitastig sjávar

Meðal hiti sjávar við yfirborð og botn hækkaði frá 1988 til 2003 (Mynd 8). Hitastig hélst nokkuð hátt þar til eftir árið 2010 að hitastigið lækkaði aftur. Meðal hitastig við yfirborð og botn hefur oftast legið á milli 7 og 8,5 °C frá árinu 2015 fyrir utan árið 2022 þegar hitastigið var hærra.

Mynd 8: Hitastig sjávar. Meðal hitastig í yfirborði (rauð lína) og meðal hitastig við botn (svört lína) í Ísafjarðardjúpi í stofnmælingu.

Fiskveiðistjórnun

Matvælaráðuneytið ber ábyrgð á og gefur út aflamark fyrir alla nytjastofna við Ísland. Fiskveiðiárið var frá hausti (að lokinni stofnmælingu í september/október) til 30. apríl en árið 2017 var því breytt til 31. ágúst. Leyfilegt aflamark og landaður afli hafa fylgt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar (Mynd 9).

Mynd 9: Rækja í Ísafjarðardjúpi. Samanburður á aflamarki, afla og ráðgjöf.

Heimildir

Ingibjörg G. Jónsdóttir 2024. Handbók um stofnmælingu rækju árið 2024. Kver Hafrannsóknastofnunar, KV2024-007.