ÚTHAFSRÆKJA

Pandalus borealis


Stofnmatsskýrslur
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

17. ágú. 2024

Veiðar

Veiðar á úthafsrækju hófust upp úr 1970 en þær fara fram fyrir norðan land. Afli var lítill fyrsta áratuginn en jókst jafnt og þétt frá árinu 1982 þar til hámarki var náð árið 1997 en þá var landaður úthafsrækjuafli 62 þús. tonn. Aflinn minnkaði hratt eftir árið 1997 og náði sögulegu lámarki árið 2006 þegar 600 tonnum var landað (Mynd 1). Árlegur afli 2014-2020 var að meðaltali 3300 tonn og hefur farið minnkandi frá árinu 2012 þegar 7350 tonnum var landað. Árið 2020 var landaður afli 1960 tonn, sem er minnsti afli síðan á árunum 2006-2008.

Árið 1988 lönduðu 152 skip úthafsrækjuafla. Skipunum fækkaði stöðugt til ársins 2006 þegar eingöngu eitt skip landaði úthafsrækjuafla. Þeim fjölgaði aftur til ársins 2013 en þá voru þau 34 en síðan þá hefur þeim fækkað jafnt og þétt og aðeins fimm skip lönduðu úthafsrækjuafla árið 2023.

Mynd 1: Úthafsrækja. Heildarafli og fjöldi skipa.
Mynd 2: Úthafsrækja. Staðlaður afli á sóknareiningu eftir árum, mánuðum og stærð veiðarfæris (fjölda möskva).

Afli á sóknareiningu (CPUE) jókst árin 1989-1996 en árin 1996-1999 lækkaði hann hratt (Mynd 2). Afli á sóknareiningu var sveiflukenndur milli 2001 og 2012 en lækkaði hratt milli 2012 og 2014. Árin 2020 og 2021 hækkaði afli á sóknareiningu og var svipaður og á árunum 1992-1997. Afli á sóknareiningu er hæstur í mars en lækkar um sumarið og er lægstur í nóvember og desember. Afli á sóknareiningu eykst með stærð veiðarfæris, en er svipaður hjá veiðarfærum með 2500-5000 möskva.

Að jafnaði eykst afli á sóknareiningu með hækkandi lífmassavísitölu rækju (Mynd 3). Á árunum 1989-2002 var ágætis samræmi milli afla á sóknareiningu og lífmassavísitölu rækju. Frá árinu 2003 hefur afli á sóknareiningu bent til betra ástand stofnsins en lífmassavísitala. Lækkun varð í báðum vísitölum milli 2010-2015.

Mynd 3: Úthafsrækja. Til vinstri: Samband staðlaðs afla á sóknareiningu og lífmassavísitölu rækju úr stofnmælingu. Til hægri: Staðlaður afli á sóknareiningu (heil lína, vinstri ás) og lífmassavísitala rækju úr stofnmælingu (brotin lína, hægri ás).

Helsta veiðisvæði úthafsrækju hefur breyst á tímabilinu 1988-2021 (Mynd 4). Á árunum 1988-2005 var úthafsrækja veidd á stærra svæði samanborið við árin 2006-2020. Frá árinu 1988 var hátt hlutfall aflans veitt í Norðurkanti og við Kolbeinsey en frá árinu 2006 hefur hlutfallslega meira verið veitt út af Skjálfanda og Öxarfirði og engar rækjuveiðar hafa verið stundaðar norðaustur og austur af landinu.

Mynd 4: Úthafsrækja. Dreifing afla eftir völdum árum.

Leiðangrar

Frá árinu 1988 til 2018 var farið árlega í leiðangur til að meta stofnstærð úthafsrækju en frá árinu 2018 hefur verið farið annað hvert ár. Upphaflega voru teknar 190 stöðvar en árið 2006 var stöðvum fækkað í 92 en rannsóknasvæðið var það sama. Árið 2014 var stöðvunum fækkað í 86 og eru þær á allt að 700 m dýpi. Vísitalan er reiknuð út frá öllum stöðvum sem teknar eru í leiðangrinum hverju sinni. Allar upplýsingar um framkvæmd leiðangursins má finna í handbók verkefnisins (Ingibjörg G. Jónsdóttir 2024). Árið 2024 var veður slæmt á rannsóknatímanum og þurfti að sleppa 6 stöðvum vestarlega á rannsóknasvæðinu.

Þéttleiki úthafsrækju hefur minnkað eftir árið 1996 þegar vísitalan var í sögulegu hámarki. Þéttleikinn hefur verið lítill fyrir austan og norðaustan land frá árinu 2004 og árið 2024 fannst engin rækja á töluvert af stöðvum á þessu svæði (Mynd 5).

Mynd 5: Úthafsrækja. Útbreiðsla og magn í stofnmælingu. x sýnir hvar engin rækja fannst.

Vísitölur

Reiknaðar eru fjórar vísitölur til að meta ástand stofnsins: vísitala stofnstærðar, vísitala veiðistofns, kvendýravísitala og vísitala ungrækju. Ungrækja eru allir einstaklingar með skjaldarlengd minni en 13 mm meðan veiðistofn eru allir einstaklingar 15,5 mm og stærri. Einstaklingum frá 13,0-15,5 mm skjaldarlengd er skipt á milli ungrækju og veiðistofns. Kvendýravísitala miðar við öll kvendýr og er það skilgreiningin á hrygningarstofni.

Vísitala stofnstærðar og vísitala veiðistofns hækkuðu til ársins 1996 en lækkuðu svo til ársins 2004 (Mynd 6). Vísitölurnar hækkuðu aðeins árin 2006-2009 en lækkuðu aftur til ársins 2011. Síðan þá hafa þær verið tiltölulega stöðugar en lágar, að undanskyldu árinu 2015 þegar þær voru í sögulegu lágmarki. Vísitölurnar hafa lækkað frá árinu 2018 og árið 2024 voru þær næst lægstu sem mælst hafa frá upphafi. Vísitala veiðistofns var fyrir ofan viðmiðunargildi. Viðmiðunargildi er (Ilim) er 20 % af meðaltali þriggja hæstu vísitalna úr stofnmælingu. Kvendýravísitala hefur sveiflast frá árinu 1988 en hefur almennt farið lækkandi. Vísitala ungrækju hækkaði frá árinu 1988 til 1994. Frá þeim tíma hefur hún lækkað og var í sögulegu lágmarki árið 2020 en hækkaði töluvert árið 2024 sem er næst hæsta vísitala ungrækju frá árinu 2015.

Mynd 6: Úthafsrækja. Heildarstofnsvísitala, veiðistofnsvísitala, kvendýravísitala og vísitala ungrækju. Lárétt lína sýnir varúðarmörk Ilim nálgun á Blim (20% af meðaltali þriggja hæstu vísitalna).

Lengdardreifingar

Úthafsrækja vex hægt og því er erfitt að greina á milli aldurshópa. Fjöldi karldýra hefur minnkað og hefur verið í meðallagi frá árinu 2004. Frá árinu 2015 hefur magn minnstu karldýranna verið mjög lítið en árið 2024 fjölgaði yngri karldýrum frá fyrri árum (Mynd 7).

Mynd 7: Úthafsrækja. Lengdardreifing í stofnmælingu. Svört lína sýnir karldýr og sú rauða kvendýr. Gráa svæðið sýnir meðallengdardreifingu beggja kynja allt rannsóknatímabilið.

Magn þorsks

Vísitala þorskungviðis í stofnmælingu úthafsrækju er mjög breytileg og var mjög há árið 2015 (Mynd 8). Vísitala eldri þorsks var mjög lág árin 1988-1995 en frá 2003 hefur vísitalan verið mun hærri en fyrir árið 1996. Vísitala eldri þorsks hefur haldist há frá árinu 2014, með hámarki árin 2016-2018 og árið 2024 var vísitala þorsks sú hæsta frá upphafi (Mynd 8).

Mynd 8: Þorskur. Vísitölur í stofnmælingu úthafsrækju. Ungviði miðar við yngri en 1 árs (< 16 cm).

Hitastig sjávar

Meðal yfirborðshiti sjávar hækkaði frá 1998 til 2003 og hefur haldist hár síðan þá (Mynd 9). Meðal botnhiti sjávar jókst stöðugt frá 1988 til 2014 en hefur aðeins lækkað og hefur sveiflast milli 1,2 og 1,5°C frá 2015 til 2024.

Mynd 9: Hitastig sjávar. Meðal hitastig í yfirborði (rauð lína) og meðal hitastig við botn (svört lína) á útbreiðslusvæði úthafsrækju í leiðangri.

Fiskveiðistjórnun

Matvælaráðuneytið ber ábyrgð á og gefur út aflamark fyrir alla nytjastofna við Ísland. Hafrannsóknastofnun veitti fyrst ráðgjöf fyrir úthafsrækju árið 1987 og veiðum hefur verið stjórnað með aflamarki nema fiskveiðiárin 2010/2011 til 2013/2014 þegar úthafsrækjuveiðar voru gefnar frjálsar. Leyfilegt aflamark og landaður afli hafa að mestu fylgt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar (Mynd 10).

Fiskveiðiárið er frá 1. september til 31. ágúst en það tók gildi 1. september 1991.

Mynd 10: Úthafsrækja. Samanburður á aflamarki, afla og ráðgjöf.

Heimildir

Ingibjörg G. Jónsdóttir 2024. Handbók um stofnmælingu rækju árið 2024. Kver Hafrannsóknastofnunar, KV2024-007.