SKARKOLI

Pleuronectes platessa


Stofnmatskýrslur
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

7. júní 2024

Almennar upplýsingar

Heimkynni skarkola við Ísland eru á landgrunninu allt í kringum landið, aðallega á 0-200 metra dýpi. Skarkoli finnst aðallega á leirkenndum eða sendnum botni vestur og norðvestur af landinu (Jónsson & Pálsson, 2013). Hrygnur skarkola verða stærri en hængar en einungis lítill hluti hænga verður lengri en 45 cm. Hrygnur geta á hinn bóginn orðið allt að 85 cm langar. Lengd við kynþroska er breytileg þar sem helmingur hænga verður kynþroska þegar þeir eru um 33 cm en sama hlutfall hrygna ekki fyrr en við 38 cm lengd. Hrygning á sér stað á 50-100 metra dýpi í hlýjum sjó fyrir sunnan og suðvestan land en einnig eru smærri hrygningareiningar fyrir norðvestan og norðan land. Að myndbreytingu lokinni leitar ungviði skarkolans sér skjóls á botni sendinna fjara og ver sínu fyrsta sumri rétt við fjörumörk (Hjorleifsson and Palsson 2001).

Greining á erfðasýnum (Le Moan, Bekkevold, and Hemmer-Hansen 2021; Hoarau et al. 2004) gefa til kynna að skarkolar við Ísland og Færeyjar séu frábrugðnir skarkolum annarsstaðar. Merkingatilraunir áranna fyrir 1980 (Sigurdsson 1982) gáfu til kynna mögulegan samgang við Barentshaf. Nýrri merkingatilraunir hafa hins vegar gefið til kynna að skarkolinn haldi sig einvörðungu á íslenska landgrunninu (Solmundsson, Palsson, and Karlsson 2005). Það er því talið að þessar fyrri niðurstöður hafi verið vitlausar skráningar erlendra fiskiskipa. Þessar nýrri merkingatilraunir gefa til kynna talsvert far milli svæða á íslenska landgrunninu. Þessar mælingar og breytingar í útbreiðslu í stofnmælingarleiðöngrum að vori og hausti gefa því ekki til kynna mikinn breytileika í stofngerð skarkola á Íslandsmiðum.

Veiðar

Veiðisvæði skarkola er fyrst og fremst að finna fyrir vestan og suðvestan land, en smærri veiðisvæði eru í suðaustri og í fjörðum fyrir norðan land (Mynd 1 og Mynd 2). Dragnót er helsta veiðarfærið (59 - 71% síðan 2011), en botnvarpa kemur þar á eftir (23 - 37%). Afli skráður á önnur veiðarfæri, þá einna helst lína og net, er minni háttar (Mynd 4). Dragnótarbátar veiða mest af skarkola á grunnsævi en togarar sækja skarkolann dýpra og lengra frá landi. Útbreiðslusvæði veiðanna hefur lítið breyst á síðustu níu árum samkvæmt afladagbókum (Mynd 1).

Helstu veiðisvæði skarkola frá árinu 2000 eru á landgrunninu fyrir suðvestan, vestan og norðvestan land (Mynd 2). Útbreiðsla veiðanna hefur verið stöðug, u.þ.b. 60% skarkolans hefur veiðst fyrir vestan og norðvestan land. Hlutfall skarkolaafla á suðvestursvæði jókst lítillega árin 2004-2014 en er nú komið í fyrra horf með u.þ.b. 10% af heildarafla. Seinni ár hafa veiðar verið að mestu leyti vestur og norðvestur af landinu.

Skarkoli veiðist mest (60-80%) á dýptarbilinu 21-80 m (Mynd 3). Mest veiðist í dragnót og botnvörpu (95 % af heildarafla) (Mynd 4). Dragnótabátar veiða u.þ.b. 59-71% af skarkolaafla og veiðarnar fara fram í grunnum sjó. Um þriðjungur skarkolaafla fæst í botnvörpu og fara veiðarnar fram á meira dýpri lengra frá landi. Þetta hlutfall hefur haldist stöðugt gegnum árin, líkt og hlutfall annarra veiðarfæra sem nýtt eru til skarkolaveiða en þar eru net mest áberandi (5-10% af löndunum frá árinu 2004).

Fjöldi skipa sem landa skarkola, hefur farið minnkandi frá árinu 2000 (Tafla 1). Á sama tíma hefur heildaraflinn aukist og þá aðallega frá árinu 2014. Þessi fækkun skipa er mest áberandi í dragnótaflotanum þar sem fjöldinn fór úr 125 skipum árið 2000 í 37 árið 2021. Togurum sem landa skarkola hefur einnig fækkað, úr 134 árið 2000 í 56 árið 2023. Heildarafli landaðs skarkola hefur verið tiltölulega stöðugur síðastliðna tvo áratugi (4900-8300 t).

Tafla. 1: Skarkoli. Fjöldi báta sem landaða hafa skarkola, og heildar landaður afli eftir veiðarfæri og árum.
Ár Fj. dragnótabáta Fj. togara Fj. annarra báta Afli í dragnót Afli í botnvörpu Afli önnur veiðarf. Heildarafli
2000 125 134 450 3070 1747 442 5259
2001 95 127 521 2924 1402 600 4926
2002 96 118 420 3426 1270 446 5142
2003 95 115 389 3590 1295 372 5257
2004 95 108 399 4037 1375 294 5706
2005 88 105 352 3909 1638 255 5802
2006 87 99 365 3720 2449 212 6381
2007 82 98 355 3311 2232 267 5810
2008 80 93 322 3836 2605 285 6726
2009 70 85 315 3889 2125 310 6324
2010 61 85 328 3647 2038 299 5984
2011 55 80 357 3021 1655 267 4943
2012 54 88 374 4079 1410 437 5926
2013 56 87 317 4040 1583 364 5987
2014 45 74 317 4239 1380 308 5927
2015 50 74 319 4403 2001 350 6754
2016 44 73 280 4896 2120 430 7446
2017 48 71 283 4579 1765 351 6695
2018 47 66 257 5584 2436 321 8341
2019 44 63 276 4287 2231 316 6834
2020 41 65 213 4682 2474 350 7506
2021 37 63 238 4719 3604 355 8678
2022 40 62 210 4307 2743 227 7277
2023 41 56 208 3939 2456 237 6632

Mynd 1: Skarkoli. Útbreiðsla veiða á Íslandsmiðum seinustu 9 ár samkvæmt afladagbókum.

Mynd 2: Skarkoli. Útbreiðsla veiða við Ísland frá árinu 2000 samkvæmt afladagbókum.

Mynd 3: Skarkoli. Afli í dragnót og botnvörpu samkvæmt afladagbókum, skipt eftir dýpi.

Mynd 4: Skarkoli. Landaður afli eftir veiðarfærum frá árinu 1994, samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Saga landana

Skarkolaveiðar á Íslandsmiðum hafa verið stöðugar síðustu tvo áratugi og heildarafli farið úr 5 í 8 þúsund tonn (Mynd 6). Skarkolaafli ársins 2023 er skráður 6632 tonn, sjá Mynd 5. Aflinn árið 1985 var 14.5 þúsund tonn, sem er mesti afli sem skráður hefur verið.

Afli erlendra fiskiskipa var umtalsverður fyrir stækkun landhelginnar í 200 mílur, sem lauk árið 1975. Eftir það hefur skarkoli nær einvörðungu verið veiddur af íslenskum fiskiskipum. Fyrir seinna stríð var skarkoli nær einvörðungu veiddur af erlendum skipum, en á árum seinna stríðs og samfara stækkun landhelginnar jókst hlutdeild íslenskra skipa.

Mynd 5: Skarkoli. Fjöldi skipa og báta (öll veiðarfæri) sem veiddu 95% heildaraflans hvert ár frá 1994. Vinstri: Sýnt eftir árum. Hægri: Sýnt í samanburði við heildarafla. Gögn frá aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Mynd 6: Skarkoli. Landaður afli síðan 1905.

Yfirlit gagna

Söfnun á líffræðilegum mælingum úr afla helstu veiðarfæra (dragnót og botnvarpa) er talin góð og sama má segja um útbreiðsla mælinga yfir veiðisvæði. Dæmi um umfang mælinga úr afla má sjá á Mynd 7. Fjöldi lengdar- og aldurssýna úr lönduðum afla hefur verið minnkaður verulega frá árinu 2013. Fyrir þann tíma voru u.þ.b. 6000-7000 fiskar kvarnaðir til aldursgreiningar og um 150 sýni tekin árlega. Eftir 2013 var sýnum fækkað og hafa verið 24-58 úr dragnót og 21-53 úr botnvörpu (Tafla 3 og Mynd 8). Sýnum er ekki safnað úr afla annarra veiðarfæra þar sem hann er lítill hluti heildarafla skarkola (~5%). Sýnataka úr afla fyrir helstu veiðarfæri er almennt góð (dragnót, lína og botnvarpa). Þó má merkja samdrátt í sýnatöku 2020 vegna takmarkana í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn, þá einna helst í sýnatökum eftirlitsmanna.

Mynd 7: Skarkoli. Hlutfall sýna eftir mánuðum (súlur) samanborið við landanir eftir mánuðum (svört lína), skipt eftir árum og helstu veiðarfærum. Tölur fyrir ofan súlur sýna heildarfjölda sýna.

Mynd 8: Skarkoli. Veiðislóð árið 2023 samkvæmt afladagbókum og staðsetning sýna (krossar) skipt eftir helstu veiðarfærum (botnvarpa og dragnót).

Landanir og brottkast

Allar skráðar landanir frá Íslandsmiðum fyrir 1966, sem og landanir erlendra fiskiskipa fram að 2014, eru skráðar í STATLANT löndunargrunninn sem er hægt að nálgast af vefsíðu Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Landanir innlendra fiskiskipa voru skráðar af Fiskifélaginu fram til 1992 en eftir það hefur skráningin verið í höndum Fiskistofu. Brottkast er bannað í botnfiskveiðum á Íslandsmiðum. Byggt á mati á lengdarháðu brottkasti þar sem smáfiski er hent frekar en stærri fiski, sem er unnið fyrir árin eftir 2001, er hlutfall brottkasts á skarkola talið lítið seinni ár (<3% bæði í þyngd og í fjölda, sjá nánar í MRI (2016)). Til þess að lágmarka líkur á brottkasti hafa útgerðir möguleika á því að landa undirmáli utan kvóta, að því gefnu að ágóðinn fari í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Að auki er möguleiki á því að flytja kvóta milli tegunda og fiskveiðiára.

Lengdardreifing landaðs skarkola

Hlutfallsleg lengdardreifing landaðs skarkolaafla hefur smám saman hliðrast til hægri (stærri skarkoli) síðastliðin 20 ár (Mynd 9). Meðallengd landaðs skarkola jókst úr 38,5 cm árið 2001 í 43,1 cm árið 2016 og hefur haldist svipuð síðan. Mest hefur verið safnað úr lönduðum botnvörpu- og dragnótaafla (Tafla 2).

Tafla. 2: Skarkoli. Fjöldi sýna og lengdarmælinga úr lönduðum afla.
Ár Botnv. fj. lengdarm. Botnv. fj. sýna Dragnót fj. lengdarm. Dragnót fj. sýna
2000 33 4261 49 7185
2001 9 1003 51 7517
2002 18 2392 69 11263
2003 21 3278 96 13804
2004 28 3834 150 21216
2005 35 5251 139 20583
2006 60 8102 135 19222
2007 49 6837 124 17073
2008 77 11359 129 17471
2009 50 7201 136 19106
2010 62 9608 126 17387
2011 55 7609 110 16857
2012 39 5723 129 18329
2013 31 4688 115 16647
2014 21 2531 53 7271
2015 33 4142 44 5997
2016 32 4757 58 8075
2017 28 3527 52 6231
2018 24 3506 43 5666
2019 36 4838 47 5990
2020 27 2788 24 3031
2021 53 6922 42 5067
2022 34 4507 26 3211
2023 41 4474 31 3486

Mynd 9: Skarkoli. Lengdardreifingar úr afla.

Aldursdreifing landaðs skarkola

Árin 2002-2005 var stór hluti landaðs skarkolaafla 4-7 ára gamall fiskur, eða um 60% landaðs afla áætlað út frá fjölda fiska (Mynd 10). Hlutfall þessara aldurshópa í veiði hefur lækkað og síðastliðin fimm ár hefur það verið kringum 40-45%. Með tímanum hefur meira veiðst af eldri skarkola og á síðastliðnum árum hafa 6-8 ára gamall fiskur verið áberandi í veiðinni. Yfirlit yfir kvarnasýnatöku úr lönduðum afla má sjá í Tafla 3.

Tafla. 3: Skarkoli. Fjöldi sýna og kvarna úr lönduðum afla eftir árum og veiðarfærum.
Ár Botnv. fj. kvarna Botnv. fj. sýna Dragnót fj. kvarna Dragnót fj. sýna
2000 33 1507 49 2400
2001 9 350 51 2250
2002 18 599 69 2424
2003 21 550 96 3149
2004 28 820 150 3701
2005 35 1000 139 3036
2006 60 1450 135 3200
2007 49 1500 124 3199
2008 77 1850 129 3099
2009 50 1250 136 3180
2010 62 2016 126 3951
2011 55 2452 110 4200
2012 39 1835 129 5199
2013 31 1350 115 5010
2014 21 575 53 900
2015 33 670 44 800
2016 32 573 58 1125
2017 28 550 52 974
2018 24 400 43 880
2019 36 476 47 750
2020 27 550 24 550
2021 53 1225 42 900
2022 34 560 26 470
2023 41 620 31 598

Mynd 10: Skarkoli. Afli í fjölda, súlur eru litaðar eftir árgangi. Ath. mismunandi skala á y-ásum.

Þyngd eftir aldri

Meðalþyngdir landaðs skarkolaafla eftir aldri eru sýndar á Mynd 11. Meðalþyngdir úr afla hafa hækkað í öllum aldursflokkum síðan 1995.

Mynd 11: Skarkoli. Þyngd eftir aldri úr afla.

Náttúruleg dánartala

Engar upplýsingar eru til um náttúrulega dánartölu skarkola.

Afli á sóknareiningu (CPUE) og sókn

Afli á sóknareiningu fyrir skarkola á Íslandsmiðum er ekki talin gefa til kynna breytingar á stofnstærð þar sem ekki er tekið tillit til breytinga á veiðimynsti og tækniframfara.

Afli á sóknareiningu í dragnót (kg í kasti) er reiknaður sem heildarþyngd í kasti þar sem skarkoli var meira en 50% aflans. Afli á sóknareiningu hefur aukist frá 250 kg í kasti í 700 kg í kasti árið 2016 og hefur haldist á því bili síðan þá (Mynd 12).

Afli á sóknareiningu í botnvörpu (kg/klst) í togum þar sem skarkoli er meira en 50% aflans hélst stöðugt kringum 200 kg/klst til ársins 2010. Eins og raunin er um dragnótaveiðar hefur afli á sóknareiningu í botnvörpu aukist frá árinu 2000; fór úr 200 kg/klst í u.þ.b. 450 kg/klst árin 2020-2021.

Mynd 12: Skarkoli. Afli á sóknareiningu með dragnót (kg í kasti) og botnvörpu (kg/klst). Brotalínur gefa til kynna afla á sóknareiningu þar sem meira en 50% aflans var skarkoli en heilar línur allar færslur þar sem skarkoli veiddist. Gögn um sókn hafa ekki borist fyrir 2022. Athugið að breyting átti sér stað í september 1999 þar sem öll skip voru skyldug til að skila inn afladagbók en fyrir þann tíma voru skip minni en 10 brúttólestir undanskilin þeirri skyldu.

Stofnmælingar

Stofnmæling botnfiska að vori (SMB) hefur verið framkvæmd árlega í mars frá árinu 1985. SMB nær yfir mikilvægustu veiðisvæði skarkolans. Einnig hefur verið farið í stofnmælingu botnfiska að hausti (SMH) síðan árið 1996, að undanskildu árinu 2011. SMB mælir breytingar í fjölda/lífmassa skarkola betur en SMH, hins vegar nær hvorug stofnmælinging nægilega vel yfir svæðin þar sem ungviði skarkola heldur sig enda eru þau svæði mjög grunnt og erfið yfirferðar með botnvörpu. Árið 2016 hófst árlegur grunnslóðarleiðangur með bjálkatrolli, til að ná góðri yfirferð yfir þessi grunnu svæði. Ætlunin var að nýta niðurstöður úr grunnslóðarleiðangri í stofnmat á skarkola á komandi árum en þessum leiðangri hefur verið hætt.

Á Mynd 13 má sjá stofnvísitölur skarkola (lífmassi), lífmassavísitölur veiðistofns (skarkoli stærri en 30 cm), lífmassavísitölur skarkola stærri en 47 cm og nýliðunarvísitölur (fjöldi skarkola minni en 20 cm). Lengdaskiptar vísitölur úr stofnmælingum eru sýndar á Mynd 16, auk útbreiðslu skarkola á Mynd 14 - Mynd 15. Stofnvísitölur og lífmassavísitölur veiðistofns lækkuðu hratt á fyrstu árum SMB og voru lægstar á árunum 1997-2002. Á næstu 13 árum hækkuðu vísitölurnar smám saman. Frá árinu 2017 hafa vísitölurnar sveiflast nokkuð og lífmassavísitala í ár er í samræmi við þær vísitölur sem sáust í byrjun 10. áratugarins. Lífmassavísitala skarkola stærri en 47 cm, hefur hækkað í báðum stofnmælingum og mælist nú sú hæsta frá því þær hófust. Mikil hækkun átti sér í fyrra í SMH en vikmörk eru há vegna mikils afla í fáum togum. Nýliðunarvísitala (<20 cm) hefur haldist lág frá árinu 1998 með nokkrum toppum. Framvinda SMH er í samræmi við það sem sést í SMB en vikmörk eru mun hærri í SMH.

Mynd 13: Skarkoli. Stofnvísitölur, ásamt 95 % óvissumörkum, úr SMB (svört lína, skyggt svæði) og SMH (punktar og lóðréttar línur). Ath. skalinn vinstra megin á við SMB vísitölurnar en hægra megin á við SMH vísitölurnar.

Mynd 14: Skarkoli. Breytingar á dreifingu lífmassa vísitölu skarkola í SMB og SMH.

Mynd 15: Skarkoli. Útbreiðsla skarkola í SMB 2024 og SMH 2023. Punktastærð er í hlutfalli við afla í togi.

Lengdardreifing skarkola í SMB (Mynd 16) hefur færst til hægri (stærri fiskur) líkt og í lengdardreifingu landaðs afla. Meðallengd skarkola hefur aukist úr 33,5 cm árið 1995 í 42 cm árið 2023. Gögn úr SMH segja svipaða sögu með greinilegri hækkun meðallengdar með tíma.

Mynd 16: Skarkoli. Lengdardreifingar úr SMB og SMH (efri mynd) og meðallengdir (neðri mynd).

Í SMB árið 2024 veiddist skarkoli að mestu leyti á norðvestur hluta landgrunnsins, á helstu hrygningarsvæðum hans við vestanvert landið og við Öræfagrunn fyrir suðaustan land (Mynd 15). Útbreiðsla skarkola í SMB hefur verið nokkuð breytileg og þá aðallega á útbreiðslusvæðunum vestur og norðvestur af landinu (Mynd 14). Þessar breytingar gætu verið til komnar vegna þess að tímasetning SMB er á þeim tíma sem skarkolinn færir sig frá fæðuöflunarsvæðum fyrir norðvestan á helstu hrygningarsvæði fyrir vestan og suðvestan land. Í SMH árið 2023 fékkst skarkoli aðallega á landgrunninum fyrir vestan og norðvestan land, einnig innfjarða fyrir norðan og austan lands (Mynd 15). Gegnum árin hefur meirihluti skarkola í SMH mælst á hefðbundnum fæðuöflunarsvæðum fyrir norðvestan land (Mynd 14).

Kynþroski skarkola eftir aldri samkvæmt SMB er sýndur á Mynd 19. Samkvæmt leiðbeiningum PGCCDBS (ICES, 2017) var ákveðið að notast við kynþroska hrygnur sem grundvöll fyrir kynþroska eftir aldri. Fyrir árið 1985 eru hlutföll kynþroska hrygna skorðuð við gildin árið 1985. Kynþroski eftir aldri er áætlaður út frá árlegum kynþroskakúrfum eftir lengd sem metnar eru með tvíkostaaðhvarfsgreiningu sem meðhöndlar áhrif einstaklinga sem fastan þátt. Kynþroski eftir aldri var þjálgaður með því að nota hlaupandi 3-ára meðaltal.

Mynd 17: Skarkoli. Hlutfall kynþroska hrygna í SMB.

Mynd 18: Skarkoli. Aldurskiptar vísitölur úr SMB. Litur súlna fylgir árgangi.

Meðalþyngd eftir aldri í SMB er sýnd á Mynd 19. Meðalþyngdir eftir aldri í SMB eru einnig notaðar sem aldursskiptar meðalþyngdir hrygningarstofns, áætlaðar út frá lengd. Stofnþyngdir 9 ára fisks og eldri voru þjálgaðar með því að nota hlaupandi 3-ára meðaltal. Fyrir 1985 eru stofnþyngdir festar við gildi ársins 1985.

Mynd 19: Skarkoli. Stofnþyngdir eftir aldri úr SMB.

Greining gagna

Tölfræðilegt stofnmat

Mat á ástandi skarkolastofnsins byggir á tölfræðilegu aldursaflalíkan (SAM) sem byggir á fjölda í afla eftir aldri frá árinu 1979 og aldursskiptum fjöldavísitölum úr stofnmælingum (SMB) frá árinu 1985. Líkanið gerir ráð fyrir að nýliðar í stofninn séu 3 ára og að hámarksaldur fyrir sé 12 ára (sem er einnig plús grúppa). Í stofnmatinu er náttúruleg dánartala sett 0.15 fyrir alla aldurshópa. Tæknilega lýsingu má sjá í stofnviðauka, sjá ICES (2022).

Greining á niðurstöðum stofnmats

Mátgæði líkansins eru greind á mynd Mynd 20, þar sem spáðar vísitölur og aflatölur eru borin saman við gögn og ekkert óvenjulegt mynstur er greinanlegt.

Mynd 20: Skarkoli. Samsvörun stofnmatslíkans, bæði fyrir aldursgreindan afla (vinstri) og stofnvísitölur úr SMB (hægri). Svörtupunktarnir eru séð gildi en línan útkoma líkans.

Niðurstöður

Niðurstöður líkansins sýna hrygningarstofninn lækka smásaman til ársins 2000, þegar sögulegu lágmarki er náð (Mynd 21). Á árunum 2001-2015 jókst hrygningarstofn og hefur verið stöðugur síðan. Fiskveiðidauðinn minnkaði frá árinu 1999 og hefur haldist nokkuð stöðugur síðastliðinn áratug. Nýliðun 3 ára skarkolans sýnir tvenns konar framleiðni fasa, háan um miðjan 9-áratug síðustu aldar með snörpu falli milli ára 1993-1994 og svo stöðugan. Út frá þessum niðurstöðum má álykta að jöfn nýliðun og tempraður fiskveiðidauði mun viðhalda stærð hrygningarstofnsins á komandi árum.

Mynd 21: Skarkoli. Niðurstöður SAM líkans árið 2024. Niðurstöður eru sýndar fyrir metinn afla, meðal fiskveiðidauða hjá 5-10 ára, nýliðun 3 ára og hrygningarstofn. Línur sýna punktmat og borðar sýna 95 % öryggismörk.

Endurlitsgreining

Endurlitsgreining gefur til kynna nokkuð stöðugar niðurstöður stofnmatslíkansins og lítil frávik yfir 5 ára endurskoðunartímabil (Mynd 22). Mohn´s \(\rho\) gildi voru -0.0838 fyrir stærð hrygningarstofns, 0.1179 fyrir fiskveiðidauða 5-10 ára skarkola og -0.01 fyrir nýliðun. Líkanið hefur því lág Mohn´s \(\rho\) gildi fyrir hrygningarstofn, fiskveiðidauða og nýliðun sem eru vel innan viðunandi marka (Carvalho et al. 2021).

Mynd 22: Skarkoli. Reiknuð endurlitsgreining fyrir hrygningarstofn, afla, fiskveiðidánartölu (F) og nýliðun. Mohns rho er sýnt í neðra hægra horni.

Skammtímaspá

Stuðst er við innbyggða eiginleika stofnmatsforritsins til þess að reikna skammtímaspár. Í spánni er stuðst við afla- og stofnþyngdir, ásamt kynþroska, sem byggðar eru á þriggja ára meðaltali eftir aldri. Veiðiráðgjöf fyrir komandi fiskveiðiár byggir á svo á þessum reikningum. Þar sem fiskveiðiárið byrjar 1. september ár hvert, en líkanið byggir á almanaksárum, þarf að umrita aflaspánna úr líkaninu yfir á fiskveiðiár. Í aflaspánni fyrir úttektarár \(y\) er fiskveiðidánartalan því reiknuð skv. eftirfarandi formúlu: \[F_{y} = \left(\frac{8}{12}F_{sq} + \frac{4}{12} F_{mgt}\right)\] og þá fæst að heildarafli í úttektarárinu \(y\) er: \[ C_{y} = \frac{F_{y}}{F_{y} + M} \left(1 - e^{-(F_{y} + M)}\right)B_{y}\]

og þá er hluti aflans sem veiddur er á fiskveiðiárinu y/y+1: \[\frac{\frac{8}{12}F_{sq}}{\left(\frac{8}{12}F_{sq} + \frac{4}{12} F_{mgt}\right)} C_y\]

og heildaraflinn fyrir fiskveiðiárið y/y+1 verður þá: \[C_{y/y+1} = \frac{\frac{4}{12}F_{mgt}}{\left(\frac{8}{12}F_{sq} + \frac{4}{12} F_{mgt}\right)} C_y + \frac{8}{12}C_{y+1}\] þar sem sem \[C_{y+1} = \frac{F_{mgt}}{F_{mgt} + M} \left(1 - e^{-(F_{mgt} + M)}\right)B_{y}\] Niðurstöður skammtímaspárinnar má finna í Tafla 4.

Tafla. 4: Skarkoli. Niðurstöður úr skammtímaspá
fbar rec ssb catch
2024 0.277 16236 20279 7322
2025 0.300 16462 19369 7852
2026 0.300 16462 18638 7554

Fiskveiðistjórnun

Matvælaráðuneytið ber ábyrgð á stjórnun fiskveiða við Ísland. Stjórnun fiskveiða er bundin í lög og árlega eru gefnar út reglugerðir sem geta verið háðar breytingum frá ári til árs. Vísindaleg ráðgjöf um fiskveiðar og nýtingu fiskistofna kemur frá Hafrannsóknastofnun og frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES). Fiskveiðiárið hefur verið skilgreint frá 1. september til 31. ágúst og var aflamark fyrst sett á skarkola fiskveiðiárið 1991/1992. Fyrstu sex fiskveiðiárin var aflamarkið sett hærra en hámarksafli ráðlagður af Hafrannsóknastofnun, en frá og með fiskveiðiárinu 2010/2011 hefur útgefið aflamark verið samkvæmt ráðgjöf (Tafla 5). Sú iðja gæti verið rakin til þess að engin formleg aflaregla hefur verið sett á þennan stofn fyrr en 2022. Á 31. mynd eru sýndar nettó tilfærslur kvóta eftir fiskveiðiárum. Árin 2002-2008 (jákvæð gildi á mynd) var nettó tilfærsla á kvóta annarra tegunda yfir í skarkolakvóta, hins vegar breyttist þetta á árunum 2009-2015 þegar skarkolakvóti færðist yfir til annarra tegunda. Undanfarin fiskveiðiár hefur tilfærsla milli skarkolakvóta og kvóta annarra tegunda verið lítil og sveiflukennd, en var þó í hærra lagi fiskveiðiárið 2020/2021 þegar um 1500 tonn voru flutt af kvóta annarra tegunda yfir á skarkola. Tilfærsla skarkolakvóta milli ára hefur einnig verið sveiflukennd en innan 10 til -12% marka (Mynd 23).

Mynd 23: Skarkoli. Nettó tilfærsla á kvóta eftir fiskveiðiárum. Tilfærsla milli tegunda (efri myndir): Jákvæð gildi tákna tilfærslu á kvóta annarra tegunda yfir á skarkola en neikvæð gildi tilfærslu skarkolakvóta á aðrar tegundir. Tilfærsla milli ára (neðri myndir): Nettó tilfærsla kvóta á viðkomandi fiskveiðiári.

Tafla. 5: Skarkoli. Tillögur Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla, ákvörðun stjórnvalda um aflamark og landaður afli (tonn).
Ár Ráðlagt aflamark Útgefið aflamark Landaður afli
1991/92 10 000 11 000 10 157
1992/93 10 000 13 000 15 474
1993/94 10 000 13 000 12 465
1994/95 10 000 13 000 11 320
1995/96 10 000 13 000 11 197
1996/97 10 000 12 000 10 516
1997/98 9000 9000 8241
1998/99 7000 7000 7711
1999/00 4000 4000 4975
2000/01 4000 4000 4946
2001/02 4000 5000 4420
2002/03 4000 5000 5427
2003/04 4000 4500 5861
2004/05 4000 5000 6193
2005/06 4000 5000 5659
2006/07 5000 6000 6144
2007/08 5000 6500 6624
2008/09 5000 6500 6368
2009/10 5000 6500 6389
2010/11 6500 6500 4846
2011/12 6500 6500 5819
2012/13 6500 6500 5935
2013/14 6500 6500 6036
2014/15 7000 7000 6230
2015/16 6500 6500 7612
2016/17 7330 7330 6373
2017/18 7103 7103 8208
2018/19 7132 7132 7096
2019/20 6985 6985 7177
2020/21 7037 7037 9082
2021/22 7805 7805 7306
2022/23 7663 7663 7264
2023/24 7830 7830   

Stöðumat ráðgjafar

Gögn frá veiðum og stofnmælingum benda til að stofn skarkola við Íslandi sé í góðu ástandi um þessar mundir. Þetta er einnig staðfest í stofnmati. Talsverð óvissa er í stofnmatslíkaninu vegna takmarkaðra upplýsinga um nýliðun í stofnmælingum.

Heimildarskrá

Carvalho, Felipe, Henning Winker, Dean Courtney, Maia Kapur, Laurence Kell, Massimiliano Cardinale, Michael Schirripa, et al. 2021. “A Cookbook for Using Model Diagnostics in Integrated Stock Assessments.” Fisheries Research 240: 105959.
Hjorleifsson, Einar, and Jonbjorn Palsson. 2001. “Settlement, Growth and Mortality of 0-Group Plaice (Pleuronectes Platessa) in Icelandic Waters.” Journal of Sea Research 45 (3-4): 321–24.
Hoarau, G, AM-T Piquet, HW Van der Veer, AD Rijnsdorp, WT Stam, and JL Olsen. 2004. “Population Structure of Plaice (Pleuronectes Platessa l.) In Northern Europe: A Comparison of Resolving Power Between Microsatellites and Mitochondrial DNA Data.” Journal of Sea Research 51 (3-4): 183–90.
ICES. 2022. “Stock Annex: Plaice (Pleuronectes Platessa) in Division 5.a (Iceland Grounds).” International Council for the Exploration of the Seas; ICES publishing. https://doi.org/10.17895/ices.pub.20132660.v1.
Le Moan, Alan, Dorte Bekkevold, and Jakob Hemmer-Hansen. 2021. “Evolution at Two Time Frames: Ancient Structural Variants Involved in Post-Glacial Divergence of the European Plaice (Pleuronectes Platessa).” Heredity 126 (4): 668–83.
MRI. 2016. Mælingar á brottkasti þorsks og ýsu (e. Measurments of discards of Cod and Haddock), 2014–2016, Reykjavik, Iceland.” Vol. 3. Marine & Freshwater Research Institute, Iceland; Marine Research Institute, Iceland. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit-183pdf.
Sigurdsson, Adalsteinn. 1982. “Long Distance Migration of Plaice (Pleuronetes Platessa l.).” Rit Fiskideildar 4: 27–31.
Solmundsson, Jon, Jonbjorn Palsson, and Hjalti Karlsson. 2005. Fidelity of mature Icelandic plaice (Pleuronectes platessa) to spawning and feeding grounds.” ICES Journal of Marine Science. https://doi.org/10.1016/j.icesjms.2004.11.012.