Almennar upplýsingar
Grálúða á hafsvæðinu sem afmarkast af Austur-Grænlandi, Ísland og Færeyjum (ICES svæði 5, 6, 12 og 14) er metin sem einn stofn. Innan íslenskrar lögsögu finnst Grálúða í mestum þéttleika á landgrunninu djúpt vestur, norður and austur af Íslandi þar sem sjórinn er kaldari. Hún heldur sig einkum á leirkenndum botni við dýpi milli 200 til 1500 m. Helstu hrygningasvæði stofnsins eru vestur af landinu á um 1000 m dýpi. Egg og lirfur reka milli Íslands og Grænlands þar til ungviðið sest á botninn. Eftir hrygningu gengur grálúða að meginn fæðuslóð sinni norður og austur af landinu. Engar uppeldisstöðvar eru þekktar á svæðinu sem afmarkar stofninn og göngur frá aðliggjandi svæðum eru þekktar.
Austur af Grænlandi finnst grálúða einkum undir 600 m dýpi á landgrunnshlíðinni, en við Færeyjar er hún einkum veidd norður og austur af eyjunum á um 200 til 600 metra dýpi.
Sjá nánar um grálúðu.
Veiðar
Dreifingu veiða, afla og sókn, aftur í tíman má sjá á Mynd 1 og Mynd 2. Nokkuð samfellda dreifingu veiða má lesa af þessum myndum frá austurströnd Grænlands, norður fyrir Íslands og til Færeyja. Veiðarnar einskorðuðust við dýpi frá um 350 - 500 m að um 1500 m austur af Grænlandi.
Á árunum 2001 til 2008 voru bæði beinar og meðaflaveiðar stundaðar af Spáni, Frakklandi, Litháen, Bretlandi og Noregi við Hattonbanka (ICES svæði 6b). Þessar veiðar lögðust af eftir 2008. Minniháttar veiðar eru stundaðar af Bretum og Frökkum á svæðinu. Allur afli sem skráður er á ICES svæðum 6 og 12 er því talinn tengjast veiðum á Hattonbanka.
Landaður afli
Á árabilinu milli 1980 og 1990 var 75 til 90 % af heildarafla veiddur af Íslendingum (Mynd 3). Frá 1990 hefur hlutfall afla Íslendinga í heildaraflanum minnkað og hefur seinni ár flökt milli 50 og 60 %. Mestur var aflinn 1986, eða um 60 þúsund tonn. Afli innan íslenskrar lögsögu (skráður sem svæði 5a) var lengi vel bróðurpartur heildaraflans en seinni ár hefur aukning orðið í grænlenskri (svæði 14) og færeyskri (5b) lögsögu ( Mynd 4). Frá aldamótum hefur aflinn flökt milli 20 og 30 þúsund tonna.
Botnvarpa var lengi vel aðalveiðarfærið grálúðuveiðum við Ísland (sem og annars staðar), en lítill hluti aflans fékkst á línu og í rækjuvörpu. Vegna aukinna netaveið seinustu 5 ár hefur orðið umtalsverð breyting þar á og nú er svo komið að nær helmingur landaðs afla er veiddur í net (Mynd 5). Meðafli er talinn lítill, og eftir að krafa var gerð um fiskiskilju við rækjuveiðar hefur meðafli smárrar grálúðu minnkað talsvert. Grálúðu veiðist, eins og áður sagði, á talsverðu dýpi, þar sem meginþorri aflans (70%) fæst á 400 til 800 m dýpi. Þó hefur hlutfall grálúðu sem veiðst hefur á minna dýpi aukist seinni ár og helst það í hendur við breytingar á veiðarfærum (Mynd 6).
Fjöldi báta sem veiða megnið (95%) af grálúðu við Ísland hefur lækkað frá um 75 bátum á árunum 1994-1998 til minna en 20 (Mynd 7). Þessi lækkun kemur á sama tíma sem lækkun á veiðiheimildum sem koma til íslenskra fiskiskipa. Frá 1998 hefur fjöldi báta farið hægt minnkandi þrátt fyrir lítið hafi dregið úr lönduðum afla.
Afli á sóknareiningu
Vísitala byggða á stöðluðum afla á sóknareiningu togskipa á Íslandsmiðum, frá 1985 má sjá á Mynd 8. Vísitala byggir á þróun ársþáttar í log-línulegu líkani af afla hvers togs þar sem skipa og svæðaþættir eru metnir. Skv. líkaninu fór mat á aflabrögðum minnkandi á árunum milli 1990 til 1996, náði svo aftur staðbundnu hámarki 2001. Frá 2003 hefur vísitalan haldist stöðug. Fram til 2023 var afli á sóknareiningu nýttur í fjölda ára sem grunnur stofnmats, en þó er sú vísitala byggð á meðalvísitölu helstu svæði, sjá mynd Mynd 9, sem sýnir stórt séð sömu þróun. Þessu var breytt á rýnifundi þar sem stofnmatsaðferðinni var breytt (WKBNORTH 2023). Afli á sóknareiningu frá Grænlandsmiðum og Færeyjum hefur þó ekki verið tekinn með í stofnmatinu þar sem afraksturlíkanið sem stofnmatið byggði á gat ekki samþætt svo ósamstæðar tímaraðir.
Sýnataka úr afla
Sýnataka úr afla fyrir helstu veiðarfæri er almennt góð (net, lína og botnvarpa). Sýnataka fylgir að mestu útbreiðslu veiðanna og árstíðarsveiflu (Mynd 11 og Mynd 10). Þó má merkja samdrátt í sýnatöku 2020 vegna takmarkana í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn, þá einna helst í sýnatökum eftirlitsmanna. Áætlað er að sýnataka eftirlitsmanna, sem er aðaluppistaðan í sýnatöku úr afla grálúðu, muni vera á svipuðu róli og á árunum fyrir 2020.
Lengdarsamsetning afla
Megnið af lengdarmælingu úr afla er úr botnvörpu, línu og netum. Fjöldi sýna eftir veiðarfæraflokkum hefur sveiflast með sókn mismunandi veiðarfæra.
Lengdardreifing ýsu úr afla eftir árum er sýnd á Mynd 12. Stærðarsamsetning afla á línu og botnvörpu virðist nokkuð stöðug, að mestu ýsa milli 40 og 80 cm. Grálúða veidd í net er stærri, en stærðarsamsetningin er breytilegri eftir því sem að hlutfall eldri fisks er meira í stofninum. Þegar meira var mælt af ungviði við Íslandsmið kom talsvert af smárri lúðu í rækjuvörpu.
Sýni frá Grænlandi og Færeyjum
Sýni úr lönduðum afla við Færeyjar og austur af Grænlandi má sjá á Mynd 13.
Önnur svæði
Sýni frá öðrum svæðum eru ekki aðgengileg og skráður afli hefur verið lítill undanfarin ár.
Meðafli og brottkast
Á Íslandsmiðum er lítið er um meðafla í beinum grálúðuveiðum, þar sem afli í togi þar er að langstærstum hluta grálúða. Ef meðafli mælist þá er það einkum lítið magn af þorski og karfa. Þó að veiðist grálúða nálægt þorsk og karfamiðum eins og fyrir austan land og austur af Grænlandi. Reglugerð, sem sagði til um notkun fiskiskilju við rækjuveiðar, hefur verið í gildi við Ísland síðan á seinni hluta 9. áratugarins og í Grænlandi síðan 2002. Byggt á takmarkaðri rannsókn, sem framkvæmd var á árunum 2006 og 2007, dregur fiskiskiljan úr meðafla grálúðu í rækjuveiðum umtalsvert fer úr 50 % af heildarþyngd í minna en 1 %. (Sünksen, 2007). Engar upplýsingar liggja fyrir um brottkast en talið er að það sé minniháttar (< 1% af þyngd).
Stofnmælingar
Upplýsingar um vistfræði grálúðu er einna helst safnað í tveimur reglubundnum rannsóknaleiðöngrum, stofnmælingu botnfiska að hausti (SMH) og grálúðuleiðöngrum Náttúrufræðistofnunar Grænlands. Að auki eru stofnmælingar að vor (SMB) sem hefur farið fram árlega síðan 1985 og nær yfir helstu útbreiðslusvæði ýsunnar. SMH hófst 1996 og hefur, að undanskildu árinu 2011 vegna verkfalls sjómanna, farið fram árlega. Við Grænland hefur sérstakur leiðangur mælt viðgang stofnsins frá 1996, að undanskildum 2001 og 2002, og eftir 2016 hefur Náttúrufræðistofnunin ekki haft rannsóknaskip til reiðu en nýtt rannsóknaskip er í smíðum. Lýsingu á stofnmælingarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar má finna í leiðangurshandbókum. Mynd 16 sýnir vísitölur nýliðunar (í fjölda) og þróun vísitalna lífmassa. Mynd 15 sýnir útbreiðslu í SMB og SMH eftir svæðum. Lengdar- og aldursdreifingar úr SMH má sjá á Mynd 17 að Mynd 19.
Einnig fer árlegur grálúðuleiðangur fram við Færeyjar, en erfitt hefur verið að nýta þann leiðangur vegna breytilegrar útfærsla leiðangursins milli ára.
Útbreiðsla grálúðu hefur haldist nokkuð stöðug síðan mælingar hófust árið 1996, þar sem megnið af grálúðu mælist norður og austur af Íslandi. Vísitalan á hafsvæðinu norðvestur af landinu hefur þó minnkað meira en á öðrum svæðum (Mynd 15).
Heildarstofnvísitalan fyrir grálúðu, sem er byggð á gögnum frá SMH og rannsóknaleiðangrinum við Grænland, er sýnd á Mynd 16. Myndin sýnir að stofnin fór vaxandi frá 1996 og náði hámarki í kringum 2001. Vísitala lækkaði talsvert eftir það en fór aftur að vaxa frá 2004 til 2017 þegar stofnin fór minnkandi. Sömu sögu má segja um vísitölu lúðu stærri en 60 cm. Fjöldavísitala ungfisks (<40 cm) hefur sveiflast talsvert og náði hámarki 2009 en hefur farið minnkandi síðan. Mæld nýliðun hefur einnig verið mismunandi milli svæða þar sem fyrir 2005 mældist hún einna helst við Grænland en eftir nær einvörðungu norður af Íslandi. Þar sem ekki hefur verið hægt að senda rannsóknaskip austur af Grænlandi hafa gildi frá 2016 fyrir Grænland verið notuð til þess að reikna heildarvísitölu.
Lengdardreifingar úr SMH eru áþekkar þeim sem mælast í veiðum. Hrygnur mælast lengri en hængar og eru nú fleiri. Meðallengd hefur farið vaxandi seinustu ár á sama tíma og minni hefur sést af ungfiski.
Aldursdreifing grálúðu, sem mæld hefur verið í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar að hausti síðan 2015, sýna töluverðan mun milli kynja. Tíðasti aldur hænga í ralli er milli 9 og 10 ára, með spönn frá 4 til 16 ára. Á sama tíma er tíðasti aldur hrygna milli 11 og 13 ára með spönn frá 3 til 22 (Mynd 18). Vert er að taka fram að aldurslesningar á kvörnum grálúðu hófust aftur á ný árið 2015 eftir áralangt hlé. Nýlegar framfarir í aldurslestri grálúðu gefa til kynna að eldri aðferðir gefi ekki rétta mynd af aldursamsetningu stofnsins. Enn fremur hefur komið í ljós að meðferð kvarna sem safnað var fyrir 2015 hentar ekki fyrir þessa nýju aldurslesningaraðferð og því ójóst hvort hægt verði að lesa kvarnir aftur í tímann.
Þegar horft er til lengd eftir aldri þá er 60 cm grálúða um 12 ára (Mynd 19). Vöxtur grálúðu virðist sambærilegur milli kynja, þó meiri dreifni sé á stærð hrygna. Sé horft til samsetningu afla sést að hængar eru almennt styttri er hrygnur sem gæti gefið kynna ólíkt atferli eða lífeðlifræðilega ferla milli kynja sem leiðir mismunandi veiðanleika og/eða hærri náttúrulega dánartíðni.
Stofnmælingar við Færeyjar
Stofnmælingarleiðangur fyrir grálúðu við Færeyjar hefur verið framkvæmdur árlega síðan 1995. Sýnatakan í leiðangrinum nýtir sambærileg veiðarfæri og nýtt eru við veiðar, og hönnun leiðangursins breytist ár frá ári. Meðallengd toga hefur aukist jafnt og þétt síðan 1995, frá um 3 klst í 7.5 klst 2020.
Aldursgreiningar byrjuðu aftur 2015 og kvarnir frá árunum 2015 – 2017 og 2021 hafa verið lesnar. Frumniðurstöður gefa þó til kynna að frekari samanburðarrannsóknir milli lesara þurfi til þess að geta nýtt þessar upplýsingar í stofnmati.
Upplýsingar um kynþroska
Mælingar á kynþroska grálúðu eru erfiðar. Hafin er vinna við að bæta mælingar á kynþroska í SMH. Til þess að áætla kynþroska eftir lengd er kynkirtlastuðull (GSI) yfir 1 % notaður til þess að skilgreina kynþroska, sjá Mynd 21.
Endurmat á viðmiðunarpunktum
Í ár voru allir viðmiðunarpunktar endurmetnir. Þetta endurmat var vegna villu sem uppgötvaðist við reglubundna uppfærslu á stofnmati djúpkarfa og grálúðu. Þessa villa hafði áhrif á útreikning á meðalþyngd eftir lengd úr likaninu og því var mat á stærð hrygningarstofns bjagað niðurávið. Þar sem matið á varúðarmörkum (B\(_{lim}\)) er byggt á lægstu stærð hrygningarstofnsins (B\(_{loss}\)) þurfti að endurmeta varúðar- og kjörsókn (F\(_{pa}\) og F\(_{msy}\)). Mynd 22 sýnir muninn milli matsins á stofnstærðinni í fyrra og leiðrétts mats.
Endurmatið á viðmiðunarpunktum fylgdi sömu aðferðafræði og beitt var á WKBNORTH og niðurstöðurnar voru þær að matið á varúðarmörkum (B\(_{lim}\)) og gátmörkum (B\(_{pa}\)) varð hærra og því lækkaði varúðarmörkum veiðidánartölu (F\(_{lim}\)) og gátmörkum (F\(_{pa}\)) (sjá Tafla 1). Kjörsókn (F\(_{msy}\)) lækkaði frá 0.24 í 0.22. Þessi lækkun var ekki vegna varúðarsjónarmiða, því matið á gátmörkum veiðidánartölu (F\(_{pa}\)) er hærra en kjörsókn, heldur vegna breytinga á metinni framleiðslugetu, því eins og sjá má á Mynd 24 er svið fiskveiðidánartölu sem mun leiða af sér væntan afla innan 5% af hámarksafrakstri mjög vítt.
Uppfært mat | Rýnifundur 2023 | Basis | |
---|---|---|---|
Hámarksafrakstur | |||
Fmsy | 0.22 | 0.24 | F sem leiðir til hámarksafraksturs |
Btrigger | 24895 | 21402 | Bpa |
Varúðarnálgun | |||
Blim | 18213 | 15657 | Lægsta gildi hrygningarstofns |
Bpa | 24895 | 21402 | Blim x exp(1.645 sigma_SSB) |
Flim | 0.41 | 0.5 | F sem leiðir af sér P(SSB < Blim) = 0.5 |
Fpa | 0.29 | 0.38 | F sem, þegar ráðgjafareglu ICES er beitt, leiðir til P(SSB > Blim) = 0.05 |
MSY | 25567 | 26554 | Meðaltal hámarksafraksturs |
Vegna þessa endurmats á viðmiðunarpunktum var ráðgjöf seinasta árs leiðrétt byggt á nýjum gildum á kjörsókn (F\(_{msy}\)) og aðgerðamörkum (B\(_{trigger}\)).
Stofnmat
Ný stofnmatsaðferð fyrir Grálúðu var samþykkt á rýnifundi árið 2023 (WKBNORTH) þar sem nýir viðmiðunarpunktar fyrir stofninn voru skilgreindir. Nýja stofnmatið byggir á aldurs- og lengdarháður líkan (Gadget) nýtir upplýsingar um vöxt og viðgang stofnsins. Yfirlit yfir helstu stillingar líkansins eru hér fyrir neðan:
- Líkanið nær yfir tímabilið frá 1985 til dagsins í dag þar sem hverju ári er skipt upp í tvö jafnstór tímaskref.
- Aldur frá 1 til 20\(^+\)
- Lengd frá 4 upp í 100 cm, skipt í 1 cm lengdarbil
- Vöxtur
- Stærðarháð uppfærsla byggð á umritun á jöfnu Von Bertalanffy (\(k\), \(L_{\infty}\))
- Beta-tvíkostadreifð tvístrun á meðalvexti, þar sem hámarksvöxtur er 15 cm (\(\beta\))
- Lengd – þyngdarsamband metið byggt á gögnum úr SMH
- Náttúruleg dánartala fest við 0.15
- Upphafsstofnstærð og nýliðun
- Árleg nýliðun á sér stað á fyrsta tímaskrefi hvers árs, einn stiki metinn fyrir hvert ár (\(R_y\))
- Meðallengd og staðalfrávik í lengd við nýliðun metin fyrir öll ár
- Upphafsfjöldi hvert ár \(S \times \mathfrak{n}_a \times e^{-a (M_a + \hat{F})}\)
- Meðallengd í aldri er metin skv. jöfnu Von Bertalanffy, og fjölda er deild niður á lengdarflokka byggt á Gauss dreifingu byggt á þeirri meðalengd og með föstum frávikastuðli.
- Veiðin í líkaninu er skipt eftir flotum (veiðarfærum):
- 6 flotar, þar af einn stofnmælingaleiðangur, þrír botnvörpuflotar (Ísland, Grænland og Færeyjar), línufloti við Ísland og netafloti við Ísland
- Veiðimynstur flotanna er stærðarháður veldisvísiferlinn, hver floti með sitt mynstur
- Kynþroski metinn utan líkansins
- Líknaföll:
- Samband vísitalna og líkansins er álitið vera á forminu \(\log(I) = \alpha + \beta \log(\hat{I})\), þar sem \(I\) er vísitalan og \(\hat{I}\) spá líkansins fyrir gefna stikun. Stika sambandins eru metnir með aðhvarsgreiningu við hverja ítrun.
- Gert er ráð fyrir að aflasamsetning (aldurs- og/eða lengdardreifing) sé tekin að handahófi og fjarlægð líkans frá gögnum er metin með fervikasummum hlutfalla.
- Óvissa í líkaninu er byggð á hermun inntaksgagna. Óvissa í samsetningu á afla er metin byggt á svæðistengdu úrtaki með endurvali. Fyrir vísitölur vöru nýjar vísitölur hermdar byggt á metnum frávikastuðlum.
Í ár uppgötvaðist villa í útreikningi á stærð hrygningastofns, sem hafði áhrif á mat á viðmiðunarpunktum stofnsins. Því voru þessir punktar endurmetnir í ár.
Inntaks gögn
Líkanið nýtir sér fjölda mismunandi gagna, allt frá vísitölum úr SMH, landaðs afla og aflasetninga hinna mismunandi flota. Yfirlit yfir inntaksgögnin má sjá á Mynd 25.
Samanburð á spá líkansins og haustrallsvísitölunnar sem byggð á gögnum frá bæði SMH og leiðangri Grænlendinga má sjá á Mynd 26. mynd. Líkanið nær að fanga helstu sveiflur vísitölunnar, en til þess þarf þó gera ráð fyrir sambandið þar á milli sé ólínulegt.
Mat líkansins á aflasamsetningu er borið saman við gögn á Mynd 27 til Mynd 34, þar sem leifarit er sýnt á Mynd 35. Heilt yfir virðist líkanið passa best við upplýsingar úr haustrallinu, sem á greina af leifum líkansins á Mynd 35. Gögnum frá öðrum stöðum/veiðarfærum þar sem sýnatakan hefur verið góð, eins og raunin hefur verið með sýni úr botnvörpuveiðum, gefa ekki til kynna neinn bjaga í mati líkansins. Drefni leifa líkansins virðist aukast í öfugu hlutfalli við magn gagna, frá íslenskum botnvörpuveiðum þar dreifnin er minnst til sýna úr línuveiðum (mest).
Samanburður mati líkansins á meðallengd eftir aldri og mælinga úr haustralli má sjá á Mynd 28.
Niðurstöður stofnmatsins
Niðurstöður líkansins eru sýnd á Mynd 36. Heildar- og hrygningarstofnstærð eru metin hafa minnkað talsvert frá 1985 og hrygningarstofninn náð sínu lægsta gildi í kringum 2005. Fiskveiðidánartala hefur á sama tíma verið metin talvert breytileg, en þó dróst hún saman upp úr 2010 og hefur verið við kjörsókn. Óvissa í mati á nýliðun er talsverð, einkum fyrir 2000 þar sem engar upplýsingar um aldursamsetningu eru til.
Reiknaða endurlitsgreiningu má sjá á Mynd 37. \(\rho\) Mohns er metið ásættanlegt, en þó yfir mörkum (0.211 fyrir hrygningarstofn og -0.288 fyrir veiðidánartöluna). Áhrif takmarkaðra aldursupplýsinga eru þar greinileg, því þegar ár af gögnum er tekið frá líkaninu hverfur stór hluti aldursupplýsinga sem veldur stökki milli ára. Mat á nýliðun seinni ára flöktir mikið milli ára, sem gefur til að takmarkaðar upplýsingar eru í gögnunum um eins árs fisk. Þegar gögn skortir er mat á nýliðun metið nálægt mati ársins á undan (skorðuð frávik).
Metið veiðimynstur í stofnmatinu er sýnt á Mynd 38. Veiðimynstur er talsvert breytilegt eftir veiðarfærum og svæðum. Botnvarpa við Færeyjar virðist veiða minnsta fiskinn á meðan lína og net við Ísland þann stærsta. Botnvarpa við Grænland og haustrallið virðast veiða svipað stóran fisk.
Niðurstöður
Þegar á heildina er litið nær stofnmatið að fanga þær upplýsingar sem eru fólgnar í þeim gögnum sem tiltæk eru. Þrátt fyrir minniháttar frávik frá gögnum er líkanið talið nýtanlegt til stofnmats og ráðgjafar.
Í jafnflóknu líkani og Gadget líkön eru þá er viðbúið að sum gagnasöfn muni valdi vandræðum við mat á ákveðnum stikum líkansins. Helstu vandkvæði við þetta líkan tengjast sterkum ársþáttum í stofnvísitölunni úr haustrallinu. Það er þó viðbúið að þegar betri og meiri upplýsingar um aldurssamsetningu og vöxt muni stofnmatið verða stöðugra.
Skammtímaspá
Skammtímaspár úr stofnmatslíkaninu eru notaðar til þess að veita ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Spáin byggir á því hlutföllum milli veiðarfæra og svæða sé haldið stöðugum miðað við seinustu þrjú ár.
- F og M fyrir hrygningu: á ekki við
- Stofn- og aflaþyngdir: GADGET notar lengd-þyngdarsamband og von Bertalanffy vaxtarfall
- Veiðimynstur pattern:
- Landaður afli: tvíkosta lengdarháð valmynstur eftir veiðarfærum og svæðum, stikar metnir í líkani. Hlutföll milli veiðarfæra og svæða sé haldið stöðugum miðað við seinustu þrjú ár.
- Afli í úttektarári: Aflamark (heildarafli: 21 590 t)
- Hrygningarstofns-nýliðunsamband: Fasti, byggt á mati á fjölda 1 árs grálúðu metnum fyrir seinasta ár
- Sviðsmyndir: F=Fmsy, F=0 and F=Fsq
Niðurstöðurnar má sjá í Tafla 2.
Nýliðun | Afli | Hrygningarstofn | Veiðidánartala | approach | |
---|---|---|---|---|---|
Núverandi veiðiálag | |||||
2021 | 29750 | 22635 | 26648 | 0.28 | SQ |
2022 | 34959 | 20899 | 25569 | 0.27 | SQ |
2023 | 46769 | 25425 | 25204 | 0.33 | SQ |
2024 | 50180 | 21590 | 23871 | 0.28 | SQ |
2025 | 49516 | 23164 | 23971 | 0.29 | SQ |
2026 | 47986 | 25246 | 25142 | 0.29 | SQ |
Enginn afli | |||||
2021 | 29750 | 22635 | 26648 | 0.28 | Zero catch |
2022 | 34959 | 20899 | 25569 | 0.27 | Zero catch |
2023 | 46769 | 25425 | 25204 | 0.33 | Zero catch |
2024 | 50180 | 21590 | 23871 | 0.28 | Zero catch |
2025 | 49516 | 0 | 23971 | 0.00 | Zero catch |
2026 | 48004 | 0 | 29826 | 0.00 | Zero catch |
Kjörsókn | |||||
2021 | 29750 | 22635 | 26648 | 0.28 | Fmsy |
2022 | 34959 | 20899 | 25569 | 0.27 | Fmsy |
2023 | 46769 | 25425 | 25204 | 0.33 | Fmsy |
2024 | 50180 | 21590 | 23871 | 0.28 | Fmsy |
2025 | 49516 | 17890 | 23971 | 0.21 | Fmsy |
2026 | 47990 | 20966 | 26287 | 0.22 | Fmsy |
Stjórnun fiskveiða
Stofngerð grálúðu er óljós og nýlegar upplýsingar og merkingatilraunir gefa það til kynna að grálúða við Ísland, Grænland og Færeyjar séu blanda af tveimur (eða fleiri) hrygningareiningum. Endurheimtur við Ísland frá Barentshafi gefa til kynna talsverðar göngur ungviðis frá Barentshafi. Einnig hafa grálúður merktar við Kanada og vestur af Grænlandi endurheimst austur af Grænlandi og vestur af Íslandi. Ekki er tekið tillit til þessa samgangs milli svæða í stofnmatinu.
Mynd 39 sýnir aflamark innan íslenskrar lögsögu borið saman við heildarafla á sama tíma. Árið 2014 gerðu íslensk og grænlensk stjórnvöld samkomulag til 5 ára um að færa veiðiálag að kjörsókn og skiptingu veiðiheimilda. Skv. samkomulaginu fengu Íslendingar 56.4 % af heildaraflamarki og Grænlendingar 37.6 % sem var svo endurnýjað 2023. Það sem eftir stóð var ætlað að dekka veiðar á öðrum svæðum, þmt. við Færeyjar. Færeyjar eru ekki aðilar að þessu samkomulagi.
Síðastliðin ár hefur landaður afli verið í samræmi við ráðgjöf. Mynd 40 sýnir tilfærslur innan kvótakerfisins síðan 1991. Á þessum tíma hefur tegundatilfærsla milli tegunda og milli ára flökt talsvert. Seinstu 5 ár hefur þó lítil verið fært milli tegunda og var bönnuð frá og með fiskveiðiárinu 2023/2024 eftir samkomulag við Grænland.
Um gæði gagna og stofnmats
Veiðar á grálúðu eiga sér stað á stóru hafsvæði allt frá Hvarfi til Bretlandseyja. Fjöldi þjóða taka þátt í veiðunum og því er skráning afla háð skráningu margra landa. Þrátt fyrir að talið sé að skráning afla sé áreiðanlegt þá hefur ósamræmi verið talsvert milli aðila sem halda utan um heildarafla. T.d. er ósamsamræmi milli afladagbóka, skráningum afla einstakra þjóðríkja, aflagagna sem send eru til Alþjóða hafrannsóknaráðsins, Eurostat og Fæðu og matvælastofnunar SÞ. Það getur reynst erfitt að ákveða hvert þessara gagnasafna er rétt. Jafnvel innan Alþjóða hafrannsóknaráðsins stemma löndunartölur ekki milli gagnasafna (EuroStat og ICES Catch data). Hér hefur verið reynt að leiðrétta sem mest að villum í aflatölum með því að bera saman öll þessi gagnasöfn, en það er viðbúið að meira ósamræmi muni finnast á komandi árum.
Þegar skipt er yfir í stofnmatslíkan sem getur nýtt fleiri gagnasöfn setur það ríkari kröfur á sýnatöku úr afla og stofnmælingarleiðöngrum. Þetta á sérstaklega við um hafsvæðið austur af Grænlandi þar sem sýnatakan hefur ekki verið nægjanleg hingað til. Hlé var á aldurslestri á grálúðu í fjölda ára frá um 2000 þar sem erfitt var að lesa kvarnirnar og samræmi milli stofnanna var lítið. Upp úr 2010 var ný aðferð þróuð sem hefur verið samþykkt til notkunar og reynt hefur verið að gæta að samræmi milli stofnanna með vinnufundum á vegum Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Á Hafrannsóknastofnun hefur aldur fiska veidda í SMH verið lesinn síðan 2014, og systurstofnanirnar Náttúrufræðistofnun Grænlands og Hafstofan í Færeyjum hófu nýlega aldurslestur.
Heimildir
ICES. 2013. Report of the Benchmark Workshop on Greenland Halibut Stocks (WKBUT), 26–29 November 2013, Copenhagen, Denmark. ICES CM 2013/ ACOM:44. 367 pp.
ICES. 2017. Report of the Workshop on age reading of Greenland halibut 2 (WKARGH2), 22-26 August 2016, Reykjavik, Iceland. ICES CM 2016/SSGIEOM:16. 40 pp.
Sünksen, K. 2007. Bycatch in the fishery for Greenland halibut. WD 17,
ICES 2023. WKBNORTH Report