HÁFUR

Squalus acanthias


Stofnmatsskýrslur
Author

Hafrannsóknastofnun

Published

7. júní 2024

Almennar upplýsingar

Háfur finnst á tempruðum svæðum Atlantshafs og Kyrrahafs. Hér við land hefur hann fundist allt í kringum land þótt hann sé mjög sjaldgæfur undan Norður- og Austurlandi. Hann lifir allt frá yfirborði sjávar niður á um 900 m dýpi. Hann virðist kunna best við sig í 7-15 °C heitum og selturíkum sjó og heldur sig mest á landgrunninu og á landgrunnsbrúninni. Hann syndir í stórum torfum og fer í langar göngur um úthöfin og syndir m.a. á milli Ameríku og Evrópu. Háfur gýtur lifandi ungum, allt að 14 í einu og meðgöngutími er talinn vera 18-24 mánuðir. Pörun fer fram að vetrarlagi. Ungar eru um 22-33 við got. Háfurinn er veiddur víða og nýttur í margs konar tilgangi t.d. til manneldis, í áburð, vinnslu á lifrarolíu, gæludýrafóður svo eitthvað sé nefnt.

Háfur er á rauðum lista IUCN þar sem stofnar hans í NA Atlantshafi eru taldir í viðkvæmri stöðu vegna ofveiða (status: “vulnerable”) https://www.iucnredlist.org/species/91209505/124551959

Sjá nánar um háf.

Veiðar

Frá 2017 hefur verið í gildi reglugerð um bann á veiðum á háfi, hámeri Lamna nasus og beinhákarli Cethorhinus maximus (https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/456-2017).

Eins og flestir aðrir brjóskfiskar við Ísland er háfur aðallega meðafli í línu- og netaveiðum. Árið 2002 var landað óvenjumiklum afla úr línuveiðum og úr netaveiðum árið á eftir. Eftir 2003 hefur afli varla farið yfir 60 tonn og var óverulegur árin áður en veiðibann tók gildi 2017 (Mynd 1).

Mynd 1: Háfur. Landanir skipt eftir veiðarfærum frá árinu 1991 samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu. BMT: Botnvarpa, DSE: Dragnót,GIL: Net LLN: Lína, NA: ekki vitað

Stofnmælingar

Útbreiðsla

Háfur er sjaldgæfur í stofnmælingaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Í fáein skipti í stofnmælingu botnfiska að vori (SMB) hefur þó fengist mikið af háfi í stökum togum undan suðurströndinni (Mynd 2 a). Það gerðist síðast árið 2002 þegar þegar 650 kg fengust í einu togi. Háfur er einnig óalgengur í haustralli (SMH) en virðist veiðast víðar en í mars (SMB). Í netaralli (SMN) fæst háfur aðallega á stöðvum undan Suðurlandi (Mynd 3) og nokkuð reglulega á sömu stöðvum. Í stofnmælingum fæst háfur aðallega grunnt og niður á 200 m dýpi. Í SMB hefur háfur veiðst að meðaltali á um ~ 3 % stöðva en síðan 2002 hefur hann einungis fengist á örfáum stöðvum (Mynd 4). Háfur fæst einungis á fáum stöðvum í netaralli og hefur þeim farið fækkandi undanfarin 20 ár (Mynd 5).

Mynd 2: Háfur. Útbreiðsla í SMB (a) og SMH (b) 2000-2023.
Mynd 3: Háfur. Útbreiðsla í netaralli (SMN) 2000 - 2023.
Mynd 4: Háfur. Tíðni (hlutfall af heildarfjölda stöðva %) í SMB og SMH.
Mynd 5: Háfur. Tíðni (hlutfall af heildarfjölda stöðva %) í netaralli (SMN).

Lengdardreifingar

Í leiðangrum er heildarlengd flestra háfar á bilinu 60-90 cm. Háfur er 83.5 cm að meðaltali í netaralli (SMN) en 80.5 cm í SMB (Mynd 6).

Mynd 6: Háfur. Lengdardreifing í SMB og netaralli (SMN). ML: Meðallengd í cm. N: Fjöldi mælinga.