Gullkarfi

Sebastes norvegicus


Tækniskýrsla
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

7. júní 2024

Inngangur

Gullkarfi (Sebastes norvegicus) telst til ættkvíslarinnar Sebastes. Almennt má segja um karfategundir að þær eru langlífar og hægvaxta. Slíkar tegundir eru jafnan viðkvæmar fyrir miklu veiðiálagi. Gullkarfi getur orðið meira en 40 ára gamall og nær kynþroska að meðaltali 8–12 ára og verða hængar kynþroska fyrr en hrygnur. Gullkarfi getur orðið allt að 90 cm langur en verður þó sjaldan stærri en 60 cm. Í afla er 35–50 cm karfi algengastur.

Karfategundir fæða lifandi afkvæmi. Þetta þýðir að innri frjóvgun á sér stað og klekjast eggin í gotu hrygnunnar. Mökun er á haustin en got á vorin. Aðaluppeldissvæði gullkarfa er við Austur-Grænland og Ísland. Gullkarfi telst til botnfiska þó hann sé í raun bæði botn- og miðsjávarfiskur. Hann er algengastur á 100–400 m dýpi í 3–8 °C heitum sjó. Hann heldur sig að við botn að degi til en leitar upp í sjó að nóttu til.

Við Ísland er gullkarfa að finna allt í kringum landið en er algengastur í hlýja sjónum undan Vestur-, Suðvestur-, Suður- og Suðausturlandi. Á þessum svæðum eru helstu gullkarfamiðin eins og í Víkurál og á Halamiðum út af Vestfjörðum, á Jökulgrunni og Eldeyjarbanka út af Faxaflóa, á Fjöllunum út af Reykjanesskaga og á kantbrúnunum austur með Suðurlandi. Gullkarfaveiðar voru líka stundaðar á Færeyjahrygg en lítið er nú sótt í gullkarfa þar.

Gullkarfi á Íslandsmiðum (ICES svæði 5.a), við Færeyjar (ICES svæði 5.b) og við Austur-Grænland (ICES svæði 14) er skilgreindur sem ein stjórnunareining.

Sjá nánar um líffræði gullkarfa.

Stofnmælingar

Í þessum kafla er farið yfir niðurstöður árlegra stofnmælingaleiðangra á landgrunni og landgrunnskanti við Austur-Grænland, Ísland og Færeyja.

Ísland

Tvær kerfisbundnar stofnmælingar með botnvörpu eru framkvæmdar á Íslandsmiðum, stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (SMB) og stofnmæling botnfiska að haustlagi (SMH). SMB hefur farið fram í mars ár hvert frá árinu 1985 og SMH í október ár hvert síðan 1996. SMH var ekki framkvæmd árið 2011.

Vísitala heildarlífmassa gullkarfa í SMB lækkaði frá 1988 niður í sögulegt lágmark árið 1995 (Mynd 1). Vísitalan fór hækkandi frá 2008–2016 og hefur haldist há síðan. Stofnvísitala gullkarfa í SMH lækkaði umtalsvert árin 2020-2022 frá hámarkinu 2016-2017 (Mynd 1). Þessi lækkun var ekki í samræmi við þróun vísitölunnar í marsralli, en gott samræmi hafði áður verið milli þessara tveggja mælinga. Stofnvísitala gullkarfa í haustmælingunni árið 2023 hækkaði hins vegar umtalsvert og var svipuð og hún var árið 2018.

Öryggismörk vísitalna eru yfirleitt há. Ástæðan er sú að stór hluti gullkarfans fæst í fáum togum sem leiðir til tilviljanakenndra sveiflna frá ári til árs þó þróunin síðan árið 2000 sé augljós.

Lengdarskiptar vísitölur úr SMB sýna að 4–11 cm karfi, sem sást fyrst árið 1987 (árgangurinn frá 1985) og síðan aftur 1991–1993 (árgangurinn frá 1990), kom inn í veiðistofninn u.þ.b. 10 árum síðar (Mynd 2). Aukning á heildarlífmassa 1995–2005 endurspeglar nýliðun þessara tveggja sterku árganga. Á árunum 1999–2008 var fjöldi smákarfa mestur árin 2000–2003, en þó mun lægri en á tímabilinu 1986-1993 (Mynd 1). Á árunum 2009–2020 fékkst mjög lítið af smákarfa, bæði í SMB og SMH, en árin 2021–2023 jókst fjöldi smákarfa (4–11 cm) í SMB en fækkaði svo árið 2024 (Mynd 1). Þessi aukning árin 2020–2023 endurspeglast í aukningu á karfa 12–29 cm.

Í seinni tíð hefur hlutfallslega lítið fengist af gullkarfa minni en 30 cm en mikið af stærri gullkarfa og hefur toppur lengdardreifingarinnar smám saman hliðrast til hægri (Mynd 1, Mynd 2 og Mynd 3).

Aldursskiptar vísitölur úr SMH eru sýndar á Mynd 4. Aukning í vísitölum frá árinu 2005 endurspegla nýliðun árganganna frá 1996–2007. Árgangar frá 1996–2002 eru að hverfa úr stofninum og árgangarnir frá 2003–2008 eru mestir í fjölda. Aldursskiptar vísitölur gefa til kynna að allir árgangar frá 2009 séu litlir.

Mynd 1: Gullkarfi. Heildarlífmassavísitala (efst til vinstri), heildarfjöldavísitala, lífmassavísitala ≥33 cm, lífmassavísitala ≥40 cm, fjöldavísitala <30 cm og nýliðunarvísitölu úr stofnmælingu botnfiska að vori (SMB 1985–2023, blá lína og skyggð svæði) og stofnmælingu botnfiska að haustlagi (SMH 1996–2022, svört lína og skyggð svæði), ásamt 95 % öryggismörkum.

Mynd 2: Gullkarfi. Lengdarskiptar vísitölur (blátt svæði) úr stofnmælingu botnfiska að vori (SMB) 1985–2024 ásamt meðaltali allra ára (svört lína).

Mynd 3: Gullkarfi. Lengdarskiptar vísitölur (blátt svæði) úr stofnmælingu botnfiska að hausti (SMH) 2000–2023 ásamt meðaltali allra ára (svört lína). Engin stofnmæling var árið 2011.

Mynd 4: Gullkarfi: Aldursskiptar vísitölur úr stofnmælingu botnfiska að hausti (SMH) 1996–2024. Engin stofnmæling var árið 2011.

Færeyjar

Við Færeyjar er vísitala gullkarfa fengin úr tveimur færeyskum stofnmælingaleiðöngrum með botnvörpu sem farnir hafa verið árlega að vori 1994–2024 og að sumri 1996–2023. Vísitölur beggja leiðangra voru háar árin 1996-1998 en lægri flest ár frá aldamótum (Mynd 5).

Gullkarfi sem veiðist í stofnmælingaleiðöngrum við Færeyjar (Mynd 6 og Mynd 7) er að jafnaði stærri en sá sem fæst í íslensku stofnmælingaleiðöngrum og í stofnmælingaleiðangri við Austur-Grænland. Toppur lengdardreifingarinnar hefur smám saman hliðrast til hægri og mjög lítið fæst af gullkarfa minni en 35 cm.

Mynd 5: Gullkarfi. Stofnvísitala við Færeyjar úr færeyskum stofnmælingaleiðöngrum að vori 1994–2024 (blá lína og skyggð svæði) og sumri 1996–2023 (svört lína og skyggð) ásamt 95 % öryggismörkum.

Mynd 6: Gullkarfi. Lengdardreifing úr færeyska stofnmælingaleiðangrinum að vori 1994–2024.

Mynd 7: Gullkarfi. Lengdardreifing úr færeyska stofnmælingaleiðangrinum að sumri 1996–2023.

Austur-grænland

Við Austur-Grænland eru upplýsingar um gullkarfa fengnar úr tveimur stofnmælingaleiðöngrum með botnvörpu. Annars vegar er það stofnmælingaleiðangur Þjóðverja að hausti og hins vegar stofnmælingaleiðangur Grænlendinga á landgrunni Austur-Grænlands. Einungis vísitölur úr leiðangri Þjóðverja eru notaðar við stofnmatið.

Stofnmælingaleiðangur Þjóðverja á landgrunni og landgrunnskanti við Vestur- og Austur-Grænland hefur verið farinn árlega að hausti frá árinu 1982–2020. Ekki var farið í leiðangra árin 2018 og 2021–2023. Heildar lífmassa- og fjöldavísitölur gullkarfa (fiskur stærri en 17 cm) við Austur-Grænland eru sýndar á Mynd 8. Eftir lækkun í sögulegt lágmark í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar hækkuðu vísitölurnar mikið á árunum 2003–2016. Heildarlífmassavísitalan var í sögulegu hámarki 2014–2016 en hefur lækkað talsvert mikið síðan og var árið 2020 svipuð og árið 2010. Mæliskekkja í vísitölum er yfirleitt há og hækkunin undanfarin ár vegna þess að stór hluti aflans kemur í fáum togum. Á árunum 2010–2020 lækkaði lífmassi smærri gullkarfa (17–30 cm) jafnt og þétt samanborið við fimm árin þar á undan og árin 2017–2020 fékkst mjög lítið af 17–30 cm karfa við Austur-Grænland. Þetta er svipuð þróun og sést hefur í stofnmælingaleiðöngrum við Ísland.

Vísitala gullkarfa úr stofnmælingaleiðangri Grænlands 2008–2023 (enginn leiðangur var farinn árin 2017–2019 og 2021) á landgrunni Austur-Grænlands hefur sveiflast mikið (Mynd 10). Hún hækkaði mikið árin 2011–2016 eftir lágmarkið árin 2008–2010. Þessa aukningu í lífmassa má rekja til aukningu á smáum gullkarfa (<30 cm) sem hægt er að fylgja fram til ársins 2016 þegar lengdardreifing var 25–45 cm og toppur hennar var í kringum 30 cm (Mynd 11). Bæði lífmassa- og fjöldavísitölur minnkuðu árin 2020–2023 og var svipuð og árin 2008–2010. Fjöldavísitala áranna 2022 og 2023 jókst frá árinu 2020 sem má rekja til aukningu á smáum gullkarfa (<25 cm) (Mynd 11).

Fjöldavísitölur karfa minni en 18 cm frá leiðöngrum Þjóðverja sýna að mikið var af smákarfa 1993 og 1995–1998. Síðan 2008 hefur nýliðunarvísitalan verið lág (Mynd 12). Í stofnmælingaleiðangri Grænlendinga var mjög lítið af smáum karfa (<18 cm) árin 2013–2016, en mikið fékkst mikið af honum árin 2022 og 2023 (Mynd 12). Mest var af 4–7 cm smákarfa en einnig var mikið 14–16 cm fiski. Smákarfi (<18 cm) við Austur-Grænland er einungis greindur til ættkvíslarinnar Sebastes þar sem erfitt hefur reynst að greina þær til tegunda. Þessi aukning árið 2022 og 2023 í leiðangri Grænlendinga gefur vísbendingar aukna nýliðun í veiðistofninn á framtíðinni.

Mynd 8: Gullkarfi. Vísitölur úr stofnmælingaleiðangri Þjóðverja við Austur-Grænland 1985-2020. a) Heildarlífmassa­vísitala, b) heildarfjöldavísitala, c) lífmassavísitala skipt eftir stærðarflokkum (17-30 cm og >30 cm). Ekki var farinn leiðangur árin 2018 og 2021–2023.

Mynd 9: Gullkarfi. Lengdardreifing úr stofnmælingaleiðangri Þjóðverja við Austur-Grænland 1985–2020. Ekki var farinn leiðangur árin 2018 og 2021–2023.

(a) Lífmassavísitala.

(b) Fjöldavísitala.

Mynd 10: Gullkarfi. Lífmassavísitala (vinstri) og fjöldavísitala (hægri) úr stofnmælingu Grænlendinga á landgrunninu við Austur-Grænland 2008–2023. Ekki var farinn leiðangur árin 2017–2019 og 2021.

Mynd 11: Gullkarfi. Lengdardreifing úr stofnmælingu Grænlendinga á landgrunninu við Austur-Grænland 2008–2022. Ekki var farinn leiðangur árin 2017–2019 og 2021.

(a) Stofnmælingaleiðangur Þjóðverja.

(b) Stofnmælingaleiðangur Grænlendinga.

Mynd 12: Fjöldavísitölur ógreinds karfa (Sebastes <18 cm) við Austur-Grænland úr stofnmælingaleiðangri Þjóðverja 1985–2016 (vinstri) og Grænlendinga 2008–2023 (hægri).

Veiðar

Aflaþróun

Heildarafli á svæðinu Austur-Grænland / Ísland / Færeyjar var mestur árið 1982 eða 130 429 t, en eftir það minnkaði árlegur afli jafnt og þétt og á tímabilinu 1993–2020 var hann á bilinu 33 451 t og 59 698 t, mestur árið 2016 (Mynd 13). Síðan 2016 hefur heildarafli minnkað og árið 2023 var hann 35 988 t, sem er um 3 000 t meiri afli en árið 2022. Síðustu þrjá áratugina hafa 90–98 % af heildarafla gullkarfa verið veiddur á Íslandsmiðum.

Heildarafli gullkarfa á Íslandsmiðum minnkaði úr tæpum 90 000 t árið 1982 í 38 669 t árið 1994 (Mynd 13). Síðan þá hefur heildaraflinn verið á bilinu 30 000 t og 54 000 t, mestur árið 2016. Heildaraflinn árið 2023 var 32 192 t sem er 2 155 t meiri afli en árið 2022. Heildaraflinn fiskveiðiárið 2022/2023 var um 24 % umfram heildaraflamark sem var 22 614 t, en hefur undanfarin fiskveiðiár verið 5-18 % umfram aflamark. Ástæðuna fyrir afla umfram aflamark má rekja til tegundatilfærslukerfisins sem leyfir flutning á aflamarki frá einni tegund til annarrar. Einnig er heimilt að flytja aflamark milli fiskveiðiára.

Mestur hluti þess gullkarfa sem er veiddur á Íslandsmiðum veiðist í botnvörpu eða á bilinu 90-95 %. Afgangurinn veiðist að mestu sem meðafli í neta- og línuveiðum og í humarvörpu. Árið 2022, líkt og undanfarin ár, var stærsti hluti aflans veiddur norðvestur-, vestur og suðvestur af landinu (Mynd 14). Undanfarið hefur hlutdeild aflans sem veiddur er við kantbrúnina norðvestur af Íslandi aukist og að sama skapi minnkað suðvestur og suður af Íslandi. Fjöldi skipa sem veiða 95 % gullkarfaaflans hefur fækkað um tæpan helming frá árunum 1994 (Mynd 15).

Við Færeyjar minnkaði heildarafli frá árinu 1985 til 1999 eða úr 9 194 t í 1 436 t og var á árunum 2000–2020 á bilinu 500 t og 2 500 t (Mynd 13). Undanfarin tvö ár hefur aflinn dregist verulega saman og var einn sá minnsti frá því veiðar hófust á þessu svæði. Gullkarfi við Færeyjar eru að mestu veiddur í botnvörpu.

Landaður gullkarfaafli við Austur-Grænland var á árunum 1970–1983 á bilinu 20 000–30 000 tonn, en minnkaði mikið næstu þrjú árin (Mynd 13). Á tímabilinu 1985–1994 var árlegur gullkarfaafli við Austur-Grænland á bilinu 687-4 255 t. Engin bein sókn var í gullkarfa 1995–2009 og árlegur afli var 200 t eða minni og aðallega tekinn sem meðafli í rækjuveiðum. Árið 2010 hófust svo aftur beinar veiðar í djúp- og gullkarfa og var afli gullkarfa það árið 1650 t. Árlegur gullkarfaafli við Austur Grænland árin 2010-2023 hefur verið á bilinu 1 000-5 550 t. Aflinn árið 2023 var 3 073 t, sem er 862 t meiri afli en árið á undan.

Mynd 13: Gullkarfi. Landaður afli (í þús. tonnum) við Austur-Grænland (ICES 14), Ísland (ICES 5.a) og Færeyjar (ICES 5.b) 1970–2023.

Mynd 14: Útbreiðsla botnvörpuveiða á Íslandsmiðum 2010–2023 samkvæmt afladagbókum.

Mynd 15: Gullkarfi. Fjöldi skipa (öll veiðarfæri) sem veiddu 95 % heildaraflans hvert ár frá 1994. Vinstri: Sýnt eftir árum. Hægri: Sýnt í samanburði við heildarafla. Gögn frá aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Brottkast

Mælingar á brottkasti gefa til kynna að lengdarháð brottkast á gullkarfa sé lítið (Pálsson o.fl. 2010). Talsvert brottkast af smáum karfa átti sér stað í úthafsrækjuveiðum 1986–1992 áður en skylt var að nota seiðaskilju við veiðarnar. Síðan þá hefur brottkast af smáum gullkarfa minnkað mikið.

Brottkast á karfategundum við Grænlandi er talið lítið, en þar er einnig skylt að nota seiðaskilju við rækjuveiðar.

Yfirlit gagna

Taflan að neðan sýnir sýnatöku úr afla eftir veiðafærum og hafsvæðum 2023.

Svæði Þjóð Veiðarfæri Afli (t) Sýni Fjöldi lengdarmældra Fjöldi aldurslesið
Íslandsmið Ísland Botnvarpa 32 192 68 10 324 613
Færeyjar Færeyjar Botnvarpa 182 238
A-Grænland Þýskaland Botnvarpa 3 073 2 347

Sýnatakan undanfarin tvö ár hefur verið töluvert minni en árin á undan (Mynd 16). Ástæðan er minni sýnataka eftirlitsmanna Fiskistofu. Þó svo sýnasöfnun úr afla hafi minnkað undanfarin ár þá er hún talin ásættanleg og nær yfir helstu veiðisvæði gullkarfa (Mynd 17).

Mynd 16: Gullkarfi. Hlutfall sýna eftir mánuðum (súlur) 2014–2023 samanborið við landanir eftir mánuðum (svört lína), skipt eftir árum og helstu veiðarfærum. Tölur fyrir ofan súlur sýna heildarfjölda sýna.

Mynd 17: Gullkarfi. Veiðisvæði við Ísland árin 2020–2023 samkvæmt afladagbókum (rautt) og staðsetningar sýna úr lönduðum afla (stjörnumerki).

Lengdardreifing landaðs afla og aldursgreindur afli

Lengdardreifing gullkarfa úr afla í botnvörpu á Íslandsmiðum 1976–2023 er á milli 30 og 45 cm (Mynd 18). Toppur lengdardreifingarinnar hefur verið á milli 35 og 40 cm og hefur síðastliðinn áratug hliðrast til hægri, þ.e. í stærri fisk. Lengdardreifingar 2012–2023 eru einnig þrengri en fyrir það tímabil. Minna veiðist nú af karfa minni en 35 cm og meðallengd gullkarfa í afla hefur þar af leiðandi aukist um allt að 5 cm frá árinu 2008.

Árið 2023 voru árgangarnir frá 2004–2009 (15–20 ára) mest áberandi í veiðinni, en árgangarnir frá 1997–1999 sem voru uppistaða veiðanna árin 2003–2007 eru að hverfa úr stofninum (Mynd 19). Undanfarin ár hefur 7–10 ára gullkarfa fækkað mikið í afla og er það enn ein staðfesting á lélegri nýliðun frá árinu 2009 sem sést í stofnmælingaleiðöngrum við Austur-Grænland og Ísland.

Lengdardreifingar úr afla Þjóðverja við Austur-Grænlandi sýnir svipaða leitni og við Ísland, þ.e. meira er núna af stærri gullkarfa í afla en fyrir um áratug (Mynd 20).

Lengdardreifing gullkarfa úr afla við Færeyjar 2001–2020 og 2023 sýnir að fiskur sem þar veiðist er að meðaltali stærri en gullkarfi sem veiðist við Ísland, að mestu stærri en 40 cm. Toppar lengdardreifingarinnar er á milli 45 og 50 cm (Mynd 21).

Mynd 18: Gullkarfi. Lengdardreifing úr afla botnvörpu við Ísland (blátt svæði) 1976–2023 ásamt meðaltali allra ára (svört lína).

Mynd 19: Gullkarfi. Aldursskiptur afli á Íslandsmiðum 1995–2023. Súlur gefa til kynna afla í fjölda eftir aldri og eru litaðar eftir árgöngum.

Mynd 20: Gullkarfi. Lengdardreifing úr afla Þjóðverja við Austur-Grænland 1962–2023.

Mynd 21: Gullkarfi. Lengdardreifing úr afla við Færeyjar 2001–2020 and 2023

Afli á sóknareiningu

Afli gullkarfa á sóknareiningu í botnvörpu (kg/klst) við Ísland var frekar stöðugur árin 1978–2010, með tímabundinni lækkun 1992–1999 (Mynd 22). Á árunum 2010–2019 jókst afli á sóknareiningu mjög hratt og var árið 2019 sá mesti frá upphafi mælinga árið 1978 en hefur minnkað lítilega síðan þá. Sókn í gullkarfa (mæld í togklukkustundum) hefur síðan 1986 minnkað stöðugt og hefur undanfarin þrjú ár verið sú minnsta síðan 1978. Gögn um afla á sóknareiningu eru ekki notuð í stofnmati, þar sem þau endurspegla ekki þróun í stofnstærð. Engar upplýsingar um afla á sóknareiningu og sókn eru til fyrir árið 2022.

Ekki eru til upplýsingar um afla gullkarfa á sóknareiningu við Austur-Grænland og Færeyjar.

Mynd 22: Gullkarfi. Afli á sóknareiningu (vinstri) og sókn (hægri) í botnvörpu frá íslenskum skipum 1978–2023 þar sem gullkarfi var að minnsta kosti 50 % af heildarafla í hverju togi (svört lína), 80 % af heildarafla í hverju togi (rauð lína) og og þar sem gullkarfi kom fyrir í hverju togi (blá lína).

Stofnmat

Stofnmati gullkarfa var endurmetið í febrúar 2023 (WKBNORTH 2023; ICES 2023) sem varð til þess að gerðar voru breytingar á stofnmatsaðferðum, auk þess sem viðmiðunarmörk voru endurmetin. Samþykkt var að nota aldurs-afla líkan (SAM líkan; Nielsen og Berg 2017) í stað aldurs- og lengdarháðs stofnlíkans (Gadget).

Stofnmatið byggir á sjö gagnastoðum. Það eru tveir stofnmælingaleiðangrar (SMB og SMH) við Ísland, stofnmælingaleiðangur Þjóðverja við Austur-Grænland, tveimur stofnmælingaleiðöngrum við Færeyjar, sýnataka úr afla og landaður afli. Að neðan er nánari útlistun á inntaksgögnum og stillingum líkansins.

Stofnmælingaleiðangrar

Við útreikninga á vísitölum er notuð aðferð kennd við Cochran (Cochran 1977) fyrir hvern af þeim fimm stofnmælingaleiðöngrum sem eru framkvæmdir við Austur-Grænland, Ísland og Færeyjar. Í stofnmatinu eru þessar vísitölur sameinaðar í tvær lengdarskiptar vísitölur:

  1. Vorvísitala

    1. Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (SMB) 1985–2024.

    2. Stofnmæling Þjóðverja við Austur-Grænland 1984–2020, þar sem árinu er hliðrað til um eitt ár (y+1). Vísitala fyrir árið 2018 er meðaltal gilda 2017 og 2019 þar sem ekki var farinn leiðangur á svæðinu árið 2018, og vísitölur fyrir árin 2021–2023 (enginn leiðangur) eru þær sömu og árið 2020.

    3. Stofnmæling að vori við Færeyjar 1994–2024. Vísitala fyrir árin 1985–1993 er meðaltal áranna 1994–1999.

  2. Haustvísitala

    1. Stofnmæling botnfiska að hausti (SMH) 1996–2023. Vísitala fyrir 2011 (ekki farinn leiðangur) er meðaltal gilda 2010 og 2012.

    2. Stofnmæling Þjóðverja við Austur-Grænland 1996–2020. Vísitala fyrir árið 2018 er meðaltal gilda 2017 og 2019 þar sem ekki var farinn leiðangur á svæðinu árið 2018, og vísitölur fyrir árin 2021–2023 eru þær sömum og var árið þar sem ekki var farið í leiðangur 2021–2023.

    3. Stofnmæling að sumri við Færeyjar 1996–2023.

Þessar tvær sameinaðar vísitölur, skipt eftir svæðum, eru sýndar á Mynd 23. Mesta vigt er í vísitölum frá svæðinu við Ísland.

Mynd 23: Gullkarfi. Lífmassavísitölur frá Íslandi (blátt svæði), Grænlandi (svart svæði) og Færeyjum (rautt svæði). Sjá nánar texta.

Stofnþyngdir

Þó svo gullkarfi verði sjaldan stærri en 60 cm og 2 kg er vöxtur hans mjög breytilegur frá ári til árs og samanstendur stofninn af mörgum árgöngum hjá fiskum stærri en 30 cm. Aldurs-lengdarlyklar eru því mjög breytilegir. Samband lengdar og þyngdar er hins vegar mjög stöðugt og því lítill breytileiki í holdafari.

Þyngd gullkarfa eftir lengd eru til bæði úr stofnmælingaleiðöngrum og úr afla. Stofnþyngdir voru reiknaðar sem meðalþyngd eftir aldri (út frá aldurs-lengdarlykli úr SMH) úr sameinuðum stofnmælingaleiðöngrum, eftir að lengd var umreiknuð í þyngd með veldisfalli. Þar sem gögn úr stofnmælingaleiðöngrum vantar fyrir árin 1966–1984 voru þyngdargögn úr afla notuð. Til að minnka árlegan breytileika voru stofnþyngdir reiknaðar sem hlaupandi meðaltal núverandi árs og síðasta árs. Á sama hátt voru aflaþyngdir reiknaðar en út frá aldurs-lengdarlykli úr afla.

Stofn- og aflaþyngdir eru sýndar á Mynd 24 og Mynd 25. Meðalþyngd eftir aldri hefur hækkað hjá fiski yngri en 20 ára frá árinu 2020 en minnkað hjá fiski 20 ára og eldri.

Mynd 24: Gullkarfi. Stofnþyngdir úr SMB (byggt á aldurs-lengdarlykli úr SMH 1996–2023).

Mynd 25: Gullkarfi. Þyngd eftir aldri úr afla (byggt á aldurs-lengdar lykli 1996–2023)

Kynþroski

Kynþroski gullkarfa eftir lengd er tiltölulega stöðugur eftir árum og svæðum. Því var festum safnferli kynþroska beitt á lengdardreifingar og síðan var meðalkynþroski eftir aldri reiknaður út frá aldurs-lengdarlykli. Í fyrra stofnmatslíkani (Gadget) var safnferill kynþroska festur og var: P = 1/(1+exp(-0.3122*(lengd + 1.5 – 33.54))) og til að auðvelda samanburð var sami safnferill notaður. Í nýja stofnmatinu var safnferillinn endurreiknaður með því að aðlaga lengd-við-kynþroska safnferil að sameinuðum lengdargögnum allra ára úr SMB. Þó svo að kynþroskasafnferillinn sé breyttur hefur það ekki áhrif á líkanamatið, en hefur áhrif á mati á hrygningarstofninum og þ.a.l. gátmörk. Öll gátmörk eru reiknuð út frá þessum nýja kynþroskasafnferli. Til að minnka árlegan breytileika á aldri við kynþroska var meðaltal þessa árs og síðasta árs fyrir aldurshópa yngri en 15 ára reiknaður og fyrir aldurshópa 15 ára og eldri var notast við meðaltal þessa árs og þriggja ára á undan.

Kynþroski gullkarfa eftir aldri er sýndur á Mynd 26. Frá árinu 2005 hefur hlutfall kynþroska eftir aldri farið hækkandi sem gefur til kynna breytingar á vexti.

Mynd 26: Gullkarfi. Hlutfall kynþroska eftir aldri 1985–2024, byggt á aldurs-lengdarlykli úr SMH og afla 1996–2023.

Náttúrulegur dánartala

Náttúrleg dánartala er sett sem 0.05 fyrir alla aldurshópa nema þann elsta (25 ára) sem er sett sem 0.1. Þetta er sömu tölur og voru í fyrra stofnmatslíkani (Gadget).

Inntaksgögn og stillingar stofnmatslíkans

Líkanið notar eftirfarandi gögn:

  • Tvær lengdarskiptar vísitölur sem ná yfir allt svæðið (sjá ofar):

    • Vorvísitala 1985–2024. Þar sem lítið er um aldursgreind gögn er inntaksgögnin ein lífmassavísitala.

    • Haustvísitölur 1996–2023.

  • Aldursgögn úr SMH 1996–2023 og úr afla 1995–2023.

  • Árlegum aldurs-lengdarlykill úr haustvísitölu var skipt eftir svæðum (vestur og austur) til að taka tilliti til breytileika í vexti eftir árum og svæðum.

    • Aldurs-lengdarlykill fyrir austursvæði var notaður á lengdargögn úr stofnmælinga-leiðöngrum við Færeyjar og aldurs-lengdarlykill vestursvæðis á lengdargögn úr leiðangri Þjóðverja við Austur-Grænland.
  • Árlegum aldurs-lengdarlykill úr afla var skipt í tvö sex mánaða tímabil (janúar-júní og júlí-desember) til að meta breytileika í vexti innan árs og milli ára.

  • Aldurs-lengdarlyklum var skipt í 2 cm lengdarflokka fyrir 6–60 cm fisk, en voru lengri fyrir 0–6 cm, 61–70 cm og 70+ cm.

  • Heildarafli á svæðinu 1966–1994.

Helstu stillingar líkansins:

  • Hermun líkansins er frá 1966–2024.

  • Líkanið fylgir fjölda eftir aldri frá 6 til 25 ára, þar sem fiskar eldri en 25 ára eru settir í 25 ára aldurshópinn.

  • Nýliðun miðast við fjölda við 6 ára aldur.

  • Náttúrleg dánartala er sett sem 0.05 fyrir alla aldurshópa nema þann elsta (25 ára) sem er sett sem 0.1.

Niðurstöður stofnmats

Niðurstöður stofnmats eru sýndar á Mynd 27.

Stofnþróun gullkarfa sem er metin í stofnmatslíkaninu fylgir þróun nýliðununar á árunum 1990–2013. Þannig stækkaði hrygningarstofn ört fram til ársins 2016 vegna tiltölulegra góðrar nýliðunar á árunum 2000–2013 og á sama tíma jókst aflinn frá árinu 2010. Nýliðun hefur hins vegar verið mjög lítil frá árinu 2014 en ástæður eru ekki þekktar. Veiðidánartala hefur lækkað síðan 1990 og hefur verið stöðug og lág undanfarinn áratug.

Hrygningarstofn í núverandi stofnmatslíkani er metinn stærri s.l. áratug samanborið við stofnmatið í fyrra þar sem notast var við annað líkan (Gadget líkanið). Nýja líkanið nær betur yfir fjölda eldri fisks í stofninum og eykur þannig fjölda þeirra í hrygningarstofni. Hraðari vöxtur yngri og smærri fisks eykur svo fjölda þeirra í hrygningarstofni. Leitni stofnsins fyrir árið 1996, þegar byrjað var að aldursgreina gullkarfa ætti að taka með varúð þar sem gögn fyrir þetta tímabil eru rýr.

Mynd 27: Gullkarfi. Niðurstöður stofnmats 2024. Myndin sýnir heildarafla, lífmassa hrygningarstofns, heildarlífmassa, nýliðun (6 ára) og veiðidánartölu (9-19 ára).

Endurlitsgreining

Reiknuð endurlitsgreining, sem sýnir stöðugleika í mati líkansins fimm ár aftur í tímann, gefur til kynna minni háttar leiðréttingu milli ára (Mynd 28). Stofnmatið er álitið mjög stöðugt og metið 5 ára Mohn’s rρ fyrir hrygningarstofn er -3.8 % og 15.8 % fyrir veiðidánartölu (sjá töflu að neðan). Mohn’s rho fyrir nýliðun er aftur á móti hærri eða -33 % sem þýðir að undanfarið hefur nýliðun verið ofmetin. Þetta gildi verður þó að taka með varúð þar sem nýliðunarmat síðustu sex ár er mjög lágt og frávik frá fyrri árum getur haft hlutfallslega mikil áhrif.

Breyta Gi ldi
Veiðidánartala (Fbar) 0.158
Hrygningarstofn -0.038
Nýliðun -0.325

Mynd 28: Gullkarfi. Endurlitsgreining sem sýnir stöðuleika í mati líkansins fimm ár aftur í tímann. Niðurstöður eru sýndar fyrir afla, heildarlífmassa, hrygningarstofn, nýliðun (6 ára) og veiðidánartölu (9–19 ára).

Greining á niðurstöðum stofnmats

Mátgæði líkansins eru nálægt aldursdreifingum bæði úr SMH (Mynd 29) og úr afla (Mynd 30) og lokagildi eru ekki frábrugðin séðum gildum fyrir flesta aldurshópa. Mátgæði líkans er nálægt mældri lífmassavísitölu að vori en er þó metin lægri en séð gildi frá árinu 2016 (Mynd 31). Mátgæði við afla eru góð (Mynd 32).

Engin sýnileg leitni er í leifum líkansins (Mynd 33) né ferilfrávikum þess (Mynd 34).

Á Mynd 35 má sjá skýringarmynd af metnum stikum stofnmatslíkans. Vogtölur einstakra aldurshópa í afla og í vísitölum eru lægstar fyrir yngsta fiskinn (5–9 ára). Vogtölur eru að alla jafna hærri í vísitölum er að jafnaði hærri en í afla. Dreifni ferilfrávika var föst fyrir allar aldurshópa fyrir bæði log(N) og log(F).

Mynd 29: Gullkarfi. Samsvörun stofnmatslíkans (SAM) við aldursgreindar vísitölur að hausti.

Mynd 30: Gullkarfi. Samsvörun stofnmatslíkans (SAM) við aldursgreindan afla.

Mynd 31: Gullkarfi. Samsvörun stofnmatslíkans (SAM) við lífmassavísitölu að vori.

Mynd 32: Gullkarfi. Samsvörun stofnmatslíkans (lína) við afla (punktar) þar sem ekki eru til upplýsingar um aldursgreindan afla.

Mynd 33: Gullkarfi. Leifar stofnmatslíkan við aldursgreindar stofnvísitölur að hausti og afla og við heildarafla og heildar stofnvísitölu að vori. Rauðir hringir tákna jákvæð aðhvarfsfrávik (niðurstöður mælingar eru stærri en spágildi).

Mynd 34: Gullkarfi. Ferilfrávik stofnmatslíkan 6–25 ára. Rauðir hringir tákna jákvæð aðhvarfsfrávik (niðurstöður mælingar eru stærri en spágildi).

Mynd 35: Gullkarfi. Skýringamynd af metnum stikum líkansins. Vogtölur einstakra aldurshópa í afla og vísitölum (efri t.v.), dreifni ferilfrávika (efri t.h.) og veiðanleiki (neðri, t.v.).

Stöðumat stofnsins

Niðurstöður stofnmats gefa til kynna að fiskveiðidánartala hafi verið lág síðan 2009 og undir FMSY (Mynd 27). Heildarlífmassi og stærð hrygningarstofns hefur minnkað síðan 2016 en stofninn er þó metinn stór. Niðurstöður úr stofnmælingaleiðöngrum benda til að nýliðun síðan 2009 sé léleg. Þó eru vísbendingar aukinn fjölda af smákarfa (<12 cm) í leiðöngrum 2021–2023. Þó er búist við að nýliðun næstu árin verði léleg og að stofninn muni þ.a.l. minnka.

Gátmörk

Á rýnifundinum í 2023 (ICES 2023) voru gátmörk endurmetin samkvæmt viðmiðum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (Tafla 1). limiting the estimate of FMSY.

Tafla 1: Gullkarfi. Skilgreind gátmörk. Allar þyngdir eru í tonnum.

Nálgun

Viðmiðunarmörk

Gildi

Grundvöllur

Hámarksafrakstur

MSY Btrigger

154 094

Bpa

FMSY

0.112

Leiðir til hámarksafraksturs til lengri tíma, byggt á slembihermunum (EqSim).

Varúðarnálgun

Blim

110 893

Bloss. Lægsta sögulega gildi hrygningarstofns (1994)

Bpa

154 094

Blim x e1.645 * 0.2

Flim

0.1672

Fiskveiðidauði sem í framreikningum leiðir til þess miðgildi hrygningarstofns er við Blim

Fpa

0.114

Fp05, hámarks F þar sem líkur á því SSB fari niður fyrir Blim eru <5 %

Skammtímaspá

Ráðgjöf er fengin út frá skammtímaspá. Í skammtímaspá fyrir gullkarfa er gert ráð fyrir að nýliðun sé meðaltal síðustu fimm ára (2020–2024). Metinn afli fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir tilfærslu afla milli tegunda og fiskveiðiára (Tafla 2).

Niðurstöður skammtímaspár byggt á mismunandi veiðidánarstuðli (F9-19) (Tafla 3). Skammtímaspá gerir ráð fyrir að hrygningarstofn minnki en verði áfram vel yfir gátmörk (MSY Btrigger).

Tafla 2: Forsendur fyrir stofnmatsárið og í framreikningum.

Breyta

Gildi

Athugasemdir

F9-19­ára (2024)

0.098

Úr framreikningum fyrir árið 2024, byggt á áætluðum afla árið 2024; í tonnum

Hrygningarstofn (2025)

281 192

Úr framreikningum stofnmats; í tonnum

Nýliðun 6 ára (2024)

31 698

Úr stofnmati; í þúsundum

Nýliðun 6 ára (2025)

37 758

Meðaltal nýliðunar síðustu fimm árgangana 2020–2024; í þúsundum

Afli (2024)

41 318

Áætlaður afli á árinu (2024); í tonnum.

Tafla 3: Áætluð þróun stofnstærðar hrygningarstofns (tonn) miðað við veiðar samkvæmt kjörsókn.

Grunnur

Afli (2025)

Veiðidánartala (2025)

Hrygningarstofn (2026)

% Breyting á hrygningarstofni1)

% Breyting á ráðgjöf2)

Hámarksafrakstur

46 911

0.112

258 906

-8

14

1) Hrygningarstofn árið 2026 miðað við hrygningarstofn 2025

2) Ráðlagt aflamark fyrir 2025 miðað við ráðlagt aflamark 2024 (41286 t)

Stöðumat stofnmats

Á árunum 2014–2022 var aldurs- og lengdarháð líkan (Gadget) notað við stofnmat á gullkarfa. Það líkan náði ekki utan um aukningu sem átti sér stað frá árinu 2010. Þannig mat líkanið magn 33–43 cm fisks minna en ofmat magn 44–55 cm fisks. Lengdardreifing úr stofnmælingum var í raun þrengri en metin lengdardreifing. Einnig náði Gadget líkanið ekki yfir breytinga í vexti, sem nýja stofnmatslíkanið tekur betur tillit til.

Grunnur rágjafar

Nálgun Alþjóðahafrannsóknaráðsins um hámarksafrakstur (MSY nálgun) samþykkt á rýnifundi 2023 (ICES, 2023).

Stöðumat ráðgjafar

Bein sókn í gull- og djúpkarfa hófst aftur við Austur-Grænland árið 2009 eftir að hafa legið að mestu niðri frá árinu 1995. Árlegur karfaafli 2010–2023 var á bilinu 6000–8500 tonn. Ekki er gerður greinarmunur á tegundum við veiðarnar, en byggt á tegundagreiningu í landi og úr stofnmælingaleiðöngrum var árlegur gullkarfaafli 1000–5400 tonn árin 2010-2023.

Hafsvæðið við Austur-Grænland er mikilvægt uppeldissvæði fyrir gull- og djúpkarfa. Til verndunar karfaungviðis ber að nota seiðaskilju við rækjuveiðar á þessu svæði.

Ekkert formlegt samkomulag er milli strandríkjanna Grænlands, Íslands og Færeyja um stjórnun gullkarfaveiða. Hins vegar gerðu Ísland og Grænland með sér samkomulag í júlí 2023 um gullkarfaveiðar og byggir á nálgun Alþjóðahafrannsóknaráðsins um hámarksafrakstur. Samkomulagið gilti frá árinu 2024 og gerir ráð fyrir að Íslendingar fá 89 % af heildaraflamarkinu og Grænlendingar 11 %. Jafnramt var 300 t úthlutað á önnur svæði áður en til skiptinga milli Íslands og Grænlands á sér stað.

Núverandi mat á hrygningarstofni gullkarfa hefur lækkað frá árinu 2016. Árgangar 2009–2016 eru metnir mjög litlir og því er áætlað að viðmiðunarstofn og hrygningarstofn minnki árin 2025 þegar þeir fara að koma inn í veiðina. Þar sem ekki er að vænta umtalsverðrar nýliðunar á næstu árum er líklegt að afrakstursgeta stofnsins minnki í framtíðinni.

Fiskveiðistjórnun við Ísland

Matvælaráðuneytið ber ábyrgð á stjórnun fiskveiða við Ísland. Stjórnun fiskveiða er bundin í lög og árlega eru gefnar út reglugerðir sem geta verið háðar breytingum frá ári til árs. Vísindaleg ráðgjöf um fiskveiðar og nýtingu fiskistofna kemur frá Hafrannsóknastofnun og frá Alþjóða­hafrannsóknaráðinu (ICES). Aflamarkskvóti var fyrst settur á gullkarfa fiskveiðiárið 2010/2011 en fram að því hafði sameiginlegur kvóti verið gefinn út fyrir gull- og djúpkarfa. Fyrir gullkarfa er ráðgjöfin veitt fyrir svæðið Austur-Grænland/Ísland/Færeyjar.

Frá fiskveiðiárinu 2014/2015, þegar aflareglu var komið á, hefur afli Íslandsmiðum verið 2–24 % umfram heildaraflamark (Mynd 36). Mestu yfirskotin hafa verið þrjú síðustu fiskveiðiárin (2020/2021-2022/2023) þar sem umframafli var 16–24 % meiri en sett aflamark. Ástæðu þess að afli hefur veri umfram aflamark má rekja til tegundatilfærslukerfisins sem leyfir flutning á aflamarki frá einni tegund til annarrar, en einnig til tilfærslu aflamarks milli fiskveiðiára. Síðan aflamarki var komið á fyrir gullkarfa fiskveiðiárið 2010/2011 hefur tilfærsla aflamarks annarra tegunda yfir á gullkarfa verið á bilinu 2–6 þúsund tonn sem útskýrir yfirskot í afla gullkarfa á þessu tímabili. Líklegast er að aflamark djúpkarfa, ufsa, gulllax og litla karfa sé fluttur yfir á gullkarfa, en sett aflamark þessara tegunda hefur ekki náðst á þessu tímabili.

Mynd 36: Gullkarfi. Tilfærsla á kvóta eftir fiskveiðiárum. Efsta röð: Afli umfram aflamark. Önnur röð: Eftirstöðvar aflamarks. Þriðja röð: Tilfærsla aflamarks frá fyrra fiskveiðiári. Fjórða röð: Tilfærsla aflamarks yfir á næsta fiskveiðiár. Fimmta röð: Tilfærsla milli tegunda þar sem jákvæð gildi tákna tilfærslu á kvóta annarra tegunda yfir á gullkarfa en neikvæð gildi tilfærslu gullkarfakvóta á aðrar tegundir.

Heimildir

ICES. 2023a. Benchmark workshop on Greenland halibut and redfish stocks (WKBNORTH). ICES Scientific Reports. 5:33. https://doi.org/10.17895/ices.pub.22304638

Nielsen, A. and Berg, C. W. 2014. Estimation of time-varying selectivity in stock assessments using state–space models. Fisheries Research, 158: 96–101. https://doi.org/10.1016/j.fishres.2014.01.014

Ólafur K. Pálsson, Höskuldur Björnsson, Ari Arason, Eyþór Björnsson, Guðmundur Jóhannesson og Þórhallur Ottesen. 2009. Mælingar á brottkasti botnfiska 2008. Hafrannsóknir nr. 147. Bls. 5-16.