UFSI

Pollachius virens


Stofnmatsskýrsla
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

7. júní 2024

Almennar upplýsingar

Ufsi á Íslandsmiðum hefur að meðaltali gefið um 65 þús. tonna afla á ári síðan 1960. Litið er á hann sem sjálfstæðan stofn þó merkingar hafi sýnt að ufsi frá öðrum hafsvæðum gangi til Íslands og öfugt. Samkvæmt merkingum voru göngur ufsa milli Íslands og annarra hafsvæða mun algengari en til dæmis hjá þorski. Lítið er hins vegar vitað um göngur undanfarin ár þar sem lítið hefur verið merkt síðan 2010. Í merkingum árin 2000-2010 voru 0.5% endurheimta í færeyskri lögsögu.

Ufsi er bæði botnlægur og upp í sjó, reyndar mun meira upp í sjó en flestir botnlægir fiskar. Útbreiðslusvæði hans er allt í kringum landið en ufsi var algengastur í hlýja sjónum fyrir sunnan og vestan land. Á þessari öld hefur útbreiðslusvæði ufsa smám saman færst norðar. Hrygning ufsa er í hlýja sjónum, suðaustur, suður og vestur af landinu. Samkvæmt gögnum úr stofnmælingum hrygnir ufsi í mars og apríl á svæðinu frá Hornafirði vestur að Breiðafirði og virðist hann hrygna heldur fyrr en þorskur. Mögulega hrygnir einhver hluti ufsans enn fyrr, jafnvel í byrjun febrúar. Lirfurnar rekur með strandstraumnum kringum landið og smáufsi á fyrsta ári finnst víða inn á fjörðum. Mjög lítið af ufsalirfum fannst í seiðaleiðöngrum í ágúst 1970-2003 sem bendir til að lirfurnar hafi tekið botn á þeim tíma. Á öðru ári byrjar ufsinn að ganga dýpra, einkum á veturna.

Sjá nánar: https://www.hafogvatn.is/is/sjavardyr/ufsi

Veiðar

Afli af ufsa við Ísland árið 2023 var 41 717 tonn. Það er þriðjungs minnkun frá 2022 þegar aflinn var 61 881 tonn og langt frá aflamarkinu sem var 70 300 tonn fyrir fiskveiðiárið 2022/2023 og 66 533 tonn fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 .

Af aflanum voru 35 924 tonn veidd í botnvörpu, 1333 tonn í net og afgangurinn í önnur veiðarfæri.

Mynd 1: Ufsi á Íslandsmiðum. Skráður afli síðan 1905.

Upplýsingar um landanir á ufsa eru til frá árinu 1905. Frá 1905-1939 var ufsi mest veiddur af útlendingum og þannig var það einnig á árunum 1950-1975 þegar útlendingar veiddu um 60 % ufsaaflans (Mynd 1). Voru það mest Þjóðverjar sem veiddu ufsa meðan Bretar voru meira á þorskveiðum. Meðalafli ufsa á ári frá 1955 er um 65 þús. tonn, 73 þús. tonn fyrir 1980 en 60 þús. tonn eftir 1980. Síðustu fimm ár hefur afli útlendinga verið minna en 300 tonn, mest afli Færeyinga og alltaf undir 0.5 % af heildaraflanum.

Mynd 2: Ufsi Landaður afli eftir veiðarfærum frá 1967, samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Botnvarpa hefur alltaf verið langmikilvægasta veiðarfærið og nánast allur ufsaafli útlendinga var tekinn í botnvörpu. Allt að þriðjungur íslenska aflans var tekinn með netum en mjög dró úr netaveiðum eftir 1996 (Mynd 2). Af öðrum veiðarfærum en botnvörpu og netum hafa handfæri og dragnót verið mikilvægust. Undanfarin ár hefur um 90 % aflans verið tekinn með botnvörpu.

Minnkun í netaflotanum tengdist bátum sem færðu sig úr netaveiðum (og öðrum veiðarfærum) yfir í línuveiðar, breyting sem tengdist þorsk- og ýsuveiðum. Verð á stórum þorski sem var verkaður í saltfisk lækkaði borið saman við millistóran þorsk svo það var hagkvæmara að gera út línubáta sem útveguðu fisk jafnt og þétt allt árið. Aukning á ýsu á árunum eftir 2000 og tæknibreytingar í línuveiðum voru líka mikilvægir þættir.

Varðandi ufsaveiðar þá er mikilvægur þáttur að ufsi veiðist illa á línu svo íslenski flotinn í heild er minni ufsaveiðifloti en áður. Hlutdeild línu í ufsaafla jókst úr minna en 1 % fyrir 2000 í 2 % síðasta áratug, en nokkuð misjafnt milli ára. Árin 2021 og 2022 minnkaði hlutdeild línu í ufsaafla og var innan við 1 %. Árið 2023 jókst hlutdeild línu aðeins en magnið var svipað. Færeyingar veiða hins um 35 % af ufsaafla sínum við Ísland á línu.

Skipta má botnvörpuflotanum í tvo hluta, frysti- og ísfisktogara. Þróunin undanfarinn áratug hefur verið að hlutdeild ísfiskstogara af heildarafla hefur aukist. Frystitogarar hafa veitt mun hærra hlutfall af ufsa- og karfaafla en af þorsk- og ýsuafla (3. mynd). Ástæðan fyrir þessum mun er líklega hlutfall verðs á frystum og ferskum fiski fyrir hverja tegundir. Að auki forðast ísfiskstogarar karfa þar sem hann rispar meðafla, nokkuð sem gerir minna til á frystitogurum þar sem aflinn er roðrifinn. Sömu skipin eru að miklu leyti að veiða gullkarfa og ufsa, þó ekki endilega í sömu togum þar sem karfi veiðist aðallega á daginn og ufsi frekar á nóttinni þó dægursveiflan sé ekki eins skýr og hjá karfa.

Mynd 3: Ufsi. Afli (þús. tonn) á þorski, ýsu, ufsa og gullkarfa í botnvörpu skipt milli frystitogara og ísfiskstogara.

Mest af ufsa er tekið í botnvörpu á 150-250 m dýpi (sjá Mynd 4) Önnur veiðarfæri eru net sem veiða ufsa á 50-200 m dýpi og dragnót og handfæri sem veiða ufsa á minna en 150 m dýpi. Dýpisdreifing veiðanna endurspeglar því að hluta til breytingar í veiðarfærasamsetningu en botnvarpa hefur verið ráðandi veiðarfæri eftir 2000.

Mynd 4: Ufsi. Afli eftir dýpi samkvæmt afladagbókum.

Útbreiðsla ufsaveiða breyttist mikið frá 2002-2012 (Mynd 5). Fyrir 2002 var mest af aflanum veitt fyrir sunnan og vestan land en síðan 2012 hafa 40-50 % aflans veiðst norðvestur af landinu. Sambærileg prósenta fyrir 2002 var 3-8 %. Svipuð breyting á útbreiðslu sést hjá gullkarfa. Svæðið þar sem mest hefur verið veitt af ufsa undanfarin ár hefur verið mikilvægasta þorskveiðisvæði við Ísland síðan snemma á 20. öld (Mynd 6).

Mynd 5: Ufsi. Útbreiðsla veiða á íslensku veiðisvæði frá árinu 1993 samkvæmt aflaskýrslum. Öll veiðarfæri samanlagt.

Mynd 6: Ufsi. Útbreiðsla veiða frá öllum veiðarfærum, samkvæmt afladagbókum.

Brottkast hefur ekki verið talið vandamál í ufsaveiðum og hefur lengdarháð brottkast verið metið <0.1 % (MRI, 2008). Oftar en ekki hefur það kostað talsverða fyrirhöfn að ná settu aflamarki sem gerir brottkast ólíklegt.

Á árunum 1999-2005 voru miklar kolmunnaveiðar í íslenskri og færeyskri lögsögu. Meðafli ufsa í þessum veiðum var metinn 1500-4000 tonn á árunum 2003-2005, innan við helmingur í íslenskri lögsögu (MRI, 2005) Síðan 2007 hafa kolmunnaveiðar í íslenskri lögsögu verið stærðargráðu minni en á árunum 2000-2005.

Afli á sóknareiningu

Afli á sóknareiningu (CPUE) hjá botnvörpuflotanum sýnir mikinn breytileika en hefur lækkað töluvert síðan hann var hæstur árið 2018. Afli á sóknareiningu árin 2022 og 2023 er sá lægsti sem verið hefur síðan 2011. Sóknareiningin er togtími og CPUE vísitalan er miðgildi ufsaaflans í þeim togum sem eru valin.

Við skoðun á afla á sóknareiningu er ekki augljóst hvaða tog eiga að vera með í greiningunni. Hægt er að taka öll tog á skilgreindu ufsasvæði, eða það sem er hefðbundið en ekki endilega rétt að velja öll tog þar sem ufsaaflinn er hærra en tiltekið hlutfall af heildarafla.

Eftir því sem hlutfallið er hærra er breytileikinn í afla á sóknareiningu meiri og lækkunin síðan 2018 meira áberandi. Afli á sóknareiningu 2022 og 2023 er samt ekki lítill miðað við fyrri ár, sérstaklega ef horft er á öll tog þar sem ufsi var skráður. Spurning er hvort gildin séu sambærileg vegna tæknibreytinga á tímabilinu.

Afli á sóknareiningu er að mörgu leyti svipaður og heildarvísitölur úr stofnmælingum (Mynd 20).

Mynd 7: Ufsi. Afli á sóknareiningu í botnvörpu. Brotalínur gefa til kynna afla á sóknareiningu þar sem meira en 20 % eða 50 % aflans var ufsi en heilar línur allar skráningar þar ufsi veiddist.

Afli, ráðgjöf og aflamark

Veiðum á nær öllum íslenskum stofnum er stjórnað með aflamarki, aflamark er gefið fyrir fiskveiðiár y/y+1 sem nær frá 1. september árið y til 31. ágúst árið eftir. Stofnmat gert að vori árið y er grunnur ráðgjafar fyrir fiskveiðiárið sem byrjar 1. september sama ár. Stofnmælingin í mars (SMB) er fyrir marga stofna mikilvægustu gögnin í stofnmati og niðurstöður stofnmælingarinnar á úttektarárinu eru notaðar í stofnmatinu.

Síðan 2010 hefur aflamark fyrir íslenskan ufsa verið byggt á sambærilegri aflareglu og fyrir íslenskan þorsk, það er meðaltal af aflamarki síðasta fiskveiðiára og 20 % af viðmiðunarstofni 4 ára og eldri. Aflamarkið hefur ekki verið veitt að fullu síðan á fiskveiðiárinu 2014/2015 (Mynd 8) en á fiskveiðiárunum 1997/1998 - 2013/2014 náðist aflamarkið alltaf nema fiskveiðiárin 2007/2008 og 2008/2009. Afli á fiskveiðiárinu 2022/2023 var 45.8 þús tonn meðan aflamarkið var 70.3 þús tonn svo aðeins 65% af aflamarkinu voru veidd. Á fiskveiðiárinu 2023/2024 stefnir í svipaða niðurstöðu að innan við 70% aflans verði veiddur.

Íslenska aflamarkskerfið leyfir tilfærslur á aflamarki milli tegunda byggt á þorskígildisstuðlum sem eiga að endurspegla verð á kg sem hlutfall af verði þorsks á kg. Í kerfinu sem er háð takmörkunum er ekki leyft að færa aflamark yfir í þorsk. Undanfarin ár hefur eins miklum hluta af aflamarki ufsa og leyft er verið breytt í aðrar tegundir (Mynd 9). Sennilega er hagkvæmara að veiða þessar tegundir en ufsa eða að þorskígildis­stuðlar í kerfinu eru ekki réttir. Möguleiki á tilfærslum var nýlega þrengdur þegar tilfærslur í deilistofna eins og karfastofnana voru bannaðar.

Þó eitthvað af óveiddum ufsakvóta hafi verið flutt yfir í aðrar tegundir hefur talsverður hluti aflamarksins ekki verið notaður, sem gæti verið vísbending um að stofninn sé ofmetinn eða ufsaveiðar borgi sig ekki.

Mynd 8: Ufsi. Ráðgjöf ICES, aflamark og afli 1987-2023. Fiskveiðiárið y/y+1 er sýnt sem árið y+1 á x-ás (t.d. er 1994/1995 sýnt sem árið 1995). ICES veitti enga ráðgjöf fiskveiðiárin 2003/04 og 2007/08 og ráðgjöfin 2001/02 var „engar beinar veiðar. Afli fiskveiðiárið 2023/24 er áætlaður út frá þróun afla til þessa.

Mynd 9: Ufsi. Nettó tilfærsla á kvóta eftir fiskveiðiárum. Tilfærsla milli tegunda (efri myndir): Jákvæð gildi tákna tilfærslu á kvóta annarra tegunda yfir á ufsa en neikvæð gildi tilfærslu ufsakvóta á aðrar tegundir. Tilfærsla milli ára (neðri myndir): Nettó tilfærsla kvóta á viðkomandi fiskveiðiári.

Mynd 10: Ufsi. Þróun afla á fiskveiðiárunum 2022/2023 og 2023/2024 og almanaksárunum 2023 og 2023.

Sýnataka úr afla

Útreikningar á aldursgreindum afla eru byggðir á aldurs- og lengdarsýnum úr afla og eru lengdarsýnin mun fleiri en aldurssýnin. Á Hafrannsóknastofnun er kerfisbundin sýnataka úr lönduðum afla en að auki eru sýni tekin af eftirlitsmönnum Fiskistofu um borð í fiskiskipum. Stór hluti lengdarsýna kemur frá eftirlitsmönnum Fiskistofu en tiltölulega fá kvarnasýni. Það er samt ekki talið stórt vandamál því skoðun bendir til að aldurs-lengdar lyklar, það er hlutfall aldurhópa við gefna lengd sé eins.

Stór hluti ufsaaflans er tekinn af frystitogurum (Mynd 3) og frá þeim kemur stór hluti sjósýna. Samanburður á sjó og landssýnum (Mynd 14) bendir til nokkurs munar síðustu ár þar sem meira fæst af stórum fiski samkvæmt landssýnum. Þessi munur endurspeglar líklega mun í veiðum frystitogara og ísfiskstogara.

Mynd 11: Ufsi. Hlutfall sýna eftir mánuðum (súlur) samanborið við landanir eftir mánuðum (svört lína), skipt eftir árum og helstu veiðarfærum. Tölur fyrir ofan súlur sýna heildarfjölda sýna.

Mynd 12: Ufsi. Veiðislóð árið 2023 samkvæmt afladagbókum og staðsetning sýna (krossar) skipt eftir helstu veiðarfærum (botnvörpu, netum, dragnót og handfærum).

Mynd 13: Ufsi. Þróun sýnasöfnunar úr afla. Fjöldi lengdarmældra hvert ár er í þúsundum.

Söfnun úr lönduðum afla hefur verið endurskoðuð á undanförnum áratugum, bæði hefur sýnum verið fækkað og fjöldi aldurslesinna fiska í hverju sýni minnkaður (Mynd 13).

Sýnataka árið 2020 var talsvert minni en árin á undan, sérstaklega fjöldi aldurssýna. Ein skýringin er minni afli en einnig spilaði COVID-19 faraldurinn inn í. Sýnataka jókst aftur árin 2021 og 2022 og var svipuð og árin 2017–2019. Það sem einkenndi árið 2022 var að eftirlitssýni á sjó voru mjög fá, svipað og árið 2020. Þeim hefur heldur fjölgað árið 2023.

Mynd 14: Ufsi. Lengdardreifingar úr sjó og landssýnum 1999-2023. Ufsar 105 cm og stærri eru teknir saman og háu gildin í endann sýna framlag þess hluta. Myndin sýnir prósent í fjölda.

Aldursgreindur afli

Útreikningur á aldursgreindum afla fyrir ufsa er hefðbundið byggður á 2 flotum þ.e. botnvörpu og netum, 1 svæði og 1 tímabili, alls 2 flokkum. Um 90 % aflans er tekinn í botnvörpu og önnur veiðarfæri en net eru tekin með botnvörpu í útreikningum á aldursgreindum afla. Lengdar-þyngdar sambandið \(W = 0.02598 \times L^{2.75674}\) er notað fyrir báða flokkana.

Lengdardreifingar úr afla benda til að árið 2023 hafi hlutfall 50-60 cm fisks verið yfir meðaltali en hlutfall 60 cm og stærri fisks undir meðaltali. (Mynd 15)

Samanburður á aldursgreindum afla og spá frá síðasta ári (Mynd 16) sýnir meira af 3 og 4 ára fiski og minna af eldri fiski en spáð var, í samræmi við frávikin í (Mynd 15).

Mynd 15: Ufsi. Lengdardreifingar úr botnvörpu (svört lína) borið saman við meðaltal yfir tímabilið (grátt svæði). Ufsar 105 cm og stærri eru teknir saman og háu gildin í endann sýna framlag þess hluta. Myndin sýnir prósent í fjölda.

Mynd 16: Ufsi. Aldursgreindur afli 2023 í núverandi stofnmati borið saman við spá frá 2023.

Meðalþyngd og kynþroski eftir aldri

Meðalþyngd eftir aldri í afla hefur verið nálægt meðaltali undanfarin fimm ár (Mynd 17) Meðalþyngdir 3-9 ára ufsa voru oft lágar á árunum 2004-2017. Stóri árgangurinn frá 2012 er léttastur eftir aldri, bæði í afla og stofnmælingum. Það er í samræmi við það sem hefur sést áður fyrir stóra árganga t.d. 1984 og 2000 sem báðir voru léttir eftir aldri. Meðalþyngd 4 ára árin 2019 og 2020 var yfir meðaltali en sömu árgangar voru undir meðaltali eftir það. Langtímaþróunin síðan 1980 hefur verið lækkun í meðalþyngdum allra árganga (Mynd 18) sem gæti meðal annars tengst breyttri (norðlægari) útbreiðslu ufsans.

Mynd 17: Ufsi. Þróun meðalþyngda í afla sýnt sem logri af hlutfallslegu fráviki frá meðaltali. Spá fyrir stofnmatsár er sýnd með bláum lit.

Mynd 18: Ufsi. Meðalþyngd (kg) eftir aldri í afla fyrir tímabilin 1990-2010 og 2011-2023.

Kynþroski eftir aldri er reiknaður út frá gögnum úr stofnmælingu í mars. Hann hefur farið lækkandi undanfarin ár og er nú undir meðaltali áranna frá 1985 (Mynd 19).

Mynd 19: Ufsi. Þróun kynþroska eftir aldri úr SMB. Rauða línan sýnir þjálgaða gildið sem er notað í framreikningum, ljósgráu línurnar sýna meðaltal 1985-2024 og bláu línurnar sýna meðaltal síðustu 10 ára.

Stofnmælingar

Ufsi er meðal erfiðustu tegunda að fá áreiðanlegar upplýsingar um úr stofnmælingum með botnvörpu, bæði vegna takmarkaðrar og breytilegrar viðveru við botn, útbreiðslu á grunnsævi (yngri fiskur) og tilhneigingar til torfumyndunar. Vísitölur fyrir ufsa eru til úr þremur stofnmælingum, stofnmælingu í mars (SMB), stofnmælingu að hausti (SMH) og stofnmælingu með netum (SMN). Í SMB og SMH fást upplýsingar um 2-3 ára og eldri ufsa en í SMN fyrir 7 ára og eldri ufsa.

Mynd 20: Ufsi. Lífmassavísitala ufsa í stofnmælingunum í mars (SMB) og október (SMH). Tímasetning innan árs sést, sem dæmi er 2023 mælingin í mars sett á 2023.2 og haustmælingin á 2023.8.

Vísitölur úr stofnmælingunni í mars sveifluðust mikið á árunum 1985-1995 (Mynd 20). Á árunum 1995-2001 voru þær hins vegar lágar. Breytileikinn í vísitölunum hefur verið mun minni síðan 1995 borið saman við tímabilið 1985-1995. Þessi munur sést líka í metnum vikmörkum á vísitölunum sem eru lægri eftir 1995. Vísitalan var í hámarki árið 2018 og hafði þá þrefaldast síðan 2015, að mestu leyti vegna sterks árgangs frá 2012 (Mynd 21). Vísitalan hefur lækkað mikið síðan 2018 sem var hæsta gildið frá upphafi en 1986 er tekið sem útgildi vegna eins togs með mjög miklum afla. Síðan 2019 hefur vísitalan sveiflast töluvert, var lægst árið 2022 en hækkaði aftur árin 2023 og 2024.

Mynd 21: Ufsi. Aldursgreindar vísitölur úr SMB. Litir sýna árganga nema fyrir 8+ sem er á hverju ári nokkrir árgangar þó 8 ára vegi venjulega mest.

Metin mæliskekkja í SMB er oft há vegna mikil vægis fárra stórra toga. Þegar vísitalan var í hámarki árið 2018 fékkst ufsaflinn nokkuð víða þannig að hlutfallslega mæliskekkja var ekki mjög há.

Innra samræmi á vísitölum úr SMB er frekar lélegt (Mynd 22) með \(R^{2}\) nálægt 0.46 þar sem það er hæst. Vísitölur einstakra árganga í SMB á logskala benda til \(Z \approx\) 0.5 fyrir 6 ára og eldri ufsa, tala sem er ekki fjarri stofnmati (Mynd 23)

Mynd 22: Ufsi. Vísitala í SMB á móti vísitölu sama árgangs árið áður. Tölurnar tákna árganga. Skurðpunktar rauðu línanna sína nýjustu gildi.

Stofnmæling að hausti (SMH) sýnir svipaða þróun og stofnmæling í mars (SMB) að því leyti sem hægt er að lesa þróun úr þessum tölum (Mynd 20). Stöðvar eru færri og metin óvissa í vísitölum því enn meiri í SMH (árin 2004 og 2018 eru útgildi vegna hárrar mæliskekkju). Gildin fyrir 2000 eru ekki að öllu leyti sambærileg vegna stöðva djúpt fyrir sunnan land sem var bætt við árið 2000. Talsvert en breytilegt magn af ufsa fæst á þessum svæðum. Jafnvel þótt eingöngu sé horft á þær stöðvar sem hafa verið teknar allan tímann er mjög mikill munur á vísitölum í SMH árin 1996-2000 og 2001-2022. Lang lægsta gildið er árið 1997 en óvissumörkin benda til þess að þá hafi ekki fengist mikið af ufsa á neinni stöð.

Mynd 23: Ufsi. Vísitölur úr SMB teiknaðar á logra kvarðar. Gráar línur svara til Z = 0.5.

Vísitölur úr SMN voru í hámarki árið 2019 en hafa lækkað mikið síðan (Mynd 24). Í SMN fæst mest frekar stór ufsi en meðalþyngdin árið 2023 var 6,3 kg. Borið saman við fyrri ár fékkst lítið af ufsa í SMN árið 2024, magnið er það minnsta síðan 2014.

Sé litið á stofnmælingarnar benda SMB og SMH til lítilla breytinga í ufsastofninum undanfarin ár en SMN til talsverðrar lækkunnar á stofnstærð. SMN er þó fyrst og fremst mælikvarði á eldri hluta stofnsins.

Mynd 24: Ufsi. Vísitölur ufsa úr stofnmælingu með netum (SMN) fyrirsunnan og vestan landið. Þróunin á norðursvæðinu síðan 2004 er líka sýnd.

Stofnmat

Stofnmatsaðferðin sem beitt er fyrir ufsa var seinast endurskoðuð á rýnifundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins árið 2019 (ICES, 2019a) og var stofnmatsaðferðin óbreytt frá rýnifundi árið 2010. Á sama fundi var aflaregla ufsa frá 2010 samþykkt. Stofnmatslíkan ufsa er tölfræðilegt aldurs-aflalíkan, sem lýst er í Bjornsson o.fl. (2019). Líkanið nær yfir tímann frá 1980 til ársins í ár og aldurshópana 2-14 ára. Náttúruleg dánartala er sett sem 0.2 fyrir alla aldurshópa.

Inntaksgögnin í stofnmat eru aldursgreindur afli 3-14 ára og aldurgreindar vísitölur úr SMB 2-10 ára.

Valmynstur veiðanna er metið fyrir hvern aldursflokk og er óbreytt fyrir tiltekin tímabil, 1980-1995, 1996-2003 og 2004 til ársins í ár. Breytingin 1996 var vegna samdráttar í netaveiðum og breytingin 2004 vegna meira magns af smærri/yngri fiski í afla.

Vogtölur á aldurskiptar vísitölur eru byggðar á mati á dreifni úr hefðbundinni aldurs-aflagreiningu (bakreikningum, sjá Bjornsson o.fl. (2019)) og er sameiginlegur margfaldari á dreifnimynstrið metinn til þess að fá vogtölurnar.

Mat á stærð hrygningarstofns miðast við upphaf árs, ólíkt því sem er hjá þorski og ýsu þar sem mat á stærð hrygningarstofns miðast við hrygningartíma.

Talsvert mikið af mjög lágum gildum er í vísitölum SMB, bæði hjá yngstu og elstu fiskunum. Til að geta tekið 0 gildi með og láta lágu gildin ekki hafa of mikla vigt í mæliröðinni eru frávik reiknuð sem \(\frac{log(I + \epsilon)}{log(\widehat{I} + \epsilon)}\). Dæmigert gildi á \(\epsilon\) er það gildi sem kæmi úr 3-4 aldurlesnum fiskum sem er um 0.15 hér. Hærri gildi eru notuð fyrir ufsa, 0.3 fyrir eldri ufsa, 0.5 fyrir 3-5 ára og 0.7 fyrir 2 ára.

Ráðgjöf fyrir ufsa byggir eins og í þorski á viðmiðunarstofni (B4+) á stofnmatsári, byggðum á þyngdum í afla. Engir framreikningar eru nauðsynlegir fyrir ráðgjöfina nema að áætla þyngdir í afla á stofnmatsárinu. Aflaþyngdir á stofnmatsári (Mynd 17) eru reiknaðar út frá þyngdum í SMB á stofnmatsári og aflaþyngdum árið áður. Þyngdir á stofnmatsári eru síðan notaðar í framreikningum.

Þyngdir í afla eru einnig notaðar sem þyngdir í hrygningarstofni. Kynþroskahlutfall er fengið úr SMB. Vegna mikils breytileika milli ára eru gögnin þjálguð (smoothed) (Mynd 19). Þjálgaða gildið frá úttektarárinu er notað í framreikningum.

Nánari lýsingu á stofnmatsaðferðinni má finna í stofnviðauka Alþjóðahafrannsóknaráðsins um ufsa á ICES, (2019b)).

Viðmiðunarpunktar og aflaregla.

Íslensk stjórnvöld samþykktu nýtingarstefnu fyrir íslenskan ufsa í apríl 2013 (Ministry of Industries and Innovation, 2013). ICES fór yfir nýtingarstefnuna og taldi hana í samræmi við varúðarsjónarmið og ICES MSY nálgunina.

ICES fór aftur yfir nýtingarstefnuna fyrir íslenska ufsann í mars 2019 og taldi hana eins og áður í samræmi við varúðarsjónarmið og ICES MSY nálgunina.(ICES, 2019a).

T

Aflamark (TAC) sett árið t er fyrir næsta fiskveiðiár frá 1. september árið t til 31. ágóust árið t+1. Aflamarkið samkvæmt nýtingarstefnunni er reiknað á eftirfarandi hátt.

If \(\text{SS}B_{y} \geq MGMTB_{\text{trigger}}\)

\[\text{Ta}c_{y/y + 1} = \frac{\text{Ta}c_{y - 1/y} + 0.2 \times B_{4 + ,y}}{2}\]

If \(\text{SS}B_{y} \leq MGMTB_{\text{trigger}}\)

\[\text{Ta}c_{y/y + 1} = \alpha \times Tac_{y - 1/y} + (1 - \alpha) \times \frac{\text{SS}B_{y}}{\text{MGMTB}_{\text{trigger}}} \times 0.2 \times B_{4 + ,y}\]

\[\alpha = 0.5 \times \frac{\text{SS}B_{y}}{\text{MGMT}B_{\text{trigger}}}\]

Þar sem \(\text{Ta}c_{y/y + 1}\) er aflamarkið fyrir fiskveiðiárið 1. september árið \(y\) til 31. ágúst árið \(y+1\). \(B_{4 + ,y}\) er lífmassi 4 ára og eldri í upphafi stofnmatsárs byggt á aflaþyngdum. Seinni jafnan sýnir að vægi aflamarks síðasta fiskveiðárs minnkar smám saman \(0.5\) til \(0.0\) þegar metinn hrygningarstofn (\(\text{SSB}\)) breytist frá \(\text{MGMTB}_{\text{trigger}}\) til \(0\).

Viðmiðunarpunktar voru líka endumetnir á WKICEMSE 2020 (sjá töflu að neðan og ICES, 2019a).
Blim, Bpa, MSYBtrigger, HRMSY og HRMgt voru óbreyttr, MGMTBtrigger breyttist frá 65 í 61 þús. tonn. HRlim og HRpa voru skilgreindir en áður höfðu Flim and Fpa verið skilgreind.

Punktur Blim Bpa MSYBtrigger MGTBtrigger HRMSY HRMgt HRlim HRpa
Gildi 44 61 61/65 61 0.2 0.2 0.36 0.25
Grunnur Bloss/1.4 Bloss Bpa Bpa Slembi hermanir. Slembi hermanir. Slembi hermanir Slembi . hermanir.

Forskriftin til að reikna MSY Btrigger og HRpa hefur breyst síðan 2019. Þeir voru því endurmetnir byggt á sömu hermunum og árið 2019. Niðurstaðan var MSY Btrigger = 65 þús. tonn and HRpa = 0.25.

Skilgreiningin á veiðihlutfalli breyttist í 2023 stofnmatinu frá \(HR_{y} = \frac{C_{y/y + 1}}{B_{y}}\) to \(HR_{y} = \frac{C_{y}}{B_{y}}\). Fyrri aðferðin lýsir betur hvernig aflareglan virkar en ráðgjafarhópur taldi seinni aðferðina betri vísbending um veiðiálag. Breytingin hefur ekki áhrif á hvernig aflamark er reiknað út.

Greining á niðurstöðum stofnmats

Mynd 25: Ufsi. Mæld lífmassavísitala (punktar) og spáð lífmassavísitala (lína) úr SMB

Mátgæði fyrir heildarvísitölu ufsa (Mynd 25), sem sýnir spáða vísitölu bornar saman við mælingar, sýnir að líkanið spáir illa fyrir um bæði toppa og botna vísitölunnar. Ef horft er á mælingarnar er breytileiki þeirra slíkur að ekki er að búast við að hægt sé að fylgja henni. Það ber að hafa í huga að samstilling við SMB er með samanburði á reiknaðri og mældri fjöldavísitölu eftir aldri (Mynd 26) samanburður á heildarvísitölum er nokkurs konar samantekt á þeim tölum.

Mátgæði líkansins eftir aldri eru sýnd á (Mynd 26). Í SMB má greina blokkir þar sem of lítið kemur af aldursflokki í nokkur ár og of mikið í nokkur ár. Einnig sjást jákvæðar og neikvæðar blokkir sum árin sem bendir til að fjölvíða normaldreifingin í stofnmatslíkaninu hafi ekki náð að taka fylgnina úr gögnunum. Áberandi blokk jákvæðra frávika sést fyrir stóra árganginn frá 2012 árin 2016-2020. .

Mynd 26: Stöðluð frávik úr afla og SMB, þ.e. leiðrétt fyrir fylgni innan árs og staðaðfráviki eftir aldri. Bláir hringir tákna jákvæð frávik þ.e. að vísitalan er hærri en spá líkansins en rauðir neikvæð frávik

Frávik í afla sýna blokkir eftir aldursflokkum sem að hluta má tengja við að líkanið er í aðalatriðum með fast veiðimynstur innan gefins tímabils, en veiðimynstrið hjá ufsa er talsvert breytilegt milli ára. Metið veiðimynstur er líkt á fyrstu 2 tímabilunum en á 3 tímabilinu eftir 2003 er sótt meira í smáfisk (Mynd 27).

Árið 2023 eru jákvæð frávik í aldurgreindum afla fyrir yngstu aldursflokkana (Mynd 26) það sama og sést á (Mynd 16) og (Mynd 15) .

Mynd 27: Ufsi. Veiðimynstur fyrir þau tímabil þar sem það er metið sérstaklega.

Niðurstöður stofnmats.

Niðurstöður stofnmats benda til að bæði veiðistofn og hrygningarstofn árið 2024 séu yfir meðaltali og veiðiálag árið 2023 hafi verið mjög lágt (Mynd 28). Mat á nýliðun bendir til að hún hafi verið góð mörg undanfarin ár að undanteknum árgangi 2015. Árgangur 2012 er metinn stór.

Reiknuð endurlitsgreining gefur til kynna mikla leiðréttingu niður á við seinni ár (Mynd 29). Metið 5 ára Mohns \(\rho\) er utan marka (0.31 fyrir viðmiðunarstofn, 0.37 fyrir hrygningarstofn, -0.21 fyrir veiðihlutfall og -0.178 fyrir nýliðun). Fimm ár er hins vegar stuttur tími í þessu tilliti þegar veiðiálag er líklega hóflegt.

Mynd 28: Ufsi. Samantekt á niðurstöðum stofnmats árið 2024

Mynd 29: Ufsi. Reiknuð endurlitsgreining byggð á stofnmatsárunum 2019-2024.

Óvissa í stofnmati.

Óvissa í stofnmati ufsa er töluverð, vegna breytileika í vísitölum stofnmælinga, lélegs nýliðunarmats og breytileika í veiðimynstri. Óvissumat úr stofnmatinu er að matsskekkja í viðmiðunarstofni (B4+) sé um 22% og reiknuð endurlitsgreining fyrir stofnmatsárin 2001-2018 (ár sem stofnmat hefur nálgast „lokagildi”) gefur staðalfrávik matsskekkju 0.24, sjálffylgni 0.5. Í mati á aflareglu árið 2019 var matsskekkja byggð á reiknaðri endurlistgreiningu fyrir stofnmatsárin 2000-2015 nema ekki var gert ráð fyrir bjaga sem var metinn neikvæður á því tímabili. Mohns \(\rho\) er mælikvarði á bjaga á því tímabili sem það er skoðað. Ef byggt er á stofnmatsárunum 2001-2024 (Mynd 30) er Mohns \(\rho\) 0.04 sem gæti þá verið mælikvarði á bjaga sem ætti að taka tillit til í aflareglu.

Mynd 30: Ufsi. Reiknuð endurlitsgreining byggð á stofnmatsárunum 2001-2024. Myndir sýnir viðmiðunarstofn B4+.

Mynd 31: Ufsi. Samanburður á niðurstöðum úr mismunandi stofnmatslíkönum með mismunandi stillingum.

Samanburður við önnur líkön og uppsetningar sýnir að núverandi mat á stærð stofnsins er í hærri kantinum. (Mynd 31) . Ef líkanið er byggt eingöngu á aldursgreindum afla (SMB með mjög lág vægi) fæst mun minni stofn, reyndar með mjög mikilli óvissu. Muppet líkanið getur ekki byggt á aflagögnum eingöngu en mögulegt er að minnka vægi stofnmælingargagna verulega.

Vandamálið í stofnmatinu er að aldursgreindur afli bendir til minni stofns en stofnmælingar. Fæst svipuð útkoma hvort sem notast er við SMB eða SMH. Ef báðar stofnmælingarnar eru notaðar til samstillingar fæst stærri stofn, meira af stofnmælingargögnum þýðir minna vægi aldurgreinds afla.

Hæsta stofnmatið fæst þegar tvö hæstu gildin í hverri stofnmælingu eru sköluð niður í það þriðja hæsta áður en vísitölur eru reiknaðar. Þetta gefur lægri en stöðugri vísitölur sem leiðir til að SMB fær meira vægi í stofnmati miðað við aldursgreindan afla og leiðir það til stærri stofns, þar sem SMB vísitölur benda til stærri stofns en aldursgreindur afli.

Hefðbundin aldurs-aflagreining (ADAPT) metur dreifni fyrir hvern aldursflokk og kemur með annað dreifnimynstur mæliskekkju en er notað í stofnmatinu, (sjá Bjornsson o.fl., (2019)). Leiðir þetta mynstur til svipaðs stofns í ár.

Í flestum þeim líkönum sem hafa verið prófuð er aðeins verið að horfa á aldurssamsetningu aflans í mati á stærð stofnsins, ekki það að afli minnkaði mikið milli árana 2022 og 2023. Í SAM líkaninu er fiskveiðidauða er líst með fjölvíðri slembigöngu. Þegar afli breytist mikið eins og milli 2022 og 2023 leiðir þessi liður til að minnkunin í afla leiðir ekki bara til minni fiskveiðidauða, frekar blöndu af minni fiskveiðidauða og minni stofns. Þetta er ein ástæðan fyrir því að SAM líkanið bendir til minni stofns en önnur líkön (að undanteknu líkaninu þegar stofnmæling fær mjög lágt vægi). Þegar miklar breytingar í fiskveiðidauða orsakast af stjórnvaldsaðgerðum má setja spurningarmerki við þennan lið en hann á mjög vel við þegar illa gengur að ná aflamarkinu og líta má á veiðarnar sem frjálsar .

Stöðumat ráðgjafar

Ástand ufsastofnsins er mjög óvisst. Samkvæmt SMB og SMH er ástandið ágætt en SMN bendir til að stofninn sé lítill. Afli er um 2/3 hluti aflamarks sem bendir til að aflamark sé of hátt.

Í flestum þeim líkanauppsetningum sem er rætt um að framan er aðeins verið að horfa á aldurssamsetningu aflans í mati á stærð stofnsins, ekki það að afli hefur dregist mjög mikið saman síðan 2023 og afli á sóknareiningu hefur lækkað mikið, að vísu úr mjög háum gildum kringum 2018.

Heimildaskrá

Bjornsson, Hoskuldur, Einar Hjorleifsson, and Bjarki Elvarsson. 2019. “Muppet: Program for Simulating Harvest Control Rules.” Reykjavik: Marine and Freshwater Research Institute. http://www.github.com/hoski/Muppet-HCR.

MRI, 2005. “Mælingar á brottkasti botnfiska og meðafli í kolmunnaveiðum 2004. Discard of demersal fishes 2004 and bycatch in blue whiting fishery 2004.” MRI Report. Reports of the Marine Research Institute. Vol. 117. MRI/117.

MRI, 2008. “Mælingar á brottkasti botnfiska 2007. Discard of demersal fishes 2007.” MRI Report. Reports of the Marine Research Institute. Vol. 142. MRI/142.

ICES. 2019a. “(Report of the workshop on the benchmark assessment and management plan evaluation for Icelandic haddock and saithe (WKICEMSE2019), 26-28 March 2019, Copenhagen, Denmark. ICES CM 2019.” International Council for the Exploration of the Seas; ICES publishing. http://doi.org/10.17895/ices.pub.5091.

ICES. 2019b. “Stock Annex: Saithe (Pollachius virens) in Division 5.a (Iceland grounds).” https://ices-library.figshare.com/articles/report/Stock_Annex_Saithe_Pollachius_virens_in_Division_5_a_Iceland_grounds_/18623102