Almennar upplýsingar
Þorskur (Gadus morhua) er útbreiddur í Norður-Atlantshafi, Eystrasalti og Barentshafi. Við Ísland er hann algengur allt í kringum landið. Þorskur er botnfiskur og er algengastur á 100-400 m dýpi en finnst þó frá nokkurra metra dýpi niður á 600 m, jafnvel dýpra. Fullorðinn þorskur heldur sig á sand-, leir- og hraunbotni en meirihluti ungþorsks heldur sig grynnra m.a. í þaraskógum. Þótt kjörhiti þorsks sé í kringum 4-7°C lifir hann við fjölbreytilegt hitastig og mestur hluti aflans fæst við hitastig í kringum 2°C. Þorskur hrygnir á landgrunninu allt í kringum landið en mest á grunnslóð suður, suðvestur og vestur af landinu. Hefðbundinn hrygningartími er snemma á vorin (mars-apríl). Egg og lirfur reka aðallega á uppeldisslóðir fyrir norðan og norðaustan land. Fullorðinn þorskur ferðast að lokinni hrygningu á fæðuslóðir djúpt norðvestur, norður og suðaustur af landinu, en hluti stofnsins heldur sig á grunnslóð allt árið. Af botnfiskum er þorskur mikilvægasta nytjategundin við Ísland.
Sjá nánar um þorsk.
Veiðar
Þorskveiðar eru mjög útbreiddar en misjafnt er hvaða veiðarfæri eru mikilvægust á hverju svæði. Veiðisvæði botnvörpu eru einna helst á dýpri og kaldari slóðum fyrir norðvestan, austan og suðaustan land en einnig grynnra suður og vestur af landinu (Mynd 5, Mynd 6, Mynd 7). Línuveiðar eru að öllu jöfnu grynnra og mun dreifðari en botnvörpuveiðar en eru minnst stundaðar fyrir miðju Suðurlandi (Mynd 6, Mynd 5). Þorskveiðar með öðrum veiðarfærum s.s. netum, dragnót og handfærum eru aðallega skammt undan landi og að mestu bundnar við sunnan- og vestanvert landið (Mynd 3).
Helstu breytingar frá árinu 2000 í hlutdeild afla eftir svæðum eru að vægi norðvestursvæðis (NV) hefur aukist úr um 35 % árin 2000 til 2010 í um 40-50 % árin 2011 til 2020 (Mynd 8, Mynd 4). Yfir sömu tímabil hefur hlutfall þorskafla vestan við land (V) lækkað úr um 25-30 % í tæp 20 % og afli fyrir suðaustan (SA) lækkað úr 5-10 % í undir 5 %. Vægi annarra svæða í heildarafla hefur verið nokkuð stöðug yfir tíma, hlutdeild norðaustursvæðis (NE) í kringum 20 % og suðvestursvæðis (SV) í kringum 10 %. Lítil breyting hefur verið á dreifingu veiða eftir dýpi (Mynd 3).
Þorskafli jókst úr undir 200 þúsund tonnum í um 250 þúsund tonn á árunum 1994 til 1999 (Mynd 2). Á næstu 10 árum minnkaði aflinn nokkuð stöðugt og náði lágmarki árið 2008 eða rétt um 150 þúsund tonnum. Aflinn jókst aftur jafnt og þétt og hefur á síðustu árum verið á bilinu 210 - 250 þúsund tonn. Botnvarpa hefur í gegnum tíðina verið mikilvægasta veiðarfærið og hefur hlutdeild af heildarafla sjaldan verið undir 40 %. Hlutdeildin hefur vaxið nokkuð síðustu ár úr tæpum 45 % árin 2010-2016 í tæp 55 % síðustu ár (Mynd 2). Fram til 2003 var hlutdeild línu í kringum 20 % af afla en var um 35 % á árunum 2005 til 2016. Samfara aukinni hlutdeild í botnvörpu á síðustu árum hefur hlutdeild línu minnkað úr um 35 % í rúm 25 %. Hlutdeild neta var í kringum 20 % fram til ársins 2001 en hefur síðan minnkað og er nú um 7 % af heildarafla. Hlutdeild dragnótar hefur haldist nokkuð stöðugt yfir tímabilið, um 5-7.5 % af heildaraflanum. Á tímabilinu hefur hlutdeild annarra veiðarfæra (einkum rækju- og humarvarpa) farið úr því að vera um 10-15 % í rúm 5 %.
Árið 2023 var meira en helmingur þorskafla veiddur í botnvörpu (54 %), 26 % á línu, 6 % í net, 6 % á handfæri, og 7 % í dragnót. Stærstur hluti aflans seinustu ár hefur veiðst vestur og norðvestur af landinu, og austan og norðaustan þar á eftir. Þorskur var veiddur á svipuðu dýpi og fyrri ár, þó heldur grynnra (Mynd 2).
Fjöldi báta sem standa undir 95 % af heildarafla þorsks við Ísland dróst saman úr næstum 1000 í um 750 báta á árabilinu 1994-1999 (Mynd 1). Þessi samdráttur átti sér stað þrátt fyrir að árlegur heildarafli hafi aukist um nær 100 þúsund tonn. Á árunum 1999-2008 lækkaði þessi tala niður í um 300 báta. Frá 2009 hefur fjöldinn haldist nokkuð stöðugur, milli 250 og 500 bátar, en þó hefur fjöldi undanfarin ár verið með minnsta móti. Þessi samdráttur í fjölda báta er merkjanlegur fyrir öll veiðarfæri (Tafla 1).
Ár | Fj. dragnót | Fj. aðrir | Fj. línubáta | Fj. botnv. | Afli dragnót | Afli aðrir | Afli lína | Afli botnv. | Heildarafli |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
2000 | 133 | 827 | 530 | 183 | 14930 | 17623 | 49946 | 103558 | 186057 |
2001 | 106 | 766 | 515 | 160 | 17015 | 17002 | 47172 | 99071 | 180260 |
2002 | 101 | 724 | 450 | 155 | 13584 | 19305 | 42405 | 87885 | 163179 |
2003 | 107 | 721 | 461 | 147 | 13375 | 16026 | 44654 | 88422 | 162477 |
2004 | 103 | 722 | 470 | 135 | 14228 | 14840 | 57397 | 95769 | 182234 |
2005 | 98 | 604 | 463 | 134 | 12770 | 8106 | 69444 | 84018 | 174338 |
2006 | 93 | 509 | 447 | 126 | 10358 | 5859 | 71037 | 82417 | 169671 |
2007 | 97 | 473 | 425 | 123 | 8711 | 4397 | 58943 | 71499 | 143550 |
2008 | 92 | 427 | 370 | 113 | 8441 | 4151 | 53843 | 58172 | 124607 |
2009 | 81 | 798 | 336 | 113 | 10370 | 8190 | 61005 | 79667 | 159232 |
2010 | 75 | 1008 | 286 | 111 | 8296 | 9372 | 57491 | 75609 | 150768 |
2011 | 65 | 1061 | 290 | 110 | 9106 | 12665 | 57711 | 73538 | 153020 |
2012 | 74 | 1099 | 305 | 118 | 9989 | 13417 | 67777 | 85265 | 176448 |
2013 | 71 | 1054 | 297 | 110 | 10092 | 15237 | 74835 | 101453 | 201617 |
2014 | 65 | 1012 | 292 | 110 | 10407 | 16355 | 77807 | 95830 | 200399 |
2015 | 67 | 943 | 266 | 103 | 11938 | 13957 | 79244 | 103530 | 208669 |
2016 | 60 | 956 | 246 | 99 | 15930 | 15299 | 84509 | 111016 | 226754 |
2017 | 67 | 832 | 221 | 94 | 15398 | 14945 | 75244 | 117891 | 223478 |
2018 | 63 | 813 | 201 | 83 | 15818 | 16221 | 78316 | 135030 | 245385 |
2019 | 44 | 794 | 190 | 81 | 14181 | 13592 | 78326 | 135661 | 241760 |
2020 | 43 | 839 | 158 | 81 | 16198 | 15884 | 68103 | 146788 | 246973 |
2021 | 53 | 841 | 145 | 87 | 17695 | 16014 | 69460 | 140773 | 243942 |
2022 | 60 | 850 | 120 | 83 | 16496 | 15172 | 62613 | 124950 | 219231 |
2023 | 61 | 867 | 99 | 81 | 15958 | 13286 | 54213 | 117211 | 200668 |
Aflaþróun
Frá því veiðar hófust hefur þorskafli almennt verið mikill (8. mynd). Fyrir seinni heimsstyrjöld og fram undir 1990 var árlegur landaður afli yfirleitt milli 300 og 450 þúsund tonn. Síðan þá hefur aflinn verið minni, að meðaltali rúmlega 200 þúsund tonn, vegna lélegri nýliðunar minni framleiðslugetu stofnsins. Landaður afli erlendra fiskiskipa minnkaði snögglega í seinni heimsstyrjöldinni og einnig á áttunda áratugnum þegar efnahagslögsaga Íslands var stækkuð í 200 sjómílur. Árið 2023 var aflinn 217157 tonn. Hlutdeild erlendra fiskiskipa (2358.402 in 2023) var hverfandi en samkvæmt milliríkjasamningum er norskum og færeyskum skipum heimilt að veiða innan íslenskrar lögsögu (Mynd 9).
Yfirlit gagna
Sýnataka úr afla fyrir helstu veiðarfæri (dragnót, línu, net og botnvörpu) er almennt góð. Sýnatakan fylgir að mestu útbreiðslu veiðanna og árstíðasveiflum (Mynd 10 and Mynd 11). Vegna Covid-19 heimsfaraldursins minnkaði sýnataka verulega árið 2020, sérstaklega um borð í fiskiskipum. Sýnataka hélst fremur lítil næstu tvö ár en ekki er talið að færri sýni þessi þrjú ár hafi haft áhrif á stofnmatið.
Landanir og brottkast
Allar skráðar landanir frá Íslandsmiðum fyrir 1966, sem og landanir erlendra fiskiskipa fram að 2014, eru skráðar í STATLANT löndunargrunninn sem er hægt að nálgast af vefsíðu Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Landanir innlendra fiskiskipa voru skráðar af Fiskifélaginu fram til 1992 en eftir það hefur skráningin verið í höndum Fiskistofu. Þó brottkast sé bannað í botnfiskveiðum á Íslandsmiðum er það þó talið eiga sér stað. Líklegt er þó talið að brottkast hafi verið meira í upphafi tíunda áratugarins. Til þess að lágmarka líkur á brottkasti hafa útgerðir möguleika á því að landa undirmáli utan kvóta, að því gefnu að ágóðinn fari í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Að auki er möguleiki á því flytja kvóta milli tegunda.
Lengdardreifing landaðs þorsks
Tafla 2 sýnir fjölda sýna og lengdarmælinga. Lengdardreifing þorsks úr afla eftir árum er sýnd á Mynd 13. Stærðarsamsetning þorsk sem fæst á línu og í botnvörpu virðist nokkuð stöðug, að mestu þorskur milli 50 og 100 cm. Þorskur veiddur í net er stærri, en stærðasamsetningin er breytilegri eftir því sem hlutfall stærri fisks er hærra í stofninum. Lengdardreifing landaðs þorsks hefur færst í átt að stærri fiski undanfarin 10 ár (Mynd 13).