NoWPaS, ráðstefna ungra vísindamanna var haldin nýlega á Íslandi

Ráðstefnugestir í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Mynd: Jamie Dodd Ráðstefnugestir í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Mynd: Jamie Dodd

NoWPaS, alþjóðleg ráðstefna ungra vísindamanna sem stunda rannsóknir á laxfiskum var haldin 3. - 7. mars í húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega síðan 2005 og er þetta í fyrsta skipti sem hún er haldin á Íslandi. Þar gefst vísindamönnum sem eru að stíga fyrstu skrefin á sínum ferli að kynna sínar rannsóknir eða rannsóknaráætlanir og kynnast öðrum sem eru á svipuðum stað í sínum ferli. Fyrir ráðstefnuna fóru þátttakendur í heimsókn í íslensku nýsköpunar- og tæknifyrirtækin Stjörnu-Odda og Vaka.  Einnig var tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík heimsótt þar sem Agnar Steinarsson og Tómas Árnason sýndu stöðina og kynntu rannsóknir sem þar fara fram.

Efni fyrirlestra var fjölbreytt og voru kynntar rannsóknir á sviði erfða-, lífeðlis-, þróunar-, vist- og atferlisfræði. Sameiginlegur undirtónn í flestum verkefnum sem kynnt voru sneri að því hvaða áhrif núverandi og yfirvofandi loftlagsbreytingar og önnur áhrif manna, munu hafa á laxfiska í framtíðinni. Hafrannóknastofnun átti tvo fulltrúa meðal þátttakenda en það voru doktorsneminn Sum Yi Lai sem kynnti nýhafið verkefni sitt um laxastofna á Norðausturlandi og nýdoktorinn Jóhannes Guðbrandsson sem kynnti aðferðir til að meta far laxa í sjó sem merktir voru með rafeindamerkjum. Jóhannes sat einnig í undirbúningsnefnd ráðstefunnar.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar https://nowpas.eu/nowpas-2020-2/


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?